« Stjörnufræðingur Páfagarðs segir sköpunarhyggjuna vera hjátrúKlám er alvarleg synd »

17.05.06

  16:25:03, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 362 orð  
Flokkur: Dulhyggja, Forvarnir

Fjölkynngi ber að fordæma

Kaþólska kirkjan andmælir spásagnaspeki, fjölkynngi og særingum kröftuglega eins og fram kemur í Trúfræðsluritinu en þar segir svo um þessi mál:

2115. Guð getur opinberað framtíðina spámönnum sínum eða öðrum heilögum. Engu að síður er rétt kristilegt viðhorf fólgið í því að gefa sig óttalaust forsjá Guðs á vald um allt er varðar framtíðina og hætta allri óheilbrigðri forvitni varðandi hana. Hins vegar getur fyrirhyggjuleysi jafngilt ábyrgðarleysi. [1]

2116. Öllum gerðum spásagnaspeki ber að hafna: Leita hjálpar Satans eða djöfla, vekja upp hina dauðu eða öðrum iðkunum sem ranglega eiga að "leiða í ljós" framtíðina. Að leita ráða í stjörnuspákortum, stjörnuspeki, lófalestri, túlkunum á fyrirboðum og forlögum, dulskyggni og leita til miðla, geymir allt í sér löngun til að drottna yfir tímanum, sögunni og síðast en ekki síst yfir öðrum mönnum, sem og ósk um að fá á sitt band leynda krafta. Þetta stangast á við þann heiður, virðingu og kærleiksótta sem okkur ber að sýna Guði einum.

2117. Öll ástundun fjölkynngis eða særinga þar sem maðurinn reynir að temja dulin öfl, setja þau til þjónustu við sig og öðlast yfirnáttúrulega krafta yfir öðrum - þótt það sé gert í þeim tilgangi að lækna þá - stríðir með alvarlegum hætti gegn trúardyggðinni. Slíkar iðkanir ber að fordæma enn frekar þegar þær fela í sér þann ásetning að valda einhverjum skaða eða hafa þann tilgang að leita aðstoðar djöfla. Það er einnig ámælisvert að bera á sér töfragripi. Spíritismi geymir stundum í sér spásagnaspeki eða fjölkynngi. Kirkjan varar því hina trúuðu einnig við honum. Ástundun svokallaðra náttúrulækninga réttlætir hvorki að ill öfl séu ákölluð eða að níðst sé á trúgirni annarra. [1]

[1] Trúfræðslurit Kaþólsku kirkjunnar. Greinar 2115-2117. http://www.mariu.kirkju.net

7 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Í þessu sambandi langar mig að benda á kafla 6 í riti Evilyn Underhill í riti hennar Dulúðin í Vefritum Karmels:

TENGILL

16.05.06 @ 10:23
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Spásagnaspekin virðist eiga greiða leið að fólki undir því yfirskyni að um skemmtun sé að ræða. Þegar nánar er að gáð þá er eins og forvitni búi á bakvið sem þráir að verða svalað. Þessi forvitni virðist grundvölluð á vantrausti gagnvart forsjón Guðs og skorti á trúnaðartrausti gagnvart eigin fyrirhyggju.

Ef það er rétt að hindurvitnatrú stafi af skorti á trúnaðartrausti gagnvart forsjón Guðs þá hlýtur hún að ryðja sér til rúms þar sem trú á undir högg að sækja, en þar sem trúin er sterk þurfa hindurvitnin að víkja.

Vitur maður sagði eitt sinn við mig: „Ef þú réttir höndina út í myrkrið þá veistu ekki hver mun taka í hana.“ Annar sagði: „Þar sem ekki er trú, þar er hjátrú.“

17.05.06 @ 18:42
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Margir hafa sagt að alls kyns kukl, Nýaldarheimspeki og andatrú megi líta á sem „ógreiddan reikning kirkjunnar.“ Með þessu er átt við að prestar eru iðulega sjálfir of fákunnandi um verk hinna heilögu og líf þeirra og hvetji hina trúuðu því ekki nægilega mikið til að kynna sér líf þeirra og heilagt líferni.

17.05.06 @ 20:17
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Guðfræðingar Austurkirkjunnar hafa nefnt þetta rit Evelyn Underhill, þessarar mætu konu, „the Anthrophology of the Christification“ eða „mannfræði Kristsgjörningarinnar“ (Nellas). Hvað áhrærir tilvísanakerfið tel ég það vera byrjað að virka nokkuð vel. Þannig vantaði mig bráðnauðsynlega íslensku þýðinguna á Salve Regina í sambandi við þýðinguna á Padre Pio. Og sjá, hún er í kirkjuvefbók Ragnars. Nægilegt að slá orðin inn í leit. Þannig á þetta að vera.

18.05.06 @ 07:20
Guðmundur D. Haraldsson

Jón Rafn: Er nýaldarheimspeki samheiti yfir analýtíska heimspeki?

29.05.06 @ 15:53
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Sei, sei, nei, Guðmundur, analýtísk heimspeki er að verulegu leyti brezk stefna háskóla-heimspekinga á 20. öld og virt sem slík, þótt hún takmarki mjög svigrúm heimspekilegrar umfjöllunar, taki t.d. afstöðu gegn frumspekilegri heimspeki, en nýaldarheimspeki hygg ég sé nú bara regnhlífarheiti um ýmsan hrærigraut (synkretisma) nýaldarhyggjunnar sem safnar undir hatt sinn hjátrú á mátt í steinum, óhefðbundnar lækningar, orkusvið, náttúru(vætta)trú frumbyggja o.fl. En taktu mig ekki á orðinu um þetta, haltu áfram að kynna þér málin sjálfur, og Jón, afsakaðu framhleypnina.

29.05.06 @ 16:46
Guðmundur D. Haraldsson

Jón Valur: Gott að fá þetta á hreint, ég hef nefninlega aldrei heyrt talað um nýaldarheimspeki fyrr… Takk.

29.05.06 @ 19:52