« Að hugga volaðan náunga í nauðsynjum Og englar þjónuðu honum: »

05.03.06

  08:21:36, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 887 orð  
Flokkur: Bænalífið, Faðirvorið

Faðirvorið og hin yfirskilvitlega og innblásna bæn náðar Guðs

Þegar þau hl. Teresa frá Avíla og hl. Jóhannes af Krossi hófu siðbótarstarf sitt innan Karmelítareglunnar snéru þau til hinna upphaflegu reglna eins og þær komu frá hendi Albertusar patríarka af Jerúsalem. Albertus grundvallaði reglur sínar á hinni postullegu arfleifð eins og hún hafði lifað innan Jerúsalemkirkjunnar í gegnum aldirnar.

Albertus patríarki lagði áherslu á bænalífið sem óaflátanlegu bæn sem beinir sálinni inn í þögn hjartans, til hesychia kardia grísku kirkjufeðranna, og þar sem árveknin eða vaxandi andleg athygli sálarinnar var hornsteinninn. Rétt eins og meðal egypsku eyðimerkurfeðranna var það Faðirvorið sem var sú bæn sem var leiðarljósið í ásæisbæninni. [1] Þetta má sjá best á því að samkvæmt reglum Albertusar var þeim bræðranna sem voru þess ekki umkomnir að biðja tíðagjörðina boðið að biðja ákveðinn fjölda Faðirvora í stað hennar. Faðirvorið var þannig talið standa tíðagjörðinni jafnfætis. Það kann að láta undarlega í eyru að leikbræðurnir væru þess ekki umkomnir að bíða tíðagjörðina, en þegar við höfum í huga hversu kostnaðarsamt það var að skrifa handrit á þessum fjarlægu tímum, skiljum við samstundis hvers vegna þess var krafist af prestum að læra tíðagjörðina og Davíðssálmana utanbókar. Við finnum áþreifanleg ummerki um þessa sömu lifandi arfleifð í Hómilíubókinn. [2] Þannig voru litlu perlurnar á talnabandinu nefndar paternosters eða „faðirvorin“ allt fram á þrettándu öld á meginlandinu.

Í Veginum til fullkomleikans lofaði Teresa Faðirvorið með háleitum hætti og það var það sem hún lagði til grundvallar þegar hún uppfræddi systur sínar um vöxt bænalífsins:

Hinn mikli fullkomleiki þessarar bænar fagnaðarerindisins er eitthvað sem við ættum að vegsama þig mikið fyrir, Drottinn. Dætur! Okkar gæskuríki Meistari hefur orðað hana svo vel að við getum allar sniðið hana að okkar eigin þörfum. Ég tel það undrun sæta að allt ásæið og fullkomleikinn skuli felast í svo fáum orðum. Svo virðist sem við þurfum ekki að lesa neina aðra bók en þessa.  Fram að þessu hefur Drottinn uppfrætt okkur um allan veg bænarinnar og hið háleit ásæi, allt frá sjálfu upphafinu og auk þess um innri bænina, kyrrðarbænina og sameiningarbænina. Þetta hefur hann gert með svo skilmerkilegum hætti, að ef ég vissi hvernig ég ætti að varpa ljósi á þetta allt saman, gæti ég skrifað stóra bók sem byggðist á þessum trausta grunni. Héðan í frá tekur Drottinn að uppfræða okkur um áhrif náðargjafa sinna, eins og þið hafið þegar séð. [3]

Himinn sálarinnar, garður hjartans, er ekki einhver fjarlægur veruleiki, heldur hulinn hið innar og þegar hið andlega innsæi öðlast árvekni til  að bera skyn á hræringar Andans í djúpi verundarinnar, skynjar það þann Anda sem sálin meðtók í skírninni, Anda sonararfleifðarinnar sem hrópar: „Abba! Faðir!“  (Rm 8. 16). Öll viðleitni bænarinnar miðast við að öðlast andlega árvekni til að taka undir hina óaflátanlegu bæn Andans með Andanum og í Andanum.

Í reynd skrifaði hl. Teresa þessa stóru bók sem hún vék að í tilvitnuninni hér að ofan. Þetta er Borgin hið innra. Ég ráðlegg þeim sem hafa áhuga á að kynna sér skrif hennar um hina innblásnu bæn náðarinnar, að byrja með því að lesa 21. til 42. kaflann í Veginum til fullkomleikans. Síðan er gott að lesa ritskýringar föður Vilfred Stinissens ocd á Borginni hið innra: Innheimar ljóss og elsku, áður en kemur að lestrinum á Borginni hið innra. Öll má finna þessi rit á íslensku á VEFRIT KARMELS

TENGILL

[1]. Í 9. og 10. kaflanum í Collationes (Viðræðunum) ræðir abba Ísak einmitt um Faðirvorið sem grundvöll hinnar innblásnu bænar hjartans.

[2]. Á fyrri óttustundinni (matutin) átti að syngja „eigi færri pater noster en tólf á þeirri tíð.“ Á síðari eða efri óttunni (laudes) bar að syngja „eigi færri pater noster en sjö og biðja oss svo sjöfaldrar giftar ins Heilaga Anda.“ Á miðmorgunstíð (primo) „þar fimm pater noster, að Guð gæti fimm líkamsvita vorra.“ Á dagmálstíð (terce) „enn fimm pater noster í minning fimmfaldra meinlæta, þeirra er Guð Drottinn þoldi á þessa heims ánauð, það var harmur og mæði. kuldi, hungur, svefnleysi.“  Á miðdagstíð (sext) „enn þá fimm pater noster“ sökum harðræðis Gyðinga við Drottin, það er þegar hann „þoldi bönd og hálshögg, kinnhesta og hrækingar og bardaga.“ Enn bar að „syngva fimm pater noster í minningu fimm sára þeirra, er Guð tók á sig til lausnar vorrar“ á eyktartíð (none) og við aftansöng enn að „syngva sjö pater noster í minningu sjöfaldra giftar ins Helga Anda“ og að lokum  fimm pater noster við náttsönginn (completorium) „að hann gæti svo of nóttina allra fimm líkamsvita vorra sem vér báðum i prima tíðinni“ (Hómilíubók, bls. 164).

[3]. Vegurinn til fullkomleikans, 37, 1.

No feedback yet