« Kristin stjórnmálasamtök – kristinn flokkur?Sameinast Þjóðkirkjan kaþólsku kirkjunni? »

17.03.07

  17:37:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 1230 orð  
Flokkur: Siðferði og samfélag

Fellið vændismálið! - Opið bréf til þingheims og dómsmálaráðherra

Háttvirtir alþingismenn, hæstvirtir ráðherrar, sér í lagi dómsmálaráðherrann.

Er það í alvöru ætlan ráðherrans og stuðningsmanna hans að láta þingmál nr. 20 (frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (kynferðisbrot)) ganga í gegnum þingið á þessum lokadegi þess? Á svo gott sem að lögleiða vændi á Íslandi? Þau verða einmitt áhrif frumvarpsins,

þrátt fyrir þau ákvæði 12. greinar þess, að aðrir en persónan, sem selur líkama sinn til vændis, megi ekki hagnast á því og óleyfilegt verði að auglýsa vændisrekstur eða ginna, hvetja eða aðstoða ungmenni undir lögaldri til vændis eða "stuðla að því að nokkur maður flytji úr landi eða til landsins í því skyni að hann stundi vændi sér til viðurværis." Þessi ákvæði koma hvorki í veg fyrir "frjálsa" sölu né kaup vændis og munu þar að auki, vegna erfiðs eftirlits, sem ekki er gert ráð fyrir fjárveitingu til, verða nær merkingarlaus vegna auðveldra leiða til að sniðganga þau.

Er þetta ekki afar umdeilt þingmál, sem krefst ýtarlegrar, þinglegrar meðferðar og umræðu í samfélaginu? Er þá verjandi að keyra í gegn 2. og 3. umræðu þess á þessum eina degi, þegar 18 önnur mál eru enn eftir á þeim þingfundi, sem enn stendur yfir (þegar þetta er ritað kl. 16.56)? Má ekki láta hin góðu ákvæði í fyrri hluta frumvarpsins halda sér, en sleppa þessari "frelsisvæðingu" vændisreksturs á Íslandi?

Gerir stjórnarmeirihlutinn sér ekki grein fyrir því, að framgangur þessa máls getur orðið honum til mikils hnjóðs fyrir komandi kosningar? Vill hann horfa upp á það, að breið, almenn samstaða, þ.m.t. með stuðningi kvennasamtaka, stjórnarandstöðunnar, Þjóðkirkjunnar og fleiri trúfélaga, myndist með það að markmiði að hnekkja þessum lögum við fyrsta mögulegt tækifæri? Hafa þingmenn áttað sig á því, að ummæli í greinargerð með frumvarpi þessu, þar sem langt er gengið í því að réttlæta vændi, hafa vakið hneykslan í herbúðum Þjóðkirkjunnar? Þar er ekki sízt átt við þessi orð í V. kafla þar (undir 2. lið: Kaup og sala vændis, undirgrein a.: Sala vændis): "Þessi afstaða er byggð á því sjónarmiði að vændi eigi að vera frjáls og viljabundin athöfn út frá viðskiptalegu sjónarmiði. Fólki eigi að vera frjálst að selja líkama sinn til kynlífs á sama hátt og það selur vinnu sína, líkamlega sem andlega." – Vilja þingmenn, sem hyggjast greiða atkvæði með þessu frumvarpi, þ.m.t. 12. grein þess, verða þekktir fyrir það í almennri umræðu, að þeir taki undir slíka blygðunarlausa hugmyndafræði? Er þetta ekki misnotkun frjálshyggjunnar?

Bréf þetta er skrifað í kapphlaupi við tímann (eftir að undirritaður uppgötvaði nú síðdegis, að vændisfrumvarpið væri alls ekki komið út af borði ríkisstjórnarinnar). Margt fleira mætti því segja um frumvarpið, eins og ég hef raunar gert í nokkrum vefgreinum. Hér og nú verða eftirfarandi athugasemdir að nægja til viðbótar sögðum orðum:

Eftirfarandi lokaklausa aftan við greinargerðina með frumvarpinu: "Ekki er ástæða til að ætla að frumvarpið leiði til útgjalda fyrir ríkissjóð verði það að lögum," er hreint út sagt furðuleg. Hvernig er hægt að fullyrða þetta? Kostar eftirlit með þessum málum ekki eina einustu krónu? Í hvers lags skötulíki verður þá slíkt eftirlit? Ætlar íslenzka lýðveldið að taka upp algert refsileysi við "sölu" og "kaupum" vændis (fyrir utan viss tilvik, eins og áður gat um) og á sama tíma að vanrækja með öllu það kostnaðarsama heilbrigðiseftirlit, sem önnur ríki, sem heimila vændi, hafa kveðið á um í sínum lögum (m.a. Sambandslýðveldið Þýzkaland um áratuga skeið)? Verður það ekki hámark ábyrgðarleysis í þessum efnum? Verður það til hagsbóta fyrir kynheilbrigði Íslendinga? Hafa menn ekki séð, hvernig lögleyfing vissra athafna stuðlar að því, að það, sem áður var gert í takmörkuðum mæli og í leynd, verði "meðtekið siðferði" og þar með miklu algengara í samfélaginu heldur en ella? Mun það ekki stuðla að óánægju manna í hjónaböndum, hneyksli og skilnaði, ef upp kemst, hugsanlega smiti eiginkonunnar vegna siðlauss lífernis eiginmannsins (meðfram vegna vöntunar á stífu heilbrigðiseftirliti) og niðurbroti fjölskyldna? Og getur hið háa Alþingi talið sig stikkfrí frá siðferðislegri ábyrgð í þessu máli, ef ekki verður haldið uppi sérstöku eftirliti lögreglu (sem kostar sitt) með því, að hér verði ekki brotið bann 12. greinar frumvarpsins við því, að menn hafi "atvinnu eða viðurværi sitt af vændi annarra" eða "ginn[i], hvetj[i] eða aðstoð[i] barn yngra en 18 ára til vændis" eða "stuðl[i] að því með ginningum, hvatningum eða milligöngu að aðrir hafi samræði" o.s.frv.? Það er einhver auðveldasti hlutur í heimi, þar sem sala einstaklings á vændi er lögheimil, að ginna þangað konu frá öðru landi (eins og nú er hægt hér, t.d. frá nýjum ríkjum ESB ) – láta hana leigja íbúð í nýja landinu og fjarstýra henni til vændis til ágóða fyrir mafíuöfl, sem þurfa ekkert að sýna sig á staðnum – með þá sífelldu hótun hangandi yfir henni, að ættingjum hennar verði misþyrmt eða þeir drepnir, láti hún ekki að stjórn.

Ég skora á Framsóknarmenn að hafna a.m.k. 12. grein þessa frumvarps (sem myndi breyta 206. gr. alm. hgl. til miklu verri vegar). Sjálfstæðisflokkurinn á það ekki inni hjá Framsóknarmönnum, að þeir gangi þvert gegn kristnum áherzlum í neinum málum eða afhjúpi sig sem tvöfalda í roðinu gagnvart þeim Hvítasunnumönnum og öðrum kristnum kjósendum sínum, sem þeir hafa verið að biðla til á síðustu misserum.

Sjálfstæðimenn minni ég á hástemmdar yfirlýsingar þeirra á landsfundum um stuðning við kristin siðagildi og menningararfleifð. Skipulögð atvinnustarfsemi í vændi er ekki meðal þeirra góðu áhrifa, sem kristin trú og menning hefur fært þessari þjóð, hvorki fyrr né síðar.

Bréf þetta verður í dag birt á (Mbl.-) blog.is og vefsíðu minni: http://jonvalurjensson.blog.is

Virðingarfyllst,
Jón Valur Jensson, cand. theol.

Og eins og lesendur sjá hér, taldi ég ástæðu til að birta þetta bréf hér á Kirkju.net (og fyrst reyndar hér). Nú bíð ég í ofvæni eftir að heyra um afdrif frumvarpsins, en það var tekið fram yfir nokkur mál, sem voru ofar á verkefnaskrá nefnds þingsfundar, og fór í umræðu á þessum 6. tíma og sennilega fulla afgreiðslu í 2. umræðunni, en þá er 3. umræðan eftir, sem orðið gæti á aukaþingfundi í kvöld; og a.m.k. er ætlunin að ljúka þinginu í kvöld. –JVJ.

4 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Fyrst þetta fór í gegnum þingið án mótatkvæðis nánast eins og á færibandi mála þá er ekki ólíklegt að það hafi verið búið að semja um málið. Hvílík vinnubrögð!

Ótrúlegt að svona geti gerst, án þess að nein opinber krafa sé uppi um það í þjóðfélaginu frá félagasamtökum eða öðrum um nauðsyn þess að lögleiða vændi.

Hvar á byggðu bóli ætli hliðstæða frjálslyndislöggjöf gagnvart vændi sé helst að finna? Enn er þó von að forsetinn staðfesti ekki þessi ólög og leyfi þjóðinni að segja sitt álit.

19.03.07 @ 22:19
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Já, Samfylkingarmenn sömdu um að afturkalla breytingatillögu sína nr. 1206, þar sem m.a. var ákvæði um refsingu vændiskaupanda. Í staðinn fengu þeir öðru framgengt: að fyrningartími vegna kynferðisbrota gegn börnum félli niður. En hvaða nauðsyn rak þá (Ágúst Ólaf o.fl.) til að afturkalla breytingatillöguna? Hefði ekki verið ágætt að sjá, hvernig atkvæði hefðu fallið um hana? Og er þeim í alvöru stætt á því að greiða frumvarpi, þar sem vændi er lögfest, atkvæði sitt?!!

Íslendingar vilja ekki vændi, ekki fremur en Danir, skv. könnun sem birt var í Politiken 26. des. sl. Þar finnst 10% kvenna og 25% karla í lagi, að menn leiti til vændiskvenna (sbr. hér). En stuttbuxnadeildin hafði sitt fram – græðgisvæðing peningaaflanna heldur áfram á fullu skriði, meðan kristnir menn sleikja sár sín.

Hafi það einhvern tímann verið ljóst, að Sjálfstæðisflokkurinn nennir einfaldlega ekki að halda í sínar kristnu rætur, þá er það m.a. nú. Efnishyggjan ein skal ráða. Og hver er með í þeirri för? Ekki ég!

Þakka þér, Ragnar, innlegg þitt.

20.03.07 @ 00:33
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Tíðindi eru það nú líka, þ.e. að þú ætlir ekki að vera með þeim í þeirri för. Spurning er líka hvað margt annað velmeinandi, trúað og grandvart fólk mun gera nú. Fólk sem löngum hefur greitt núverandi stjórnarflokkum atkvæði sitt og unnið þeim gagn í gegnum súrt og sætt á liðnum árum og áratugum. Verður mælir þolinmæði þeirra fylltur eða var þetta kannski eitthvað sem þessi hópur mátti búast við? Hefur Sjálfstæðisflokkurinn ályktað eitthvað um nauðsyn þessa frumvarps á liðnum árum, eða hafa þessi mál verið eitthvað rædd á landsfundum hans?

22.03.07 @ 21:56
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég fullyrði, að flokkurinn hefur ekkert umboð til þess frá flokksmönnum sínum, þ.e. landsfundi, né hefur hann aflað sér stuðnings til þess frá almennum kjósendum að lögfesta vændi hér á landi. Þessu er lætt inn í þingið, á að heita í gerð lagaprófessors (m.a.s. konu!), en nýtur fyrst og fremst óskipts stuðnings Björns Bjarnasonar og hans manna í þinginu. Þetta verður fremur kennt við moldvörpustarfsemi gegn siðrænu samfélagi heldur en lýðræðislega hreyfingu til “umbóta".

Já, fólk er orðið svo þreytt á þessu, að ég heyri ýmsa tala um, að þeir muni jafnvel fremur kjósa ekki neitt heldur en Sjálfstæðisflokkinn! En á Moggabloggi mínu má svo lesa um þetta upplýsingar, sem sýna, að flokkarnir eru nánast allir í þessari sömu súpu – voru hér allir meðsekir! – Það vantar kristinn flokk, og það er að mínu mati ekki spurning hvort, heldur hvenær hann verður til.

22.03.07 @ 22:10
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution