« Hin stríðandi kirkja og heimurinnNafnið Lasarus þýðir Guð er mín hjálp »

16.03.06

  15:03:47, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 645 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ert þú samstarfsmaður Drottins?

Guðspjall Jesú Krists þann 17. mars er úr Matteusarguðspjalli 21. 36-46

Heyrið aðra dæmisögu: Landeigandi nokkur plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi. Þegar ávaxtatíminn nálgaðist, sendi hann þjóna sína til vínyrkjanna að fá ávöxt sinn. En vínyrkjarnir tóku þjóna hans, börðu einn, drápu annan og grýttu hinn þriðja. Aftur sendi hann aðra þjóna, fleiri en þá fyrri, og eins fóru þeir með þá. Síðast sendi hann til þeirra son sinn og sagði: „Þeir munu virða son minn. Þegar vínyrkjarnir sáu soninn, sögðu þeir sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, og náum arfi hans.' Og þeir tóku hann, köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann. Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við vínyrkja þessa, þegar hann kemur?“ Þeir svara: „Þeim vondu mönnum mun hann vægðarlaust tortíma og selja víngarðinn öðrum vínyrkjum á leigu, sem gjalda honum ávöxtinn á réttum tíma.“ Og Jesús segir við þá: „Hafið þér aldrei lesið í ritningunum:

Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu,
er orðinn hyrningarsteinn.
Þetta er verk Drottins,
og undursamlegt er það í augum vorum.

Þess vegna segi ég yður: Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess. Sá sem fellur á þennan stein, mun sundur molast, og þann sem hann fellur á, mun hann sundur merja.]“ Þegar æðstu prestarnir og farísearnir heyrðu dæmisögur hans, skildu þeir, að hann átti við þá. Þeir vildu taka hann höndum, en óttuðust fólkið, þar eð menn töldu hann vera spámann.

Hugleiðing
Þegar Jesús sagði þessa dæmisögu á sínum tíma tók hann mið af ríkjandi aðstæðum í Galíleu og skírskotaði til vínekranna. En hvað segir þessi dæmisaga okkur nútímafólki, er hún ekki orðin úrelt? Nei, fjarri því! Hún greinir okkur frá mikilvægum sannleika um Guð og hvernig hann umgengst okkur mennina. Í fyrsta lagi greinir hún okkur frá gjafmildi Guðs og örlæti okkar í garð. Fyrirtæki okkar og heimilisrekstur gengur einkar vel. Þetta á sértaklega við um Ísland, einhverja auðugustu þjóð í heiminum. En öll þessi velgengni er Guðs gjöf segir Jesús okkur í dæmisögunni. Guð hefur auðsýnt okkur það traust að fela okkur þetta allt á hendur. Rétt eins og í dæmisögunni erum við einungis leiguliðar hans. Hann gefur okkur frelsi til að haga lífinu að vild. Jesús segir okkur líka að Guð Faðir sé þolinmóður og réttlátur. Hann er reiðubúinn til að fyrirgefa okkur hvað eftir annað sem leiguliðum eigna sinna. En þegar leiguliðarnir fara að láta reyna á þolrif hans til hins ítrasta kemur að lokum að dómsorði hans, rétt eins og í Baugsmálinu.

Hann trúir okkur fyrir náðargjöfum sínum og felur okkur að starfa í víngarði lífsins, líkama Krists, kirkjunni. Hann hefur gefið okkur fyrirheit um að verk okkar verði ekki til einskis ef við stöndumst í trú allt til enda (sjá 1 Kor 15. 58). Við getum átt von á þolraunum og ofsóknum, en að lokum rennur sigurstundin upp. Ert þú samstarfsmaður Drottins og lifir þú í fagnaðarríkri væntingu um sigurstundina og sigurlaunin? Eða viltu fremur tilheyra hinni útskúfuðu rót, þeirri sem hafnar ljósi Krists, líkt og farísearnir?

No feedback yet