« Sjónvarpsstöðin Ómega boðar ómengaðan gyðingdómHeil. Jóhannes af Krossi: Um vöku Drottins í mannshjartanu »

08.02.08

  08:19:16, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1178 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð, Tjaldbúð Móse sem forgildi heilagrar kirkju

1. Fastan: Vegur til hins sanna frelsis

SJÁ MEÐFYLGJANDI MYND

Í fyrsta hirðisbréfi sínu kemst hr. Pétur Bürcher Reykjavíkurbiskup svo að orði: „Og hvar er þá hina sönnu hamingju að finna? Hvar er hún? Hamingjan er auðvitað aðeins fullkomin í Paradís. En á þessari stundu bendir Jesús á sjálfan sig í guðspjalli dagsins: „Sælir eru friðflytjendur .... sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu...“ Þetta eru orð hins sama Jesú er sagði í Nasaret: „Andi Drottins er yfir mér.“ Og þessi andi er sannarlega styrkur, ljós, gleði og friður. Leitið hans því ekki annars staðar: Hann er hið innra með ykkur, í hjarta ykkar.“

Vafalaust vefst það fyrir mörgum hversu mjög fastan er samofin sæluboðum Drottins í Fjallræðunni. Þegar blessaður Guerric frá Igny (1080-1157) vék að inntaki sæluboðanna komst hann svo að orði:

Það er ljóst að allt snýst þetta um upprisu hjartans og vöxt í verðskuldun á hinum átta þrepum dyggðanna sem beina mönnum í stigvaxandi mæli frá lægsta til hæsta stigs fullkomleika Fagnaðarerindisins. Með þessum hætti munu þeir að minnsta kosti nálgast og sjá Guð guðanna á Síon (Sl 84. 8) í þessu musteri sem spámaðurinn kemst svo að orði um: „Forsalur þess var átta álnir“ (Esk 40. 37). 

Tjaldbúð Móse var forgildi heilgarar kirkju. Í einstæðri fegurð sinni var helgidómur tjaldbúðarinnar „spegilmynd tjaldsins helga sem þú gerðir í árdaga” (SS 9. 8). Af þessum sökum lagði Guð svo ríka áherslu á það við Móse að hann reisti helgidóminn „í öllum greinum eftir þeirri fyrirmynd af tjaldbúðinni og eftir þeirri fyrirmynd af öllum áhöldum hennar, sem ég mun sýna þér” (2 M 25. 9).

Tjaldbúðin sem forgildi heilgarar kirkju er Jakobsstigi mannshjartans til himna: Vegur til hins sanna frelsis. Benedikt páfi hefur þannig einnig kallað föstutímann veg til hins sanna frelsis. Svona samofin er fastan leyndardómi Fagnaðarerindisins. Páfi komst svo að orði í almennri áheyrn þann 21. febrúar 2007:

Frá upphafi var föstutíminn tímaskeið aðkallandi undirbúnings fyrir skírnina, en hún var framkvæmd með miklum hátíðarbrag á páskavökunni. Allur föstutíminn var vegferð til þessa mikilvæga stefnumóts við Krist, þessarar íklæðingar Krists, þessarar endurnýjunar lífsins. Við höfum þegar verið skírð en skírnin er iðulega ekki mjög áhrifarík í daglegu lífi okkar. Þannig er föstutíminn einnig endurnýjuð „trúfræðsla“ fyrir okkur þegar við nálgumst aftur skírnina til að enduruppgötva hana í dýpt sinni, að verða sannarlega að nýju kristin. Fastan er því tilefni til að verða að „nýju kristin“ í stöðugri innri umbreytingu og framförum í þekkingu og elsku á Kristi.

Afturhvarfið er aldrei endanlegt í eitt skipti fyrir öll heldur þróun, innri vegferð allt lífið. Þessi þróun afturhvarfs Fagnaðarerindisins er að sjálfsögðu ekki unnt að einskorða við ákveðið tímaskeið ársins: Það er dagleg vegferð sem verður að fela í sér alla tilvist okkar, sérhvern dag lífs okkar . . . Hvað merkir það að „snúa við“ raunverulega í sér? Það þýðir að leita Guðs, að hrífast af Guði og fylgja kenningum Sonar hans, Jesú Krists, af trúfestu. Að ganga í gegnum afturhvarfið er ekki sjálfsrækt vegna þess að maðurinn er ekki höfundur eilífrar fyrirhugunar sinnar. Við sköpuðum okkur ekki sjálf. Þannig felur sjálfsrækt í sér þversögn og kemur að litlu haldi fyrir okkur. Fyrirhugun okkar er háleitari en þetta. Við getum sagt að afturhvarfið felist einmitt í því að við lítum ekki á okkur sem okkar eiginn „skapara“ og þannig að uppgötva sannleikann vegna þess að við erum ekki okkar eigin höfundar. Afturhvarfið felst í fúsleika og elsku til að vera háð Guði í öllum efnum, hinum sanna Skapara okkar, og verða háð elskunni. Þetta er ekki frelsissvipting heldur frelsi.

Í eðli sínu er er fastan einstakt tækifæri fyrir mannshjartað til að samlíkjast hinu Alhelga Hjarta Jesú í elsku hans. Eldurinn sem logaði stöðugt á brennifórnaraltari hins Gamla sáttmála var forgildi loga elsku Kristshjartans. Og Jesús kom til að kveikja þennan eld á jörðu í holdtekju sinni í sérhverju því mannshjarta sem reiðubúið er að meðtaka elsku hans. Við skulum því leitast við að vera sem þurrt sprek í höndum hans á þessum föstutíma.

Að lokum skulum við leggja eyru við því sem Ísak hinn sýrlenski (7. öld), munkur í Niníve, hafði um þessa baráttu að segja sem sálin heyir við óvin alls lífs á göngu sinni frá brennifórnaraltarinu að eirkerinu í tjaldbúð hins lifandi Guðs:

Rétt eins og heilbrigt auga þráir að sjá ljósið, þannig glæðist þráin til að biðja með föstu sem framkvæmd er af dómgreind. Þegar einhver tekur að fasta þráir hann að eiga samfélag við Guð í hugsunum hjarta síns. Satt best að segja getur sá líkami sem fastar ekki eirt í rúminu alla nóttina. Þegar fastan hefur innsiglað varir mannsins leggur hann rækt við íhugunina í anda iðrunar: Hjarta hans biður, ásjóna hans er alvarleg; illar hugsanir hverfa frá honum og hann verður að fjandmanni losta og hégómamælgi. Aldrei hefur sést til neins sem fastað hefur af dómgreind sem hefur verið þræll illra langana. Fasta sem lögð er rækt við af dómgreind er eins og mikið virki sem veitir margvíslegri gæsku skjól . . .

Föstuboðið hefur verið ásett eðli okkar frá upphafi til að forðast að borða ávöxt trésins (1M 2. 17), en það er til þessa sem rekja má það sem tælir okkur . . . Þetta er einnig það sem Frelsarinn gerði þegar hann var opinberaður heiminum í Jórdan vegna þess að eftir skírnina leiddi Andinn hann út í eyðimörkina þar sem hann fastaði fjörutíu daga og nætur. Allir sem fylgja honum bregðast eins við: Það er þetta sem er grundvöllur baráttu þeirra vegna þess að það er Guð sem hefur smíðað þetta vopn . . . Þegar djöfullinn kemur auga á þetta vopn í höndum mannsins verður þessi óvinur og harðstjóri skelkaður. Hann minnist þegar í stað ósigursins sem hann beið fyrir Frelsaranum í eyðimörkinni. Það sem bar að höndum stendur honum ljóslifandi fyrir sjónum og vald hans er brotið á bak aftur. Hann hrekkur undan þegar hann sér það vopn sem sá færði okkur í hendur sem leiðir okkur út í baráttuna. Hvaða vopn er jafn máttugt til að glæða okkur hugmóð í baráttunni við illa anda? (Umræður um ögunarlífið, 1. 85).

No feedback yet