« Af hverju vitum við að Hreinsunareldurinn er til?Talnabandið »

19.06.12

  18:28:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 505 orð  
Flokkur: Philumena, Spurt og spjallað um kaþólska trú

Ert þú frelsaður/frelsuð? Hvað felst í hugtakinu trú? Hverju svara kaþólskir?

Spurt og spjallað um kaþólska trú frá biblíulegu sjónarmiði. - Hvað segir Biblían?

“Sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar… Tilbið þú Guð” (Opb 22:7, 9)

1. Ert þú frelsaður/frelsuð? Hvað felst í hugtakinu trú? Hverju svara kaþólskir?

Jóhannes Postuli kveður svo á um í boðskap sínum, að hver sá, sem trúir á nafn Guðs sonar muni öðlast eilíft líf: „Þetta hef ég skrifað til þess að þér vitið, að þér hafið eilíft líf.“ (1 Jh 5:13, sjá einnig Jh 5:24).

En þess ber að gæta að hugtakið trú felur ekki aðeins í sér að játa trú með vörunum, heldur þarf kærleikurinn ásamt skynseminni og vilja að vera virkir þátttakendur í þeirri trúarjátningu, en þannig skilgreinir hl. Jóhannes einmitt fyrrgreind ummæli sín í fyrsta Jóhannesarbréfi: „því að í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum Hans boðorð.“ (1 Jh 5:3 sjá einnig 1 Jh 2:3-6).

Trú, eða elska til Guðs, á sér, samkvæmt þessari skilgreiningu Jóhannesar, birtingarmynd í verund okkar ekki bara í gjörðum, heldur ekki síður í því sem við gjörum ekki: „Vér vitum, að hver sem af Guði er fæddur syndgar ekki, sá sem af Guði er fæddur varðveitir Hann og hinn vondi snertir hann ekki.“ (Jh 5: 18) „Og þetta boðorð höfum vér frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn.“ (1 Jh 4:21) Og í framhaldi af því bætir hann við til frekari áréttingar að: „Hver sem drýgir synd heyrir djöflinum til, því að djöfullinn syndgar frá upphafi. Til þess birtist Guðs sonur, að Hann skyldi brjóta niður verk djöfulsins.“ (Jh 3:8, sjá einnig Kor 6:9).

Páll postuli velkist heldur ekki í vafa um að það að trúa sé ekki staðlaus yfirlýsing um trú eins og ráða mætti af eftirfarandi tilvísun án frekari skilgreiningar: „Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi vakið hann uppfrá dauðum, muntu hólpinn verða. Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis,” heldur felur hin fullburða trúarjátning í sér þá áskorun að elska Guð og náungann í orði og í verki og að afneita syndinni.

Hjá heilögum Mattheusi kveður við sama tón en hann áréttar einnig að: „Ef þú vilt ganga inn til lífsins, þá haltu boðorðin.” (Matth. 19.17) Og hl. Jakob velkist heldur ekki í vafa um skilgreiningu trúarinnar er hann áminnir að: „Eins og líkaminn er dauður án andans, er trúin dauð án verkanna.” (Jak. 2.26) Páll postuli er ómyrkur í máli hvað varðar skilgreiningu trúarhugtaksins er hann minnir menn á að gæta þess að efla stöðugt trúfestina í ugg og ótta við að vanvirða þann Guð, sem sendi Son sinn eingetinn til að boða okkur hjálpræðið og vonina um upprisu að lokinni lífsgöngu. (Rm 10:9; Fl 2:12; Sjá einnig 1 Kor 9:27, 10:12;Gal 5:1, 4; Fl 3:11-14; 1Tim 4:1, 5:15).

Samkvæmt ofangreindu er því ranghermt að menn vinni sér leið til himna, það er andstætt skilgreiningu kaþólsku kirkjunnar á skilgreiningu trúar og útfærslu hennar í lífi og starfi kaþólskra, heldur eigi verk kaþólskra, að endurvarpa þeirri trú sem inni fyrir býr og kristallast í kærleika og hlýðni við Guð, í því felst vonin um eilífa sáluhjálp samkvæmt kenningum kaþólsku kirkjunnar.

Philumena

No feedback yet