« Föstusöfnunin rennur til HaítíGaudete, gaudete! Christus est natus »

15.02.10

  19:56:18, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 289 orð  
Flokkur: Kirkjuárið, Fastan

Fastan hefst á öskudag

Systir Catharina Broomé skrifar í bók sinni Kaþólskur siður [1]:
„Jesús hvatti okkur til að fasta, gefa ölmusu og biðja og sjálfur fastaði hann fjörutíu daga í eyðimörkinni, eins og aðrir helgir menn í Biblíunni. Fjörutíu daga fasta kirkjunnar hefst á öskudegi og stendur yfir til páska. Biskupinn tilkynnir fólkinu reglurnar um föstutímann en þegar á heildina er litið er hverjum manni í sjálfsvald sett hvernig hann innir föstuna af hendi.

Orígenes kirkjufaðir (d. 254) skrifar: 'Viltu heyra hvernig þú átt að fasta? Forðastu alla synd, láttu enga illsku þróast hjá þér, sestu ekki við borð munaðar, ölvaðu þig ekki með nautnum. Forðastu allar illar gerðir, öll ill orð og hugsanir. Neyttu ekki hins vonda brauðs óheilbrigðra kenninga sem snúa þér burt frá sannleikanum. Þannig er sú fasta sem Guði er velþóknanleg.' Messutextar föstutímans, sem oft eru teknir úr ritum spámannanna, halda fast að okkur þeirri skyldu að gefa svöngum af brauði okkar, að vinna að frelsi annarra, að berjast gegn ranglátum þjóðfélagsaðstæðum. Við efnum til föstusafnana í þeim tilgangi, en ef við eigum að geta losað okkur við eigingirnina í breytni okkar, verðum við að byrja á því að 'krossfesta holdið með ástríðum þess og girndum' (Gl. 5. 24)."

Í Trúfræðsluriti kirkjunnar [2] segir í grein 1438: „Iðrunartími og iðrunardagar innan kirkjuársins (föstutíð og allir föstudagar í minningu dauða Drottins) eru áhrifaríkar stundir til að iðka iðrun og yfirbót í kirkjunni. [36] Þessir tímar eru sérlega hentugir til andlegra æfinga, ástundunar helgisiða iðrunar og yfirbóta, pílagrímsferða sem tákn um syndabót, til ótilneyddra sjálfsafneitana eins og að fasta og gefa ölmusugjafir, og að eiga hlut með meðbræðrum sínum (kærleiks- og trúboðsverk).“

Þetta er endurbirtur pistill sem birtist upprunalega hér á vefsetrinu 26.02.06

RGB/Heimildir:
[1]„Kaþólskur siður“. Catharina Broomé. Torfi Ólafsson þýddi. Útgefandi Þorlákssjóður 1995. Bls. 65.
[2] „Trúfræðslurit Kaþólsku Kirkjunnar“. http://mariu.kirkju.net

4 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ragnar. Ég hef verið að velta einu fyrir mér. Við í Evrópu virðum reglu kirkjunnar um að borða allaf fiskmeti á föstudögum. En vinir mínir á Filippseyjunum segja mér að það sé ekki gert þar. Skrýtið vegna þess að Filippseyjar voru undir stjórn Spánverja til 1906. Kanntu einhverja skýringu á þessu?

26.02.06 @ 19:47
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Heill og sæll Jón.
Ég athugaði þetta og mér er sagt að á miðeyjunni þar sem við þekkjum best til þ.e. Cebu tíðkist að snæða léttan mat á föstudögum í föstunni og forðast kjöt, en svína- og kjúklingakjöt er annars algeng fæða. Kjötinu er sleppt þessa daga. Léttur matur getur verið fiskur, grautarvellingur (lugau) eða grænmeti. Þessi fæða er þá frekar soðin, en ekki grilluð eða steikt. Föstudaginn langa eða jafnvel líka á laugardaginn fyrir páska er sérstakur föstumatur, t.d. lugau, grautur eða súpa. Fiskurinn yrði þá ekki borðaður steiktur en bara soðinn á föstudögum í föstu, t.d. sem hluti af fiskisúpu. En sumir hafa þann smekk að þeir borða fisk helst ekki öðruvísi en steiktan. Þetta gæti skýrt afstöðu vina þinna.
Bestu kveðjur,
Ragnar.

26.02.06 @ 20:27
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Eftirfarandi kafli er byggður á endursögn Torfa Ólafssonar á bókarkafla dr. Slavko Barbaric, prests og sálfræðings í Júgóslavíu sem birtist í tímaritinu Merki Krossins II. hefti 1991:

Í bókinni „Budskabet fra Medjugorje“ sem kom út hjá Katolsk forlag í Kaupmannahöfn fjallar séra Slavko Barbaric um föstuna. Þar segir hann meðal annars: „Í Gamla testamentinu er víða vikið að föstuhaldi. Spámennirnir hvöttu hina útvöldu þjóð til þess að fasta, sérstaklega þegar erfiðleikar steðjuðu að eða hætta var á einhverri ógæfunni. Í Nýja testamentinu er frá því sagt að Jesús hvatti menn til að fasta og fastaði sjálfur.

Síðar var einnig fastað tvisvar í viku í kirkjunni, miðvikudaga og föstudaga. Ljóst er að menn föstuðu á föstudögum til þess að minnast þjáninga og krossdauða Jesú. Vesturlandabúar hafa ekki aðeins það sem þeir þurfa, þeir hafa miklu meira. Við eigum á hættu að drekkja sál okkar og sálarlífi í þessari miklu ofgnótt. Ef við kæfum sálarlíf okkar, blindast augu okkar fyrir því hvað við höfum. Samtímis því finnst okkur alltaf að okkur vanti meira. Við sjáum þá ekki hversu mikið við höfum og þráum stöðugt að bæta við það og af því verða árekstrar í sálarlífi okkar. Við hættum að sjá aðalatriðin en einblínum á það sem við höfum ekki. Menn sem þannig er ástatt um missa sálarkraft sinn. En hvað er sálarkraftur? Til dæmis það að fyllast ekki strax örvæntingu þótt við lendum í erfiðleikum. Fyrir kemur að ungt fólk leggst í þunglyndi og fremur jafnvel sjálfsmorð út af því að hafa fallið á prófi. Margir byrja t.d. að nota fíknilyf af því að þeir þola ekki álagið. Þá hafa þeir ekki nægan sálarkraft til þess að sporna við freistingunni til þess að reyna slík lyf.

Tökum hjónaskilnaðina til dæmis. Enginn gengur í hjónaband með þeim sem hann elskar ekki. En hjónaskilnaðirnir eru margir. Af hverju stafar það? Ef til vill þokir annar aðilinn ekki viss atriði í fari hins. Hann getur ekki umborið hann og fyrirgefið honum - og fjölskyldan sundrast.

Með öðrum orðum: Þegar við höfum ofgnótt af öllu til umráða dylst okkur ákveðið atriði sem skiptir miklu máli fyrir líf okkar. Við þurfum að kunna að bíða, að vera þolinmóð við aðra og gæta hófs varðandi veraldlega hluti. Hvað það snertir er unga fólkið í sérstaklega mikilli hættu statt. Það er vant að fá strax allt sem það biður um. Heima hjá þeim er eins og þeir hafi sjálfsala við höndina. Ef þeir setja hann í gang, fá þeir mat, drykk og hvað eina annað. Þeir eiga á hættu að læra aldrei að umgangast hlutina án þess að hrifsa þá til sín og á því verða þeir eigingjarnir. ‘Ég þarf allt. Ég á að fá allt.’ Þegar þeir síðar koma út í lífið, í skóla, í fjölskyldulífið, í atvinnu og lenda þar í erfiðleikum, skortir þá kraft til þess að sigrast á þeim.

Hvað kennir fastan okkur varðandi þetta? Að umgangast það sem við eigum án þess að snerta það og sjá engu að síður að morgni eftir föstuna að við erum engu verr stödd en við hefðum verið án föstunnar. Það er ekki auðvelt að hafa alla þessa hluti í kringum sig og hreyfa ekki við þeim. En þeir sem temja sér að fasta læra það smám saman. Fyrir þá þjálfun þróast með þeim nýr kraftur sem hjálpar þeim til að sigrast á erfiðleikum og lifa með þeim vandamálum sem ekki verður hjá komist.

Við ættum að læra að lifa einfaldara lífi. Heimurinn í kringum okkur, sem hlaðinn er sjálfvirkum tækniundrum, kennir okkur ekki að umbera vandamál. Við missum þolinmæðina í umgengni við annað fólk. Á því sviði liggja rætur allra sjálfsmorða, allra hjónaskilnaða, allra fíkniefna- og áfengisvandamála. Sá sem lærir að umgangast hluti, getur líka umgengist fólk. Þeir sem ekki láta blindast af efnislegum hlutum, öðlast sýn og sjá líka annað fólk. Þeir sem kunna að umgangast veraldlega hluti, skilja betur aðstæður annarra og hafa kraft og vilja til þess að hjálpa þeim.”

26.02.06 @ 21:13
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Það er stórmerkilegir kaflar um rannsóknir á föstunni í riti Henri Joyeux um rannsóknirnar í Medjugorje: Le jeûne, bls. 99-119 og Le jeûne vu par le medecine (Fastan í ljósi læknisfræðinnar). Þakka greinagóð svör um Filippseyjarnar, en þessu er ekki svo háttað á Luzon á Stórmanilasvæðinu, kannske áhrif frá Könunum.

26.02.06 @ 22:17