« Aðventutónleikar í dómkirkju Krists konungsIndland: Norræn sendinefnd rannsakar ofsóknir gegn kristnum »

18.11.09

  20:53:37, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 277 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Filippseyjar: Áform um niðurrif fátækrahverfa

Asianews greinir frá því að stjórnvöld á Filippseyjum áformi að rífa fátækrahverfi í úthverfum Manila vegna flóðahættu.

Áætlað er að um 400 þúsund manns missi heimili sín. Rosales kardínáli sem jafnframt er erkibiskup í Manila gagnrýnir að ekki skuli hugsað fyrir atvinnu- og húsnæðisþörfum fólksins áður en hús þeirra eru rifin. Hann segir ástæðu flóðanna vera óábyrgt skógarhögg, námavinnslu, lélegt skipulag sorphirðu, slæma skipulagningu borgarinnar og úthverfa hennar.

Í Manila búa um 11,5 milljónir manna. Meira en 4 milljónir búa í hreysum í fátækrahverfum eða nálægt ruslahaugum. Árið 2002 var landsvæði tekið frá fyrir fólkið utan borgarinnar en samgöngur og atvinnuástand hamlaði flutningi. Flóðin sem nýlegir fellibyljir Ketsana og Parma ollu gerðu ástandið enn verra. Yfirvöld staðhæfa að hreysin hindri frárennsli vatnsins frá borginni og hafi því stuðlað að flóðunum.

„Án þeirra [íbúa hreysanna] getur borgin ekki starfað“ sagði kardínálinn. „Það er þýðingarlaust að úthluta þeim verðlausu landi á meðan það besta er tekið undir verslunarmiðstöðvar og golfvelli.“

Hugmyndir kardínálans ganga út á að landi verði að útdeila á nýjan hátt og taka verði með í reikninginn þarfir hinna fátækustu. Hann vill að ríkisstjórnin leggi skatta á eignir utan framleiðslugreina og banni iðnaðaruppbyggingu á íbúasvæðum. „Aðeins ef þörfum hinna varnarlausustu er mætt mun þjóðfélag okkar ná sannri og varanlegri framþróun,“ bætti hann við.

Kirkjan hefur í mörg ár haft áhyggjur af fólkinu í fátækrahverfunum. Karítas hjálparsamtökin og aðrar kaþólskar hreyfingar hafa fjárfest í ódýru húsnæði með atvinnuhagsmuni fólks í huga. Nú þegar er búið að byggja um þúsund slík hús. Í fyrradag lýsti stjórnin svo yfir að hún ætli að taka frá 1500 hektara lands til að byggja á fyrir ríkisstarfsmenn og þá sem þurfa að flytja vegna flóðanna.

Heimild Asianews: http://new.asianews.it/index.php?l=en&art=16884

No feedback yet