« Ritningarlesturinn 28. ágúst 2006Ritningarlesturinn 27. ágúst 2006 »

27.08.06

  10:09:06, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 645 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Evkaristían verður að vera þungamiðjan í lífi okkar: I

Í dag langar mig að segja ykkur dæmisögu af tveimur mönnum. Annar var kaþólskur prestur sem uppi var fyrir 500 árum á Spáni. Hann hafði lifað í „synd“ með konu, en Guð leiddi hann á fund heil. Teresu frá Avíla. Hún bað mikið fyrir honum og loks rann sú stund upp að hann snéri frá villu síns vegar. Hann sagði skilið við konuna og síðasta hálfa árið sem hann lifði á jörðinni kom náð Guðs inn í líf hans. Og í Sögu lífs míns kemst heil. Teresa svo að orði, að hann hefði notið þeirrar náðar að syndga ekki og Guð hafi kallað hann til sín áður en sú varð raunin.

Hinn maðurinn var samtíðarmaður okkar, nú einnig látinn. Þrátt fyrir að hann væri hámenntaður maður kom menntunin honum að litlu haldi í lífinu. Þessi maður lagði líf nokkurra kvenna í rúst og leysti upp að minnsta kosti tvö heimili með lostafullu líferni sínu. Eitt fórnardýra hans, kona sem hann lék afar grátt, sagði mér frá því í trúnaðarsamtali að hann hefði talið sig vera syndlausan mann vegna þess að hann fór í kirkju á sunnudögum og meðtók altarissakramentið í þeirri kirkjudeild sem hann tilheyrði. Þessi kirkjudeild er afar frjálslynd og þetta var það sem fleiri en einn þjóna hennar hafði sagt honum. Hún kennir meðlimum sínum ekki að syndafyrirgefning felist í því að játa synd sína og hverfa frá fyrri breytni sinni sem forsendu syndafyrirgefningar samkvæmt orðum Jesú: Syndga ekki framar.

Forsenda þess að meðtaka hinn helga leyndardóm er að meðtaka hann af hreinni samvisku. Því skriftir. Sá sem meðtekur leyndardóminn játar syndir sínar fyrir skriftaföður sínum og leitast við að gera bragarbót á lífi sínu: Að öðrum kosti er honum ekki heimilt að meðtaka berginguna og er settur út af sakramentinu. Hversu hollt hefði það ekki verið síðar nefndari manninum að heyra SANNLEIKANN því að hann var óvænt brottkallaður án þess að koma málum sínum á hreint frammi fyrir Guði. Ef einhver þjóna kirkju hans hefði sagt honum sannleikann umbúðalaust, hefði ef til vill einhverri þeirra kvenna sem hann lék svo grátt verið forðað frá ógæfu sinni jafnt og honum sjálfum.

Ef Evkaristían er ekki þungamiðjan í lífi okkar getur illa farið, já, þá fer illa fyrir okkur. Postulinn mikli sagði:

Jörð sú, er drukkið hefur í sig regnið, sem á hana fellur hvað eftir annað, og ber gróður til gagns fyrir þá, sem yrkja hans, fær blessun frá Guði. En beri hún þyrna og þistla, er hún ónýt. Yfir henni vofir bölvun og hennar bíður að lokum að verða brennd (Heb 6. 7-8).

Við skulum því leitast við, kæru bræður og systur, að meðtaka hinn helga leyndardóm af hreinni samvisku svo að orð Hómilíubókarinnar standi okkur lifandi fyrir hugskotssjónum:

Oft skulum vér hug órum til þess renna, hve langælega sæla Guð gerir sína menn, og hve þungt verða fyr reiði hans. Nú, af því að hér er skammætt allt, þá er oss mikið undir, að heldur ættim vér fögnuð fyr höndum en vesöld eftir heim þennan, þar er allt skal endalaust vera, það er maður hlýtur. Gott líf og fagurleg laun góðrar atferði veiti oss Guð vor og Dominus, sá er lifir og ríkir of óendar veraldir. Amen. [1]

Hómilíubók, bls. 130.

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Einn vina minna sem er þjónandi prestur á Filippseyjunum sendi mér predikun þá sem hann hélt í kirkjunni sinni í morgunn. Hér er útdráttur úr henni:

„Fréttirnar eru fljótar að berast. Í guðspjalli dagsins bárust þær fréttir út að Jesús, græðarinn og kraftaverkamaðurinn, væri tekinn að tala um hold sitt sem fæðu og blóðið sem drykk. Skömmu síðar tók fylgjendum hans að fækka. Jafnvel lærisveinar hans – fjölmargir þeirra – tóku að segja að orð hans væru hörð og ekki unnt að verða við þeim. Satt best að segja voru margir þeirra yfir sig hneykslaðir og hættu hreinlega að trúa á hann. Hversu dapurlegt er það ekki þegar fólk sem fylgir ákveðnum lífsreglum og stendur á sannleikann er sett til hliðar í þessum heimi yfirborðskenndra skuldbindinga og samskipta manna á millum. Hversu hryggilegt er það ekki að við snúum baki við, höfnum og ofsækjum spámenn mitt á meðal okkar vegna þess að okkur „líður ekki vel“ í návist þeirra og kjósum fremur að fylgja trúðunum sem eru okkur betur að skapi. . .

Að fylgja leiðtogunum. Allt í lagi með það, en hvers konar leiðtogum? Eigum við að láta það okkur í léttu rúmi liggja þar sem þeir heita okkur gulli og grænum skógum? Eins lengi og slíkir leiðtogar uppfylla persónulegar þarfir mínar og valda mér ekki samviskukvölum? Drottinn minnir okkur á það að sannur leiðtogi sé sá sem segi SANNLEIKANN, hvenær og hvar sem ástæða er til og án þess að hugsa um eigin vinsældir eða að verða hafnað. Ef ótrúverðugir leiðtogar dafna og þrífast svo vel er fylgjendum þeirra um að kenna, þeim sem vilja einungis heyra það sem lætur vel í eyra og kemur þeim vel hverju sinni.

Já, það er ekki neinn skortur á leiðtogum. Við höfum leiðtoga sem tala fagurlega og gefa mikil fyrirheit. En að lokum eru það engu að síður leiðtogarnir sem eru einlægir og hafa gott eitt í huga sem við veljum. Fyrr eða síðar kemur hið sanna eðli þeirra í ljós. „Hvert eigum við að snúa okkur?“ Til leiðtoga sem eru raunverulegir leiðtogar, leiðtoga sem leiða okkur áfram í sannleika en ljúga ekki að okkur, sem hvetja okkur áfram til góðar verka, en eru ekki trúðar?

Í þessu samhengi skuluð þið íhuga orðið „God“ gaumgæfilega.“ Snúið bókstöfunum við og þá lesið þið orðið „dog“. Við eigum öll okkar val í lífinu, hvort við viljum koma til Guðs eða að fara í hundana. Okkur er öllum hollt að íhuga það á þessum degi hvert við stefnum og varast þá leiðtoga sem snúa öllu upp í ranghverfu sína!“

27.08.06 @ 20:41