« „En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, Sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.“Um kaþólska og lúterska dulúð »

21.04.06

  13:11:18, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 551 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni.“

Guðspjall Jesú Krists þann 22. apríl er úr Markúsarguðspjalli 16. 9-15

9 Þegar hann var upp risinn árla hinn fyrsta dag vikunnar, birtist hann fyrst Maríu Magdalenu, en út af henni hafði hann rekið sjö illa anda. 10 Hún fór og kunngjörði þetta þeim, er með honum höfðu verið og hörmuðu nú og grétu. 11 Þá er þeir heyrðu, að hann væri lifandi og hún hefði séð hann, trúðu þeir ekki. 12 Eftir þetta birtist hann í annarri mynd tveimur þeirra, þar sem þeir voru á göngu á leið út í sveit. 13 Þeir sneru við og kunngjörðu hinum, en þeir trúðu þeim ekki heldur. 14 Seinna birtist hann þeim ellefu, þegar þeir sátu til borðs, og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og harðúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim, er sáu hann upp risinn. 15 Hann sagði við þá: „Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni.“

Hugleiðing
Veraldleg ríki koma sér upp sendiráðum, sendiherrum eða ræðismönnum í framandi löndum. Þeim er ætlað að standa vörð um hagsmuni ríkisins, veita upplýsingar og greiða götu þegna sinna á ókunnum slóðum og veita vegabréfsáritanir. Starfsmenn utanríkisþjónustunnar sækja sérstök námskeið á vegum hennar til að geta gegnt stöðu sinni sem best og leitast er við að velja einungis hæfustu menn til starfsins.

Jesús fer svipað að í upphafi. Hann velur sér sína sendiherra í ljósi trúar þeirra og staðfestu. Það er kona sem hann velur sem sinn fyrsta sendiherra. Þetta er María frá Magdölum en út af henni hafði hann rekið sjö illa anda. Þessir sjö illu andar eru höfuðlestirnir sjö og þannig gat hún gegnt hlutverki sínu af trúmennsku. Því er miður að þetta er ekki sett sem skilyrði nú á dögum í mörgum kirkjudeildum. Menn geta gengið inn af götunni og hafið guðfræðinám á sínum eigin forsendum og án þess að hafa hina minnstu trú til að bera.

Þegar þeir svo hljóta „prestvígslu“ haldar þeir áfram að fara villu síns vegar og bera hinum trúuðu annarlegar kenningar sem eru þeirra eigin hugsmíðar og ófullkomleiki. Því miður eru fjölmörg dæmi um þetta á okkar dögum. Ef þeir störfuðu sem sendiherrar veraldlegra yfirvalda væru þeir ekki starfi sínu vaxnir og þeim væri vikið úr starfi fyrir afglöp. Nú á dögum opinberast Drottinn okkur í Heilögum Anda í fermingunni. Hlutverk allra kristinna manna er að boða fagnaðarerindið um allan heim. Þetta er það hlutverk sem Drottinn felur allri sinni stríðandi kirkju á jörðu. Þá sem eru lélegir eða óhæfir sendiherrar hans má auðveldlega þekkja úr vegna þess að þeir boða annarlegar kenningar sem eru ekki í neinni samhljóðan við kenningar heilagrar kirkju.

„Drottinn Jesús Kristur. Auk okkur trú á þér og krafti upprisu þinnar. Gef okkur náð til að verða að sönnum sendiherrum þínum á jörðu þangað til við förum heim til okkar sanna föðurlands“ (Fl 3. 20).

No feedback yet