« Um skyldur og ábyrgð kaþólskra útgefenda og þýðenda í löndum mótmælendaPrestkonungar Adamskynslóðarinnar – stutt athugasemd »

08.01.08

  09:48:27, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1957 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Evkaristían er ein og algjör: Líkami Krists í einingu Heilags Anda

Evkaristía kirkjunnar – sakramenti elskunnar – er ein og algjör, allur algjörleiki Krists sem Guðs og manns. Hún er brauð lífsins sem nærir alheimslegt samfélag kirkjunnar. Út frá kaþólsku sjónarhorni felur orðið „þjóðkirkja“ í sér þversögn. Fyrir siðaskiptin var rómversk kaþólska kirkjan á Íslandi hluti hins alþjóðlega samfélags kirkjunnar. Þetta blasir meðal annars við sjónum í fornleifauppgreftrinum á Skriðuklaustri. Þar fundu hinir sjúku og umkomulausu sér friðarathvarf: Líknarheimili (hospicio). Það var rekið á sama grundvelli og sambærilegar stofnanir á meginlandinu. Sama gilti um alla Guðs kristni. Til að mynda hafði verið rekið 600 manna líknarheimili í bænum Maldon í Essex á Englandi. Öll lagðist þessi starfsemi niður á þeim svæðum þar sem áhrifa mótmælenda urðu ríkjandi. Konungsvaldið sölsaði undir sig eigur kirkjunnar og slíkur rekstur var ekki „arðbær“ að mati lénsmanna konungsvaldsins.

Um aldir hafði það tíðkast að nauðþurftarmenn og þurfalingar gátu leitað heim á stólana eftir lífsbjörginni þegar svarf að alþýðu manna. Þess var gætt að smjörskemmurnar væru ávallt fullar. Þetta breyttist við siðaskiptin og frægt er þegar ein biskupsfrúa hins nýja siðar lét brjóta brúna á Brúará til að verja stólinn fyrir ágangi örbjargarfólks. Skömmu fyrir jól endurtók einn talsmanna lútersk evangelískra ( séra Geir Waage) þá söguskoðun, að siðaskiptin hafi meðal annars falist í því að „tryggja“ sjálfstæði kirkjunnar. Þetta er fjarri öllum sanni: Kirkjan var seld í hendur óvægins konungsvalds sem sölsaði undir sig eigur hennar. Þetta endurtók sig víða um lönd. Smáfurstar og veraldleg ráðsmennska komst hér „feitt!“

Þetta var ekkert nýmæli í kirkjusögunni vegna þess að þetta var „Akkilesarhæll“ býsönsku kirkjunnar. Keisarinn í Miklagarði var æðsti yfirmaður kirkjunnar sem gat sett henni stólinn fyrir dyrnar þegar honum þóknaðist. Þetta gerðist meðal annars þegar Leó keisari III (717-741) sendi mikinn flota til Rómar til að beygja hið heilaga Sæti til hlýðni á tímum íkonubrjótanna. Flotinn sundraðist í miklu óveðri á Miðjarðarhafi þannig að enn getum við notið íkonuarfleifðarinnar til fulls. Afstaða keisararans mótaðist að því að hann hafði gert samning við kalífann í Damaskus til að tryggja austurlandamæri býsanska ríkisins um að uppræta alla „skurðgoðadýrkun“ úr ríki sínu. Svo er Guði fyrir að þakka að á þessum tíma var andlegt vald stóls heil. Péturs sterkt og páfi kvikaði ekki frá afstöðu kirkjunnar, en á þessum tíma var það Gregor páfi II (713-31) sem falin hafði verin varðveisla lykla Péturs.

Benda má á dæmi um hið gagnstæða í sögunni, það er að segja veikt páfavald sem leiddi ávallt til ófarnaðar. Árið 809 lét Leó páfi III þannig rita Trúarjátninguna án „filioque“ á gröf hl. Pétur á grísku og latínu. Það var svo ekki fyrr en 1014 sem Henry II keisari kom því til leiðar að „filoque“ varð skotið inn í Trúarjátninguna. Á þessum tíma stóð Páfastóll höllum fæti og þarfnaðist stuðning keisarans að uppfylltu þessu skilyrði. Þetta var í fyrsta skiptið sem orðið var haft um hönd í messunni í Róm.

Ég ætla mér ekki að rekja hér í smátriðum þá hörmungarsögu þegar Feneyjarkaupmenn og síðar Mediciættin sölsuðu undir sig páfavaldið. Þetta undirstrikar einungis þá staðreynd að veikt páfavald leiðir ætíð til ófarnaðar fyrir kirkjuna þegar hún glatar sjálfsforræði sínu í hendur veraldlegra valdsmanna. Það sem ég ætla hins vegar að taka til umfjöllunar hér eru viðbrögðin. Þar er heil. Katrín frá Siena (1347-1380) okkur sem leiðarstjarna. Þessi ómenntaða alþýðustúlka sem lærði ekki að skrifa fyrr en hátt á þrítugsaldri breytti gangi kirkjusögunnar með eldheitum trúarhita sínum og bænalífi þannig að hún varð að andlegum og veraldlegum ráðgjafa páfa jafnt sem veraldlegra valdsmanna. Og þið megið trúa mér þegar ég segi að með eljusemi sinni og einurð lagði hún grundvöllinn að gagnsiðbótinni og ummæli hennar gera sjálfan Martein Lúter að hreinasta „pelabarni.“ Heil. Katrín sagði meðal annars: „Ég mun fara og ég mun gera það sem Heilagur Andi blæs mér í brjóst að gera.“ Lýsing hennar á prestastéttinni á þessu niðurlægingartímabili kirkjunnar er beinskeytt: „Leiðtogar kirkjunnar hafa ánetjast munaði og óhófslífi í stað þess að þjóna hinum snauðu og biskuparnir vígja menn í embætti sem draga dám af þeim sjálfum, „sveinstaula í stað fullþroska manna,“ „aula“ sem vart eru læsir og gætu aldrei beðið tíðagjörðina,“ sem kunna ekki latínu og geta ekki einu sinni farið rétt með texta gjörbreytingarinnar. „Í stað þess að nærast til fulls á hjálpræðinu við borð krossins, gera þeir krárnar að matborði sínu,“ og: „Þeir eru orðnir að „skepnum“ og „vita ekki einu sinni hvað býr tíðagjörðin að baki . . . djöflar og djöflum verri.“

En heil. Katrín brást við með þveröfugum hætti miðað við Lúter: Hún stóð sem klettur í kirkjunni og hljópst ekki á brott undan ábyrgð þeirri sem Heilagur Andi hafði lagt henni á herðar. Ásýnd kirkjunnar var svo afskræmd af syndum í augum Katrínar að henni fannst eins og sjálft hjarta hennar – kærleikurinn – hefði verið skorinn úr henni. Engu að síður trúði hún því af miklum ástríðuþunga að vegurinn til Krists lægi í gegnum kirkjuna sem hann elskaði: „Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar . . . án mín getið þér alls ekkert gjört“ (Jh 15. 5). Í huga Katrínar voru þetta ekki innantóm orð. Þrátt fyrir syndir sínar er kirkjan engu að síður hinn lifandi líkami Drottins og það er í henni sem hann heldur áfram að úthella blóði endurlausnar sinnar af nægtum í sakramentunum. Hún bað þá sem útilokaðir hafa verið frá þessu samfélagi kirkjunnar með bannfæringu eða sundrungu, að snúa að nýju til baka til uppsprettu lífs þeirra, til skírnarlaugarinnar og kvöldmáltíðarinnar sem veitir okkur líf.

„Rétt eins og sekt heimsins varð til þess að Endurlausnari mannkynsins kom til jarðar því til líknar, draga syndir kirkjunnar þennan sama Endurlausnara til örbirgðar hennar.“ Og það er kraftur hans eins sem megnar að græða hana og endurreisa sem samfélag hinna snauðu og auðmjúku. Katrín tók að gera sér ljóst, að rétt eins og rósin birtist einungis á milli þyrnanna, „öðlast kirkjan einungis græðslu í hreinleika með því að ganga í gegnum harmkvæli.“

Við skulum taka dæmi af skipshöfn og siglingu skipsins. Skipstjórinn er svo ólánssamur að hafa fjölmarga óhæfa yfirmenn og áhafnarmeðlimi. Þegar óveðrið skellur á fyllast þeir skelfingu og flýja frá borði á lífbátunum því að þeir eru sannfærðir um að skipið muni farast. Þetta voru viðbrögð mótmælenda við siðaskiptin, sömu viðbrögð og hjá fávísum manni sem verður að horfast í augu við það sem hann telur óleysanleg vandamál: Hann flýr land og verður sér úti um ríkisborgararétt í öðru landi þar sem hann verður að horfast í augu við sömu vandamálin í stað þess að stuðla að jákvæðari þróun heima. Fátkennd viðbrögð þeirra áhafnarmeðlima sem flúðu skip kirkjunnar fólust í því að fá sér annað skip og annað föruneyti þar sem veraldlegur skipstjóri (konungsvaldið) tók við skipstjórninni.

Þannig var Evkaristíunni og mætti hennar sem einingarafls kirkjunnar hafnað. Við skulum hlýða á hvað heil. Katrín hafði um hana að segja í riti sínu Samræðurnar (Diologo):

[Jesús sagði við heil. Katrínu]: „Það er öll hin guðdómlega verund sem þú meðtekur í hinu allra náðarsamlega sakramenti undir hvítleika brauðsins. Rétt eins og ekki er unnt að skipta sólinni, þannig er heldur ekki unnt að skipta algjörleika mínum sem Guð og maður í hinni hvítu hostíu. Jafnvel þó að þú gætir brotið hostíuna í þúsundir örsmárra mola yrði ég þar engu að síður sem algjör Guð og algjör maður.  

Settu þér fyrir sjónur að margt fólk kæmi með kerti og kerti eins vægi eina únsu, annars tvær eða sex, enn annars eitt pund og enn annars meira en það og allt kæmi það til ljósastikunnar til að kveikja á kertum sínum. Öll kertin – það smæsta rétt eins og það stærsta – bæru allt ljósið með öllum sínum hita, lit og skærleika . . . Jæja, svona hagar þessu til um alla þá sem meðtaka sakramentið. Hvert ykkar og eitt kemur með sitt eigið kerti, það er að segja þá heilögu þrá sem býr því að baki að þið meðtakið og etið sakramentið. Kerti ykkar sjálfra loga ekki, en það tekur að loga þegar þið meðtakið þetta sakramenti. Ég segi að það logar ekki á því vegna þess að í eiginn mætti eruð þið einskis megnug. Það er ég sem fært hef ykkur kertið í hendur og sem gerir ykkur kleift að meðtaka þetta ljós og næra hið innra með ykkur. Kertið ykkar er elskan vegna þess að ég skapaði ykkur í elsku og án elskunnar höndlið þið ekki lífið.

Mótmælendur treystu ekki á þetta ljós fremur en heilög sakramenti kirkjunnar. Erkidjákninn Demetrios Mysos var sendur til Wittenberg 1558 til að kanna nánar kenningar mótmælenda þegar þýðing á Augsburgarjáningunni lá þegar fyrir á grísku sem fulltrúi patríarksins í Miklagarði. Þetta kom í kjölfar þess að útséð var um að nokkrar sættir tækjust á milli mótmælendanna og rómversk kaþólsku kirkjunnar,
en á þessum tíma var Jeremías II (1536-1595) patríarki sem tekið hafði við af Metrophanes III sem varð að víkja úr embætti vegna háværra mótmæla innan grísku kirkjunnar, þar sem hann þótti vera of vilhallur Róm. Samskiptum mótmælenda og Orþodoxa lauk endanlega í júni 1581 þar sem patríarkinn tilgreindi ástæðurnar sem lágu því að baki að Réttrúnaðarkirkjan taldi sig ekki eiga neina samleið með mótmælendum meðal annars vegna þess að þeir höfnuðu sakramentunum sjö.

Eitt sakramentanna sjö er hjónabandssakramentið sem er nú sem þyrnir í fæti mótmælendakirkja í hinum vestræna heimi vegna þess að þeir hafa hafnað hjónabandi karls og konu sem sakramenti. Það leiðir ávallt til ófarnaðar þegar ákveðinn hópur (sem betur fer ekki fjölmennur) innan kirkjunnar hafnar hinni heilögu arfleifð og lætur undan ásókn veraldarhyggjunnar. Frelsi kirkjunnar felst ekki í slíkri afstöðu.

No feedback yet