« Sir Philip Sidney: Splendidis longum valedico NugisBlaðamaður fer á gönuhlaup í umræðu um samkynhneigð »

04.09.06

  08:13:05, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 1249 orð  
Flokkur: Málefni samkynhneigðar á sviði þjóðfélags og kirkju

Erkibiskupinn í Kantarabyrgi segir, að samkynhneigðir verði eins og aðrir að breyta venjum, hegðun, hugmyndum og tilfinningum sínum, þegar þeir vilja taka þátt í hinu kristna, kirkjulega lífi

Rowan Williams, erkibiskup í Canterbury, leiðtogi ensku biskupakirkjunnar og anglíkanska heimssamfélagsins, hefur kveðið upp úr um afstöðu sína í einhverju veigamesta máli samkynhneigðra. Samkvæmt frétt í The Sunday Telegraph segist hann ákveðinn í því að varðveita einingu kirkjunnar frá því að leysast upp vegna stríðandi fylkinga í alvarlegum deiluefnum um stöðu samkynhneigðra gagnvart kristindómi og kirkju. [1] Þessi einingarviðleitni hans, m.a. gagnvart biskupakirkjumönnum í Afríku, mun hafa átt verulegan þátt í þeirri niðurstöðu sem hann hefur komizt að. Í viðtali við hollenzkt blað, Nederlands Dagblad, segist hann munu styðja kirkjulega ákvörðunartöku (resolution) um að samkynja kynlíf geti ekki samrýmzt (is incompatible with) Heilagri ritningu. [2]

Hann leggur nú áherzlu á, að erfikenning og boðun kirkjunnar hafi í engu breytzt í þessum málum, og sniðgengur þannig vígslu hins fyrsta samkynhneigða biskups í samfélagi biskupakirkjumanna, þ.e. í New Hampshire í Bandaríkjunum. [1] Hann sagði í viðtalinu við hollenzka blaðið, að "hvað varðar ákvarðanatökuna hefur bandaríska kirkjan þrýst á yztu mörk (pushed the boundaries)" í stefnu sinni í samkynhneigðramálum. [4]

Miklum áfanga er náð með þessari yfirlýsingu erkibiskupsins – vatnaskil hafa orðið í umræðunni um þessi málefni. Baráttumenn samkynhneigðra og róttækrar (liberal) guðfræði sjá þetta sem staðfestingu á ótta þeirra við, að erkibiskupinn sé í vaxandi mæli að aðhyllast íhalds- eða varðveizlustefnuna (conservatism) í málefnum trúarinnar, og ásaka hann fyrir að hafa tekið "furðulega" U-beygju í samkynhneigðramálinu. Þeir “frjálslyndu”, sem áður fögnuðu skipun hans í embættið, segjast hneykslaðir á því, að hann hafi snúið baki við stefnu sem hann hefði áður aðhyllzt. En meðal fylgismanna hefðbundinnar trúar hlutu ummæli erkibiskupsins mikinn stuðning. [1]

Þegar Rowan Williams erkibiskup var spurður, hvernig þetta komi heim og saman við ritgerð, sem hann skrifaði fyrir 20 árum, þar sem hann varði sambönd samkynhneigðra, þá svaraði hann með þeim hætti, sem greinilega sýndi allt annað viðhorf en fram kom í þeirri ritgerð: "Það var nú sett fram þegar ég var prófessor, sem var að reyna að hvetja til umræðna," segir hann. "Sú ritsmíð fekk ekki mikinn stuðning, en hins vegar mikla gagnrýni – og í mörgum atriðum var sú gagnrýni sanngjörn," bætti hann við [1]

Hann hafnar nú þeirri hugmynd, að samkynhneigðir geti átt fulla þátttöku í kirkjunni án nokkurra skilyrða, því að kirkjan geti ekki meðtekið virk, hómósexúel sambönd. [4]

,,Samkynhneigðir verða að breyta háttum sínum”

"Ég tel ekki, að aðild [að kirkjunni] (inclusion) sé gildi í sjálfu sér. Það er [hins vegar] gildi að vera velkominn. Ég segi ekki: 'Komið inn, og við spyrjum engra spurninga.' Ég tel, að það að snúast [til kristinnar trúar] (conversion) merki umbreytingu [conversion] á venjum, hegðun, hugmyndum og tilfinningum," sagði Williams erkibiskup hinum hollenzka blaðamanni. Hann býður því samkynhneigða velkomna, en á skilmálum kirkjunnar sjálfrar, sem aldrei hefur samþykkt kynmök fólks af sama kyni sem siðleg.

Séra Rod Thomas, talsmaður evangelíska þrýstihópsins Reform (Umbætur), sagði um þetta: "Á því leikur enginn vafi, að hann er að snúa baki við þeim viðhorfum, sem hann eitt sinn hafði sett fram. Hann gerir réttilega í því að vilja sjá fólk taka umbreytingu. Sú staðreynd, að hann segir þetta, er gríðarlega ánægjulegur áfangi fram á við (a hugely welcome development)."

Williams erkibiskup sagði einnig: "[Kristið] siðferði (Ethics) snýst ekki um einhverjar óhlutbundnar reglur, heldur um það að lifa sig inn í huga Krists. Það á einnig við um siðferði í kynferðismálum." [3] – Með þessu hefur erkibiskupinn undirstrikað þá staðreynd, að viðtaka kristinnar trúar með einlægum, afgerandi hætti fer saman við nýja stefnumótun í lífsháttum og siðferði og gerir kröfu til mannsins að fylgja meistara sínum og frelsara Jesú Kristi.

Rowan Williams er fæddur 14. júní 1950 í Swansea í Wales og ólst upp á welskumælandi heimili. Hann lauk stúdentsprófi í Wales, en nam guðfræði í Christ's College við Cambridge-háskóla og í Wadham College við Oxford-háskóla, þar sem hann tók sitt doktorspróf (DPhil.) 1975, en doktorsritgerðin fjallaði um Vladimir Lossky, hinn fræga, rússneska, orþódoxa guðfræðing sem uppi var á fyrri hluta og fram til miðrar 20. aldar (Williams er verndari the Fellowship of St. Alban and St. Sergius, sem er samkirkjulegur umræðuvettvangur orþódoxra og vestrænna – einkum anglíkanskra – guðfræðinga.) Hann var síðan guðfræðikennari við prestaskóla í tvö ár og tók prestsvígslu 1978. Hann kenndi guðfræði við Cambridge-háskóla 1977–86, auk þess að vera prestur við hið fagra Clare College. Hann varð prófessor í guðfræði í Oxford 1986 og doktor í guðfræði (DTheol.) 1989. Árið 1991 var Williams vígður biskup í Monmouth og 1999 gerður að erkibiskup í Wales. Hann var settur inn í elzta biskupsembætti Stóra-Bretlands (frá því um 597) sem erkibiskup af Kantarabyrgi árið 2002.

Eftirmáli

Þessar fréttir eru okkur kaþólskum sannkallað fagnaðarefni. Anglíkanska heimssamfélagið hefur nánast verið á barmi upplausnar frá því að bandaríska biskupakirkjan (ECUSA) tók þá ákvörðun árið 2003 að vígja biskupsvígslu virkan og iðrunarlausan homma, Gene Robinson, eins og segir í frétt LifeSite um þetta. Svo lítið hefur Robinson gert til að friða fólk eða bæta ástandið, að m.a.s. gekk hann svo langt í ræðu í apríl 2005 að valda hneykslun um allan hinn kristna heim með því að gefa það í skyn, að Jesús Kristur kynni að hafa verið hommi. [2] Með þvílíkan leiðtoga hómósexúal-guðfræðinnar sem Gene Robinson – og með mann eins og Rowan Williams í fylkingarbrjósti anglíkönsku kirkjunnar – má heita líklegt, að straumurinn í þeirri kirkju verði aftur órofinn frá hinum heilnæmu uppsprettulindum Landsins helga.

Aðalheimildir:

[1] Jonathan Wynne-Jones: Gays must change, says archbishop, The Sunday Telegraph, 27. ág. 2006.

[2] Anglican Archbishop of Canterbury Says Homosexual Sex Incompatible with Bible. LifeSite, 28. ág. 2006. Þessi ummæli eru í raun ekki ný, því að nákvæmlega þetta var samþykkt á Lambeth-alþjóðaráðstefnu anglíkönsku kirkjunnar árið 1998, þar sem 526 biskupar greiddu lokaályktuninni atkvæði sitt gegn atkvæðum 70 biskupa. Þetta er þar undir lið 1.10 (d–e): "This conference [...] (d) while rejecting homosexual practice as incompatible with Scripture, calls on all our people to minister pastorally and sensitively to all irrespective of sexual orientation and to condemn irrational fear of homosexuals, violence within marriage and any trivialisation and commercialisation of sex; (e) cannot advise the legitimising or blessing of same sex unions nor ordaining those involved in same gender unions" (leturbr. JVJ, þótt ég geti tekið undir allt þetta o.fl. í samþykktinni). Sjá um þetta ennfremur: http://justus.anglican.org/resources/Lambeth1998/Lambeth-Daily/06/ -- sbr. http://www.episcopalian.org/cclec/paper-anglicans_sex.htm e?a http://www.anglicancommunioninstitute.org/trueunion/trueunion.htm

[3] Jonathan Wynne-Jones (við Sunday Telegraph): Anglican leader says gays should alter ways for church, The Washington Post, 28. ág. 2006.

[4] Wikipediu-grein um Rowan Williams (Wikipedia er þó varasöm heimild, m.a. í þessu efni, þótt margt fróðlegt sé þar að finna).

26 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Bróðir og Guðs þjónn. Hafðu innilegar þakkir fyrir stöðuga árvekni þína í Drottni Jesú Kristi og óþrjótandi eljusemi í næturvökum eftir erilsaman starfsdag. Hversu margir mættu ekki taka þig til fyrirmyndar í baráttu trúarinnar.

Í áframhaldi af þessu má vekja athygli á því að íslenska Þjóðkirkjan er í nánum tengslum – ef ekki sameinuð? – Anglíkanakirkjunni. Ég hafði einmitt veitt þessari frétt athygli í gær. Hafðu þökk og Guð blessi þig, bróðir.

04.09.06 @ 08:19
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér kærlega þessi hlýlegu orð þín, nafni.

Styttri gerð af þessari grein er nú komin á Moggabloggsíðu mína, næst fyrir ofan aðra nýja grein (um viðsjárverð tíðindi í alþjóðamálum). Einnig þar geta farið fram umræður á eftir greininni.

04.09.06 @ 12:22
Athugasemd from: Kristinn H. Guðnason
Kristinn H. Guðnason

Þá er biblían ósamræmanleg nútímanum og fólk ætti að líta á hana sem gamla skruddu byggða á fordómum rétt eins og Mein Kampf.
Réttindi samkynhneigðra eru ALMENN MANNRÉTTINDI!

04.09.06 @ 17:14
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Athyglisverðar fréttir! Mér sýnist þú vera búinn að ’skúbba’ allri íslensku pressunni eins og hún leggur sig með þessum upplýsingum.

04.09.06 @ 18:15
Athugasemd from: Aðalbjörn Leifsson
Aðalbjörn Leifsson

Gott hjá erkibiskupinum hann hefur sama hugarfar sem Kristur Jesús. Jesús var syndlaus, hann var ekki hommi, var ekki með konum, hann var hreinn og flekklaus. Samkynhneigð er synd, samkynhneigð er hórdómur. Með breyttu hugarfari losna samkynhneigðir úr syndinni, þeas þeir þurfa að iðrast synda sinna og breyta hugarfari sínu, blóð Jesú Krists hreinsar oss af allri synd. Jesús er búinn að taka á sig allar syndir og hreinsa okkur hann gerði það á Golgata en það þarf að iðrast og viðurkenna syndina og snúa sér frá henni. Það getur enginn sem er fullur af heilögum anda sagt að Kristur hafi verið hommi, það er annar andi sem segir það.

04.09.06 @ 19:02
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hneigð af hvaða tagi sem vera skal án þátttöku viljans er í sjálfri sér ekki synd og því er hneigðin sem slík ein og sér hvorki synd né hórdómur. Til að synd komi til þarf meðvitaða þáttöku viljans og því er oftast átt við athafnir af einhverju tagi. Í þessu tilfelli eru það kynmök fólks af sama kyni sem álitin eru syndsamleg og snúa þurfi baki við.

04.09.06 @ 20:08
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ragnar! Freisting byrjar sem erting í hjartanu. Ef maðurinn sinnir henni ekki er hún honum ekki reiknuð til syndar.

Næsta stigið er samræða eða samneyti við ertinguna í hjartanu: Að gæla við hana. Það er þetta sem Jesús nefnir girnd hjartans og er þegar reiknað til huglægrar syndar.

Ef hann lætur síðan undan henni í verki er hún orðin sýnileg synd og viljinn þar með þræll hennar.

Ef maðurinn lætur síendurtekið undan henni þróast hún í ástríðu eða fýsn. Hann stjórnar ekki lengur eigin gjörðum og íklæðist líkama syndarinnar að fullu og öllu og er andlega dauður.

Ekkert er eins áhrifaríkt til að uppræta fyrstu ertinguna til syndar eins og að ákalla Jesú um miskunn.

Að fara aftan að hlutunum í kynlífi sínu er mikil synd! Ég fullyrði að ef slíkir gerðu það að reglu sinni að ákalla nafn Jesú um miskunn, þá myndu þeir hætta slíku háttalagi og játa syndir sínar og iðrast.

04.09.06 @ 21:28
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég er eiginlega sammála ykkur báðum, bræður, svo undarlegt sem það kann að virðast. Þegar ég las póst Ragnars, kom upp í hug mér að skrifa: “Ég þakka þér fyrir það, Ragnar, að taka af mér ómakið að svara þessu atriði hjá honum Aðalbirni” (atriði sem ég efast þó ekki um, að Aðalbjörn meinti vel). En þetta fer líka eftir því, hvað við eigum við með ‘hneigð’. Sem undirliggjandi ‘þörf’ eða tilhneiging, án samsinnis viljans, tel ég samkynhneigð ekki synd. Þegar viljinn fer að samsinna freistingunni sem ‘þörfin’ hneigist til að elta, þá er um synd að ræða, ekki einungis þegar því er framfylgt í verki (með kynmökum á einhvern hátt), heldur einnig, þegar maðurinn hefur leyft freistingunni að sigra vilja sinn – þegar hann beinlínis vill girnast og vill athöfnina. En ’samkynhneigð’ merkir ekki þetta, heldur er það mun hlutlausara grunnorð um hneigðina undirliggjandi. Jakobsbréfið (1.14–15) hefur mikilvægan texta um þetta almenna girndar- eða hneigðarmál og um hina ‘fullþroska’ synd í vilja (sem er sem sé orðin fullþroska í sál mannsins, áður en hann drýgir syndina í ytra verki). Ég hef skrifað um þetta áður og orðlengi það ekki hér. (En þessi ritningarvers hjá Jakobi vísa auðvitað til hvaða girndar sem er og til syndanna í huga og verki, sem af þeim geta hlotizt, þannig að þetta er almenn fræðsla um tengsl syndar og girndar, ekkert sérstakt fyrir samkynhneigð og syndir sem henni geta tengzt.) – Lærum af “bróður [= frænda] Drottins,” Jakobi, einnig þið lútherskir, þrátt fyrir orð leiðtoga ykkar um “hálmbréf".

Og ég þakka báðum, Ragnari og Jóni Rafni, innlegg þeirra. Innlegg þess síðarnefnda er mjög lærdómsríkt, m.a. og ekki sízt um nauðsyn bænarákallsins í freistingum (sigranlegum með Guðs hjálp), og vert fyrir menn að festa í hug sér.

04.09.06 @ 22:11
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég tek líka undir orð Aðalbjarnar um lastmæli Robinsons um Krist – þau eru bert guðlast. En eins og fram er komið að nokkru leyti, get ég ekki verið sammála þessari setningu hans: “Samkynhneigð er synd, samkynhneigð er hórdómur.” – Hórdómur er hneigðin ekki, og syndin í verki er heldur ekki hórdómur, nema annar hvor aðilinn sé í hjónabandi með þriðja aðila (eða báðir í hjónabandi, með 3. og 4. aðila, sem kallast þá, t.d. í gömlu kirkjubókunum okkar, “tvöfalt hórdómsbrot” – adulterium duplex). En samkynja kynmök eru ekki í sjálfum sér eða í eðli sínu synd af því að þau séu hórdómsbrot (sem þau oft eða oftast eru ekki), heldur af því að þau eru gegn náttúrunni og tilgangi sköpunarverksins og freklegt brot gegn vilja Guðs og boðum, bæði í Biblíunni og með þekkjanlegum hætti að skilnings- og rökfærslu-leiðum náttúruréttarins.

Rangt er líka – ef við viljum vera nákvæm – að orða þetta svona: “Samkynhneigð er synd,” og vísa ég um það til aths. minnar hér næst á undan. Sumir nota hins vegar orðið samkynhneigð í víðari merkingu en þar er gert, láta hugtakið ekki aðeins vísa til hneigðar, heldur lífernis að hómósexúellum hætti. En um það er betra að viðhafa önnur orð eða hugtök (eins og Biblían gerir), minn ágæti, velmeinandi viðmælandi Aðalbjörn.

04.09.06 @ 22:26
Athugasemd from: Janus Hafsteinn Engilbertsson
Janus Hafsteinn Engilbertsson

Jón Valur, þakka þér fyrir þessa góðu samantekt.

Það má segja um Rowan Willians, að batnandi manni er best að lífa. Hann hefur þá loks lært, að reglan er að fara ekki lengra en ritað er í Ritningunni, því sérhver kafli hennar er innblásinn af Guði. Er Guðs orð og vilji Hans.

Það er nóg komið af þessum endalausu túlkunum á Ritningunni í gegnum tíðina. Og hver er svo uppskeran? Margar og misjafnar kirkjudeildir og kirkjuleiðtogar, þar sem einn segir þetta og annar hitt. Hvað sagði ekki Jesús við djöfulinn: “Ritað er.” Og Páll við frumkirkjuna: “Að þér mættuð læra regluna, farið ekki lengra en ritað er:” Og hvers vegna sagði hann þetta við Korintumenn: “Því að mér hefur verið tjáð um yður, bræður mínir, af heimilismönnum Klóe, að þrætur eigi sér stað á meðal yðar. Ég á við þetta, að sumir yðar segja: “Ég er Páls,” og aðrir: “Ég er Appollóss,” eða: “Ég er Kefasar” eða: “Ég er Krists.” Er þá Kristi skipt í sundur?” Páll vissi því hvaða afleiðingar þetta hefði í för með sér. Nefnilega flokkadrætti. Hann hafði sagt áður: “En ég ÁMINNI yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér séuð allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal yðar, heldur að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfar og í sömu skoðun.” Og þá má spyrja: Hvernig verða allir kristnir menn fullkomlega samhuga? Það er einfaldlega með því að trúa á Jesú og trúa því að Biblían öll sé skrifuð af Guði í gegnum menn og við eigum að trúa því sem í henni stendur og fara ekki lengra en ritað er.

Nehemíabók segir okkur, hversu nauðsynlegt það er að hlýða orði Guðs. Og hvaða afleiðingar það hefur ef við gerum það ekki. Og hins vegar hvaða blessanir menn fá ef þeir sameinast um Guðs orð. Þar segir meðal annars.” Daginn eftir söfnuðust ætthöfðingjar alls lýðsins, prestarnir og levítarnir saman hjá Esra fræðimanni til að gefa gaum að orðum lögmálsins. Þá fundu þeir ritað í lögmálinu, er Drottinn hafði sett þeim fyrir Móse, að Ísraelsmenn skyldu…” Þessi eining allra um orð Guðs, varð til þess, að blessun kom yfir Ísrael. Og svo voru menn ákveðnir að hlýða Guðs orði, að þeir vildu skjalfesta það og skrifa undir það, því til staðfestingar.

Gaman væri að sjá þessa einingu hjá kristnum mönnum í dag. Gaman að sjá kirkjuleiðtoga koma saman og lesa saman hvað skrifað stendur og segja Amen! við því. Ef þetta gerðist, færi fagnaðarerindið um heiminn eins og eldur í sinu, og menn myndu sem aldrei fyrr, taka við Jesú sem frelsara sínum. Þá myndu menn hætta að segja: “Hverju á ég að trúa, þegar einn segir þetta, en annar hitt.”

Nú er mér er orðið heitt í hamsi og komin nótt, því er mál að linni.

Með bróður kveðju,
Janus Hafsteinn.

05.09.06 @ 00:19
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Hjartanlega sammála þér, Janus. Í s. l. viku komu þannig fulltrúar helstu kirkjufélaga heims saman í Róm til að biðja um einingu. Það hafa þeir gert árum saman. Eining fer þar með vaxandi meðal kristinna manna. Orð Rowan Williams, erkibiskup í Kantarabyrgi munu því auka þetta einingarferli enn frekar vegna þess að þetta er samhljómur Hjarta Drottins í líkama kirkju sinnar.

Það er harla mikil ónytjumælgi að láta fyrstu ertingu til syndar verða að útúrsnúningi afvegaleiddrar guðfræði mennskra hugsmíða. Jesús sem er fyrirmynd okkar og uppfræðari leiðir okkur fyrir sjónir með freistingum sínum í eyðimörkinni (Mt 4. kaflinn) að ertingarnar komi frá hinum illa.

Erting hefst með myndlausri ertingu í hjartanu (prosvoli). Hún þróast bókstaflega í að verða að myndrænni truflun eða því sem feðurnir nefndu annað hvort samræður (homilia) eða samræði (syndiasmos). Því næst verður hún að samþiggi (synkatathesis) þegar maðurinn ákveður að fylgja henni eftir.

Því næst að endurminningu um fyrri syndir (prolipsis) og loks ástríðu (paþos).

Drottinn sýndi okkur fram á þessa þróun í freistingum eyðimerkurinnar okkur til uppfræðslu vegna þess að sjálfur var hann án syndar.

Sá illi segir „allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig“ (Mt 4. 9). Hann leiddi sem sagt í ljós þann ávinning sem syndin fæli í sér. Svo er því varið.

„Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggja sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda“ (Heb 4. 12) eða á öðrum stað: Ég mun leggja lög mín í hugskot þeirra og rita þau á hjörtu þeirra“ (Heb 8. 10).

Hinn gamli maður syndarinnar eða hinn náttúrlegi maður situr uppi með öfugsnúnar hneigðir sínar og fylgir þeim eftir meðan hann meinar Guði að rita lög sín á hjarta hans. Því þessar upphrópanir í máttvana bræði eins og hjá þessum Kristni hér að ofan.

Kross Krists er sá sami í dag og fyrir 2000 árum og verður sá sami eftir 2000 ár! Það er okkar að velja eða hafna sannleika hans. Enginn getur vikið sér undan slíku. Öll höfum við syndgað og þörfnumst náðar Guðs, líka samkynhneigðir.

05.09.06 @ 06:02
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Athugasemd frá Hauki Viðar Alfreðssyni var þurrkuð út: Guðlast er ekki liðið á þessum vef sem skal ítrekað enn einu sinni!

06.09.06 @ 07:24
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Pffft…..þetta er nú bara tepruskapur.

Þið Jónarnir eruð alveg kostulegir

06.09.06 @ 14:16
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég las póstinn þinn, Haukur Viðar, – hann var ljótt guðlast. Það verður lokað alveg á þig með slíku áframhaldi. Er svona erfitt að fara að skýrum reglum okkar um innleggin? – Með góðum óskum, –JVJ.

06.09.06 @ 15:03
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Það getur verið frekar erfit að hemja sig hér. Það skal ég fús viðurkenna. Þegar ég sé fullorðna menn dreifa þröngsýnum miðaldaboðskap til fólksins í nafni trúarinnar, þá langar mig helst til að fara og brenna kirkjur. Í alvöru talað. En ég er stuðningsmaður friðsamlegra mótmæla og nota ég þess vegna frekar þennan vettvang til að lýsa andúð minni á vitleysisganginum.

Ég hef ALDREI litið á mig sem trúleysingja, aldrei nokkurn tímann. En eftir áralangan pirring yfir kreddum kirkjunnar ákvað ég að skrá mig úr minni kirkju, og er svo sannarlega ekki sá fyrsti eða sá síðasti til að gera það.

Ég er gagnkynhneigður og hef engra eiginhagsmuna að gæta hvað þessi mál varðar, en ég er stuðningsmaður mannréttinda fjárinn hafi það. Börnin mín gætu öllsömul orðið samkynhneigð. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda ef viðhorf kirkjunnar fara ekki að breytast.

Þið fordæmið samkynhneigða hegðun - ég fordæmi andfélagslega og ómannúðlega hegðun.

07.09.06 @ 15:06
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Haukur! Í fyrsta lagi er hér ekki um miðaldaboðskap að ræða samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu orðsins. Hann er 2000 ára gamall.

Guð virðir frjálsan vilja mannsins og hann getur hagað sér að vild sinni til samræmis við hneigðir sínar og eðli.

Hvað eftir annað – jafnvel mörg hundruð sinnum – hefur verið tekið hér fram að við fordæmum EKKI samkynhneigt fólk.

Hver sem er getur hagað sér að eigin vild innan veggja síns heimilis. En þegar kemur að kirkjunni, þá er komið að vegg. Því var skynsamlegt af þér að segja þig úr kirkjunni þar sem þú hefur þar ekkert að gera. Kynlíf einstaklings með öðrum einstaklingi af sama kyni var, er og verður synd.

Málið er ekki flóknara en þetta. Fólk sem lifir í veraldlegu samfélagi getur hagað sér að vild innan marka laganna.

Önnur lög gilda í kirkjunni. Þar ríkir algert jafnrétti meðal gagnkynhneigðra og samkynhneigðra. Ef hvor aðilinn sem er drýgir synd ber honum að játa hana og gera iðrun, það er að segja breyta framferði sínu.

Samkynhneigðir fá engin „ofurréttindi“ á þessum vettvangi, það er að segja í samfélagi kirkjunnar.

Hins vegar eru til samfélög úti í bæ sem kalla sig „kirkjur“ sem sjá ekkert athugavert við kynlíf fólks af sama kyni. Þar gilda reglur sem eru mér lokuð bók, en þau standa öllum opin. Hér er ekki um hina almennu (kaþólsku) kirkju postullegrar arfleifðar að ræða.

07.09.06 @ 15:41
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Mjög gott svar, nafni, svar sem ég tel heils hugar undir.

07.09.06 @ 15:44
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Haukur, þú fordæmir andfélagslega hegðun. Hlýtur það þá ekki að vera þér kappsmál að fólk viðri ólíkar skoðanir, ræði þær og herði eða brenni eftir atvikum í deiglu málefnalegrar gagnrýni?

Málefnin eiga að vera aðalatriðið hér en ekki mennirnir sem bera þau fram.

07.09.06 @ 18:06
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

“Haukur! Í fyrsta lagi er hér ekki um miðaldaboðskap að ræða samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu orðsins. Hann er 2000 ára gamall.”

Ég veit allt um það. Ég hef lesið Biblíuna, lesið um Biblíuna og er ekki 12 ára.
Tók svona til orða.

“Hvað eftir annað – jafnvel mörg hundruð sinnum – hefur verið tekið hér fram að við fordæmum EKKI samkynhneigt fólk.”

Nei enda sagði ég að þið fordæmduð samkynhneigða hegðun. Þið segið hana vera synd.

“Hver sem er getur hagað sér að eigin vild innan veggja síns heimilis. En þegar kemur að kirkjunni, þá er komið að vegg.”

Veggirnir eru fleiri og stærri úti í samfélaginu. Og það eru fyrst og fremst kristnir menn sem reisa þá.

“Kynlíf einstaklings með öðrum einstaklingi af sama kyni var, er og verður synd.”

Þetta stendur og fellur með því að Guð sé til og að allt sem standi í Biblíunni sé rétt. Ég veit ekki hvort Guð er til. Þið virðist þó nokkuð vissir.

“Önnur lög gilda í kirkjunni. Þar ríkir algert jafnrétti meðal gagnkynhneigðra og samkynhneigðra.”

Þetta er bara svo alls ekki rétt. Hvernig geturðu sagt þetta?

07.09.06 @ 19:24
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

“Haukur, þú fordæmir andfélagslega hegðun. Hlýtur það þá ekki að vera þér kappsmál að fólk viðri ólíkar skoðanir, ræði þær og herði eða brenni eftir atvikum í deiglu málefnalegrar gagnrýni? “

Jú algjörlega. Allir eiga rétt á að viðra skoðanir sínar. Verst þegar þær eru ritskoðaðar og klipptar til sundur og saman.

07.09.06 @ 19:26
Athugasemd from: Janus Hafsteinn Engilbertsson
Janus Hafsteinn Engilbertsson

Haukur, ég þekki það af eigin raun, hvað það getur verið erfitt að vera vantrúaður. Því fylgir neikvæðni og stundum pirringur út í þá, sem trúa og játa trú sína. Í mínum huga er þetta meira andleg barátta, en huglæg. Hvers vegna? Það eru tvö öfl sem takast á í þessum heima. Himneskir englar, undir stjórn Jesú Krists, og englar fallnir af himnum undir stjórn Satans. Um þá segir Páll postuli: “Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.” (Efes 6,12.) Það er bara spurningin hvoru megin við viljum vera. Ég hef valið að vera í liðinu með Jesú, því það er sigurliðið. Opinberunarbókin segir mér, að hann muni koma og gera í eitt skipti fyrir öll út um Satan og fylgendur hans.

Þessi barátta hófst í Edengarðinum og þar afsalaði maðurinn rétti sínum, til að vera stjórnandi þessa heims, yfir til Satans, er hann át af skilningstrénu og trúið orðum Satans er hann sagði: “Er það satt að Guð hafi sagt?” Og þar fæddist efinn. Þessi setning, þessi orð hafa verið notuð af vantrúarmönnum æ síðan. Og þú, Haukur, notar sjálfur í vantrú þinni.

En Guð lét ekki þar við sitja, “því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.” (Jóh 3,16) Það er því ekkert skrítið, að þeir sem taka trú á Jesú, játi trú sína. Enda er það boð Jesú, að lærisveinar hans fari út um allan heim og boði fagnaðarerindið. Og sá sem tekur í einlægni þá trú, að Jesú sé frelsari þessa fallna heims, mun “með hjartanu trúa til réttlætis, en með munninum játa til hjálpræðis.” (Róm 10,10)Eins og Páll segir.

Haukur, gefðu Jesú tækifæri. Lestu Ritninguna með bæn um opinberun. Byrjaðu á Jóhannesarguðspjalli. En ef þér tekst ekki, að taka trú, gefðu þá okkur, sem trúum, frið til að boða það sem við trúum í hjarta okkar.

Júdas segir í bréfi sínu, til þeirra sem eiga að boða fagnaðarerindið:
“Verið mildir við suma, þá sem eru efablandnir, suma skuluð þér frelsa, með því að hrífa þá úr eldinum. Og suma skuluð þér vera mildir við með ótta, og hatið jafnvel kyrtilinn, sem flekkaður er af holdinu.” Júd. 2-23.

Haukur, ég vil velja það, að vera mildur við þig, því ég vil trúa að þú sért, þrátt fyrir mótmæli þín hér á vefsíðunni, efablandinn og góður maður. Kannski eins og ég var, stóryrtur í garð trúaðra, en vissi samnt ekki hvort það væri rétt eða rangt, sem ég var að fullyrða. Hvers vegna? Ég þekkti ekki sannleikann. Og svo tók ég við sannleikanum, og hann gerði mig frjálsan. Og gaf mér frið við alla menn, og kraft til að segja þeim sannleikann.

Ég bið þér blessunar í lífi þínu.

Í kærleika,
Janus Hafsteinn.

07.09.06 @ 21:22
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er rétt hjá Janusi Hafsteini, Haukur Viðar : það er Jesús sjálfur, sem hér á í hlut. Margir telja sig geta skeytt skapi sínu á “kenningum kristinna manna", “öfgakenndri bókstafstrú” o.s.frv., en þeir eru oftar en ekki að nota þau hugtök sem dulur yfir miklu meiri veruleika, sem er Kristur sjálfur og inntak kenningar hans, en gera sér þann leik léttari með því að forðast að skoða erindi hans og tiltal til okkar manna (samræðu hans við okkur mennina) í orði hans. Kynntu þér Krist í guðspjöllunum af einlægni og áhuga, með almennilegum (allýtarlegum) hætti, en ekki yfirborðslegum; eigðu með honum ítrekaðar stundir í mörgum lestrum á viku í nokkrar vikur, þú tapar engu á því, en getur þá betur tekið afstöðu til hans. Það er ekki gott að menn lifi í þjóðfélagi sem byggzt hefur í miklum mæli á kristnum kenningararfi, en forðist (eins og margir gera) að skoða nokkurn tímann frumheimildir þess kristindóms í fullri alvöru, í dýpt, lengd og breidd. Er Jesús frá Nazaret ekki áhrifamesta persóna mannkynssögunnar – og á samt að sniðganga að kynna sér hann a.m.k. einu sinni almennilega í lífinu? Hve margir þeirra, sem ráðast á kristindóminn, hafa lesið jafnvel bara eitt guðspjallanna?

Með blessunarósk, – JVJ.

07.09.06 @ 22:19
Athugasemd from: Janus Hafsteinn Engilbertsson
Janus Hafsteinn Engilbertsson

Þakka þér, Jón Valur, fyrir þessu góðu orð til Hauks. Þau eru líka eins og töluð út úr mínum munni. Svona orð gera ekkert nema að blessa þann sem les eða heyrir.

07.09.06 @ 23:15
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Það er ekki nóg „bara“ að lesa. Ég hef þekkt marga sem lesið hafa töluvert i heil. Ritningum sér til tjóns. Það er sökum þess að þeir lesa þær ekki sem „lectio divina,“ sem guðdómlegan lestur.

Sannur lesandi Orðs Guðs krýpur niður, játar syndir sínar og biður Jesú um að upplýsa sálarsjón sína, til samræmis við bæn Páls postula:

„Ég bið hann að upplýsa sálarsjón yðar, svo að þér skiljið . . .“ (Ef 1. 18).

Þetta þekkti Páll af eigin raun því að hvílík var ekki upplýsing sálarsjónar hans á veginum til Damaskus, þessa hámenntaða og harðskeytta farísea sem sat um líf Jesú?

Þá gerist undrið mikla líkt og á veginum til Emmaus: „Síðan lauk hann upp huga þeirra, að þeir skildu Ritningarnar“ (Lk 24. 45).

Hverjir selja dætur sínar [og syni] í ánauð? Þeir sem hafna fagnaðarerindi Krists og ofurselja börn sín á vald höfðingja þessa heims (Satan) sökum eigin vantrúar.

08.09.06 @ 07:15
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Enn bætir Jón Rafn upp á það, sem mér láðist að nefna. Ég vil samt hvetja alla, sem enga trú hafa (og vilja ekki hafa), til að skoða guðspjöllin í alvöru í kjölinn, áður en þeir telja sig þess umkomna að tala með stórtækum, ábúðarfullum hætti um kristindóminn.

08.09.06 @ 07:40
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Ég þakka hlýleg orð í minn garð.
Of þreyttur eftir ferð út á land til að nöldra hér.

Sé ykkur öll á morgun. Góðar stundir.

10.09.06 @ 20:47
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

CMS software