« Menningargervingurinn er hin raunverulega hættaÞrýstingur samtaka samkynhneigðra á Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna »

05.04.06

  07:01:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1568 orð  
Flokkur: Bænalífið, Faðirvorið

Faðirvorið og hin andlega tjaldbúð hjartans

Hl. Katrín frá Genúa komst svo að orði: „Hjartað verður að tjaldbúð Guðs og hann innblæs fjölmörgum náðargjöfum í það sem bera undursamlega ávexti. Maðurinn ber himininn hið innra með sér.“ Og einn hinna heilögu Austurkirkjunnar, hl. Silúan frá Aþosfjalli, sagði: „Drottinn er vegsamaður í heilagri kirkju . . . En það er betra að hjörtu okkar verði að musteri Drottins. Hjarta þess sem biður er musteri og andi hans er hásæti vegna þess að Drottinn elskar að gera sér bústað í hjarta og anda mannsins.

Hinir heilögu Karmels voru einhuga um þennan sama leyndardóm trúarinnar. Hl. Jóhannes af Krossi sagði meðal annars: „Þegar Guð dregur þær nær sér finna þær [sálirnar] að þetta myrkur stendur honum nærri, rétt eins og hér sé um tjaldbúð hans að ræða. Og hl. Teresa frá Avíla: „Hérna öðlast hin særða hind gnægtir vatns. Hérna gleðjumst við í tjaldbúð Guðs.“

Allur þessi sannleikur endurómar í orðum hl. Ísaks sýrlendings sem uppi var á sjöundu öld þegar hann vék að leyndardómi helgidóms tjaldbúðar hjartans sem Jakobsstiga til himna og brú á milli Guðs og manna:

Leitast við að ganga inn í fjárhirsluna hið innra og þannig verður hún að himneskri fjárhirslu. Báðar eru þær eitt og hið sama og einn og sami inngangurinn opinberar þær báðar. Stiginn sem liggur til konungsríkisins er hulinn hið innra með þér, það er að segja í sálinni. Hreinsaðu þig af syndinni og þú munt koma auga á rimar stigans sem leiða þig þangað

.

Sjálfur sagði Drottinn meðan hann dvaldist með okkur í mennsku sinni á jörðu:

Eftir þetta mun ég aftur koma og endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs. Ég mun reisa hana úr rústum og gjöra hana upp aftur, svo að mennirnir, sem eftir eru, leiti Drottins, allir heiðingjarnir, sem nafn mitt hefur verið nefnt yfir, segir Drottinn, sem gjörir þetta kunnugt frá EILÍFU. (P 15. 16, 17).

Í Hebreabréfinu víkur Páll postuli einnig að þessum sannindum: „En Kristur er kominn sem æðsti prestur hinna komandi gæða. Hann gekk inn í gegnum hina stærri og fullkomnari tjaldbúð, sem ekki er með höndum gjörð, það er að segja er ekki af þessari sköpun. Ekki fór hann með blóð hafra og kálfa, heldur með eigið blóð, inn í hið Heilaga í eitt skipti fyrir öll og aflaði eilífrar lausnar“ (Heb 9. 11-12).

Og skömmu síðar bætir hann við:

„Vér megum nú, bræður, fyrir Jesú blóð með djörfung ganga inn í hið HEILAGA, þangað sem hann vígði okkur veginn, NÝJAN VEG og LIFANDI inn í gegnum fortjaldið, það er að segja líkama sinn. Vér höfum mikinn PREST yfir HÚSI GUÐS“ (Heb 10. 19-20).

Allur þessi leyndardómur er dreginn upp fyrir okkur með undursamlegu táknmáli Ritninganna sem við getum vissulega kallað listasafn Heilags Anda og er samofinn Faðirvorinu og opinberun helgidóms tjaldbúðar hins Gamla sáttmála sem forgildis hins lifandi líkama Krists á jörðu, kirkjunni. Þannig vegsamaði hl. Teresa frá Avíla hátign Faðirvorsins mikið:

Hinn mikli fullkomleiki þessarar bænar fagnaðarerindisins er eitthvað sem við ættum að vegsama þig mikið fyrir, Drottinn. Dætur! Okkar gæskuríki Meistari hefur orðað hana svo vel að við getum allar sniðið hana að okkar eigin þörfum. Ég tel það undrun sæta að allt ásæið og fullkomleikinn skuli felast í svo fáum orðum. Svo virðist sem við þurfum ekki að lesa neina aðra bók en þessa. Fram að þessu hefur Drottinn uppfrætt okkur um allan veg bænarinnar og hið háleit ásæi, allt frá sjálfu upphafinu og auk þess um innri bænina, kyrrðarbænina og sameiningarbænina. Þetta hefur hann gert með svo skilmerkilegum hætti, að ef ég vissi hvernig ég ætti að varpa ljósi á þetta allt saman, gæti ég skrifað stóra bók sem byggðist á þessum trausta grunni.

Við getum þannig dregið upp fyrir hugskotssjónum okkar mynd sem víkur að þessu hlutverki Faðirvorsins í Kristsgjörningu sálarinnar og upprisu til Guðs:

(1). Faðir vor – nöktu fæturnir (skóleysið) sem skírskotar til forgarðsins tjaldbúðarinnar og hinnar munnlegu bænar. Þegar sálin gerir sér ljósan boðskap inngangsins skilur hún að hún er kominn til þess staðar þar sem himneskur Faðir hennar gefur henni hlutdeild í fyllingu lífs náðarinnar þar sem hún mun hefja sig til flugs yfir saurgun syndarinnar líkt og örn á vængjum elskunnar.

(2). Þú sem ert á himnum – hinar skjannahvítu brækur sem skírskota til brennifórnaraltarisins og hinnar ytri safnbænar. Í endurminningu sinni um Guð gerir sálin sér smám saman ljóst þegar hún leggur sprek skynrænnar afstöðu sinnar á eldrist altarisins, að hið innra með henni er einnig himinn þar sem Guð dvelur í raunnánd sinni. Þannig verður hún gagntekin brennandi þrá til að ganga enn lengra á þessum Helga vegi til að verða að verðugum bústað Lifandi Guðs: Að sönnu musteri Heilags Anda.

(3). Helgist þitt nafn, tilkomi þitt ríki – kyrtill prestsskrúðans sem skírskotar til eirkersins og hinnar innri safnbænar. Það er í brennandi þrá sinni til að verða að sannri tjaldbúð Heilags Anda sem sálin laugar sig við eirkerið. Þegar hún sér hreinleika Konunglegrar ímyndar sinnar speglast í vatnsspegli þess tekur hún að þrá þennan hreinleika. Belti kyrtilsins skírskotar til vaxandi hlýðni sálarinnar til að lauga syndir sínar í eirkerinu og þannig gengur hún fúslega inn í nótt skynhrifanna eða hreinsum skynrænnar afstöðu sinnar.

(4). Verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni – Vefjarhöttur sem skírskotar til annars inngangsins inn í hið Heilaga og kyrrðarbænarinnar. Í nótt skynhrifanna ganga hin náttúrlegu skynfæri í gegnum ummyndun og verða andlega. Þannig er sálin þess nú umkomin að skynja Konungsímynd sína andlega í einingu hinna andlegu skynfæra, rétt eins og postularnir gátu skynjað Heilagan Anda með persónulegum hætti á Hvítasunnudag. Þannig er sálinni heimilaður aðgangur inn í hið Heilaga.

(5). Gef oss í dag vort daglegt brauð – Möttullinn sem skírskotar til gullborðs skoðunarbrauðanna og fyrsta stigs sameiningarbænarinnar. Það er hér sem sálin byrjar að skynja raunnánd Konungsímyndar sinnar í hjarta sínu og verður að „sterkum manni“ (Lk 11. 21) í lífi náðarinnar og stendur vörð um andlegt hús sitt gagnvart óvinum hjálpræðisins, höfðingjum myrkursins. Möttullinn er óaðskiljanlegur hluti þeirra herklæða trúarinnar sem Páll postuli hvatti kristna menn í fornkirkjunni að íklæðast, „Takið umfram allt skjöld trúarinnar, sem þér getið slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda“ (Ef 6. 16).

(6). Og fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum – hökullinn sem skírskotar til ljósastikunnar og sameiningarbænarinnar í hrifum elskunnar. Einungis þær sálir sem nærast á hinu himneska manna eru þess umkomnar að öðlast hlutdeild í Kristsgjörningunni í hinni sjöföldu uppljómun ljósastikunnar. Ljósastikan ein var það hinna stærri áhalda helgidómsins sem var gerð úr skíragulli innst sem yst. Hún opinberar því sjálfan Krist í mennsku og guðdómlegu eðli sínu. Hérna við ljósastikuna tekur sálin að skynja nærveru hans með áþreifanlegum hætti í hinni innblásnu bæn. Ljósastikan opinberar hin náðarríku áhrif smurningar Kristsaugans þegar hinn „Smurði“ (Jes 11. 2) græðir andlega sjón sálarinnar, lampa líkamans svo að hann verði hreinn ( sjá Lk 11. 34-36):

(7). Og eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu – brjóstskjöldurinn sem skírskotar til gullaltaris ilmfórnanna og sameiningarinnar með brotthrifum. Einungis þær sálir sem meðtaka náðarríka græðslu hins „Smurða“ eru þess umkomnar að nálgast gullaltarið til að bera síðustu menjar egós holdsins fram að fórn sem sæta ilmfórn fyrir Guði. Þannig getur sálin nú sagt sem lítill kristur: „Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn“ (Lk 23. 46).

(8). Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin – smaragðarnir tveir á öxlum æðsta prestsins sem skírskota til forhengisins og sameiningarinnar í flugi andans. Í hreinleika hjarta síns flýgur sálin inn fyrir forhengið inn í hið Allra helgasta til fyllingar sabbatshvíldarinnar eða hins andlega brúðkaups.

(9). Að eilífu. Amen – gullspöng eða gullblóm vefjarhattarins sem skírskotar til sáttmálsarkarinnar og þagnar hjartans. Sálin er nú helguð Guði og öðlast þegar á jörðu hina sköpuðu fullsælu dýrðarinnar sem skírskotar til Shekinahdýrðarinnar í hinu Allra helgasta. Upp frá þessu nýtur sálin heilagrar hvíldar í eirðarlausri elsku sökum náunga sinna á glötunarvegi.

TENGILL

No feedback yet