« Með eldrúnum þíns Heilags Anda, Drottinn!Í þessum spegli skal sérhver skoða sín verk! »

04.04.06

  05:44:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 805 orð  
Flokkur: Bænalífið, Faðirvorið

Faðirvorið og fastan í hinni fornu íslensku bænaarfleifð

Fjórverutáknið, sem jafnframt hefur varðveist í íslenska skjaldarmerkinu, hefur ávallt skipað sérstakan sess á þessari eyju í Norðuratlansthafinu sem keltnesku paparnir gerðu að hinni egypsku eyðimörk sinni, [1] Það gegndi þannig mikilvægu hlutverki í guðrækni íslensku kirkjunnar til forna.

Faðirvorið skipaði öndvegissess líkt og meðal egypsku abbanna í bænalífinu sem samofið var tíðagjörðinni sem óaflátanleg bæn. Hinni andlegu föstu var skipt í þrisvar sinnum fjóra imbrudaga sem ætlað var að glæða hina andlegu föstu hjartans:

Fernir imbrudagar merkja boðorð fjögurra guðspjalla. Þrír imbrudagar fjórum sinnum haldnir merkja Þrenningartrú þá, er oss er sýnd á fjórum guðspjöllum. Tólf samtaldir imbrudagar merkja kenningu tólf postula. Sá heldur andlega imbrudaga, er varðveitir Þrenningartrú og gerir hlýðinn boðorðum fjögurra guðspjalla og kenningum tólf postula. En það er fasta, dag og nótt að varna við allri heimságirni rangri í farsælum og sjá við óþolinmæði í meinum. [2]

Hinn ókunnu höfundur heldur áfram og útskýrir að imbra að vetri sé haldin til að „Guð færi þela úr jörðu, svo að sáð megi niður komast . . . að Guð færi úr brjósti óru grimmleiks frost og öfundar þel“ svo að sæði Orðsins fái að dafna í hjörtunum. Það tekur að dafna þegar við þráum að hlíða á andlega uppfræðslu og forðumst að gera eitthvað sem illt getur talist.

Því næst leggur hann áherslu á endurminninguna um Guð vegna þess að „hvað stoðar að heyra orð Guðs, nema vér varðveitum þau í minningu?“ Aðrir imbrudagarnir eru tímaskeið vaxtar þegar uppskeran verður sýnileg og „það er vér sækjum til bæna.“ Þriðju imbrudagarnir felast í uppskerunni ef „vér hirðum þau í lítillæti og höldum þeim til dauðadags.“ Og fjórðu imbrudagarnir að vaka yfir uppskerunni og forðast að miklast af unnum góðverkum:

Ef vér höldum imbrudaga á þessa lund, sem nú er tínt, þá mun Guð gefa oss ár og frið á jörðu, en leiða oss eftir dómsdag í eilífð dýrð með sér á himna. [3]

Imbra að vori „merkir æsku óra“ í hinu andlega lífi, sumarið „fulltíða aldur,“ haustið „elli“ og veturinn „örvasa aldur.“ Við sjáum hversu samofin þessi guðrækni er fjórverutákninu.

Sama má segja um iðkun Faðirvorsins sem var óaðskiljanlegur hluti hinna daglegu tíðabæna. Á fyrri óttustundinni (matutin) átti að syngja „eigi færri pater noster en tólf á þeirri tíð.“ Á síðari eða efri óttunni (laudes) bar að syngja „eigi færri pater noster en sjö og biðja oss svo sjöfaldrar giftar ins Heilaga Anda.“ Á miðmorgunstíð (primo) „þar fimm pater noster, að Guð gæti fimm líkamsvita vorra.“ Á dagmálstíð (terce) „enn fimm pater noster í minning fimmfaldra meinlæta, þeirra er Guð Drottinn þoldi á þessa heims ánauð, það var harmur og mæði. kuldi, hungur, svefnleysi.“ Á miðdagstíð (sext) „enn þá fimm pater noster“ sökum harðræðis Gyðinga við Drottin, það er þegar hann „þoldi bönd og hálshögg, kinnhesta og hrækingar og bardaga.“ Enn bar að „syngva fimm pater noster í minningu fimm sára þeirra, er Guð tók á sig til lausnar vorrar“ á eyktartíð (none) og við aftansöng enn að „syngva sjö pater noster í minningu sjöfaldra giftar ins Helga Anda“ og að lokum fimm pater noster við náttsönginn (compline) „að hann gæti svo of nóttina allra fimm líkamsvita vorra sem vér báðum i prima tíðinni.“ [4]

Faðirvorið var þannig óaðskiljanlegur hluti tíðagjörðarinnar sem óaflátanleg bæn í íslensku fornkirkjunni á elleftu og tólftu öld og hefur að öllum líkindum verið samofin notkun talnabandsins eins og á meginlandinu. Rétt eins og Davíðssálmunum er skipt í þrjá fimmtugi (3 x 50) er rósakransinum skipt í fimm deildir. Á elleftu öld voru perlur rósakransins enn nefndar paternosters og rósakransinn „tíðagjörð hinna snauðu.“ [5] Augljóst er að Faðirvorið hefur verið notað með svipuðum hætti og Jesúbænin í tíðagjörð Rétttrúnaðarkirkjunnar þar sem ákveðinn fjöldi Jesúbæna getur komið í stað tíðagjörðarbænanna sem óaflátanleg bæn. [6]

[1]. Sjá, Hinir keltnesku frumbyggjar Íslands: http://www.tabernacleoftheheart.com/Tabernacle%20Project/icelandic_site/the_papas.html
[2]. Hómilíubók, bls. 50-51.
[3]. Sama verk, bls. 51.
[4]. Sama verk, bls. 164.
[5]. Encyclopaedia of Catholicism, bls. 1138.
[6]. Þessa forna arfleifð hefur varðveist innan Vesturkirkjunnar þegar skriftafaðirinn biður skriftabarnið að fara með ákveðinn fjölda Faðirvora sem yfirbót.

No feedback yet