« Um aðskiljanlega náttúru knattleikja – hugleiðingUpphafning hins heilaga kross (14. september): Hugvekja tileinkuð heilögum Efraím hinum sýrlenska (um 306-373), djákna og kirkjufræðara »

08.10.08

  08:10:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 956 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Feitu árin og mögru árin – hugleiðing

Ég minnist þess hversu mjög mér var brugðið þegar ég var að bera út Alþýðublaðið forðum daga og las risafyrirsögn á forsíðunni um að við (Íslendingar) værum að fara fram af hengifluginu. Þetta var á sólbjörtum morgni og þrátt fyrir að ég skildi ekki orðin til fulls var mér ljóst að þetta væri slæmt: Afar slæmt! Það var hnugginn blaðaburðarstrákur sem kom heim þennan morgun til mömmu sinnar sem reyndist erfitt að kreista bros fram á andlitið. Þetta var þegar stjórn Hermanns Jónassonar hrögglaðist frá vegna aðsteðjandi efnahagsörðugleika.

Í reynd voru skömmtunarbækur eftirstríðsáranna enn í fersku minni. Mig minnir að þær hafi verið aflagaðar 1952 eða 53. Skömmu síðar brast á mikið verkfall sem stóð í heilar sex vikur, eitthvað það illvígasta sem þekkst hefur. Matarskorts fór skjótt að gæta og engin mjólk barst til borgarinnar: Verkfallsmenn stóðu við hlið í Ártúnsbrekkunni og helltu henni einfaldlega niður. Kaffi gekk til þurrðar og því var það mikið lán að pabbi sá pakka einn mikinn falla af vörubílspalli á Suðurlandsbrautinni. Bílinn var frá O. Johnson og Kaaber og pabbi fór að sjálfsögðu með hann til þeirra og skilaði honum. Að launum fékk hann tíu pakka af glænýju kaffi og ég man að gestastraumurinn til okkar var óstöðvandi meðan kaffið entist!

Þjóðin hóf jafnframt sitt fyrsta þorskastríð við Breta með útvíkkun landhelginnar og þeir settu á okkur viðskiptabann. Nú var úr vöndu að ráða! Það var þá sem Rússar komu okkur óvænt til hjálpar og keyptu af okkur allar fiskafurðir okkar. Þessi vinargreiði stuðlaði meðal annars að því að við höfðum betur. Síðan þá hef ég ávallt metið Rússa mikils sem þjóð og lærði m. a. mörgum árum síðar rússnesku sem nú er að mestu gleymd.

Ég get fullyrt að líf mitt eins og fjölmargra annarra Íslendinga mótaðist að kreppunni á þessum árum. Þetta dró ekki mátt úr þjóðinni, heldur þvert á móti: Stælti hana. Í reynd komu kreppur engum á óvart á þessum tímum því að allir lærðu Biblíusögurnar sínar og söguna af feitu árunum og mögru hjá Móse. Þetta var lögmál lífsins: Allt hið blíða blandað stríðu!

Hjá örsmæðarsamfélagi eins og okkur Íslendingum hefur efnahagskerfið sveiflast upp og niður eins og „jó-jó bolti“ með reglulegu millibili. Eftir hrunið 1959 tók Viðreisnarstjórnin við og ástandi fór stöðugt batnandi til 1968 þegar síldin hvarf. Þá féll gengið um 34% og fólk streymdi þúsundum saman til annarra landa. Um tíma störfuðu þannig um 600 Íslendingar hjá Kockum-skipasmíðastöðinni í Svíþjóð og stór hópur settist varanlega að í Ástralíu.

Kreppur eru þannig ekki neitt nýtt og eins og ég sagði hagar íslenska efnahagskerfið og krónan sér eins og „jó-jó bolti.“ Þjóðin er jafn fljót að „ná sér á strik“ eins og að hrapa skyndilega í lífskjörum. Spá mín er sú að svo muni og vera nú eftir fimbulfamb íslensku nýfrjálshyggjunnar sem ætlaði sér að kaupa heiminn, eins og London Times komst að orði nýlega.

Um sinn brotna öldur á klettóttri strönd og brimrótið mikið. En það sem vekur mér undrun sem lífsreyndum manni er hvernig unga kynslóðin var glapin út í ófæruna að þeim sem telja sig hæfa og kallaða til að stjórna. Svíar og Norðmenn þekkja bankakreppu af eigin raun og eru í reynd sérfræðingar í lausn slíkra vandamála: Þetta felst í því að banna bankakerfinu í viðkomandi löndum að þenja sig út um allar jarðir og miða vöxt sinn við þjóðhagsaðstæður. Hvað dvaldi orminn langa? Hvers vegna nýtti Seðlabanki Íslands sér ekki reynslu frændþjóðanna í þessum efnum? Hvað voru þeir að hugsa þarna niðri við Arnarhól í öll þessi ár? Eitt símtal við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn hefði verið nægilegt til að stemma stigu við fimbulfambi nýfrjálshyggjunnar.

Hvað lýtur að ungu kynslóðinni í landinu vil ég segja henni þetta: Látið ekki blinda menn leiða ykkur í myrkri. Hlustið á þá sem eldri eru og nið þjóðarsögunnar. Og lesið Biblíuna og lærið betur um feitu árin og mögru hans Móse. Þannig hefur þetta gengið til á Fróni allt frá því að ég tók að muna eftir mér og ekki ósennilegt að svo verði áfram. Safnið því í góðri uppskeru til mögru árana og látið ekki ólánsmenn glepja um fyrir ykkur vegna þess að ykkur ber að hyggja að velferð eigin barna.

Og enn eru það Rússar sem koma okkur til hjálpar sem forðum. Það er gott að eiga slíka vini að í raun. Sjálfur hef ég átt því láni að kynnast Rússum í lífinu og veit að þar eru góðir drengir á ferð. Okkur hefur sem þjóð lærst að setja brotthætt egg velferðar okkar í fleiri körfur en eina. Við skulum varast þá freistingu að setja fjöregg okkar í körfu EBE þar sem þau myndu brotna innan skamms tíma með afurðum þeirra eigin varphæna: LIFI SJÁLFSTÆTT ÍSLAND!

5 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir athyglisverða og skemmtilega frásögn Jón. Sjálfstæðisbaráttunni lauk ekki 1944 og henni er ekki lokið enn. Það kostar að vera frjáls en það er góð tilfinning að vera það.

Já biblíulega hagfræðin úr Mósebókunum stendur ávallt vel fyrir sínu og einnig ekki síður hagfræði andans sem segir að auðæfin á himnum sem hvorki mölur né ryð getur eytt séu þau eftirsóknarverðustu.

Einnig hefur verið bent á að miskunnsami Samverjinn hefði ekki getað framkvæmt sitt mikla miskunnarverk ef hann hefði ekki verið vel birgur af lausafé. Eignir eru því í sjálfu sér ekki slæmar svo lengi sem þær verða ekki að þungamiðju og tilgangi lífsins.

Stundum er efnamikið fólk baktalað, það sett undir einn hatt og gert að blórabögglum þess sem miður fer í samfélaginu. Mér finnst að þeir sem það gera séu að opinbera ágirnd sína eða öfund. Það er hægt að þrá efnisleg auðæfi alla æfi án þess að eignast þau nokkru sinni. Það ber ekki síður vott um ágirnd heldur en það að vera vel birgur af öllu en geta ekki hugsað sér að deila birgðum sínum með öðrum eða nota auðæfi sín til góðs fyrir aðra.

Á liðnum árum hef ég einmitt tekið eftir því hvað hinir nýríku íslensku auðmenn sem núna hafa því miður lent í miklum efnahagslegum áföllum voru duglegir að deila með sér auðæfum sínum. Þeir gáfu og gáfu á alla kanta og styrktu hvert málefnið á fætur öðru. Það finnst mér bera vott um auðlegð andans eða þá sönnu fátækt hans talað er um í Fjallræðunni.

08.10.08 @ 20:43
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Í minni öldnu og hollu Vulgötu les ég: Et iterum dico vobis: Facilius est camelum per foramen acus transire, quam divitem intrare in regnum Dei (Mt 19. 24). Með hliðsjón af höfundi orðanna er hér vel komist að orði. Hvað varðar reiðing úlfaldans bendir allt til þess að hér sé um óþurftaraok að ræða sem komi í veg fyrir inngönguna í ríki Guðs. Guðfræðingar (og leikmenn) allra alda geta svo haldið áfram að reyna að snúa út úr þessum orðum. En kaflinn um þau Safíru og Ananías í fimmta kafla Postulasögunnar leggur enn frekari áherslu á raunverulegan boðskap Drottins í þessum efnum.

Hvað varðar hagstjórn Heilags Anda má lesa þessi orð í sama riti:

En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál, og enginn þeirra taldi neitt vera sitt, er hann átti, heldur höfðu þeir allt sameiginlegt. Postularnir báru vitni um upprisu Drottins Jesú með miklum krafti, og mikil náð var yfir þeim öllum. Eigi var heldur neinn þurfandi meðal þeirra, því að allir landeigendur og húseigendur seldu eign sína, komu með andvirðið og lögðu fyrir fætur postulanna. Og sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til. (P 4. 32-35).

09.10.08 @ 20:12
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Til viðbótar:

Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela (eða ófyrirleitnir fjárfestar).
Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela (eða ófyrirleitnir fjárfestar).
Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera (Mt 6. 19-21).

Er það ekki þetta sem Drottinn minnir okkur á: Látið ekki hjarta ykkar eiga allt undir fallvaltri ágirnd skammsýnna fjárfest, heldur að láta það hvíla í friði Guðs?

Jæja! Svo er það ungi og ríki maðurinn:

“Si vis perfectus esse, vade, vende, quae habes, et da pauperibus, et habebis thesaurum in caelo; et veni, sequere me” (Mt 19. 21).

11.10.08 @ 12:50
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Félag hinna frumkristnu hefur mér alltaf þótt merkilegt fyrirbæri. Það virðist hafa verið samlagssjóður með samtryggingu þar sem meðlimir lögðu allar eigur sínar í samlagið. Þetta sjáum við ennþá í klausturreglunum. Hinn kommúníski maður átti líka að ná þessari fullkomnun en ekki fyrir trúna heldur fyrir félagslega meðvitund og þroska. Allir vita hvernig það fór. Í kommúnunum á hippatímanum var þetta líka reynt en þær eru líklega allar hættar núna. Spurning hvort svona félög eru yfirleitt möguleg nema trúin sé höfð með í för? Alla vega eru sumar klausturreglurnar mörg hundruð ára gamlar og standa því greinilega á mjög styrkum hugmyndafræðilegum og trúarlegum stoðum.

12.10.08 @ 17:49
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Fyrir 1750 árum komst abba Chaeremon svo að orði í 12. kafla Collatio Jóhannesar Kassíans:

Eftir að hann hefur talið þetta allt upp bætir postulinn að lokum við eigingirninni, græðginni (avartia) sem limi á líkama syndarinnar. Með þessu vill hann vafalaust sýna, að við verðum ekki einungis að hætta að þrá það sem er ekki okkar eigin eign, heldur að við eigum ekki að meta eignir okkar sjálfra mikils. Í þessu hugarfari hrærðist kirkjan forðum, eins og við getum lesið um í Postulasögunni: En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál, og enginn þeirra taldi neitt vera sitt, er hann átti, heldur höfðu þeir allt sameiginlegt . . . allir landeigend­ur og húseigendur seldu eign sína, komu með andvirðið og lögðu fyrir fætur postulanna. Og sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til (P 4. 32, 34).

Svo að því verði ekki haldið fram að hér hafi einungis verið átt við fullkomleika sem fyrirhugaður var fáum útvöldum, boðar postulinn að avartia (ágirnd, eigingirni og peningagræðgi) sé hjáguðadýrkun. Og svo er í reynd! Sá sem kemur ekki til móts við þarfir hinna snauðu og situr á fjármunum sínum af harðýðgi hinna vantrúuðu og metur slíkt meira en boð Krists, er hjáguðadýrkandi sökum þess (og þetta er uppspretta allra synda) að tilhneigingar hans til efnislegar hluta þessa heims skipa æðri sess í huga hans en hin guðdómlega elska.

Þegar við sjáum nú að fjölmargir kristnir menn hafa svo fúslega kastað frá sér öllum eigum sínum, þurfum við ekki að efast um að þeir hafa ekki einungis hafnað fjármunum, heldur upprætt allar langanir til slíks úr hjarta sínu. Liggur þá ekki beinast við að trúa því að þannig sé einnig unnt að slökkva bruna fýsnanna? Postulinn metur ekki hið mögulega til jafns á við hið ómögulega, heldur veit hann að hvoru tvegg­ja er mögulegt og þess vegna bauð hann að þetta hvoru tveggja skyldi verða deytt.

Abba Chearemon var samtíðarmaður Basils hins mikla, regluföður Austurkirkjunnar. Benedikt frá Núrsíu leitaði einmitt heimilda hjá Jóhannes Kassían þegar hann samdi reglur sínar: Benediktusarreglurnar.

13.10.08 @ 16:23