« Vissulega ber María Guðsmóðir umhyggju fyrir smælingjunumDagleg rósakransbæn fyrir mæðrum og ófæddum börnum! »

24.02.07

  09:52:44, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1079 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

„Er þá Kristi skipt í sundur?“ (1Kor 1. 13)

Orð Páls postula komu mér í huga þegar ég hlustaði á viðtalið við séra Kristján Björnsson, Þjóðkirkjuprest í fréttunum á Stöð 2 á fimmtudagskvöldið um ummæli séra Hjartar Magna. Orð Páls blessaðs hljóða svo

„Því að mér hefur verið tjáð um yður, bræður mínir, af heimilismönnum Klóe, að þrætur eigi sér stað á meðal yðar. Ég á við þetta, að sumir yðar segja: „Ég er Páls," og aðrir: „Ég er Apollóss," eða: „Ég er Kefasar," eða: „Ég er Krists." Er þá Kristi skipt í sundur?“ (1Kor 1. 11-13).

Séra Kristján vitnaði í ummæli Fríkirkjuprestsins málglaða á Tjarnarbakkanum, séra Hjartar Magna. Í hita umræðunnar kallaði séra Hjörtur Magni Þjóðkirkjuna „kirkju djöfulsins!“ Slík ummæli særa alla djúpt, hvaða kirkjudeild sem þeir svo tilheyra.

Leyfið mér að koma með dæmisögu: Dæmisöguna um gulrótina, eggið og kaffibaunina. Eftir að hafa íhugað þennan boðskap – svo framarlega sem við erum með réttu ráði yfirleitt – munum við aldri segja um neitt Kristssystkina okkar að það tilheyri „kirkju djöfulsins!“ Jæja, hér kemur svo dæmisagan (vinur minn í Kanada sendi mér hana um daginn):

Ung kona kom til móður sinnar og rakti fyrir henni raunir sínar og hversu lífsbaráttan reyndist henni erfið. Hún vissi hreint út sagt ekki hvernig hún kæmist í gegnum þetta allt saman og væri komin að þrotum. Ef eitt vandamálið væri leyst, hrönnuðust enn önnur upp í staðinn.

Móðir hennar fór með hana fram í eldhús. Hún fyllti þrjá potta af vatni og stillti plöturnar á eldavélinni á hæsta straum. Brátt tók vatnið í pottunum að sjóða. Í fyrsta pottinn setti hún gulrætur, í þann næsta egg og í þann síðasta setti hún malaðar kaffibaunir. Síðan leyfði hún þessu að malla í pottunum án þess að mæla orð af vörum.

Eftir um það bið tuttugu mínútur slökkti hún á hitanum. Hún veiddi gulræturnar upp úr pottinum og lagði á disk og sama gerði hún við eggin. Því næst hellti hún kaffinu í enn aðra skál (þetta er „pottakaffið“ góða sem Skaftfellingur einn kenndi mér að laga í gamla daga).

Þá snéri hún sér að dóttur sinni og spurði: „Segðu mér nú hvað þú sérð?“ „Gulrætur, egg og kaffi, mamma,“ Mamma hennar bað hana nú að koma nær og snerta á gulrótunum. Þetta var það sem hún gerði og þær voru mjúkar viðkomu. Þá bað mamma hennar hana að taka eitt eggjanna og brjóta það. Eftir að hafa fjarlægt skurnið blasti harðsoðið egg við sjónum.

Að lokum bað móðirin hana að súpa á kaffinu. Bros lék um varir dótturinnar þegar hún fann ljúffengan keiminn af því. Síðan spurði hún: „Hvað ertu að meina með þessu, mamma?“

Móðir hennar svaraði svo til að allt hefði þetta farið í gegnum sjóðandi vatn og útkoman orðið ólík. Gulrótin sem hafði verið hörð og ósveigjanleg væri nú orðin mjúk viðkomu. Eggið hefði verið í fljótandi mynd fyrir suðuna, en þar sem skurnið (vantrúin) hefði umlukið það væri það nú orðið harðsoðið. En möluðu baunirnar væru einstakar í sinni röð vegna þess að eftir suðuna hefðu þær breytt sjálfu vatninu í kaffi.

„Hvað af þessu þrennu telur þú þig vera þegar mótlætið knýr dyra? Hvernig bregstu við? Ertu gulrót, egg eða kaffibaun?“ Hugleiddu hvað þú ert í raun og veru sjálf. Er ég gulrótin sem virtist vera hörð en mýktist upp og varð mjúk viðkomu í þolraunum sínum?

Er ég ef til vill eins og eggið sem hafði hjartamýkt til að bera fyrir suðuna en varð harðsoðið. Er ég eins og þetta egg núna gagntekin harðýðgi hjartans eftir að hafa horfst í augu við andstreymi. Er ég full beiskju og þvermóðsku hjartans?

Eða er ég eins og kaffibaunin? Hún breytti vatninu í raun og veru, þeim aðstæðum sem eru sársaukafullar. Þegar vatnið tók að sjóða leysti það úr læðingu ilm hennar og bragð. Ef þú ert eins og þessar kaffibaunir verður þú betri í eldraunum þjáninganna. Verður þú að betri manni í mesta svartnætti þolrauna og mótlætis, að barni Guðs sem gleður aðra með góðilmi þínum og ljúfleika. Ertu gulrót, egg eða kaffibaun?“

Blessaður karlinn hann Páll sagði okkur að við ættum að vera góðilmur Krists, eins og kaffibaunin. Milla Guðs malar hægt en örugglega. Hún malar baunir lífsreynslu okkar og umbreytir í góðilm ef við bregðumst rétt við ákalli Malarans mikla. Eftir skírnina breytti Drottinn okkur öllum í slíkar „baunir“ góðilms. Vatnið sem hann sýður okkur í er það vatn endurlausnar sem streymir fram úr síðusári Krists í píslum krossins.

Sjálft hið Alhelga Hjarta Drottins bar góðilm endurlausnarinnar um heimsbyggðina frá Fórnarhæð krossins. Kæru Kristssystkini. Drögum lærdóm af þessu vegna þess að í hinu ástríka Hjarta Jesú erum við öll eitt í „heimsku“ krossins.

Orð heil. Teresu frá Avíla koma mér í huga: „Jú kæru dætur, Guð er einnig að finna meðal skaftpottanna í eldhúsinu!“ Það er hann svo sannarlega eða með orðum bróðir Eysteins: Uppi og niðri og þar í miðju!“

Það er bara eitt. Allt er undir því komið hvaðan við horfum, hvar við stöndum, eða með orðum eyðimerkurfeðranna til forna, hver bænastaða (katastasis efches) okkar er. Hallgrímur Pétursson, sálmaskáldið mikla, sem sannarlega þekkti til kvarnar þolrauna Guðs sagði:

Gegnum Jesú helgast hjarta
í himininn upp ég líta má,
Guðs míns ástar birtu bjarta
bæði fæ ég að reyna' og sjá,
hryggðar myrkrið sorgar svarta
sálu minni hverfur þá.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér söguna, Jón, og útleggingar þínar margvíslegar. Góðilmur Krists, það er falleg hugsun og margt í þessu. – Hitt fór með öllu fram hjá mér, þessi undarlegu orð hans Hjartar Magna. Þar hefur verið heitt í kolunum, sýnist mér! En sr. Kristján hefur oft staðið sig vel, veit ég.

25.02.07 @ 21:04
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Af bloggi Jóns Vals á mbl.is:

Tímabært bréf sr. Sigurðar Pálssonar

Ekki var fyrrv. prestur Hallgrímskirkju frekur til plássins í Mbl. í dag, en bréf hans þeim mun þungvægara. Það bar fyrirsögnina Þakkir til séra Hjartar Magna, en leynir á sér! Mörgum sést yfir svona smáklausur í blaði, og því birti ég megnið af því hér á eftir, enda þegar verið opinberlega birt alþjóð:

EFTIR að hafa hlustað á Kompásþáttinn 18. febrúar síðastliðinn, langar mig að þakka séra Hirti Magna Jóhannssyni fríkirkjupresti fyrir að hafa með eftirminnilegum hætti afhjúpað að ekkert mark er á honum takandi í umræðunni um stöðu og starf þjóðkirkjunnar, sem hann líkti við “djöfullega stofnun” og “ókristilega".

Það skýrir málin þegar menn afhjúpa sjálfa sig með þessum hætti…

Sigurður Pálsson, fyrrverandi sóknarprestur við Hallgrímskirkju.

Kærar þakkir, séra Sigurður – það var kominn tími til !

07.03.07 @ 10:07