« Ritningarlesturinn 29. ágúst 2006Ritningarlesturinn 28. ágúst 2006 »

28.08.06

  08:22:28, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1063 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Evkaristían verður að vera þungamiðjan í líf okkar: II

Í hugleiðingum þeim sem fylgja með ritningarlestri dagsins (28. ágúst) víkur Barnabus að vegunum tveimur. Enginn getur gegnið tvo vegi samtímis, slíkt er hreinasta firra. Jesaja boðaði okkur Konungsveginn til Krists þegar í Gamla testamentinu:

Þar skal verða braut og vegur: Sú braut skal kallast BRAUTIN HELGA. Enginn sem óhreinn er skal hana ganga. Hún er fyrir þá eina [hina hreinu]. Enginn sem hana fer, mun villast, jafnvel ekki FÁRÁÐLINGUR (Jes 35. 8).

Það var Drottinn sem lagði Konungsveg lífsins meðan hann dvaldist með okkur á jörðinni og kenndi kirkju sinni að ganga hann. Rétt eins og gegnir um vegakerfi nútímans kom hann fyrir umferðaljósum á vegi sínum: Rauðum, grænum og gulum, með boðorðum sínum. Rétt eins og gegnir um jarðneska umferð „svindla“ sumir og keyra yfir á rauðu. Það er ekki eins auðvelt í dag og fyrrum vegna þess að nú er búið að koma fyrir myndavélum á öllum mikilvægum gatnamótum. En fram hjá árvökulum augum Drottins fer ekkert umferðalagabrot. Öll okkar brot eru skráð í Lífsins bók. Stundum hefur það hörmulegar afleiðingar að aka yfir á rauðu ljósi þegar í stað. Heimilisfaðir í sunnudagabíltúrnum stefnir sér og lífi konu sinna og barna í mikið vá og stundum með skelfilegum afleiðingum. Á degi dómsins þegar Lífsins bók verður lokið upp blasa brot okkar eða syndir við sjónum og dómurinn verður í samhljóðan við það.

Í ritningarlestri dagsins opinberast Kristur reiðinnar okkur og þau þungu orð sem hann hefur um faríseana hefðu líklega talist brot á meiðyrðalöggjöf nútímans. Í reynd var kveðinn upp dauðadómur yfir honum sökum þeirra: Krossfestingin. Í fyrirhugun Drottins fer ekkert fram hjá sjónum hans. Í dag má kaupa leiðsögutæki í bifreiðar svo að ökumaðurinn fari ekki villu vegar. Drottinn gaf okkur einnig slíkt leiðsögutæki með boðorðunum og Evkaristíunni: „Þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er, og öðlast þekkingu á Guði“ (Ok 2. 5), það er að segja í krafti hlýðninnar. Óhlýðnin hefur hörmulegar afleiðingar í för með sér þegar sálin hrasar í myrkri Satans vegna þess að hún fylgdi ekki uppljómun lampa Guðs:

Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á mínum vegum. Ég hef svarið og haldið það að varðveita þín réttlátu ákvæði (Sl 119. 105-106).

Barnabas víkur að tveimur þessara rauðu ljósa í hugvekju sinni um Konungsveginn: Fósturdeyðingum og syndajátningunni. Þetta hefur legið ljóst fyrir í kirkjunni frá upphafi vega og því er ekki nauðsynlegt að leggja nýjan grunn, ekki nauðsynlegt að halda sýnodus um það hvort kirkjan sé með eða á móti stofnfrumurannsóknum úr frumfóstrum deyddra barna. Þegar við gerum Evkaristíuna sem er samofin boðorðum Drottins að lampa lífs okkar á göngunni á Konungsvegi lífsins getum við gengið af fyllsta öryggi.

Enginn sem hana fer, mun villast, jafnvel ekki FÁRÁÐLINGUR (Jes 35. 8).

Hins vegar geta fræðimenn, lögspekingar, landsstjórnarmenn og ofurfrjálsyndsisguðfræðingar villst á þessum vegi vegna þess að þeir virða ekki hin gulu biðljós guðs á Konungsvegi lífsins þegar þeir ættu að bíða eftir græna ljósinu. Þeir vaka einfaldlega yfir á rauðu vegna þess að þeir segja að enginn umferðaljós séu til: Að kirkjan hafi misskilið allan þennan boðskap Drottins og þeir viti þetta allt miklu betur í krafti menntunar sinnar.

Hins vegar eru hvítasunnumenn í Kína ekki í neinum vafa um sannleiksgildi boðorða Drottins, enda FÁRÁÐLINGAR í augum hinna vísu þessa heims. Hér á ég bæði við hvítasunnuhreyfingu mótmælenda og kaþólskra. Sífelldar ofsóknir, limlestingar og fangavist rétt eins og í frumkirkjunni. Enda breiðist kristindómurinn út eins og eldur í sinu í Kína vegna þess að Drottinn stendur þessu öllu saman að baki:

Meðan ég lifi mun ég einungis elska Drottin minn
Af öllu hjarta, mætti og huga elska ég einungis Drottin minn.
Óháð því hvað ber að höndum elska ég einungis Drottin minn,
í öllum mínum verkum og orðum elska ég einungis Drottin minn.

Á stundum auðmýktar og uppfræðslu, elska ég einungis Drottin minn,
á stundum gleði og fagnaðar elska ég einungis Drottin minn.
Hvort sem ég er hungraður eða mettur, elska ég einungis Drottin minn,
ég er hans í lífi og dauða og elska einungis Drottin minn.

Drottinn hefur lagt lífið í sölurnar fyrir mig
miklar syndir mínar verið fyrirgefnar.
Ég hef helgað honum líf mitt,
ég elska Drottin einan.
[1]

Þetta er sá söngur sem hljómar núna í hjörtum milljóna Kínverja. Einungis að hann mætti einnig taka að hljóma í helköldum hjörtum vantrúarinnar í framsókn guðsafneitunarinnar á Íslandi, áður en Kristur reiðinnar umbreytir þessu landi í frystikistu með hafstraumunum [2] í kringum það:

Þar skal verða braut og vegur: Sú braut skal kallast BRAUTIN HELGA. Enginn sem óhreinn er skal hana ganga. Hún er fyrir þá eina [hina hreinu]. Enginn sem hana fer, mun villast, jafnvel ekki FÁRÁÐLINGUR (Jes 35. 8).


[1]. Liu Zhenying (bróðir Yun), einn af leiðtogum kínversku heimiliskirkjunnar meðal mótmælenda. The Heavenly Man, bls. 74. Þegar bróðir Yun hafði fastað í 74 daga samfleytt í fangelsi (án þess að bragða vott né þurrt) var það hið fyrsta sem hann bað um einmitt HOLD og BLÓÐ Drottins.
[2]. Breytingar þær sem nú eiga sér stað í náttúrunni má rekja til taumlausrar græðgi eftir efnislegum gæðum, en slíkt er synd í augum Guðs. Þannig eru Inúítar og frumbyggjar Ástralíu hyggnari en hinn „upplýsti“ nútímamaður. Til forna sögðu Grikkir að ef maðurinn auðsýndi jörðinni níðingshátt, myndi hún hefna sín. Öllum hefur Guð lagt „eðlisboð“ sitt í brjóst (Rm 2. 14), eðlisboð sem hinir „vísu“ þessa heims hafna sem hverri annarri firru: „Þú sem ‚fræðir‘ aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig?“ (Rm 2. 21).

No feedback yet