« Bænarefni páfa í janúar 2011Tónleikar í minningu Jóns Arasonar og sona hans »

24.12.10

  16:53:24, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1479 orð  
Flokkur: Dulhyggja, Jólin, Opinberanir

„Fæðing Drottins“

Frásögn sjáandans hinnar blessuðu Anna Katharina Emmerick (1774-1824)

„Ég sá ljómann í kringum meyjuna blessuðu aukast og verða meiri. Ljósið frá lömpunum sem Jósef hafði kveikt var ekki lengur sýnilegt. Meyjan kraup á teppi sínu í víðum kufli sem breiddur var út í kringum hana og hún sneri andlitinu í austur. Um miðnætti var hún gagntekin af alsælu í bæn. Ég sá að hún lyftist þannig að ég sá í gólfið fyrir neðan hana. Hendur hennar hafði hún krosslagðar á brjósti sér.

Geislaflæðið í kringum hana jókst - allt, jafnvel líflausir hlutir voru hrærðir af innri fögnuði, steinarnir í loftinu, í veggjunum og í gólfi hellisins urðu eins og lifandi í ljósinu. Síðan sá ég ekki lengur loftið í hellinum, farvegur ljóss opnaðist fyrir ofan Maríu og reis með sívaxandi dýrð til himinhæða.

Í þessum ljósfarvegi var undursamleg hræring dýrða sem gagntóku hverjar aðra og þegar þær nálguðust birtust þær skýrar í formi kóra himneskra anda. Hin blessaða meyja var upphafin í alsælu, horfði nú niður og vegsamaði Guð sinn hvers móðir hún hafði nú orðið. Hann lá á jörðinni fyrir neðan hana í mynd hjálparlauss nýfædds barns. Ég sá Frelsara vorn sem agnarsmátt barn, skínandi ljósi sem yfirtók allan ljómann í kring liggjandi á teppinu við kné hinnar blessuðu meyjar. Mér virtist eins og hann væri fyrst mjög lítill og svo óx hann frammi fyrir augum mínum. En hreyfing geislaflæðisins var slík að ég get ekki sagt með vissu hvernig ég sá það.

Hin blessaða meyja var um stund í algleymisástandi. Ég sá hana leggja klæði yfir barnið, en fyrst snerti hún hann ekki né tók hann upp. Eftir smástund sá ég barnið Jesús hreyfa sig og heyrði hann gráta. Þá virtist María koma til sjálfrar sín, hún tók barnið upp af teppinu, vafði um hann klæðinu sem var yfir honum og hélt honum í höndum sér upp að brjósti sínu. Hún sat þarna og umvafði sjálfa sig og barnið algerlega með sjali sínu og ég held að María hafi gefið Frelsaranum brjóst.

Ég sá engla í kringum hana í mannsmynd, liggjandi á andlitinu að tilbiðja barnið. Það gæti hafa verið um einni stund eftir fæðingu hans þegar María kallaði á hl. Jósef, sem enn lá og bað. Þegar hann kom nær kastaði hann sér niður á andlitið í guðhræddum fögnuði og auðmýkt. Það var ekki fyrr en María bað hann að halda að hjarta sér í fögnuði og þakkargjörð hinni heilögu nærveru hins hæsta Guðs sem hann stóð upp og tók barnið Jesús í hendur sínar og lofaði Guð með fagnaðartárum.

Hin blessaða meyja vafði þá barnið Jesús reifaböndum. Ég man ekki núna hvernig þessi bönd voru vafin. Ég veit bara að barnið var vafið upp að handarkrikum fyrst með rauðum og síðan hvítum böndum og að höfuð hans og axlir voru vafin í annað lítið klæði. María hafði aðeins fjóra hluta af reifaböndum með sér. Síðan sá ég Maríu og Jósef sitjandi hlið við hlið á jörðinni. Þau töluðu ekki en virtust í djúpri íhugun. Á teppinu fyrir framan Maríu lá hinn nýfæddi Jesús í reifaböndum, lítið barn, fallegt og geislandi eins og elding.

Ah hugsaði ég, þessi staður er skrín fyrir hjálpræði alls heimsins og enginn getur þess til. Síðan lögðu þau barnið í jötuna sem var fyllt með tágagresi og mjúkum plöntum og breytt yfir með ábreiðu sem hékk niður með hliðunum. Hún stóð hærra en steintrogið á gólfinu til hægri við innganginn, þar sem hellirinn tekur stóra beygju til suðurs. Þessi hluti hellisins var lægra en staðurinn þar sem drottinn okkar fæddist. Gólfið hallaði niður í þrepamyndunum.

Eftir að hafa lagt barnið í vögguna, stóðu þau bæði við hlið hans og lofuðu Guð með fagnaðartárum. Jósef útbjó síðan hvílustað Meyjunnar og sæti hennar við hlið vöggunnar. Bæði fyrir og eftir fæðingu Jesú sá ég hana klædda í hvítt og með slæðu. Ég sá hana þar fyrstu dagana eftir fæðinguna, sitjandi, krjúpandi, standandi og sofandi á hliðinni, umvafna en ekki á nokkurn hátt veika eða örmagna. Þegar fólk kom til að sjá hana þá vafði hún sig þéttar og sat upprétt á ábreiðunni sinni.

Í þessum myndum af fæðingu Krists, sem ég sé sem sögulegan atburð og ekki sem hátíð kirkjunnar þá sé ég ekki þá geislun og alsælufögnuð í náttúrunni eins og ég sé á jólanótt þegar sýnin túlkar innra mikilvægi. Samt sé ég í þessari sýn óvæntan fögnuð og sérstakar hræringar á miðnætti á mörgum stöðum jafnvel til endimarka jarðarinnar.

Ég sá hjörtu margra manna fyllt fagnaðarþrá, en hinir illu voru yfirkomnir af miklum ótta. Ég sá mörg dýr fyllast fögnuði, á sumum stöðum sá ég blóm, jurtir og runna vaxa upp og tré svala þorsta sínum og dreifa sætum ilmi. Ég sá margar uppsprettur opnast og vaxa. Nóttina sem frelsarinn fæddist kom uppspretta upp í helli fyrir norðan fæðingarhellinn. Næsta dag gróf hl. Jósef frá henni. Himininn var þungbúinn yfir Betlehem og hafði yfir sér daufan rauðan bjarma en yfir fæðingarhellinum og yfir dalnum þar sem gröf Maraha var og yfir dal fjárhirðanna lá skínandi daggarbreiða.

Í dal fjárhirðanna var hæð, um það bil eins og hálfs tíma ferð frá fæðingarhellinum, þar sem vínekrurnar byrja og teygja sig þaðan til Gaza. Á þessari hæð voru kofar þriggja fjárhirða sem voru leiðtogar fjárhirðanna á þessu svæði, rétt eins og hinir þrír heilögu konungar voru leiðtogar ættbálkanna sem tilheyrðu þeim.

Um það bil tvisvar sinnum lengra burtu frá helli fjárhirðanna var hinn svokallaði turn fjárhirðanna. Þetta var hár pýramídalaga uppsláttur úr staurum, byggður meðal grænna trjáa á grunni stórra steina á hæð meðal akranna. Turninn var þakinn stigum, skyggnum og pöllum og sumsstaðar var komið fyrir stöðum eins og varðturnum. Mottur héngu alls staðar á þessu. Þetta líktist turnlaga byggingum sem voru notaðar í löndum hinna þriggja heilögu konunga til að skoða stjörnurnar að nóttu. Úr fjarlægð leit þetta út eins og hátt margmastra skip undir seglum. Frá þessu var gott útsýni yfir allt svæðið, til Jerúsalem og líka til freistingarfjallsins í Jeríkóeyðimörkinni.

Fjárhirðarnir settu varðmenn þarna upp til að vakta hjarðirnar þegar þeir ferðuðust um og til að gefa aðvaranir með hornablæstri ef þeir sæju í fjarlægð til ræningja eða vopnaðra flokka. Fjölskyldur nokkurra fjárhirða bjuggu í kringum turninn innan fimm klukkustunda hrings. Býli þeirra voru dreifð og umkringd ökrum og görðum. Turninn var þeirra almenni fundarstaður, sem og varðmannanna sem geymdu eigur sínar þar og fengu mat sinn þar. Kofar voru byggðir í brekkum hæðarinnar sem turninn stóð á og aðskilið var stórt skýli þar sem konur varðmannanna bjuggu og útbjuggu mat fyrir þá.

Hérna við turninn sá ég þessa nótt sumar af hjörðunum úti undir beru lofti, en við hæð fjárhirðanna þriggja sá ég þá í skýli. Þegar Jesús fæddist sá ég fjárhirðana þrjá standandi saman fyrir utan kofa sinn dást að hinni yndislegu nótt. Þeir lituðust um og voru furðu lostnir að sjá undursamlegan bjarma fyrir ofan staðinn þar sem fæðingarhellirinn var.

Ég sá líka fjárhirðana sem voru fjær í turninum í uppnámi. Ég sá suma þeirra klifra upp í turninn og einblína á hina undarlega geislaljóma yfir hellinum. Sem fjárhirðarnir þrír horfðu upp í himininn sá ég ljósský síga niður til þeirra. Þegar það kom nær sá ég hreyfingu í því umbreytast í myndir og ég heyrði söng sem óx stöðugt. Söngurinn var blíður og sætlegur en samt tær og fagnandi.

Í fyrstu voru fjárhirðarnir hræddir en brátt stóð engill frammi fyrir þeim og talaði til þeirra: 'Óttist ekki' sagði hann, 'því sjá ég boða yður mikil fagnaðartíðindi öllu fólki, því að þennan dag hefur ykkur fæðst frelsari, sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks. Þér munuð finna ungbarnið vafið í reifabönd, liggjandi í jötu'. Á meðan engillinn tilkynnti þetta óx ljóminn í kringum hann og nú sá ég fimm eða sjö undurfagrar myndir engla standandi frammi fyrir fjárhirðunum. Þeir héldu á löngum bókrullum sem eitthvað stóð skrifað á í bókstöfum jafnstórum mannshöndum og ég heyrði þá lofa Guð og segja: 'Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu hjá góðviljuðum mönnum'. Fjárhirðarnir í turninum sáu sömu sýnina en aðeins síðar.

Englarnir birtust líka þriðja flokki fjárhirðanna nálægt uppsprettu þrjá tíma frá Betlehem og fyrir austan turn fjárhirðanna. Ég sá fjárhirðana ekki flýta sér strax til fæðingarhellisins, sem var um eina og hálfa klukkustund frá fjáhirðunum þrem og tvisvar sinnum fjarlægari turninum, en ég sá þá þegar ráðfæra sig um hvað þeir ættu að gefa hinu nýfædda barni og safna gjöfum sínum saman með hraði. Þeir komu ekki til fæðingarhellisins fyrr en undir morgun.“

Framhald héðan: [Tengill]

Þetta er endurbirtur pistill sem birtist áður hér á vefsetrinu 25.12. 2006

RGB þýddi. Úr bókinni: The Life of The Blessed Virgin Mary - From the Visions of Anne Catherine Emmerich. Tan Books and publishers, Inc. P.O. Box 424 Rockford, Illinois. 1970. Fyrst gefin út á ensku af Burns and Oates, Limited London, England 1954. Anne Catherine Emmerich (1774-1824) var nunna í Ágústínusarreglunni. Hún var tekin í tölu blessaðra af Jóhannesi Páli II 3. október 2004.

No feedback yet