« Kína: Biskup fangelsaðurBreytinga að vænta í Riftúni »

18.09.05

  18:59:08, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 272 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Krossganga í Riftúni vel sótt

Krossganga í Riftúni 18.9.2005

Sunnudaginn 18. september s.l. var hin árlega krossganga að krossinum í Riftúni í Ölfusi. Krossi þessum var komið fyrir uppi á hömrunum fyrir ofan bæinn í september 1985 og hafa göngur verið farnar að krossinum á hverju ári síðan þá, næstu helgi eftir krossmessu á hausti.

Í þetta sinn var veðurútlitið ekki gott. Um morguninn var hellirigning. Um klukkan hálf þrjú leytið hófst gangan. Lagt var af stað frá vegamótunum fyrir neðan hringtorgið við Hveragerði. Þá var hætt að rigna en enn var skýjað. Gengið var sem leið lá Ölfusið niður Þorlákshafnarveg og að Riftúni, eða um 6 kílómetra leið. Beðnar voru bænir og sálmar sungnir. Í krossgöngum gefst fólki tækifæri til að hugleiða eigin tilveru og að reyna að finna hinn títtnefnda bjálka í eigin auga sem allir sjá nema eigandinn.

Þegar komið var að Riftúni var komið hið besta veður og uppi á hömrunum safnaðist hópurinn saman til að fara með lokabænirnar. Um það leyti braust sólin fram úr skýjaþykkninu og brosti við göngufólkinu. Ingólfsfjall, Ölfusið og Flóinn þessi þrjú mannvænlegu systkyni voru komin í haustfötin og voru óviðjafnanleg, eins og þau eru alltaf þegar sést til þeirra.

Á eftir safnaðist fólkið inn í kapelluna þar sem sóknarpresturinn séra Denis O'Leary söng messu. Eftir messuna buðu safnaðarkonur upp á veitingar í safnaðarherbergjunum tveim inn af kapellunni. Þar sat fólk þröngt en var samt glatt. 45 nöfn voru skrifuð í gestabók.

RGB

No feedback yet