« Lífið er ekki mannsins að gefa né takaFjórði Íslendingurinn gengur í reglu Mölturiddara »

09.09.07

  11:01:41, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1069 orð  
Flokkur: Trúin og menningin

Er eitthvað athugavert við símauglýsinguna?

Nýleg auglýsing Símans þar sem síðasta kvöldmáltíð Jesú Krists er notuð til að auglýsa farsíma hefur skiljanlega vakið umtal og athygli. Haft var eftir biskupi Þjóðkirkjunnar að hann teldi auglýsinguna 'smekklausa'. Gunnar í Krossinum í spjalli sínu á Útvarpi Sögu tók undir með Jóni Gnarr höfundi auglýsingarinnar þar sem hann sagði í Kastljósviðtali að í rauninni sé hún nútímalegt trúboð. Í stuttri athugasemd í einu blaðanna var haft eftir sr. Jakobi Rolland kanslara kaþólsku kirkjunnar að hann teldi ekki viðeigandi að nota þennan heilaga atburð til að selja síma. Í bloggheimum hafa komið upp margskonar skoðanir og sumir kristnir bloggarar eru ánægðir með auglýsinguna.

Í þessu samhengi er vert að rifja upp 2. boðorðið sem er svohljóðandi:

2. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns við hégóma.

Með fullri virðingu fyrir farsímum sem eru mestu þarfatæki og sér í lagi þessari nýju kynslóð farsíma sem mun væntanlega þýða nýja samskiptabyltingu fyrir heyrnarskerta þá verða þeir trúlega seint taldir meðal helgigripa en þó svo væri þá væru auglýsingar á þeim ekki viðeigandi. Kristnir menn álíta nafn Guðs heilagt og leggja það ekki við 'hégóma', þ.e. þeir gæta sín á því að afhelga það ekki með óviðeigandi eða smekklausri notkun. Viðeigandi eða óviðeigandi hegðun eða umgegni er reyndar ekki bundin við nafn Guðs. Hliðstæð viðhorf birtast t.d. í reglum um umgengni við þjóðfána og á flestum þeim stöðum þar sem fólk kemur saman gilda ákveðnar reglur. Menn gráta yfirleitt ekki mikið í brúðkaupum eða hlæja að öllu jöfnu ekki mikið við jarðarfarir þó hvorutveggja sé umborið en þó ekki í of miklum mæli.

Vera má að tilfinning fólks fyrir því hvað sé heilagt og hvað ekki sé á hverfanda hveli hjá mörgum og það valdi að hluta til þessum mismunandi viðhorfum. Síðasta kvöldmáltíðin og píslarsaga Krists er ekki bara heilög saga í hugum margra af því að viðfangsefni hennar sé Guð og áætlun hans um endurlausn mannanna heldur af því að fyrir mörgum er hún líka táknræn fyrir eða jafnvel raunsönn lýsing á mannlegum örlögum almennt og þá sérstaklega með tilliti til þjáningarinnar og hins æðri tilgangs lífsins. Fyrir þeim sem líta þannig á málið þá er skiljanlegt að þeim þyki þessi notkun full léttúðarfull - þó þeir láti vera að gagnrýna málið harkalega en láti vægari lýsingarorð nægja.

Ekki verður heldur horft framhjá því að markmið auglýsingarinnar er ekki bara það að vekja athygli fólks á þessum ágætu símum heldur er það einnig og þar með að auka sölu á símunum og því á endanum skapa hluthöfum fyrirtækisins arð. Það að vilja hagnast og auka arðsemi er í sjálfu sér ekki ókristilegt en það að ætla sér að gera Guðs nafn að lifibrauði eða jafnvel hagnast á því þarf að eiga sinn afmarkaða stað og tíma. Við sjáum t.d. víða á helgistöðum helgigripasala sem selja krossa, talnabönd, styttur og fleira í þeim dúr. Þar er verði oftast stillt í hóf og verslanirnar eru hafðar nógu langt frá helgistöðunum til að umstangið vegna þeirra trufli á engan hátt helgihaldið. Kristur sjálfur var harðorður í garð víxlaranna sem höfðu fært sig of langt upp á skaftið og voru komnir inn í musterið sjálft til að auðvelda fólki gjaldmiðilsskipti svo það gæti keypt fórnardúfur. Segja má að tilgangur víxlaranna hafi í sjálfum sér ekki verið slæmur, þeir voru einungis að reyna að koma til móts við þarfir trúaðs fólks á sem bestan og ábatasamastan hátt - en þeir gengu of langt í ákafa sínum og hlutu í staðinn reiði Krists.

Röksemdirnar um að auglýsingin sé nútíma trúboð og veki umræðu og athygli á Jesú Kristi hvíla á frekar hæpnum grunni. Erfitt er að sjá að auglýsingin komi málefnum Krists á framfæri nema ef til vill hryggð hans yfir svikum Júdasar, en með því að setja nútíma tækniundur í hendur Jesú sem var uppi fyrir tæpum tveim árþúsundum kallar hún ekki bara fram andstæður sem vekja spennu, undrun og forvitni heldur undirstrikar þessi uppsetning óbeint stöðu Krists sem fornaldarmanns og undirstrikar því óbeint en jafnframt að boðskapur hans tilheyri fornöldinni. Þetta er óbeinn boðskapur auglýsingarinnar þó svo höfundur hennar hafi örugglega haft annað í huga. Þeir sem taka undir og styðja þessar 'trúboðsaðferðir' hafa trúlega ekki leitt hugann að þessu og hæpið er að þeir samþykki það að gera Krist að símasölumanni. Þeir ganga vonandi ekki það langt í góðsemi sinni og undanlátssemi að þeir séu tilbúnir til að gera helgistaði sína að verslunarhúsum jafnvel þó tímabundið sé.

Hlutur Jóns Gnarr hins ástsæla sjónvarpsgrínista sem þarna lendir á vandræðalegan hátt í miðju atburðarásarinnar hlýtur að verða að skoðast í ljósi þeirrar hefðar sem hér er að myndast hjá sjónvarpsgrínistum almennt og er sú sem Spaugstofan markaði með smekklausu trúarbragðagríni sínu hér á árum áður og fjármagnað var af skylduframlagi almennings í gegnum Ríkissjónvarpið. Allt hefur sinn stað og tíma en hlátur hvort sem hann er mikill eða lítill á röngum stað og tíma getur verið óviðeigandi. Hér á árum áður gerði Dave Allen stólpagrín í sjónvarpinu að trúuðum og trú á sinn írska og óviðjafnanlega hátt þannig að margir gátu hlegið að - og Guð trúlega mest allra. En einhvern veginn er íslenska hefðin í sjóvarpstrúarbragðagríninu að verða svo afskaplega vandræðaleg og úr takt við samfélagið að undrum sætir. En þetta á vonandi eftir að breytast.

4 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Eins og talað úr mínu eigin hjarta, Ragnar. Góð grein og íhugunarverð. Hryggilegt að höfundurinn skuli vera kaþólskur. Þetta heitir að sofna á verðinum.

09.09.07 @ 12:01
Kristinn Ásgrímsson

Sæll Ragnar og þakka þennan pistil. Þú kemur að kjarnanum, þegar þú segir að Jesús sé þarna gerður að fornaldarmanni og boðskapurinn verður ótrúverðugur. Ég er sammála að það var ábyggilega ekki ætlun Jóns Gnarr.

09.09.07 @ 13:38
Athugasemd from: Gunnar Ingibergsson  
Gunnar Ingibergsson

Jakobi Rolland kanslara kaþólsku kirkjunnar að hann teldi ekki viðeigandi að nota þennan heilaga atburð til að selja síma.
Það voru nú ekki til símar fyrir 2000
árum.
En ég heyrði talað um aðra auglýsingu frá
Spáni þar sem fótboltalið auglýsti
ársmiða og benti á að Móse og Nói,Abraham
ef þeir væru á lífi myndu þeir fórna sér
fyrir sitt lið og kaupa ársmiða.
Þannig að við erum ekki eina landið sem
gerir þetta en auðvitað vekur þetta
marga trúaða til sárinda. Finnst þér
það sjálfur Ragnar.?

10.09.07 @ 14:03
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Það er spurning hvort þetta eru sárindi. Það er kannski frekar það að fólk kunni sig ekki alveg. Fólk fer ekki í vinnugallanum í partí og það mætir ekki í partígallanum í vinnuna. Þó eitthvað bregði út af í þessu þá verða kannski ekki sárindi - frekar er að þeir sem fara út fyrir normið séu álitnir eitthvað smáskrítnir. Kristnir menn leyfa almennt ekki að helgistaðir þeirra séu notaðir í annað en helgiathafnir nema um sé að ræða sérstaka menningarviðburði þar sem ríkar ástæður liggja fyrir um slíka notkun. Í kirkjunum fara ekki fram basarar eða tombólur, afmælisveislur né teboð þó allar þessar samkomur séu góðar og gildar og fyllilega réttmætar á sínum stað og tíma. Sama gildir um helgar frásagnir trúarinnar. Þær eiga sinn stað og tíma og ef þær fara út fyrir þann ramma þá getur það valdið óró, bæði hjá trúuðum og hinum sem finnst að hinir trúuðu eigi að halda sig innan ákveðins ramma, eða jafnvel hafa hægt um sig, sér í lagi á almannafæri. Við getum tekið óróann sem Vinaleið Þjóðkirkjunnar olli síðasta vetur sem dæmi um það sem getur gerst þegar sumum á trúleysiskantinum finnst að farið sé yfir hliðarlínuna. Ég gæti jafnvel trúað að þessi auglýsing hafi af þessum sökum allt eins stuðað þá sem vilja sem minnst gera úr öllum trúarbrögðum og að þau séu sem minnst áberandi. Hafi hún gert það þá er það miður líka.

11.09.07 @ 19:08