« Hve langan tíma tekur hægfara sjálfsmorð þjóðar?Á mæðradaginn 2006 »

15.05.06

  16:36:31, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 985 orð  
Flokkur: Úr lífi og starfi kirkjunnar, Lúthersk kristni, Samkirkjuhreyfingin

Enn bætast guðfræðingar og prestar úr röðum lútherskra í kaþólsku kirkjuna

Án efa eru það nokkur tíðindi, að allmargir lútherskir guðfræðingar, sumir þeirra prestar, hafa á síðari árum gengið í kaþólsku kirkjuna – því að ef þetta er frétt hér á Kirkjunetinu:

“Það hefur vakið athygli að meðal þeirra sem hlutu prestvígslu í Washington D.C. nú fyrir páskana voru þó nokkrir fyrrverandi lúterskir prestar sem snúið hafa heim til móðurkirkjunnar,”

þá hlýtur eftirfarandi líka að vera frétt hér á Íslandi:

Nú þegar hafa fjórir Þjóðkirkjuprestar og þrír guðfræðingar til viðbótar verið teknir upp í Kaþólsku kirkjuna á Íslandi. Þeir eru, úr röðum presta:

Sr. Páll Pálsson, fyrrverandi sóknarprestur á Bergþórshvoli, sr. Rögnvaldur Finnbogason*, sóknarprestur á Staðastað, sr. Halldór Gröndal, áður þjónandi prestur í Grensássókn, og sr. Jón Hagbarður Knútsson, sem tekinn var upp í kirkjuna þriðjudaginn eftir næstliðna páska.

Hinir guðfræðingarnir eru: dr. Sigurður Örn Steingrímsson (tekinn upp í kirkjuna fyrir fáeinum árum), Jón Valur Jensson (tekinn upp í kirkjuna í Cambridge 1983) og Matthías Frímannsson (um síðastliðna páska hér í Landakoti).

*Geta ber þess, að sr. Rögnvaldur Finnbogason var tekinn upp í kaþólsku kirkjuna af Alfreð biskupi Jolson, SJ, sem amaðist ekki við því, að hann héldi áfram að þjóna Þjóðkirkjusöfnuði á Staðastað.

Sigurður Örn Steingrímsson er Gamlatestamentisfræðingur, lauk doktors-prófi (Teol. dr.) frá Uppsalaháskóla 1978 (doktorsritgerð hans bar heitið Vom Zeichen zur Geschichte. Eine literar- und formkritische Untersuchung von Ex[odus] 6,28-11,10). Hann hefur verið prófessor við Guðfræðideild Háskóla Íslands 1985–88 og frá 1. jan. 1996 og unnið að íslenzkri þýðingu Gamla testamentisins frá 1990. Ásamt honum gekk í kaþólsku kirkjuna kona hans, Guðrún Sölvadóttir Blöndal hjúkrunarfræðingur.

Matthías Frímannsson, f. 1932, varð cand. theol. frá HÍ 1959, en hefur lengst af starfað sem þýzkukennari. Kona hans hefur lengi verið virkur þátttakandi í söfnuði Kristskirkju, Hildegard, f. Klein, hjúkrunarfræðingur.

Jón Hagbarður Knútsson, f. 1960, varð cand. theol. frá HÍ 1990, en vígður 3. nóv. 1991 sóknarprestur á Raufarhöfn, þar sem hann þjónaði þrjú ár, en var síðar um tíma aðstoðarprestur á Ísafirði. Hann stundar nú meistaraprófsnám í HÍ, þar sem efni ritgerðar hans er: 'Facing unity': samræður rómversk-kaþólskra og lútherskra í Bandaríkjunum varðandi gildi prestsþjónustunnar í kirkjum þeirra og ágreiningsmál því tengd.

Auk þessara má einnig minnast þess, að Björgvin Magnússon skátaforingi lauk fyrri hluta guðfræðináms við Guðfræðideild Háskóla Íslands og þjónaði um árabil sem djákni í Bandaríkjunum, einnig um tíma hér í Kristskirkju.

Fyrir þá, sem hafa gaman af ættfræði, má bæta við þetta fróðleikskornum: Sr. Páll Pálsson, f. 26. maí 1927, er sonur Páls yfirkennara við Mennta-skólann í Reykjavík (sem þýddi og gaf út Bellum Gallicum eða Gallastríð Cæsars, Rv. 1933), Sveinssonar prests í Ásum í Skaftártungu Eiríkssonar; var Páll yfirkennari albróðir Gísla sýslumanns, alþingismanns og sendiherra, sem var einn þriggja frambjóðenda í kjöri til embættis forseta Íslands 1952, þegar Ásgeir Ásgeirsson bar sigur úr býtum. Móðir séra Sveins var Sigríður Sveinsdóttir læknis og náttúrufræðings í Vík í Mýrdal, Pálssonar, og k.h. Þórunnar Bjarnadóttur landlæknis og ferðabókarhöfundar (með Eggerti Ólafssyni) Pálssonar, en k.h. og móðir Þórunnar var Rannveig Skúladóttir landfógeta Magnússonar.

Sr. Rögnvaldur Finnbogason (1927–1995) var af hafnfirzkum og skaftfellsk-um ættum, sonur Finnboga Jónssonar vkm. frá Byggðarholti í Lóni og k.h. Ingibjargar Magnúsdóttur.

Sr. Halldór S. Gröndal, f. 15. okt. 1927, er sonur hjónanna Mikkelínu Maríu Sveinsdóttur frá Hvilft í Önundarfirði og Sigurðar B. Gröndal, yfirkennara og rithöfundar, Benediktssonar Þ. Gröndals, cand. phil., skálds (yngsta), sem var sonur Þorvaldar prests Stefánssonar á Hvammi í Norðurárdal og fyrri k.h. Valborgar Elísabetar Sveinbjarnardóttur rektors og skálds Egilssonar, þess er samdi margt fagurra ljóða, frumsaminna og þýddra (m.a.: Heims um ból), en er ekki síður frægur af skólahaldi sínu á Bessastöðum og glæstum þýðingum á Hómerskviðum. – Séra Halldór hefur verið virkur sem lesari í messum í Kristskirkju.

Dr. Sigurður Örn Steingrímsson, f. 14. nóv. 1932 á Hólum í Hjaltadal, er sonur hjónanna Theodóru Sigurðardóttur úr Reykjavík og Steingríms Steinþórssonar (skólastjóra, búnaðarmálastjóra, forsætisráðherra 1950–53, landbúnaðar- og félagsmálaráðherra 1953–56). Sigurður Örn á fimm börn og er tengdafaðir Þorsteins skálds frá Hamri.

Matthías Frímannsson er sonur Frímanns Sigmundar Frímannssonar, útvegsbónda í Grímsey, og k.h. Emilíu Guðrúnar Matthíasdóttur prests í Grímsey, Eggertssonar barnakennara og sýsluskrifara á Ísafirði, en hann var albróðir þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar, sem þjónaði ekki aðeins Þjóðkirkjunni dyggilega, heldur lagði einnig drjúgt til kaþólskrar trúrækni með þýðingu sinni af Kaþólskum sálmum (Rvík 1908, 63 bls.; meðal sálmanna þar er Hljóða nótt, heilaga nótt, sem við kaþólskir syngjum um jólin í stað Heims um ból, sem er ekki jafn-nákvæm þýðing Sveinbjarnar Egilssonar á sama sálmi).

––––––––––––
Heimildir m.a.: Guðfræðingatal, Alþingsmannatal; Ættir Síðupresta; JVJ: Ágrip af ætt Sveins Gíslasonar flugstjóra (1999); sami: The Ancestors of Mrs Frida Fulner (2003); Kaþólskir sálmar (um þá litlu, en merkilegu bók verður skrifað hér bráðlega).

4 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Lýsing eins þessa lútersku presta var fögur eins og hann greindi mér frá henni:

Ég sá að skipið lá undir áföllum og óttaðist að það væri að sökkva. Ég stökk í lífbátinn og réri frá skipinu ásamt öðrum. Þegar við höfðum róið langa lengi varð mér litið til baka, og sjá: Skipið hafði rétt sig af (gegnsiðbótin) og sigldi hraðbyr sem aldrei fyrr. Það var þá sem ég stökk í sjóinn og synti til baka!

15.05.06 @ 20:32
Athugasemd from: Reynir K Guðmundsson
Reynir K Guðmundsson

Sælir félagar og bræður. Mér finnst miður hvað ég hef verið lélegur að taka þátt í þessari ágætu síðu. En ég hef verið upptekinn við verkefni og ekki gefið mér tíma til að sinna öðru. En kannski verður nú breyting á. En ástæða þess að ég hef nú samband er til að þakka Jóni Rafni fyrir ofangreinda tilvitnun. Hún er hnitmiðuð og lýsir mörgu sem er að brjótast í brjósti fólks.

18.05.06 @ 12:13
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þetta er reyndar það sem þrír okkar getum tekið undir af hjartans sannfæringu sem „konvertar.“ Gamall prestur í Los Angeles komst reyndar svipað að orði í viðtali við Los Angeles Times þegar lætin voru sem mest út af barnaníðingunum innan kirkjunnar: „Þetta er ekki í fyrsta skiptið í sögunni sem skipið mun rétta sig aftur af, eftir að hafa fengið á sig brotsjó.“ Hann hafði rétt fyrir sér sá gamli. Aldrei hafa jafn margir gengið til liðs við kirkjuna í BNA eins og einmitt í ár, enda orðin fjölmennasta kirkjudeildin vestan hafs. Kannske er þetta einmitt ástæðan? Gaman að heyra í þér á þessum vettvangi, Reynir.

18.05.06 @ 12:25
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Vek athygli á upplýsingum, sem hér hefur nú verið bætt við, um þann prestinn, sem ekki hafði verið nefndur með nafni, þ.e. Jón Hagbarð Knútsson. Hann sem aðrir nýir meðlimir kaþólsku kirkjunnar eru boðnir velkomnir til starfa í samfélagi hennar.

28.06.06 @ 15:13
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

open source blog software