« Goðsagnir hómosexualismans8 læknasamtök viðurkenna samband á milli fóstureyðinga og brjóstakrabbameins »

09.04.06

  13:58:48, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 588 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Fátæka hafið þér ætíð hjá yður

Guðspjall Jesú Krists þann 10. apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 12. 1-11

Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu, þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður, og Marta gekk um beina, en Lasarus var einn þeirra, sem að borði sátu með honum. Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna. Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?“ Ekki sagði hann þetta af því, að hann léti sér annt um fátæka, heldur af því, að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók það, sem í hana var látið. Þá sagði Jesús: „Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þér ætíð hjá yður, en mig hafið þér ekki ávallt.“ Nú komst allur fjöldi Gyðinga að því, að Jesús væri þarna, og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna, heldur og til að sjá Lasarus, sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá réðu æðstu prestarnir af að taka einnig Lasarus af lífi, því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú. Sá mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, frétti degi síðar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem.

Hugleiðing

Hvers vegna hafði Júdas svona mikið á móti því að María tjáði ástúð sína með þessum hætti? Það var sökum þess að græðgin stjórnaði gjörðum hans. Í reynd var hann þjófur og þjófseðlið stóð honum fyrir þrifum í lífi náðarinnar. Ef hann hefði komist yfir þessa þrjú hundruð denara hefði hann stungið þeim í eigin pyngju. Þetta sjáum við gerast sífellt að nýju enn á okkar dögum. Þróunarstofnum Sameinuðu þjóðanna hefur áætlað að jörðin gæti brauðfætt 35-50 milljarða manna án þess að nokkur liði skort, ef auðæfum hennar væri skipt réttlátlega: „Fátæka hafið þér ætíð hjá yður.“

Allir vega og meta lífsins gæði til samræmis við það sem hulið er í djúpi hjartans. Eins og allir arðræningjar var Júdas Ískaríot afar beiskur maður og blindaður af ágirnd sinni gat hann ekki borið skyn á það sem var Guði dýrmætt. Jesús hafði gert Júdas að gjaldkera samfélagsins, ef til vill sökum þess að hann bjó yfir fjármálareynslu. En það kom honum lítt að gagni vegna þess að hann lét græðgina heltaka hjarta sitt. Þetta er ný og gömul saga. Við ættum öll að huga að því hvað skotið hefur rótum í okkar eigin hjörtum svo að við krossfestum ekki Jesú að nýju daglega með því að ásækjast annarra manna brauð. Þá myndi jörðin breytast í aldingarð eins og Guð fyrirhugaði henni að vera, en syndin stendur í vegi fyrir því að þessi draumur Guðs rætist.

No feedback yet