« Vegna Viðhorfsgreinar í Mbl. um mál samkynhneigðraLúther gegn hjónabandi samkynhneigðra »

05.03.06

  13:31:33, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 684 orð  
Flokkur: Trúarbrögð í innbyrðis samskiptum og við veröldina

Fjallað um öfga-islamisma og ógöngur fjölmenningarhyggjunnar

Í Silfri Egils á Stöð 2 í dag endaði þátturinn á athyglisverðu viðtali við Hjört J. Guðmundsson sagnfræðinema, sem hefur kynnt sér einkar vel málefni Islams í nútímanum, t.a.m. í Hollandi, Bretlandi og Danmörku. Var frammistaða hans með ágætum, hann var málefnalegur og sterkur á svellinu í heimildavinnslu sinni. Í hverju því atriði, þar sem hann tók djúpt í árinni og kom mönnum kannski á óvart með því að teikna upp alvarlegri stöðu mála en margir hafa talið hér ríkja eða standa fyrir dyrum, studdi hann það vel staðreyndum og rökum í undangenginni kynningu sinni á ástandinu, t.d. í Hollandi. Sjálfur telur hann öfgamenn meðal múslima í Evrópu í allmiklum minnihluta, en að róttækir, andlegir leiðtogar þeirra (ímamar) hafi þar mikil áhrif og að það sé í alvöru raunhæfur möguleiki, að þeim takist að framkvæma það, sem þeir ætla sér, þ.e. að ná afgerandi sterkri valdastöðu í Evrópu, ef ekki verður spyrnt við fótum . . . .

Fjölmenningarhyggjan hefur átt í nokkurri vök að verjast upp á síðkastið, og er það eðlileg afleiðing vaxandi róttækni og öfga meðal múslima á evrópskri grund, sbr. tvö pólitísk morð í Hollandi, lestar-hryðjuverkin í Madríd, óöldina í París og víðar í haust, harðskeyttan undirróður ímama í Bretlandi, skemmdarverk og morðhótanir við Dani o.s.frv., auk herskárra yfirlýsinga al-Zawaris gegn Evrópumönnum.

Annað, sem vekur ugg, er ýtarleg skýrsla, sem allir stjórnmálaflokkar Hollands áttu þátt í og birtist fyrir tveimur árum, en þar kom fram, að óðfluga stefni að klofningi þarlendra í tvö samfélög, og stafar það ekki sízt af vanrækslu stjórnvalda við að aðhæfa innflytjendur hollenzkum aðstæðum. T.a.m. var megináherzla lögð á að kenna þeim sitt eigið móðurmál fremur en hollenzku, en einmitt þetta vandamál, vankunnátta í tungu landsins, hefur staðið innflytjendum fyrir þrifum í sókn þeirra eftir menntun og bættri þjóðfélagsstöðu – einnig hér á Íslandi, þar sem t.d. mun lægra hlutfall íbúa frá SA-Asíu hefur náð upp í háskólanám en annarra íbúa landsins. Er talið, að lítil áherzla á að leggja kenna börnunum íslenzku sem fyrst eftir komuna til landsins sé meginástæða þess, að þau dragist aftur úr öðrum í námi og sitji í raun við lakara borð. Tek ég undir það með einum kunningja mínum, að öllu því fé, sem lagt er í það að kenna nýbúum íslenzku, sé ekki aðeins vel varið, heldur komi það til með að borga sig þúsundfalt. Þótt rík séum, höfum við ekki frekar en aðrar þjóðir efni á að vanrækja þetta fólk og stuðla að félagslegri mismunun þess, jafnvel misklíð og samskiptavandræðum þegar lengra líður. Óheppilegt fordæmi Frakka, Hollendinga og Skandínava ætti að virka sem áminning fyrir okkur sjálf, nú þegar landið hefur opnazt svo fyrir erlendu vinnuafli sem raun ber vitni.

Það er nauðsynlegt að ræða þessi mál öll, við verðum að gera það, Íslendingar sem aðrir. Þess vegna hvet ég menn til að heyra eða sjá Hjört í þessu viðtali í endurtekningu á NFS og Talstöðinni í dag um eða rétt eftir kl. 17.30 og 22.15. Ekki má gera ráð fyrir því, að allir lesendur Kirkjunetsins séu sammála Hirti, en það er vert að leggja eyrun við málflutningi hans, vel rökstuddum, t.d. ef menn vilja nú mæla honum mót! En að mínu viti ber að fagna því, að Egill Helgason gefur gott færi á umræðum um þessi mál, jafnvel þótt ekki séu í takt við þann pólitíska rétttrúnað, sem allt of lengi var ríkjandi í flestum íslenzkum spjallþáttum. Verður fróðlegt að sjá viðbrögð lesenda við málflutningi Hjartar í Silfri Egils.

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þakka þér Jón Valur fyrir þessa góðu grein, vert umhugsunarefni. Hollara væri að háttvirt Alþingi sinnti málefnum þessa fólks af meiri áhuga, fremur en að verja miklum tíma og orku í fámennan kröfuhóp samkynhneigðra og upplausnarguðfræðinganna. En ef til vill fara kvenþingmennirnir að snúa sér enn frekar að leikhúsmenningunni, þessar ….sögur gengu víst ljómandi vel að sögn.

05.03.06 @ 14:36
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution