« BEAURAING Í BELGÍU 1932: MÓÐIR HINS GULLNA HJARTA OG VALDATAKA HITLERS (7)KNOCK Á ÍRLANDI 1879: MÓÐIR GUÐS OG ÞÖGULLAR LOFGJÖRÐAR Í SAMFÉLAGI KIRKJUNNAR [5] »

06.01.07

  09:28:37, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2158 orð  
Flokkur: Opinberanir Maríu Guðsmóður sem njóta kirkjulegrar viðurkenningar

FATÍMA Í PORTÚGAL 1916-17: FRIÐARÁÆTLUN AF HIMNI OFAN (6)

fatima_1

ENGILL FRIÐARINS BIRTIST ÞREMUR BÖRNUM

Enn einu sinni minnir hin guðdómlega ráðsályktun okkur með alvöruþunga á hring vilja síns í Portúgal árið 1916 líkt og í La Salette árið 1846. Það er einnig áhugavert hversu mikla áherslu Guðsmóðirin leggur á töluna 72. Það eru sjötíu og tvö ár sem líða þar til mannkynið sem hefur snúið baki við Guði fær nýja og alvarlega áminningu, og nú af sínu meiri áhersluþunga vegna þess að það lifir á mörkum lífs og dauða, eins langt frá sinni sönnu miðju eins og fjarlægasta reikisstjarnan í sólkerfi okkar, Plútó, í ísköldu myrkri afneitunar, fjötrað í stærilæti eigingirninnar. Vart er unnt að hugsa sér meiri guðsfjarlægð. Það eru einnig sjötíu og tvö ár sem liðu frá því að Guðsmóðirin opinberar okkur tilkomu kommúnismans, uns hann riðaði til falls árið 1989.

Það var ein tigna hrings Guðsmóðurinnar, verndarengill Portúgals, eins og hann opinberaði sig í annarri opinberun sinni, sem Guð sendi til jarðar til þriggja portúgalskra barna, þennan vordag, drengs að nafni Francisco Marto, átta ára gamals, systur hans Jacintu, sex ára og frænku þeirra, Lusíu Abóbora, níu ára. Enn einu sinni sjáum við hvað Guði þykir vænt um fjárhirðana – hina smáu eða anwarim – Hann vitjar ekki dýrðar holdsins: Það ber ekki skyn á nánd hans! Börnin höfðu farið með hjörðina til beitar á beitilandi sem nefnt var Chousa Velha. Síðar skrifaði Lúsía:

„Við höfðum einungis leikið okkur í stuttan tíma þegar stormkviða skók til tréin og fyrir ofan þau birtist ljós, hvítari en nýfallinn snjór. Þegar ljósið nálgaðist, þá tók það á sig mynd ungs manns sem var gegnsær og geislandi. Hann byrjaði að tala: „Verið ekki hrædd, ég er engill friðarins. Biðjið með mér.“ Hann kraup niður og laut djúpt til jarðar og endurtók þrisvar bæn: „Guð minn, ég trúi, ég tilbið, ég vona á þig og ég elska þig. Ég bið þig að fyrirgefa þeim sem trúa ekki, tilbiðja ekki, vona ekki á þig og elska þig ekki. Því næst reis hann á fætur og sagði: „Svona skuluð þið biðja. Hjörtu Jesú og Maríu nema auðveldlega áköll ykkar.“

Engillinn hvarf þeim sjónum og allt frá þessari stundu voru börnin tengd ósýnilegum böndum í þessari endurtekningarbæn. Þrisvar sinnum vitjaði engillinn barnanna. Í þriðju sýninni hélt hann á kaleiki með hostíu og gaf Lúsíu hostíuna en lét þau Francisco og Jacintu bergja á honum.

fatima_2

HIN BLESSAÐA MEY OPINBERAST BÖRNUNUM

Því sem næst á sama stað þar sem engillinn hafði birst þeim opinberðist börnunum síðan sýn með óvæntum hætti yfir litlu og sígrænu eikartré þeim til mikillar furðu. Þetta var þann 13. maí 1917. Lúsía skrifaði síðar:

„Þetta var kona í skínandi hvítum klæðum, bjartari en sólin, og út frá henni geislaði ljós sem var tærara og sterkara heldur en þegar sólargeislar lýsa upp tandurhreint vatn í kristalsglasi . . . „Hvaðan kemur þú?“ spurði hún þessa forkunnarfögru konu sem nú brosti til þeirra þannig að hún vann hjörtu þeirra. „Ég kem frá himnum,“ svaraði hún. „Og hvers vegna komstu hingað?“ spurði Lúsía. „Það er vegna þess að ég vil að þið komið hingað þrettánda hvers mánaðar á sama tíma. Í október skal ég segja ykkur hver ég er og hvað ég vil að þið gerið.“

Í stuttri umfjöllun eins og þessari er með öllu útilokað að gera grein fyrir öllu því sem gerðist, þannig að ég mun einbeita mér að friðaráætlun hinnar sælu Guðsmóður. Ástandið í heimsmálunum árið 1917 var vettvangur gjöreyðingarstríðs og því sem næst öll Evrópa var blæðandi orustuvöllur. Þetta var örvæntingarfullar aðstæður mennskra mannfórna og engin vonarglæta í augsýn. Öll heimsbyggðin var svo að segja vettvangur uppreisnar gegn Guði og trúarlegs fráfalls. Það var í þriðju opinberuninni í júlí árið 1917 sem Guðsmóðirin mælti spádómsorð sín um það sem væri í vændum:

„Ef fólk bregst við eins og ég fer fram á, þá munu fjölmargar sálir snúast til trúar og friður renna upp. Þessu stríði mun ljúka, en ef fólk hættir ekki að auðsýna Guði vansæmd, þá mun ekki langur tími líða þar til önnur og enn skelfilegri styrjöld mun skella á í páfadómi Píusar XI (1922-39). Þegar þið sjáið næturhimininn lýsast upp af ókunnu ljósi, þá er þetta hið mikla tákn sem Guð mun gefa ykkur um að hann ætli að refsa jörðinni sökum glæpa hennar með styrjöldum, hungri og ofsóknum á hendur kirkjunni og hinum heilaga föður . . . Ef beiðni minni verður gaumur gefinn, mun Rússland snúast til trúar og friður mun ríkja. Ef ekki, þá mun það [Rússland] breiða út villu sína um allan heim og efna til styrjalda og ofsókna á hendur kirkjunni. Hinir kærleiksríku munu líða píslarvætti og hinn heilagi faðir þjást mikið og fjölmörgum þjóðum verða eytt.”

HELGIÐ RÚSSLAND FLEKKLAUSU HJARTA MÍNU

Til þess að koma í veg fyrir þessar hörmungar bað Guðsmóðirin um að Rússland yrði helgað hinu Flekklausa hjarta sínu. Síðar átti eftir að koma í ljós að þetta reyndust vera mestu spásagnarorð sem gefin hafa verið á okkar tímum, einkum þegar haft er í huga, að á þessum tíma var Rússland vanþróað ríki sem hafði litla sem enga hernaðarlega þýðingu.

Ljósin „ókunnu sem hið mikla tákn frá Guði“ birtust þann 25. janúar árið 1938. Þetta kvöld mátti sjá einstætt ljós ljóma yfir allri Evrópu og þau sáust einnig í hluta Norður-Ameríku. Svo óvenjuleg var þetta ljósafyrirbrigði að þess var getið á forsíðu New York Times og fjölmargra annarra dagblaða um allan heim. Greint hefur verið frá því, að Lúsía sem þá var orðin karmelnunna, tilkynnti byskupi sínum að þetta væri einmitt táknið mikla sem Guðsmóðirin hafði boðað. Skömmu síðar hófst önnur heimstyrjöldin þegar Þýskaland lýsti yfir styrjöld á hendur Pólverjum þann 1. september árið 1939. Acille Ratti kardínáli, sem kjörinn hafði verið sem Píus páfi XI árið 1922 andaðist einnig þetta sama ár og þar með lauk páfdómi hans.

Þrátt fyrir spádómsorð Guðsmóðurinnar var Rússland ekki helgað hinu Flekklausa hjarta og Sovéska heimsveldið tvíefldist upp úr rústum annarrar heimstyrjaldarinnar. Milljónir manna liðu píslarvætti og fjölmargar þjóðir voru innlimaðar inn í þetta stjórnarfarslega skrýmsli. Þann 25. mars árið 1984 varð Jóhannes Páll II páfi við ósk Guðsmóðurinnar sem hún opinberaði í Fatíma og helgaði Rússland hinu Fekklausa hjarta Maríu í sameiningu við alla biskupa – kaþólska jafnt sem réttrúnaðarbiskupa Austurkirkjunnar – sem hann hafði sent bréf þar sem hann fór þess á leit að þessi helgun færi fram. Ári síðar, eða þann 11. mars árið 1985, tók nýr aðalritari við völdum innan kommúnistaflokksins, Mikhail Gorbatsjeff, og hóf að hrinda perestroiku (umbótastefnu) sinni og glasnost (opnanleika) í framkvæmda. Berlínarmúrinn hrundi og tímabil friðar rann upp.

fatima_3

TÁKNIÐ MIKLA

En það er ekki einungis í heimi stjórnmálanna þar sem Guð opinberar styrk armleggs síns þegar hann hefur hann á loft. Guðsmóðirin hét miklu tákni í síðustu opinberun sinni í Fatíma sem átti sér stað þann 13. október árið 1917. Áætlað var að fólkið sem safnaðist saman hafi verið um 70.000 manns. Þegar stundin rann upp um hádegisbilið var rigning. Rétt áður en opinberunin hófst hætti að rigna. Lúsía spurði Maríu Guðsmóður hvort hún vildi svara nokkrum fyrirbænum. Hún svaraði, „Sumum mun ég verða við, öðrum ekki. Þeir verða að breyta líferni sínu og biðja um syndafyrirgefningu. Auðsýnið Guði ekki meiri vansæmd vegna þess að nú þegar hefur honum verið sýnd mikil vansæmd.“ Nú átti sér stað það sem fullyrða má að sé mesta undur tuttugustu aldarinnar:

Þegar María hvarf á braut, þá lauk hún upp höndum sínum sem ljós streymdi út frá. Jafnframt því sem hún hófst til himna, benti hún á sólina og ljósgeislarnir sem streymdu frá höndum hennar upplýstu sjálfa sólina. Skyndilega barst undrunarkliður frá mannmergðinni. Það dróg úr birtu sólar svo að hún varð eins og tunglið. Vinstra megin við sólina sáu börnin hl. Jósef sem bar Jesúbarnið í örmum sér. Hl. Jósef hóf hendi sína á loft og blessaði mannmergðina með signingu ásamt Jesúbarninu. Athyglisvert er að mannmergðin sá ekki þessa sýn, heldur einungis flökt sólarinnar.

Meðan börnin fylgdust með þessu var það önnur loftsýn sem dró að sér athygli mannfjöldans, eða eins og einn sjónarvottanna komst að orði:

„Við gátum horft beint í sólina vandkvæðalaust. Hún virtist ekki valda sjóntruflunum. Hún virtist í sífellu dofna og skína á víxl. Geislar gengu út frá henni beggja vegna og upplýsa allt í mismunandi litbrigðum, fólkið, tréin, jörðina og jafnvel himininn. Allir stóðu grafkyrrir og án þess að mæla aukatekið orð af vörum og störðu á sólina. Allt í einu hætti þetta litasamspil og sólin tók að „dansa.“ Hún nam aftur staður og hóf svo dansinn að nýju uns hún virtist slíta sig lausa frá himinhvelfingunni og falla yfir fólkið. Á þessu andartaki ríkti mikil spenna.“

Dr. Almeida Garetti, prófessor við Háskólann í Coimbra, varð sjónarvottur að þessu sólarundri:

„Sólin hafði brotist fram úr skýjaþykkni . . . augu allra beindust að henni og ég sá hana sem skífu með skarpt afmörkuðum brúnum, bjarta og skínandi, en þó án þess að særa augun. . . birta og hiti streymdi út frá henni . . . og skýin virtust ekki draga úr birtu hennar . . . ég gat horft á þessa hitaglóð og birtu án þess að kenna til augnverkja eða sjóntruflana í hornhimnunu. . . sólskífan. . . hringsnérist ofurhratt . . . þá. . . þar sem hún snérist á svona æðisgengnum hraða virtist hún rífa sig lausa af himinhvelfingunni og nálgast jörðu með ógnvænlegum hætti eins og til að kremja okkur með ógnarþunga elds síns . . . Himinhvolfið virtist skipta litum . . . þegar ég horfði á sólina, þá veitti ég því athygli að það dimmdi yfir henni. . . Allt þetta fyrirbrigði sem ég hef lýst sá ég með eigin augum. . . Það er annarra að túlka þetta og útskýra.“

Það liðu 72 ár frá opinberununum í Fatíma þar til Sovétríkin hurfu hljóðlaus af yfirborði jarðar, eitt mesta hernaðarveldi mannkynssögunar. Orð Jeremía spámanns koma óhjákvæmilega upp í hugann: „Afmáið þann, er sigðina ber um uppskerutímann“ (Jer 50. 15) og enn og aftur: „Hversu er hamarinn, sem laust alla jörðina, höggvinn af skafti og sundurbrotinn! . . . Þú náðist og þú varst gripin, því að þú hafðir dirfst að berjast gegn Drottni“ (Jer 50. 23, 24). Og sagði ekki Jesaja : „Sjá, hinn alvaldi Drottinn kemur sem hetja, og armleggur hans aflar honum yfirráða?“ (Jes 40. 10). Bænir hinna réttlátu megna mikils eins og Guðsmóðirin áminnir okkur um í Medjugorje:

„Ykkur hefur gleymst að þið getið jafnvel komið í veg fyrir styrjöld. Þið getið jafnvel haft áhrif á sjálf náttúruöflin.“


Frásögnin er byggð á: Delaney, John J., A Woman Clothed with the Sun, Doubleday, New York, 1990 og: http://fatima.org/essentials/facts/1916appar.asp

No feedback yet