« Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Konráð frá ParzhamSjálfstæðismenn álykta um staðfasta sambúð samkynhneigðra. »

22.04.07

  18:58:24, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 481 orð  
Flokkur: Pjetur Hafstein Lárusson

Enn um staðfestingu sambúðar samkynhneigðra

Eftir Pjetur Hafstein Lárusson.

Í gær varpaði ég fram þeirri spurningu á spjallsíðu minni, hvort einhvert trúarsamfélag hefði farið fram á, að fá að staðfesta sambúð samkynhneigðra. Spurningin var sett fram vegna samþykktar landsfundar Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi.

All nokkur viðbrögð hafa orðið við þessari spurningu minni og er ég þakklátur fyrir þau, enda þótt þau svari ekki spurningu minni. En það er nú svo, að þegar maður veltir snjóbolta niður fjallshlíð, veit maður svo sem harla lítið um það, hvar hann lendir.

Hvað varðar sambúð samkynhneigðra, þá er ég fylgjandi því, að þeir njóti, sambúðarinnar vegna, sömu réttinda og gagnkynhneigt fólk í sambúð eða hjónabandi, þ.e.a.s. erfðarréttinda, lífeyrisréttinda o.s.frv. Hins vegar er mér ekki kunnugt um, að nokkurt trúarsamfélag, kristið, gyðinglegt, múslímst eða af nokkrum öðrum toga, hafi í sínu „ritúali" einhvert það form, sem gilt geti til staðfestingar á sambúð samkynhneigðra. T.d. er hjónaband eitt af sjö sakramentum kaþólskra og sem slík heilagt og þar af leiðandi af trúarlegum rótum. Og hér er vissulega átt við hjónaband fólks af gagnstæðu kyni.

Viðar Eggertsson er einn þeirra, sem leggja orð í belg vegna spurningar minnar. Hann segir m.a. „Löggilding hjónabands gagnkynhneigðra sem samkynhneigðra á ekki að vera í höndum trúfélaga. Þetta er lögformlegur gjörningur sem á að vera framkvæmdur af til þess bærum lögaðilum, t.d. sýslumönnum. Síðan mega kirkjudeildir ráða (og rífast um) hvort þær blessi hjónabönd fólks í sínum söfnuði."

Enda þótt ég geti ekki alveg skrifað undir þetta, þá hygg ég, að þarna sé lausnin fundin, með nokkurri breytingu þó; þeir sem vilja ganga í hjónaband á trúarlegum forsendum gera það, hver svo sem trúarbrögð þeirra eru. Hinir, sem ekki vilja ganga í hjónaband á trúarlegum forsendum, heldur veraldlegum, þeir geri það. Og hafa reyndar löngum gert. En stjórnmálamenn geta ekki „veitt" trúarsamfélögum einhvern rétt, sem þau hafa aldrei farið fram á. Það getur tæpast talist flókið mál.

Að lokum má hafa það í huga, að enda þótt kirkjan eða aðrar trúarstofnanir geti ekki lagt blessun sína yfir allt það, sem fólk tekur sér fyrir hendur, þá getur hún blessað fólkið sjálft. Okkur, sem viljum þjóna kirkjunni, eða öðrum trúarsamfélögum, ber því, að virða skoðanir annarra, rétt eins og við hljótum að æskja þess, að þeir virði skoðanir okkar.

(Áður birt á http://hafstein.blog.is)

No feedback yet