« Um helgrímu dauðamenningar veraldarhyggjunnar og sannleika Orðs GuðsBergingarbæn – í tilefni stórhátiðar hins Alhelga Hjarta Jesú »

25.07.07

  07:42:20, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 804 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Eru konur ekki líka menn?

Svo hefur hlutast til á undanförnum árum að ég hef þurft að hafa töluverð samskipti við lúterskar konur í sambandi við útgáfustarfsemi. Þetta er tilefni spurningar minnar hér að ofan. Vissulega eru allar konur líka menn. Við erum öll sköpuð í „líkingu og mynd“ Guðs (1M 1. 26), en þetta felur í sér að öll berum við Guðsímyndina hulda hið innra eftir skírnina.

Lúterskar konur á Íslandi (og fjölmargar kaþólskar) eru helsýktar af þeim ofsafengna femínisma sem rekja má til þeirra Friedrichs Engels og frú Margrétar Sanger í Bandaríkjunum. Þetta er hugmyndafræði sem er komin beint úr herbúðum hins fallna verndarkerúba – Satans, og gengur þvert á boðskap heilagrar Ritningar.

Þessi þrýstihópur femínismans beitir afar keimlíkum baráttuaðferðum og ofsafengnir talsmenn samkynhneigðra. Samkvæmt lauslegri athugun á netinu er hér um þunnskipaðan hóp manna að ræða (um það bil 15) sem fara hamförum um íslenska netsvæðið. Í hvert sinn sem vikið er að samkynhneigð ryðjast þeir með offorsi inn í umræðuna og leitast við að einoka hana með orðhengilshætti sínum líkt og afstaða þeirra sé samþykkt og viðurkennd af stórum meirihluta fólks.

Sama má segja um femínistana. Þær taka heilu málaflokkana í „herkví“ og þar er guðfræðin ekki undanskilin. Í reynd hefur þeim orðið svo ágengt að segja má að þeim hafi auðnast að „terrorísera“ lúterska guðfræðinga. Þannig tala þessar „stelpur“ um „karllæga texta“ í heilagri Ritningu og að sjálfsögðu hlaupa „strákarnir“ á eftir þeim og hamast við að lagfæra þessa texta í nýju Biblíuþýðingunni til samræmis við óskir femínistanna.

Þetta er óaðskiljanlegur hluti veraldarhyggju nútímans (secularism) sem lagst hefur sem andleg eyðni á nútímamanninn og gengur langt inn í raðir kirkjunnar þjóna. Þannig spurði ein þessara kvenna mig að því við lestur prófarkar: „Er nauðsynlegt að skrifa Faðir, Sonur og Heilagur Andi með stórum staf?“ Þetta má einnig rekja til veraldarhyggjunnar. Veraldlega sinnaðir málsvísindamenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að skrifa beri Guð með litlum staf: guð. Þetta sjáum við alls staðar í veraldlegri umfjöllun í dag. Ástæðan er sú að þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu að Guð sé samheiti!!!

En í kristnum skilningi eru Persónur Guðdómsins lifandi persónur sem bera sérnöfn líkt og allir aðrir menn (og konur). Ekki þarf annað en að kíkja í rómversk kaþólskar Biblíur eða Biblíur Orþodoxa til að sannfærast um að þessi er raunin. Í rússnesku Biblíunni minni eru Persónur Þrenningarinnar að sjálfsögðu skrifaðar með stórum staf.

Hér erum við komin að kjarna málsins: Hinni heilögu arfleifð sem er líf kirkjunnar. Henni hefur lúterska kirkjan á Íslandi gleymt í undanlátssemi sinni við veraldarhyggjuna. Annað dæmi. Septuagintan (Sjötíumannsþýðingin) er Biblía kirkjunnar. Textinn er frá því um 272 f. Kr., eða sá elsti sem til er. Við rannsóknir á Dauðahafshandritunum hefur komið í ljós hversu nákvæmur hann er. Og ég hef áður vikið að því í skrifum mínum hér á Kirkjunetinu, að við samanburð á Septuagintunni og samversku Biblíunni er til að mynda mikil samhljóðan í öllum ártölum. Ástæðan er einföld: Samverjar hafa ekki verið að „rótast“ í ártölunum eins og rabbíarnir í masóríska textanum.

Rabbíarnir hafa hamast við það síðan um 130 e. Kr. að falsa ártölin til að „sanna“ að Kristur sé ekki Messía. Vitaskuld leggja lútersku guðfræðingarnir masóríska textann til grundvallar í nýju Biblíuþýðingunni sinni. Og þrátt fyrir að málvísindakonan Guðrún Kvaran hafi vakið athygli á því að „karllægir“ textar séu fyllilega í samræmi við íslenska málhefð, skal fremur hlýða einstrengislegri afstöðu femínistanna og hreinsa textann og lagfæra.

Í augum kirkjunnar er hér einungis um gárur á vatni tímans að ræða sem koma hinni heilögu arfleifð ekkert við. En ástandið er orðið svo átakanlega dapurlegt innan lútersku kirkjunnar, að ég myndi ráðleggja sérhverjum íslenskum guðfræðingi sem vill þjóna Drottni vel að fara á námskeið – annað hvort í Róm eða Þessaloníkeu – til að kynna sér hina heilögu arfleifð.

Höldum vöku okkar, kæru bræður og systur. Virðum arfleifð hinna heilögu feðra og mæðra: Hinna heilögu! Og skrifum ávallt Faðir, Sonur og Heilagur Andi.

3 athugasemdir

Athugasemd from: Gretar Einarsson  
Gretar Einarsson

Þetta er nú alveg hárrétt; að þrenninguna á að skrifa með stórum staf. En hvað hefur þetta að gera með femínisma og samkynhneigð? Nákvæmlega ekki neitt. En hvað varðar nákvæmlega það (samkynhneigð og femínisma, eða kvenfrelsi) þá verð ég að viðurkenna að mér þykir ásjóna páfa vera sem helgríma karlægrar hómófóbískrar gagnkynhneigðarrembu, sem of lengi hefur heltekið samfélög og ekki bara trúarlega heldur einnig veraldlega. Sem betur fer hefur sú remba átt í vök að verjast og mun eiga það áfram. Hvað þetta hefur nákvæmlega að gera með það sem að ofan er ritað veit ég ekki nákvæmlega, ekki frekar en ég veit hvað femínismi og samkynhneigð hafa með það að gera hvort heilaga þrenningu á að skrifa með stórum eða litlum staf!

28.07.07 @ 18:48
Athugasemd from: Grétar Einarsson  
Grétar Einarsson

Rétt að biðjast afsökunnar á að hafa skrifað Þrenninguna með litlum staf. Svona getur manni nú yfirsést.

29.07.07 @ 13:18
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Errarum humanum est, uterque ipse communisque!

29.07.07 @ 14:12