« Athyglisverð umfjöllun á Rás 1 um Hildegard frá BingenOrgelandakt í Dómkirkju Krists konungs í júlí og ágúst 2011 »

12.07.11

  09:11:34, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 383 orð  
Flokkur: Fjölmiðlarýni

Enn um heiti pólitískra fylkinga á Norður-Írlandi

Upp á síðkastið hafa verið að berast fréttir af aukinni pólitískri ólgu á Norður-Írlandi.[1] Í fyrra bloggaði ég og gagnrýndi orðanotkun RÚV og mbl.is þegar fjallað var um þær fylkingar sem tókust á. [2] Frá því það blogg var skrifað virðist lítið hafa breyst hvað varðar þá venju íslenskra fjölmiðla að nefna fylkingarnar sem þar takast á „kaþólska“ og „mótmælendur“. Þeir sem kasta grjóti, henda bensínsprengjum í lögreglubíla og hleypa af byssum geta vart talist vera neitt annað en pólitískir aðgerðasinnar eða vígamenn stríðandi fylkinga. Ég geri ráð fyrir að trúuðu fólki hér á landi, án tillits til þess hvernig það skilgreinir trú sína, ofbjóði að vera óumbeðið dregið í þennan dilk ofbeldismanna af fjölmiðlinum sem lögum samkvæmt á að gæta hlutleysis.

Þróun síðustu ára og reyndar sagan öll sýnir að fólk með önnur markmið en trúarleg leitar inn í trúarhópana til að ná í hluta af þeirri athygli sem fólk sýnir trúnni. Á sama hátt má einnig gera ráð fyrir að fólk með trúarleg markmið leiti inn í stjórmálahópa og geri þá á köflum líka trúarhreyfingum. Gera má ráð fyrir að sum þessara annarlegu markmiða séu öfgakennd eða leiði til óhamingju af einhverju tagi.

Það fer ekki á milli mála þegar deilurnar á Norður-Írlandi eru skoðaðar að þar takast á tvær stjórnmálafylkingar. Þrátt fyrir að meirihluti lýðveldissinna séu kaþólskir og að meirihluti sambandssinna séu mótmælendur þá finnast samt undantekningar þar á. Um það má lesa á Wikipedia hér. Ég sé ekki ástæðu til að draga þær upplýsingar í efa fyrir það eitt að heimildin er Wikipedia.

Ég hef á liðnu ári frá því ég skrifaði fyrri pistilinn fylgst með því hvernig erlendir fjölmiðlar fjalla um þessi mál og flestir nefna stjórnmálahreyfingarnar nöfnum á borð við „lýðveldissinnar“ eða „sambandssinnar“. Ég rakst þó á eina undantekningu en það var á franskri fréttastöð sem sjónvarpar á ensku. Getur hugsast að þar sem áhrifa ágengrar veraldarhyggju gæti hvað mest falli menn í þá gryfju að koma höggi á trú og trúarbrögð almennt með svona orðanotkun? Það er auðvelt að afsaka sig með því að svona hafi þetta alltaf verið orðað og því sé sjálfsagt að orða það svona áfram. Trúarhóparnir liggja vel við því höggi að um trúarbragðadeilur sé að ræða og alltaf er nóg af Þorgeirum Hávarssonum sem njóta þess að taka gott högg.

[1] http://www.ruv.is/frett/oeirdir-a-gotum-belfast
[2] http://www.kirkju.net/index.php/2010/07/13/ruv-og-mbl-is-spyrea-oeireaseggi-vie-truarbroege?blog=8

2 athugasemdir

Athugasemd from: Sigurður Ragnarsson
Sigurður Ragnarsson

Alfreð Jolson biskup skrifaði grein um þessi mál í Morgunblaðið 10. ágúst 1990:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=123408&pageId=1727199&lang=is&q=erkibiskup%20Nor%F0ur-%CDrlandi%20Jolson

12.07.11 @ 11:31
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Kærar þakkir fyrir innlitið og þessa góðu ábendingu Sigurður. Ég birti hér fyrir aftan tilvísunina þína inn á timarit.is á formi tengils. Því miður geta gestir ekki sett tengla inn í athugasemdir öðruvísi en á textaformi.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=123408&pageId=1727199&lang=is&q=erkibiskup%20Nor%F0ur-%CDrlandi%20Jolson

12.07.11 @ 12:39