« Miðstöð samkynhneigðra í Los Angeles viðurkennir að AIDS sé einkum þeirra sjúkdómurBush gegn nýtingu stofnfruma úr mannsfóstrum »

25.10.06

Eru “augljósar mótsagnir” í Biblíunni, m.a. um samkynja mök fólks? Skoðanaskipti við ritstjóra um forvitnileg mál

Enn glíma Þjóðkirkjuprestar og margir trúaðir við ráðgátur um réttan skilning Heilagrar ritningar, m.a. hvort hún hafi komizt í mótsögn við sjálfa sig, t.d. í einu mesta deilumáli samtímans. Eftirfarandi bréfaskipti mín og eins ágæts ritstjóra Morgunblaðsins taka á því máli og geta e.t.v. orðið öðrum gagnleg. Hér er t.d. drepið á sköpunartrú, kvennakúgun, þrælahald og samkynhneigð.

Fyrra bréfið til Morgunblaðs-ritstjóra um “augljósar mótsagnir” í Biblíunni um atriði sem snerta samkynhneigða, en einnig ýmsa aðra hluti:

Til ritstjóra Morgunblaðsins . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 30. des. 2005.

Sælir og blessaðir, ágætu Styrmir, Karl og Ólafur, á þessari jólahátíð. Staksteinar ykkar frá 27. des. standa í mér. Þar eru gerðar athugasemdir við grein á Vef-þjóðviljanum (þar sem fjallað var um samband kristinnar trúar og stjórnmála), en ekki látið nægja að beina gagnrýninni þangað, því að ekki verður annað séð en að Staksteinar fullyrði, að "augljósar mótsagnir" séu í Ritningunni varðandi mál samkynhneigðra (sjá textann hér neðar).

Nú hlýt ég að spyrja: Hvaða "mótsagnir" eru í því málefni í Biblíunni, og hvernig geta þær verið "augljósar" þegar t.d. maður, sem hefur lagt stund á guðfræði í meira en áratug og íhugað Ritninguna í meira en aldarþriðjung, kemur ekki auga á þær? Þætti mér vænt um að fá svar við þessu.

Hingað til hefur Morgunblaðið ekki tekizt á hendur að halda því að lesendum sínum, að Biblían sé með "augljósar mótsagnir" um siðferðismál. Ótaldar þúsundir Íslendinga eru þeirrar trúar, að hún sé Guðs orð, innblásin af honum og að Nýja testamentið sé bæði traust og áreiðanlegt í trúar- og siðferðisefnum. Varla er það vilji blaðsins að senda þessum kristnu lesendum þau skilaboð, að Ritningin sé ekki marktæk vegna "augljósra mótsagna" í henni, eða hvað á maður að halda?

Morgunblaðið hefur ekki verið hlutlaust í málum sem snerta samkynhneigð og kristindóm, og hér er enginn krafa til þess gerð, enda er blaðið opið fyrir greinum um þau efni á báða bóga. En birtist í rauninni ein grundvallar-forsenda ritstjórnargreina blaðsins um þau mál í staðhæfingunni sem vísað var til í 1. klausu þessa bréfs? Sú forsenda hefur þó mér vitanlega ekki komið fram áður í ritstjórnarskrifum ykkar. Og ekki er borið við að rökstyðja hana í Staksteinapistlinum. Er þá ekki eðlilegt, að sá, sem þar hélt um pennann, geri betur grein fyrir því, hvað hann er að fara og hvaða rök, ef einhver, búi þar að baki? Sé þar aftur á móti byggt á misskilningi á einhverjum hluta Ritningarinnar, eins og mér dettur helzt í hug, er vitaskuld hið ágætasta mál, að úr þeim misskilningi verði greitt, svo að ekki standi hann neinum fyrir þrifum, þegar reynt er að átta sig á siðaboðskap Nýja testamentisins um mök fólks af sama kyni, boðskap sem í rétt skilinni merkingu sinni hlýtur að vera tekinn alvarlega af kristnu fólki.

Með vinsemd og virðingu og ósk um farsælt nýtt ár, – Jón Valur Jensson.

Lokaklausa Staksteina 27. des.:
"... Vef-þjóðviljinn nefnir engin dæmi um það síðastnefnda, en ætla má að t.d. sé átt við deilur um afstöðu kirkjunnar til samkynhneigðra og hjónabands þeirra. Og þá gleymist kannski eitt hjá Vef-þjóðviljanum. Deilur um slík mál eru ekki bara deilur hinna trúlausu og hinna trúuðu, heldur ekki síður deilur hinna trúuðu um túlkun á ritningarstöðunum; á hverju beri t.d. að taka mark þegar augljósar mótsagnir eru í ritningunni. Og í slíkum deilum er stundum enn erfiðara fyrir menn að setja sig í annarra spor en þegar sá trúaði og hinn trúlausi deila."

–––––––––––––––––––––
Mánud. 2. jan. 2006 fekk ég þetta vinsamlega svar frá Ólafi Þ. Stephensen aðstoðarritstjóra (og nógu örstutt og laust við persónulegt innihald til þess að ég telji óhætt að birta það, og eitt er víst, að ekki birti ég þetta Ólafi til neinnar hneisu, enda fetti ég ekki fingur út í eitt einasta orð í þessum stuttu skilaboðum):

“Sæll og gleðilegt ár.

Þessi gamli leiðari hjálpar þér kannski að skilja okkar sjónarmið – a.m.k. vil ég ekki útiloka það fyrirfram!

Kv. ÓÞS”

[Aths. JVJ: Bréfinu fylgdi sá leiðari, sem ég læt fylgja hér með. Þar á eftir kemur svo sundurliðað svar mitt eða rökræða út frá þeim röksemdafærslum sem í þessum leiðara er að finna.]

Föstudaginn 30. apríl 2004 – Ritstjórnargreinar [Mbl.]

Þekking og kærleikur

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sagði í ræðu sinni á prestastefnu Þjóðkirkjunnar á þriðjudag að samkynhneigðir væru velkomnir í samfélag Þjóðkirkjunnar. "Samkynhneigðir eru sem aðrir umluktir náð og fyrirgefningu Jesú Krists, og eiga á grundvelli skírnar sinnar og trúar sjálfsagðan sess í kristnu samfélagi um orð Guðs og borð. Við verðum að gefa því gaum að samkynhneigðir þurfa oft að líða þjáningar vegna andúðar og fordóma. Þeir þurfa því umhyggju og stuðning hins kristna samfélags til að endurheimta og varðveita jákvæða sjálfsmynd sem Guðs börn og hluti hans góðu sköpunar," sagði biskup.
Hann greindi jafnframt frá skipan starfshóps um málefni samkynhneigðra innan kirkjunnar, sem á að starfa í tengslum við endurskoðun fjölskyldustefnu hennar.
Hvort tveggja er þetta jákvætt og til marks um að biskup vill koma til móts við samkynhneigða, sem hafa gagnrýnt að innan kirkjunnar sé litið svo á að bæði tilfinningar þeirra og samlíf sé syndsamlegt og þeim sé þannig í raun úthýst úr samfélagi hennar.

En biskup stígur ekki skrefið til fulls. "Hvað varðar kröfuna um hjónavígslu samkynhneigðra vil ég segja að ég hef látið prestum sem eftir hafa leitað í té form fyrir fyrirbæna- og blessunarathöfn yfir samvist samkynhneigðra," sagði hann í ræðu sinni. "Það er ekki opinbert ritúal, og ekki hjónavígsla, heldur á vettvangi sálgæslunnar og því getur hver og einn átt við samvisku sína að standa að slíkri athöfn eða ekki."
Þetta breytir í raun engu um afstöðu kirkjunnar til hjónabands samkynhneigðra. Það að hvorki skuli vera um opinbert ritúal að ræða, né prestar almennt skyldugir að blessa samband samkynhneigðra para, þýðir að kirkjan heldur þessum hópi enn armslengd frá sér.

Í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í miðvikudagsblaðinu sagði biskup að í skilningi kirkjunnar um aldir og árþúsundir væri hjónabandið sáttmáli karls og konu og ekkert annað. Djúpstæður ágreiningur væri innan kirkjunnar, sem stæði fyrst og fremst um það hvort hægt væri að leggja samvist samkynhneigðra að jöfnu við hjónaband karls og konu. Aðspurður hvort slíkt væri hægt, svaraði biskup: "Nei, ég sé það ekki fyrir mér. Allavega ekki í fyrirsjáanlegri framtíð. Við erum með mörgþúsund ára gamla samfélagsskipan og mannskilning sem erfitt er að horfa framhjá."

Kirkjan stendur á árþúsunda gömlu bjargi. En skoðanir hennar á umhverfi sínu eru langt frá því að vera óumbreytanlegar. Stundum breytast þær vegna nýrrar þekkingar – fáir kirkjunnar menn halda því orðið fram að jörðin sé miðja alheimsins eða að sköpunarsagan sé annað en góð dæmisaga um fyrirbæri, sem enginn skilur enn til fulls. Aðrar breytingar á viðhorfum kirkjunnar hafa orðið í takt við almenna viðhorfsbreytingu, sem er vel samrýmanleg kjarna kristins boðskapar, um náungakærleik, manngildi og mikilvægi einstaklingsins. þá hefur fastheldni við einstaka ritningarstaði, sem hið gamla viðhorf byggðist á, ekki staðið í vegi. Í tvö þúsund ára gömlum skrifum Páls postula er til dæmis að finna réttlætingu á þrælahaldi og hvatningu til kvenna að vera eiginmönnum sínum undirgefnar. Þar lýsir Páll líka andstyggð sinni á samkynhneigð, eins og þeir vitna gjarnan til sem telja hana syndsamlega. En hefur ekki bæði þekking manna og viðhorf í þessum efnum breytzt frá dögum Páls postula – og að hluta til skoðanir kirkjunnarð Kirkjan hefur þannig öldum saman barizt gegn þrælahaldi undir merki kærleikans. Á síðari árum hefur hún sömuleiðis viljað stuðla að jafnrétti kynjanna og á prestastefnu minnti Karl Sigurbjörnsson á átak kirkjunnar í ofbeldi gegn konum, enda vitum við nú að slíkt ofbeldi er alvarlegt vandamál, þótt það hafi lengi verið falið. Eru ekki sömu forsendur til að endurmeta afstöðu kirkjunnar til samkynhneigðar, nú þegar þekking og umræður um málið eru miklu meiri en áður og fæstir trúa bábiljum á borð við að samkynhneigð sé áunnin eða meðvitað val fólks, að hægt sé að "lækna" fólk af henni og þar fram eftir götunum?

Eins og Morgunblaðið hefur áður bent á, snýst spurningin, sem kristnir menn standa frammi fyrir hvað varðar afstöðuna til samkynhneigðra, um það hvort halda beri fast við nokkra ritningarstaði, þar sem samkynhneigð er fordæmd sem synd eða hvort þeir eigi að gangast undir þá frumskyldu sína að sýna náunga sínum skilyrðislausan kærleika. Og svarið er auðvitað að finna hjá Páli postula sjálfum: "Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt [...] Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok, og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok. Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum."

Kirkjan hefur skipt um skoðun á svo mörgu, í vísindum jafnt sem samfélagsmálum, að það dugar einfaldlega ekki að vísa til "þúsund ára gamallar samfélagsskipunar og mannskilnings" í þessu efni. Kirkjan á vissulega ekki að skipta um skoðun á öllu milli himins og jarðar, hún á ekki að fljóta með tímans straumi. Hún á að vera íhaldssöm í ýmsum efnum.
En í þessu efni á hún að skipta um skoðun. Hvers vegna? Vegna nýrrar þekkingar og undanhalds gamalla fordóma. Vegna þess að það mun styrkja fjölskylduna að samkynhneigð pör geti sótt blessun og vígslu sambands síns til kirkjunnar. Vegna þess að það mun efla kirkjuna og færa stóran hóp fólks nær henni en áður. Vegna þess að það er í þágu kærleikans.

–––––––––––––––––––––
Svarbréf mitt til Ólafs, 3. jan. 2006 (afrit sent hinum ritstjórunum tveimur):

2. og aðfn. 3. jan. 2006.

Sæll, Ólafur, og þakka þér þá vinsemd að svara bréfi mínu vegna Staksteina ykkar 27. des.

Þótt ég tali í bréfinu um, að einni spurningu væri þar beint til ykkar, bættust þrjú spurningarmerki við, og þetta eru spurningarnar, sem allar snúast þó um sama málið, meintar mótsagnir í Biblíunni:

1. Hvaða "mótsagnir" eru í því málefni í Biblíunni, og hvernig geta þær verið "augljósar" þegar t.d. maður, sem hefur lagt stund á guðfræði í meira en áratug og íhugað Ritninguna í meira en aldarþriðjung, kemur ekki auga á þær?
2. Varla er það vilji blaðsins að senda þessum kristnu lesendum þau skilaboð, að Ritningin sé ekki marktæk vegna "augljósra mótsagna" í henni, eða hvað á maður að halda?
3. En birtist í rauninni ein grundvallarforsenda ritstjórnargreina blaðsins um þau mál í staðhæfingunni sem vísað var til í 1. klausu þessa bréfs? [þ.e. að "augljósar mótsagnir" séu í Biblíunni]. (Sú forsenda hefur þó mér vitanlega ekki komið fram áður í ritstjórnarskrifum ykkar. Og ekki er borið við að rökstyðja hana í Staksteinapistlinum.)
4. Er þá ekki eðlilegt, að sá, sem þar hélt um pennann, geri betur grein fyrir því, hvað hann er að fara og hvaða rök, ef einhver, búi þar að baki?

Og nú sit ég hér, kæri Ólafur, fyrir framan tölvuna með þetta svar þitt fyrir augum – tilvísun í ritstjórnargrein ykkar frá 30. apríl 2004, sem fór þó ekki fram hjá mér, – og þar á ég að finna hjálp til að skilja sjónarmið ykkar þriggja. Gott og vel, ég skal reyna.

Í upphafi kemur þar fram það viðhorf Karls biskups, að samkynhneigðir séu velkomnir í samfélag Þjóðkirkjunnar og að þeim standi náð og fyrirgefning Jesú Krists til boða, enda þurfi þeir á umhyggju og stuðningi hins kristna samfélags að halda "til að endurheimta og varðveita jákvæða sjálfsmynd sem Guðs börn og hluti hans góðu sköpunar." So far, so good.

En þið teljið biskupinn ekki stíga skrefið til fulls, þegar hann leyfir blessun samkynhneigðra, en ekki hjónavígslu þeirra. Og vegna þess að blessunarrítúalið er ekki opinbert né prestum skyldugt að framkvæma það [viljið þið, frjálshugsandi menn, láta þvinga þá til þess?!], þá ályktið þið: "kirkjan heldur þessum hópi enn armslengd frá sér".

Og nú kemur loks að rökunum fyrir því viðhorfi ykkar að gagnrýna tregðu biskups til að vígja samkynhneigða í hjónaband. Þar nýtist ykkur fyrst og fremst það álit, sem biskup hafði látið í ljós í viðtali, "að í skilningi kirkjunnar um aldir og árþúsundir væri hjónabandið sáttmáli karls og konu og ekkert annað." Og þið viðurkennið, að "Kirkjan stendur á árþúsunda gömlu bjargi," en svo bætist það við, sem á að heita rök ykkar (hér neðar) fyrir því, að "skoðanir hennar á umhverfi sínu" megi ekki "vera óumbreytanlegar." – En hér er í 1. lagi ekki um "skoðun" að ræða, heldur trú, sem er sannfæring (Hebr.11.1) og byggð á heilagri Ritningu.

En áfram með rökleiðslu ykkar. Þið tínið til þá skoðun, "að jörðin sé miðja alheimsins" – og ætlið kirkjuna greinilega að hafa verið þessarar skoðunar, eins og sú skoðun hafi tilheyrt boðskap hennar sem slíkrar, sem ekki var þó í raun, því að engin lúthersk né kaþólsk trúarjátning (confessio) eða trúarsetning (dogma) snýst um þessa jarðmiðjutheoríu; – og þið bætið svo þessu við um aðra afstöðu, sem kirkjan hafi haft: "eða að sköpunarsagan sé annað en góð dæmisaga um fyrirbæri, sem enginn skilur enn til fulls." En sköpunarsagan (sem er reyndar ekki aðeins að finna í I.Mós.1–2) er ekki dæmisaga (parabóla), heldur miklu fremur tjáning staðreynda um, að veröldin sé sköpunarverk Guðs, og sett fram í ljóðrænu og skáldlegu formi (eins og málvinur Styrmis, dr. Þórir Kr. Þórðarson, prófessor í GT-fræðum, hefði getað útlistað miklu betur). Ein staðreyndin, sem þar er játuð – og tilheyrir bæði postullegu trúarjátningunni og Níkeu- eða messujátningunni – er sú, að Guð sé "skapari himins og jarðar, alls hins sýnilega og ósýnilega." Ekkert af þessu er úr gildi fallið í kristinni trú, enda er það ekki skoðun, heldur óhvikul trú – trú sem fengin er með því að treysta vitnisburði spámanna og sjáenda frá Guði og Kristi sjálfum sem kallaði einmitt Guð "skaparann" (Mt.19.4). Til eru önnur trúarbrögð og heimsskoðanir, sem eru ekki á þessu máli, en það álit samrýmist ekki þessari óbifanlegu gyðing-kristnu trú.

Vissulega má búast við, að merkingin í tali ykkar um "sköpunarsöguna" snerti kannski fremur sex daga sköpunina og að allt lífríkið hafi nánast orðið þá til á svipstundu (andstætt þróunarkenningunni). En bæði Ágústínus kirkjufaðir, Thómas Aquinas og aðrir kennifeður kristninnar voru með það á hreinu, að hver "dagur" þar þyrfti ekki nauðsynlega að tákna dag í okkar dagsdaglegu merkingu (gæti t.d. táknað árþúsundir), og Lúther, fyrrum munkur af reglu Ágústíníana, hefur auðvitað þekkt til þess viðhorfs líka og mótmælti því mér vitanlega ekki. Allir voru þeir sammála þeim kjarna sköpunarsögunnar, að Guð skapaði allar lífverur jarðar og að sköpunarverkið var "mjög gott" ["harla gott" er farið að hljóma sem understatement, en á ensku t.d. er þetta yfirleitt "very good", og sú er merkingin], andstætt maníkeisma o.fl. hugsunarstefnum og þeirri hjátrú, að efnið eða vissir hlutar efnisheimsins væru af hinu illa. (Ergo: líkaminn t.d. og samlífi karls og konu er ekki í sjálfu sér af hinu illa skv. kristinni trú.) Þannig að það er margt mjög pósitíft og jákvætt í sköpunarsögunni, að ógleymdu því, að Eva sé mynduð "af rifi Adams", en það er hebreskur þankagangur (kenndi dr. Þórir okkur), skáldleg (poetic) mynd sem tjáir þann grundvallarsannleik, að konan sé af sama eðli og maðurinn, mynduð af sömu innstu verunni, hjarta hans næst, og standi honum því nær en nokkuð annað í sköpunarverkinu, enda er hún loks verðug meðhjálp (helpmate, segja enskir) við mannsins hæfi og Adam látinn segja: "Þetta er loks hold af mínu holdi og bein af mínum beinum" – og þetta aðskilur Gyðingdóminn þá strax frá ýmsum trúarbrögðum Miðausturlanda í fornöld, þar sem konan var álitin óæðra eðlis eins og þrælar og þjenustufólk.

Sjáið þið ekki meininguna í hinu gyðing-kristna heimsviðhorfi rísa hér smátt og smátt upp úr öllum þeim moðreyk sem margir hafa kosið að umlykja þessa Biblíukenningu? En sköpun lífs á einni viku eða milljónum ára, það er í raun ekki jafnmikið grundvallarmál og hitt, hvort lífið sé til orðið fyrir milljarða tilviljana eða vegna sköpunarmáttar Guðs; tímaspursmálið er sem sé aðeins aukastef við þá grundvallarspurningu, hvort til sé skapari, sem hafi hrundið þessu öllu af stað og fylgt því eftir, og það eru mjög margir kristnir menn (og ekki síður lútherskir) sem trúa á tilvist skapara, en afneita því samt ekki, að sköpun hans geti hafa átt sér stað í mörgum þróunarstigum á milljörðum ára. Að fullyrða að það sé í andstöðu við 1. kafla Biblíunnar – sem t.d. kaþólskir fræðimenn Vatíkansins viðurkenna eða öllu heldur fullyrða, að sé hvorki líffræði né eðlisfræði jarðar og heims – það er að ganga í einhliða átt í þvingaðri túlkun.

“Þá hefur fastheldni við einstaka ritningarstaði, sem hið gamla viðhorf byggðist á, ekki staðið í vegi,” segir þessi leiðari ykkar, og nú er slegið út trompinu:

“Í tvö þúsund ára gömlum skrifum Páls postula er til dæmis að finna réttlætingu á þrælahaldi og hvatningu til kvenna að vera eiginmönnum sínum undirgefnar.”

Þessu fyrrnefnda hafna ég. Páll er ekki að réttlæta þrælahald í Kólossubréfinu, þrátt fyrir orð þín, Ólafur, á þann veg í ræðu þinni í Dómkirkjunni 17. marz 2002 ( http://www.domkirkjan.is/predikun%D3%DES1.htm ), þar sem þú minnist á "ritningarstaði sem réttlæta þrælahald, til að mynda í þessu sama bréfi Páls" [Kólossubréfinu]. Orð hans þar um þræla eru annars vegar töluð til þeirra sjálfra (Kol.3.22–25) og hins vegar til þrælahaldara (4.1). Fyrrnefndu versin eru ekki skrifuð til að réttlæta þrælahald út á við, heldur töluð inn í aðstæður þræla, beint til þeirra sjálfra, og þeim bent á, að þeir muni fá arftökuna af Drottni í endurgjald ekkert síður en aðrir, enda er það einmitt í þessu bréfi sem hina frægu setningu Páls er að finna, að hér (í hinu kristna lífi) sé "ekki grískur maður né Gyðingur, umskorinn né óumskorinn, útlendingur, Skýti, þræll eða frjáls maður, heldur er Kristur þar allt í öllum" (Kol.3.11). En í Kol. 4.1 áminnir Páll þrælahaldarana með þessum orðum: "Þér drottnar, veitið þrælunum það sem rétt er og sanngjarnt, og vitið, að einnig þér eigið Drottin á himni." Í Fílemonsbréfinu rís svo umræða Páls um þræl og þrælahald hæst, og er þar auðséð á öllu, að hann leggur þar mjög fast að kristna þrælahaldaranum Fílemon að meðtaka strokuþræl sinn Ónesímus sem elskaðan kristinn bróður, eins og væri það Páll sjálfur (vinur Fílemons). Hef ég nýlega um það fjallað á bloggsíðunni http://blog.central.is/brynjarm?page=comments&id=1243770 (sem er einmitt umræða út frá grein Brynjars Más Brynjarssonar, 'Sitt sýnist hverjum', um málefni samkynhneigðra, í Mbl. í desember), sjá þar innlegg mitt 19.12. 2005 kl. 2:59, og vík ég þar líka að fullyrðingum um “kvennakúgunar”-afstöðu Páls postula, sem eru þér, Ólafur, ofarlega í huga, og vona ég að þú lesir svör mín um það líka.

En hvað þrælahaldið varðar, máttu vera þess minnugur, að Kristur sendi ekki út neitt boð til lærisveina sinna um að þeir ættu að krefjast tafarlausrar lausnar allra þræla, né heldur hvatti hann til þrælauppreisnar, enda óvíst, hvort kristindómurinn hefði þá átt nokkurn möguleika á öðru en stöðugri ofsókn og að lokum útrýmingu í Rómaveldi. Þetta hlaut Páll að vera sér meðvitaður um. [1] Átti hann þá að hafa frumkvæði um svo róttæka þjóðfélagsbreytingu, sem meistari hans og Drottinn hóf ekki? Og hefði þrælauppreisn í raun fært þeim frelsi? Ekki var uppreisn Spartakusar og kvalafull fjöldakrossfesting þúsunda þræla til merkis um það. Hitt gerði Páll hikstalaust, að sá fræjum mannúðar og mildi og virðingar fyrir þrælum allt eins og öðrum mönnum sem sköpuðum í mynd Guðs og fullgildum erfingjum Guðs ríkis. Með tímanum vann það allt gegn þrælahaldinu. Kaþólska kirkjan hefur t.d. um eitt og hálft árþúsund beitt sér gegn þessu óréttlæti, og hver páfinn á fætur öðrum allar götur út miðaldir fordæmdi þrælahald og einnig þrælaflutninga til Nýja heimsins – sjá t.d. vefsíðuna 'Roman Catholic Church Opposition to Slavery' á vefsl. http://medicolegal.tripod.com/catholicsvslavery.htm – að ógleymdum öðrum kristnum áhrifamönnum eins og Jústiníanusi keisara á 6. öld, Elfráði ríka í Englandi á 9. öld, Granville Sharp, Fox, Wilberforce lávarði, Douglass, Beecher Stove, Abraham Lincoln o.m.fl., sem af kristinni manngildishugsjón börðust fyrir afnámi þrælahalds (sjá bókina Þrælahald – saga mikils mannkynsböls í máli og myndum eftir Susanne Everett, í þýðingu Dags Þorleifssonar).

"Þar [í skrifum Páls postula] lýsir Páll líka andstyggð sinni á samkynhneigð, eins og þeir vitna gjarnan til sem telja hana syndsamlega," segið þið enn í gamla leiðaranum. Svar: Páll talar þar ekki um andstyggð (en segir þó margt annað í gagnrýni sinni á kynmök fólks af sama kyni), en "andstyggð" er reyndar orð lögmálsins um þetta (III. Mós.). Hitt skiptir reyndar ekki síður máli: Eru kynmök karla við karla objektíft talað "synd"? Miðað við fyrirliggjandi staðreyndir um, hversu stórfelldlega margir alvarlegir sjúkdómar herja á homma (ég hef ógrynni uppl. um það) [2], og ef við sömuleiðis samþykkjum þessa setningu heimspekingsins fræga, Herberts Spencers: "Að spilla heilsu sinni er ætíð syndsamlegt" (Um uppeldi barna og unglinga, Rv. 1884, s. 116, sjá nánar þar fyrr), þá verða slík kynmök (eins og margt annað) óhjákvæmilega að teljast synd og það á mannlegan mælikvarða.

“En hefur ekki bæði þekking manna og viðhorf í þessum efnum breytzt frá dögum Páls postula - og að hluta til skoðanir kirkjunnar?” segið þið síðan í leiðaranum og bætið við stuttu seinna, eftir tal um að kirkjan hafi viðurkennt jafnrétti kynjanna:

“Eru ekki sömu forsendur til að endurmeta afstöðu kirkjunnar til samkynhneigðar, nú þegar þekking og umræður um málið eru miklu meiri en áður og fæstir trúa bábiljum á borð við að samkynhneigð sé áunnin eða meðvitað val fólks, að hægt sé að "lækna" fólk af henni og þar fram eftir götunum?”

Hvaða þekkingu ertu að tala um? Það hefur alls ekki verið sannað, að samkynhneigð stafi af arfgengi einvörðungu eða að allir samkynhneigðir séu með arfgenga hneigð í þessa átt. [3] Eftir að hafa legið lengi í lesa mér til um þessa hluti mánuðum og árum saman verð ég að lýsa mig sammála vini mínum Guðmundi Pálssyni lækni, sem telur að um samkynhneigð kunni að gilda það sama og um alkóhólisma o.fl. kvilla, að hjá sumum mönnum eiga erfðaþættir og ættarsaga þarna stærstan hlut að máli [sjá þó nmgr. [3] hér á eftir!], en hjá öðrum mönnum sé það alls ekki svo, heldur uppeldis-, sálræn og félagsleg áhrif o.fl. (samkynhneigðir hafa t.d. margfaldlega á við gagnkynhneigða orðið fyrir kynferðislegri misneytingu af hálfu aðila af sama kyni á yngri árum). Tvíburarannsóknir sanna heldur ekki erfðakenninguna nærri nógu sterkt eða afgerandi um tvíburana sjálfa, hvað þá önnur systkini, og 'hommagenið' er enn ófundið.

Ég á hér mikið efni um þessi mál, sem ég á eftir að birta með tilvísunum til fjölda heimilda, en vil ekki orðlengja þetta bréf, nefni þó einn texta handa ykkur hér og nú: kaflann Examining Criterion #3: Immutable Characteristics í greininni 'Gay "Marriage"?' eftir Anton N. Marco – á http://www.leaderu.com/jhs/marco.html – en verð ennfremur að bæta því við, að það eru engar bábiljur trúarofstækismanna, að hægt sé að "lækna" samkynhneigð – meðferð sálfræðinga við henni virðist að meðaltali virka að fullu í um 28% tilvika, en í rúmlega 30% tilvika virkar hún eitthvað í áttina (sbr. ýtarlegan kafla og niðurstöðutölur margra rannsókna á þessu í riti eftir Stanton Jones, Ph.D., og Mark A. Yarhouse, Psy.D.: Homosexuality: The Use of Scientific Research in the Church´s Moral Debate, 2000). [4]

Auðvitað eru við komnir "út fyrir efnið" okkar upphaflega með öllu þessu skrifi, en svo langt þurfti ég þó að seilast, þegar leitað var frumforsendna fyrir Staksteinagreininni og ritstjórnargrein Mbl. í fyrsta blaði ársins 2006 um mál samkynhneigðra. Þannig hef ég þá fyrir augunum ýmsar staðhæfingar þessa rykfallna leiðara frá 2004, þar sem fram koma ýmsar rangar forsendur að mínu mati. Og það hlýt ég þá að ítreka við þig, að mál er að endurskoða þá afstöðu ykkar, að Biblían sé með "augljósar mótsagnir" um þessi siðferðismál. Tal um nauðsyn kærleika og opins faðms Þjóðkirkju sem hýsa eigi alla breytir engu um það. Hún meðtekur samkynhneigða vissulega, því hafna ég ekki, en á hvaða forsendum? Á hún að gera það á þeirra forsendum – eða á forsendum Guðs og trúarinnar? Ef systkini ganga að altarinu og beiðast giftingar, á þá kirkjan að verða við því? Ef maður vill bæta við annarri konu eða ef kona vill bæta við sig tveimur mönnum, á þá kirkjan að verða við því? Ef óskírður maður kemur til kirkju og beiðist skírnar, en segist þó aðspurður hvorki vilja trúa á Heilaga Þrenningu né tilvist Guðs, á þá prestur að verða við þeirri bón? Nei, ekki á þessum forsendum mannsins, heldur eingöngu á forsendum kirkjunnar, samkvæmt hennar skilmálum (með trúfræðslu fyrst og síðan með einlægri, kristinni trúarjátningu mannsins), en þeir skilmálar kirkjunnar mótast af skilmálum Guðs orðs. Er þetta ekki nógu ljóst, og á ekki það sama við um samkynhneigða? Það getur líka verið kærleikur að segja nei, eins og ein kona skrifaði í Mbl. fyrir nokkrum misserum, þar sem hún réttlætti þá ákvörðun sína að leyfa dóttur sinni ekki að fara í vafasama verzlunarmannahelgarferð með eftirlitslausum unglingahópi.

Svar þitt eða tilvísun var stutt, Ólafur (en bréf mín löng!). En einmitt af því, að í raun segirðu svo ósköp lítið með þessu svari þínu – bara ábending á leiðara, sem kynni að hjálpa mér "kannski að skilja okkar [ykkar] sjónarmið," en sagðir ekkert frekara þar um þína eigin afstöðu – þá tel ég engan trúnað rofinn þótt ég sendi hinum ritstjórunum afrit af þessu bréfi, enda var leiðarinn væntanlega skrifaður í nafni ykkar allra.

Með einlægri ósk um gleðilegt nýtt ár hjá þér og öllum þínum, sem og góðri nýárskveðju til Styrmis og Karls, – Jón Valur Jensson.

––––––

Athugasemdir (bætt við hér á þessari netsíðu):

[1] Hér má bæta því við, að rangt væri að ætla Páli þá ósvinnu að hafa sett í þessu efni reglur sem stangazt hafi á við það, sem Kristur hefði boðað lærisveinum sínum, og að postulinn hafi þannig orðið upphafsmaður að e.k. gagnbyltingu gegn upphaflegri kenningu Krists. Af 1. Pétursbréfi, 2.13 o.áfr., er ljóst, að leiðtogi frumkirkjunnar, Pétur postuli, taldi ekki, að kristnir menn ættu að gera uppreisn gegn sínum jarðnesku yfirvöldum. Þar að auki eru lofleg orð látin falla um Pál postula og gildi þess, sem hann ritaði í bréfum sínum, í II. Pétursbréfi, 3.15–16: "Álítið langlyndi Drottins vors vera hjálpræði. Þetta er það, sem hinn elskaði bróðir vor, Páll, hefur ritað yður, eftir þeirri speki, sem honum er gefin. Það gjörir hann líka í öllum bréfum sínum, hann talar í þeim um þetta. En í þeim er sumt þungskilið, er fáfróðir og staðfestulausir menn rangsnúa, eins og öðrum ritum, sjálfum sér til tortímingar."

[2] Sjá t.d. erindið mitt, sem hér er birt: Hvert er stefnt í málum samkynhneigðra? Eru menn að hugsa um heill og hag þjóðar – barna og fullorðinna? – t.a.m. við nmgrr. [27–28] og í þeim neðanmálsgreinum sjálfum.

[3] Þessi orð skrifaði ég, meðan ég taldi enn, að samkynhneigð gæti hjá sumum einstaklingum verið arfgeng. En ýtarleg skoðun á niðurstöðum rannsókna í þeim efnum hefur sannfært mig um, að samkynhneigð sé ekki arfgeng, ekki bundin við erfðavísa. Mun ég birta grein um þau mál síðar.

[4] Bls. 121–148 (sjá einnig grein mína hér á Kirkjunetinu: Verulegur árangur af meðferð samkynhneigðra). Hér hefði í raun átt að feitletra tvö orð í setningu minni: "það eru engar bábiljur trúarofstækismanna, að hægt sé að "lækna" samkynhneigð – meðferð sálfræðinga við henni virðist að meðaltali virka að fullu í um 28% tilvika, en í rúmlega 30% tilvika virkar hún eitthvað í áttina ..." – Eins og ég hef sagt skýrar annars staðar (svo sem í innleggi mínu (2. svari, kl. 23:22) 1. sept. sl. á Vísis-vefsíðu, einnig hér og hér), er hugmyndin, að samkynhneigð sé veiki, sem þurfi að lækna, alls ekki kristin hugmynd, og komin er hún frá öðrum stéttum en prestum: þ.e. fólki í heilbrigðisstéttum.

26 athugasemdir

Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Nei það er rétt. Morgunblaðið hefur ekki verið hlutlaust í umfjöllun sinni um samkynhneigð. Nærtækasta dæmið um það hlýtur að vera heilsíðuauglýsing trúar[…]félaga um “lækningu” við samkynhneigð sem birtist fyrir nokkrum mánuðum.

Þetta hefði ekkert sómakært blað átt að birta, enda […..] af verstu gerð.

[Órökstudd og ásakandi skammaryrði felld burt, sbr. reglurnar skýru og eindregnu um innlegg á vefsíðuna. – JVJ]

01.11.06 @ 16:34
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Það er rétt, að Mogginn hefur ekki verið hlutlaus um málið. Það sést bezt af forystugreinum blaðsins – með yfirlýstum stuðningi við baráttukröfur samkynhneigðra, bæði á sviði ríkis og kirkju. Þetta sést t.d. í greininni hér ofar, en einnig á fleiri ritstjórnargreinum blaðsins: forystugreinum, Reykjavíkurbréfi og Staksteinum. Hins vegar hefur Mogginn lítt beitt ritskoðun í málinu sl. 1–2 ár, það ég veit. A.m.k. einni grein (Jóns Rafns Jóhannssonar) var þó synjað um birtingu í janúar á þessu ári; það ritskoðunardæmi var einmitt í samræmi við stefnu blaðsins í samkynhneigðramálunum í ritstjórnargreinum þess. En Mogginn getur naumast talizt ábyrgur fyrir auglýsingum sínum almennt – og á líklega erfitt með að hafna mörghundruð þús. króna tekjum fyrir ósköp eðlilega auglýsingu.

01.11.06 @ 18:30
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Heldurðu semsagt að Mogginn myndi birta heilsíðuauglýsingu frá Nasistaflokki eða vændishúsi?

01.11.06 @ 19:10
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Nei.

01.11.06 @ 19:58
Kristinn Ásgrímsson

Kæri Haukur.
Það er eitt í þessari umræðu sem ég ekki skil. Ef einhver hefur snúið baki við samkynhneigð, sem þúsundir hafa gert, hvað kemur það nasisma eða vændi við?
Þú virðist greinilega ekki fylgjast alveg með þvi sem er að gerast í heiminum í dag.
Af hverju ertu svona reiður yfir því að einhverjir sjái lífið í öðru ljósi en þú ?

01.11.06 @ 22:39
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Ég er ekki reiður yfir forneskjulegum fordómum kristinna manna gagnvart samkynhneigðum. Þetta veldur mér engu að síður heilabrotum, hvernig vel lesnir og sennilega vel gefnir menn geta réttlætt hluti á borð við þessa auglýsingu.

Það kom einhver með góðan punkt hér um það leyti sem auglýsingin birtist. Hann spurði hvort kirkjunnar menn hefðu orðið sárir ef birst hefði heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu þar sem boðið væri upp á lækningu við “sjúkdómnum” kristni. Þessu var að sjálfsögðu ekki svarað, enda get ég vel ímyndað mér að þess háttar auglýsing hefði komið illa við kauninn á mörgum, ekki síst þeim sem stóðu á bak við hina umtöluðu “afhommunar"-auglýsingu.

Ef hinir trúuðu fara fram á að fólk sýni þeim skilning og reyni að sjá hlutina í þeirra ljósi eiga þeir að gera slíkt hið sama gagnvart samkynhneigðum. Enginn bannar þeim að hafa skoðanir, en ef þær særa aðra með þeim hætti sem umrædd auglýsing gerði, er spurning hvort þeir séu eitthvað betri en þeir sem níða þá fyrir trú sína.

02.11.06 @ 01:29
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Haukur, þú ert enn að ganga út frá þeirri rangt gefnu forsendu þinni, að auglýsingin hafi boðið upp á “lækningu” samkynhneigðra. Orðin “lækning” og “sjúkdómur” eða “veiki” koma þar ekki fyrir, eins og ég benti á í svargrein minni í Fréttablaðinu 31. ágúst 2006 vegna skrifa Guðmundar Steingrímssonar. Það er sömuleiðis hvergi talað um samkynhneigð sem sjúkdóm eða veikindi í Biblíunni, sbr. orð mín og tilvísanir í neðanmálsgrein [4] aftan við grein mína hér ofar.

Svo leyfirðu þér að taka hér óbeint undir marklaust blaður einhvers andstæðings okkar sem gaf sér að hægt væri að tala um “sjúkdóminn kristni". Það virðist sem fólki með ykkar sannfæringu eigi að vera leyfilegt að halda fram hvaða fordómum sem er átölulaust, á meðan þið ráðizt á rökstudda fræðsluviðleitni mína og annarra sem “fordóma” (án þess jafnan að sýna fram á og sanna, að þar sé um raunverulega fordóma að ræða).

Gættu þess að ala ekki með þér þína eigin, lánuðu fordóma. Baráttuforkólfar ofréttinda samkynhneigðra hafa verið iðnir við að dreifa slíkum fordómum, svo sem: þeirri lygi, að samkynhneigðir séu 10% mannskaparins, – þeirri fölsun, að þeir séu jafnhæfir og gagnkynhneigðir til barnauppeldis, – þeirri firru, að nú séu það mest gagnkynhneigðar konur, sem fái HIV-smit, – og þeirri alhæfingu, að hommar séu “gæðablóð” (í merkingunni: með ósýkt blóð á borð við alla aðra).

Vissulega lít ég svo á, að sýna verði samkynhneigðum skilning í aðstæðum þeirra. Það vill kaþólska kirkjan einmitt gera og fer vel að þeim í sálgæzlunálgun sinni. Það jafngildir því ekki, að hún striki yfir bann Guðs orðs gegn samkynja kynmökum eða smelli þeim í hjónaband þvert á móti orðum Krists.

02.11.06 @ 10:08
Kristinn Ásgrímsson

Kæri Haukur. Auglýsinguna réttlæti ég þannig: Flestallir þeir sem ég hef heyrt frá sem komið hafa út úr skápnum, eins og kallað er, þeir segja allir það sama: Ég gekk í gegnum mikla baráttu, hafði jafnvel hatur á sjálfum mér. Síðan heyra þeir áróðurinn að þeir þurfi bara að koma út úr skápnum og þá sé allt vel. Því miður er það ekki svo fyrir alla. Sumir hafa verið svo ósáttir eftir að hafa komið út úr skápnum að þeir hafa átt erfitt með að höndla lífið. Þess vegna viljum við benda þeim sem “vilja” á aðra leið. Sú leið er, að margir hafa sigrast á þessari hvöt. Og ef þú hefur ekki haft of mikla fordóma til að kíkja á þær vefsíður sem auglýsingin birti, þá gætir þú lesið vitnisburð fjölda fólks sem hefur gert einmitt þetta, þ.e. sigrast á hneigð sinni til sama kyns og eru alsælir með það.
Hvað forneskju varðar þá eru þessi mál ekki ný, það er ritað um þennan lífsmáta 5-6 þús. ár aftur í tímann. Þannig að tala um nútíma eða annan tíma hefur ekkert með þessi mál að gera.

02.11.06 @ 17:22
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Baráttan sem þú talar um orsakast held ég fyrst og fremst af skömm. Innri baráttan um að telja sig haldin kynhneigð sem er ekki talin æskileg og jafnvel fordæmd af samfélagi mannanna. Þessi innri togstreita getur að sjálfsögðu þróast út í sjálfsfyrirlitningu og þunglyndi.
Þetta er vel þekkt meðal margra einstaklinga sem gætu talist “öðruvísi". Mótlætið er gífurlegt vegna þess að frá blautu barnsbeini er því troðið inn í okkur mennina að samkynhneigð sé afbrigðileg. Ef þú telur þig hafa “afbrigðilegar” hneigðir þá að sjálfsögðu hefur það mikil og slæm áhrif á sálartetrið.

Vanlíðan og sorg samkynhneigðra tel ég að mjög miklu leyti stafa af því að samfélagið tekur þeim ekki eins og þeir eru, og reyna því að breyta þeim.

03.11.06 @ 01:23
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Flestir sýna þeim umburðarlyndi, og fæstir reyna að breyta þeim, þótt þess séu að vísu dæmi meðal foreldra. En hefur það aldrei komið fyrir samkynhneigða að vilja breyta gagnkynhneigðum? O, jú, og þá á ég ekki aðeins við: í afstöðu þeirra í átt til umburðarlyndis.

03.11.06 @ 10:27
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þegar Íslandssagan er skoðuð finnast trúlega fleiri heimildir um forboðnar ástir systkina og ásakanir um sifjaspell en sögur af samböndum einstaklinga af sama kyni. Hugsanlega líka af fjölveri eða fjölkvæni. Þessi sambönd eru forboðin skv. kristinni kenningu og landslögum en þó er þeim ekki andmælt jafn sterklega í biblíunni t.d. og kynmökum fólks af sama kyni. Nefna má t.d. sögurnar af Jakobi sem átti tvær konur þær Leu og Rakel og kvennamál Davíðs konungs sömuleiðis. Fyrst frjálslyndir kirkjumenn telja sig vera að vinna í fullu samræmi við trú sína þegar þeir bæði blessa [eða hugsanlega vígja síðar] samkynhneigð sambönd hve miklu fremur ættu þeir þá ekki með glöðu geði að geta gefið systkini saman, endurgift þá sem þess óska án þess að skilnaður hafi farið fram og barist gegn meintum fordómum samfélagsins gagnvart slíkum ráðahag? Væri ekki hægt að halda því fram að það væri freklegt brot gegn mannréttindum þessa fólks og gróf mismunun að vilja ekki veita þeim kirkjulega þjónustu?

Varla þarf að efast um að þetta fólk býr við eða hefur þurft að sigrast á sálarangist og sorg vegna þess að tilfinningar þeirra eru forboðnar.

03.11.06 @ 19:41
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þetta veldur mér engu að síður heilabrotum, hvernig vel lesnir og sennilega vel gefnir menn geta réttlætt hluti á borð við þessa auglýsingu.

Ein skýring er hugsanlega sú að auglýsingin endurspegli togstreitu sem er komin fram í samfélaginu vegna einhliða málflutings baráttumanna samkynhneigðra. Það þarf varla að lesa skrif þeirra lengi til að sjá að þeim sem ekki eru á nákvæmlega sama máli og þeir er gefin sú einkunn að þeir séu fordómafullir. Gegn slíkum ‘röksemdum’ og þöggunartilburðum er erfitt að standa. Hér nokkru ofar líkir Haukur (óbeint þó) aðstandendum auglýsingarinnar við nazista eða vændisfólk. Svo langt hafa talsmenn samkynhneigðra þó ekki gengið - aðeins hinir sjálfskipuðu.

Sá málflutningur að í málefnum samkynhneigðra sé aðeins einn sannleikur og þeir sem ekki séu honum sammála séu fordómafullir virðist einfaldlega vera að ganga sér til húðar. Auglýsingin er að mínu viti til marks um þetta. Málflutningur leiðtoga þeirra um að heppilegast sé að koma út úr skápnum og vera þar virðist hreint ekki höfða til hópsins alls.

03.11.06 @ 20:22
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Takk fyrir þetta, Ragnar. Varðandi innlegg þitt kl. 20:41 má bæta því við, að trúlega verður tvíkvæni eða fjölkvæni eitt næsta réttlætismál hinna andkristnu til að berjast fyrir.

03.11.06 @ 23:52
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Já það er mjög líklegt.
Og gifting manna og dýra.
Og vélmenna sennilega líka.

Þið eruð á þvílíkum villigötum.
Hvað á fjölkvæni skylt með réttindabaráttu samkynhneigðra?

05.11.06 @ 00:00
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ýmsar ofréttindakröfur sumra sjálfskipaðra baráttumanna samkynhneigðra eiga það sameiginlegt með fjölkvæni að samrýmast ekki kristnu siðgæði.

05.11.06 @ 00:16
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Ég og þú eigum það líka sameiginlegt að vera báðir menn. Við borðum og öndum og [göngum örna okkar].
Samt eigum við lítið annað sameiginlegt.

Og hverjar viltu meina að ofréttindakröfurnar séu? Að krefjast sömu réttinda og þú?
Síðan hvenær eru það “ofréttindi"?

05.11.06 @ 01:32
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Umræðan er ekki á villigötum Haukur, það er verið m.a. að ræða um eðli og inntak kristilegs hjónabands. Í þessu sambandi má benda á grein sem Sverrir Jakobsson skrifaði í Fréttablaðið 3. des. 2005 þar sem segir m.a.:

Væri kannski tilraunarinnar virði að breyta íslenskum hjúskaparlögum á þann veg að öll hjúskaparform verði leyfð? Að hver einasti hópur einstaklinga sem á sameiginlegt heimili teljist vera fjölskylda, óháð því nákvæmlega hversu margir einstaklingar skipi hópinn eða hver kynjasamsetningin sé?

Grundvöllur hjúskapar ætti að fyrst og fremst að vera gagnkvæmt samþykki lögráða einstaklinga, hverjir og hversu margir sem þeir annars eru. Samþykki ríkisins ætti ekki að vera nauðsynleg forsenda.[Leturbr. RGB]

[Tengill]

Spurningin er því ekki hvort þessar kröfur munu koma fram heldur hve langt er í að þessir einstaklingar fari að knýja á kirkjudyrnar með nýþornaða stimpla ríkisins á hjúskaparpappírunum og krefjist nú blessunar kirkjunnar? Fjökvæni er leyft í sumum ríkjum múslíma og eru það ekki sjálfsögð mannréttindi og jafnréttiskrafa að fólk þurfi ekki að skipta um trúarbrögð til að njóta sömu þjónustu?

Á þeim tímapunkti munu þær „kirkjur“ sem þegar hafa gengið gegn eigin hefðum og kenningu í mikilvægum efnum trauðla geta og jafnvel heldur ekki vilja segja nei heldur opna einfaldlega með glöðu geði.

05.11.06 @ 08:16
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Laukrétt, Ragnar, og lokasetningu þína hefðirðu líka mátt hafa feitletraða.

En ég hef þegar svarað hér í öðrum greinum spurningu Hauks um ofréttindakröfurnar og þegar fengin ofréttindi homma og lesbía. Byrjaðu á því, Haukur, að fara í reitinn LEIT ofarlega í hægri dálki á þessari síðu, sláðu inn orðinu ‘ofréttindi’, þá kemur þetta í ljós. Ella get ég hjálpað þér um skilning á þessu síðar.

05.11.06 @ 09:19
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Einkar fyndið finnst mér, en jafnframt dapurlegt, að ég hafi verið ritskoðaður fyrir það orð sem flestir nota um hægðir. Er K-orðið nú orðið tabú líka?

05.11.06 @ 23:36
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Fyrir velsæmissakir nota menn ekki þvílíkt orðbragð yfir borðum. Reynum þess vegna að vera svolítið dannaðir í opinberri umræðu og ekki sízt hér – þetta er trúarleg vefsíða. Vinsamlega virtu óskir okkar um kurteislegt málfar í því ljósi.

06.11.06 @ 00:39
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

En mér sýnist þú standa hér uppi margfaldlega klumsa og málefnalega séð í uppgjöf vegna svara minna.

06.11.06 @ 00:43
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Nei, frekar bara kjaftstopp yfir því að mega ekki kalla hlutina því sem þeir heita án þess að þið roðnið.
[….]

[Óþarfur partur innleggs felldur burt. JVJ.]

06.11.06 @ 20:43
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Haukur var stöðvaður í viðleitni sinni til að tala fyrir utan efnið og virða það ekki að halda sér við kurteislegt orðaval. En ekki hefti ég hans frelsi til að ræða á þeim nótum annars staðar, utan við þessar vefsíður. Ég fer að loka á þessa umræðu, ef hún hættir að snúast um efni vefgreinar minnar.

06.11.06 @ 21:58
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Jeg verð nú að segja að mjer þykir það frekar hrós heldur en hitt að vera talinn gamaldags. Það er vissulega gamaldags en sjálfsögð kurteisi að gæta háttvísi í orðalagi á almennum stöðum og þar sem margir ganga um garða. Gleymum ekki vísunni góðu:

Nútíminn er trunta
með tóman grautarhaus
hjartað það er hrímað
því heilinn gengur laus.

Og nú vil jeg biðja háttvirta lesendur að halda nú ekki áfram með ljóð þetta því seinniparturinn er jafn ljelegur og fyrriparturinn er góður.
En grínlaust þá get ég fullvissað Hauk um að á leikskólum í dag er K-orðavalið ekki liðið. Það er kallað klósett-tal og sussað á krakkana þegar það heyrist. Nútíminn þar er því samstíga okkur í þeim orðavalssmekk. Við gamlingjarnir vorum líklega enginn okkar á leikskóla en höfum samt ekki vanizt svona tali og munum því hafa hraðar hendur við ritskoðunina þegar K-orðið eða önnur X-orð hrjóta úr pennum háttvirtra viðmælenda hjerna.

06.11.06 @ 22:05
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Lokaðu þessu bara. Mér er enginn greiði gerður með því að halda umræðu opinni ef allt sem ég segi er ritskoðað eða fjarlægt.
Það er svo sem þitt að ákveða reglurnar hérna, en svona talar nú bara venjulegt fólk. Ég vann með börnum í mörg ár og K-orðið er notað, ótrúlegt en satt.

06.11.06 @ 23:02
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

“Allt sem ég segi,” hvílíkt bull er þetta. Þú hefur fengið að tala hér öllum andmælendum mínum meir og ekkert “wesentlich” þurrkað út af innleggjum þínum. Já, sum orð eru tabú hér, þú verður bara að sætta þig við það, og reyndu svo að draga ekki umræður aftur niður á lágt plan, eins og kom fyrir þig hér undir lokin. Þú ert velkominn aftur í betra stuði.

07.11.06 @ 21:28
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution CMS