« Brúna skapúlariðHvers vegna hlýða kaþólskir kennivaldi Páfa? »

29.07.12

  18:37:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 391 orð  
Flokkur: Philumena, Spurt og spjallað um kaþólska trú

Er trú kaþólskra biblíuleg?

Spurt og spjallað um kaþólska trú frá biblíulegu sjónarmiði. - Hvað segir Biblían?

“Sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar… Tilbið þú Guð” (Opb 22:7, 9)

10. Er trú kaþólskra biblíuleg?

Trú kaþólskra á sér stoð jafnt í Biblíunni sem og í erfikenningu þeirri sem kaþólska frumkirkjan hlaut í arf á þeim tíma sem ekkert heildarrit, sem nefnist Biblía var til. Munnlegar heimildir voru hins vegar skráðar af svokölluðum kirkjufeðrum sem uppi voru frá 1. til 5. aldar. En slíkar heimildir munnlegar sem skriflegar nefnast erfikenningar (teknar að erfðum) og hefur kaþólska kirkjan ávallt hliðsjón af þeirri þekkingararfleifð í túlkun sinni á Heilagri Ritningu.

Kaþólska kirkjan er sú stofnun, sem varðveitti og tók saman hinar helgu bækur sem Biblían samanstendur af, --varðveitti og fjölritaði (-faldaði ?) í 15 aldir fyrir tilstilli munka. Allar kristnar kirkjudeildir hafa því þegið Biblíuna úr hendi kaþólsku kirkjunnar. Biblían ein er þó aðeins hluti af þeirri kristnifræðslu sem til nútímans hefur borist, hinn hlutinn sem lýtur að túlkun bókarinnar og nefnist erfikenning (tradition) er sá hluti sem lýtur að þeirri munnlegu túlkun, sem Páll postuli áminnir að hafa í heiðri: „Bræður standið því stöðugir og haldið fast við þær kenningar, er vér höfum flutt yður munnlega eða með bréfi.” (2Þess 2:15; Sjá einnig 1Kor 11:2; 2Þess 3:6; 2Tim 1:13-14, 2:2).

Þegar meðlimir frumkirkjunnar áttu í erfiðleikum með skilgreiningu á boðskapi postulanna flettu þeir ekki bara upp í Biblíunni, því hún hafði enn ekki verið tekin saman af kaþólsku kirkjunni, það gerðist ekki fyrr en fjórum öldum síðar er þeir héldu kirkjuþing til varðveislu hinna ýmsu helgu rita, en kirkjuþing var og er ákvörðunarvald kaþólsku kirkjunnar. (P 15:1-29). Á þeim tíma, sem og í dag, var kennsluvaldið í höndum postulanna og síðar arftaka þeirra innan kaþólskrar kirkju og úrskurður kveðinn upp á grundvelli erfikenninga þeirra sem postularnir hlutu í arf frá Kristi og síðar gengu í arf til ráðamanna kaþólsku kirkjunnar og presta þeirra í gegnum aldirnar.

Í ljósi þess að Biblían var upphaflega útgefin af kaþólsku kirkjunni og var varðveitt fyrir tilstilli kirkjunnar og munka hennar í gegnum 15 aldir uns prentverk var fundið upp, þá liggur það í hlutarins eðli að bókin Biblía er og hefur ávallt verið kaþólskri kirkju helg og í heiðri höfð sem tilvísun hvað varðar alla kennslu í kristinni trú og siðgæði, en, nota bene, einnig ávallt með hliðsjón af þeim erfikenningum sem Páll postuli biður okkur að varðveita og hafa ávallt í huga.

Philumena

No feedback yet