« Leiðrétting um Hinrik biskup FrehenNonna minnzt í Köln »

24.06.11

Enn frekari brot Georgs skólastjóra gerð opinber

Í frásögn Iðunnar Angelu Andrésdóttur í Fréttatímanum í dag sakar hún séra Georg, skólastjóra Landakotsskóla, um kynferðislega barnaáníðslu. Samkvæmt hennar hlið málsins hafa brot hans gagnvart henni verið margítrekuð og alvarleg, um nokkurra ára skeið, svo að skipti tugum tilfella, fyrst og fremst í húsnæði skólastjórans, 1960–63, en áreitnisögunni hafi loks lokið í Stykkishólmi; ef allt er það satt, er aðdáunarvert að lesa um frammistöðu þessarar stúlku sem hafði enga vörn átt sér, meðfram vegna hótana Georgs. Önnur nafngreind kona, Rut Martine Unnarsdóttir, ber þar einnig vitni um gróft blygðunarbrot, áníðslu séra Georgs. Þá fylgja frásögnunum upplýsingar um viðbrögð foreldra Iðunnar og fleira sem snertir trúverðugleika kvennanna, þannig að gamlir vitnisburðir annarra en þeirra einna eiga að vera tiltækir. – [Viðauki 4.8. 2011: Þetta er sett hér fram með fyrirvara, enda hafa vissar mótsagnir reynzt vera í vitnisburði Iðunnar og hlutir, sem ganga ekki auðveldlega upp, eins og frá þeim vitnisburði var sagt í blaðinu.] – Þetta eru umfram allt óskaplega sorgleg mál og hræðilegt að þetta hafi viðgengizt í barnaskóla kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Viðbrögð biskups, sem þá var, kaþólskrar nunnu og sóknarprests í Landakoti virðast einnig, skv. vitnisburði Iðunnar, hafa verið gagnslaus og óverjandi: henni helzt ráðlagt að fyrirgefa ofbeldismanninum! – Gleymum þó ekki (má bæta við, 27/6), að málið er enn í rannsókn. Það er of snemmt að gefa sér neitt öruggt um jafnvel þessi mál ; það á líka við um vitnisburð tveggja manna, sem hafa ekki komið fram opinberlega undir nafni.

Eitt, sem ekki hefur verið dregið fram í umræðunni, en mér þykir full ástæða til að hyggja að, er sú staðreynd, að séra Georg hafði afar sterka stöðu til að þurrka út slóð sína, ef skólanum eða kaþólsku kirkjunni á Íslandi kann að hafa borizt bréfleg kvörtun eða ef eitthvað hefur verið skjalfest, t.d. í biskupsstofu, um fundi með þeim sem hugsanlega hafa ákært eða ásakað séra Georg og Margréti fyrir framferði þeirra gagnvart börnum. Georg var þarna ekki aðeins skólastjórinn um 34 ára bil, 1964–98, og þar með sá sem hafði yfirumsjón með öllum gögnum skólans, heldur var hann einnig "postullegur umsjónarmaður" biskupsdæmisins árin 1986-88 (eftir andlát dr. Hinriks biskups Frehen) og 1994-95 (eftir andlát dr. Alfreðs Jolson biskups, unz Jóhannes Gijsen tók við sem biskup). Frá árinu 1998 var séra Georg einnig fjármálastjóri biskupsdæmisins.

Af þessu leiðir, að þessi sami meinti barnaníðingur hafði alla aðstöðu til að komast í öll gögn biskupsdæmisins og þar með að eyða þeim, sem hann hefði viljað láta hverfa. Hann hefði þá sömuleiðis getað kynnzt því, af hvaða safnaðarmönnum eða foreldrum barna hann hefði hugsanlega mátt vænta opinberra ásakana, sem og hinu, hvaða prestar eða starfsmenn skólans hafa hugsanlega tekið létt – eða eindregið! – á málum hans.

Um langt árabil voru vissar væringar taldar vera í Landakoti og rafmagnað andrúmsloft milli vissra presta og biskupa, en sumt af því (eins og togstreita séra Sæmundar eða hans stuðningsmanna við Hinrik biskup) væntanlega ekki í neinum tengslum við þessi ljótu mál.

Séra Georg var uppsigað við Maríulegíónina, sem hingað kom á vegum hins írska prests Roberts Bradshaw, manns með mikinn trúboðsvilja – og vann reyndar síðast á þeim akri í Rússlandi. Maríulegíónin var vinsæl hér meðal margra og vann gott starf í Breiðholti og víða um borgina, kannski með einföldum aðferðum, að taka fólk tali á götu og með því að banka upp á og gjarnan með afhendingu Maríu-bænarmens og fyrirbænum, auk helgistunda með þeim, sem þáðu að kynnast því samfélagi. Alltaf þótti mér undarleg fordæming séra Georgs á þessum saklausu aðferðum. Mjög fjölmennum fundi í safnaðarheimilinu fyrir kannski tveimur áratugum var beinlínis stefnt gegn þessari Maríulegíón og augljóst, að séra Georg og hans fylgjendur vildu helzt gera hana brottræka frá Íslandi og fá tilstyrk biskups til þess. Það er eins og mig minni, að þeim hafi tekizt að svipta séra Róbert starfsleyfi eða hrekja hann héðan, en það leiðréttist, ef rangt er með farið – Ragnar Brynjólfsson (hér á Kirkjunetinu) getur upplýst betur um það.

Kann þessi andstaða sr. Georgs að hafa verið af fleiri ástæðum en okkur hugkvæmdust þá? Var þetta afbrýðisemi vegna þess að skuggi gæti fallið á það frábæra skólastarf sem hann vildi telja okkur trú um að hann hefði unnið og myndi ávinna kirkjunni meira traust og tiltrúnað en "Votta Jehóva-aðferðir" í trúboði? – Þetta er nú bara hugmynd, og fleiri tilgátur kunna að eiga eftir að sýna sig.

Á fjölmennum fundi í safnaðarheimilinu (e.t.v. þeim sama og gat um hér á undan, ég man það ekki skýrt) sór séra Georg og sárt við lagði, að aldrei hefði verið neitt ástarsamband milli hans og Margrétar Müller. Trúverðugleiki þess eiginvitnisburðar hans er nú augljóslega enginn orðinn.

Fullkomlega ljós var mér og mörgum andstaða séra Georgs við herra Alfreð Jolson, sem hér sat á biskupsstóli 1988–1994. Séra Georg var greinilega orðinn héraðsríkur í Landakoti, þótt ég fullyrði hér ekkert um, hverjir bandamenn hans hafi verið. Taugatitringur virðist hafa verið meðal sumra Monfort-presta og annarra síðar aðkominna presta, og voru þó í hópi hinna fyrrnefndu ýmsir afar andlegir menn – bezt kynntist ég þar séra Jan Habets í Stykkishólmi, sem var hollenzkur eins og séra Georg, að ógleymdum herra Hinriki biskupi Frehen. (Sjá einnig hér, mjög þungvægan vitnisburð: Dr. Hinrik H. Frehen biskup – Minning, eftir Gunnar F. Guðmundsson sagnfræðing.)

Viðauki: Rangt er farið með það í Fréttatímanum, að það hafi verið Hinrik biskup Frehen, sem hafi ekki brugðizt við eindreginni kvörtun föður Iðunnar Angelu, sem vildi afgerandi viðbrögð biskupsins:

Pabbi krafðist þess að biskupinn sendi séra Georg aftur til Hollands. Það voru auðvitað engin viðbrögð að fá við því og pabbi kom til baka brotinn maður. Hann varð svo reiður að hann fór aldrei í kirkju eftir þetta.

Eins og Sigurður Ragnarsson bendir á í athugasemd hér neðar, var Hinrik biskup ekki kominn til landsins fyrr en um hálfum áratug eftir að faðir Iðunnar Angelu átti, skv. Fréttatímanum, að hafa krafizt þess í samtali við biskup kaþólsku kirkjunnar, að hann sendi séra Georg til baka til Hollands.

En gerandi ráð fyrir, að það sé rétt, að Andrés, faðir Iðunnar, hafi lagt fram kröfu sína fyrir biskup (Jóhannes Gunnarsson?), þá hefði verið óskandi, að Andrés hefði farið beint til lögreglu með málið. En hann var ungverskur og hefur e.t.v. talið erfitt að sækja á hendur hinum "virta skólastjóra" og jafnvel talið sig eiga bágt með að bera málið upp við lögreglu, enda var lítið farið að gera í slíkum málum á þeim tíma. Sjálfur hefði biskupinn getað tekið á málinu með því að leggja til við lögreglu að rannsaka það eða hvetja foreldra Iðunnar til að kæra það.

Mínar eða annarra grunsemdir um andúð séra Georgs á Alfreð biskupi vakna hér aftur á ný, en ég læt þessi viðbrögð mín nægja að sinni. Eitt er þó víst, að hér erum við í raun farin að fjalla um afbrotasögu þar sem sízt skyldi, við hjartastað móðurkirkjunnar á Íslandi, já, hreina glæpasögu og hana af óhugnanlegra taginu.

Einu verð ég að bæta við: Yfirlit Þóru Tómasdóttur um öll þessi mál í kirkju okkar, á bls. 18–19 í Fréttatímanum í dag, er ýtarlegt, en eitt þykir mér þó vanta: að karlmaðurinn, sem Fréttatíminn skrifaði um í síðustu viku, með alvarlegasta kynferðisbrotamálið, var af herra Pétri biskupi Bürcher "hvattur til að leita til lögreglu eða annarra yfirvalda vegna málsins. Kaþólska kirkjan myndi í hvívetna aðstoða yfirvöld við að upplýsa málið," eins og segir í bréfi lögfræðings kirkjunnar. Þetta felur í sér, að biskup okkar, herra Pétur, hefur ekki reynt að hindra framgang þessa máls.

20 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þetta er skelfilegt og þyngra en tárum taki! Óhugnanlegt! Verst að Georg var ekki stoppaður af strax árið 1963 þegar fyrsta kvörtunin barst. Þessi raunasaga líkist meira skáldaðri hryllingssögu en bláköldum raunveruleika.

Ég vissi af samskiptum mínum við Georg og sá af embættisafglöpum hans að hann var rangur maður á röngum stað, en barnaníðið sást samt ekki utan á honum.

Ég gekk í kirkjuna 1987 en var viðloðandi Maríukirkju í Breiðholti árin þar á undan. Fyrstu afglöpin sem ég tók eftir við kirkjustjórnina var þegar Georg sem stjórnandi skákaði föður Róbert Bradshaw frá embætti sóknarprests í Maríukirkju. Það var líklega um vorið og sumarið 1988. Þá fréttist fyrst í DV að það ætti að skipta um sóknarprest í Maríukirkju. Það var greinilega ekki búið að tala við séra Róbert um málið því hann las yfirlýsingu úr predikunarstólnum þess efnis að við ættum ekki að trúa þessu. Örfáum mánuðum síðar var hann farinn. Þessi stjórnunarafglöp hef ég skrifað á reikning séra Georgs því þá var hann yfirstjórnandi og bar alla ábyrgð á kirkjunni.

Síðar tók ég við útgáfu Sóknarblaðs Kristskirkju og síðar Kaþólska kirkjublaðsins undir stjórn Alfreðs biskups Jolson. Þegar Alfreð biskup lést tók við erfiður tími undir stjórn Georgs. Ég hafði á tilfinningunni að Georg væri órólegur yfir tilveru blaðsins og þess sem þar fór fram, en var engu nær um af hverju það stafaði. Hann bar við fjárhagsvandræðum, en mér þótti það ekki nægileg og rík ástæða til að hætta við útgáfuna. Einu sinni tilkynnti hann mér þó að það yrði að hætta við útgáfuna. Ég hafði samband við ritnefndarmenn og tilkynnti þeim þetta. Eftir það dró Georg í land og lét mig hringja í ritnefndarmenn og segja þeim að ég hefði haft rangt eftir honum.

Eitt sinn á Kirkjublaðsárunum sagði hann mér að ég kynni ekki að lesa og í annað skipti á einum fundanna sem ég sótti með Jóhannesi og Georg vegna Riftúns tilkynnti hann mér að hann sjálfur væri stærðfræðingur. Eftir þá yfirlýsingu grunaði mig að hann gengi ekki heill til skógar.

Ég ákvað samt að reyna að þrauka og halda blaðinu úti undir hans stjórn og bíða næsta biskups. Það var því léttir þegar Jóhannes Gijsen kom, en sá léttir breyttist fljótt í vonbrigði því ég fann að ég gat ekki unnið með Jóhannesi heldur og sagði mig frá útgáfunni snemma árs 1997.

Tíminn á meðan tvíeykið Jóhannes/Georg stjórnaði kirkjunni var án efa erfiður mörgum meðlimum hennar. Ég sjálfur þekki þá sögu í gegnum aðkomu mína að því að reyna að koma í veg fyrir sölu Riftúns. Það var andóf sem stóð yfir í nokkurn tíma áður en sóknarnefnd Maríukirkju beið ósigur. Að lokum var landið í kringum húsið selt þvert gegn ráðum okkar.

Ég veit ekki hvað varð um andvirði jarðarinnar en eitt er víst að það rann ekki nema að litlu leyti til uppbyggingar safnaðarstarfsins á Suðurlandi því enn í dag er gamla barnaheimilið aðal miðstöð safnaðarstarfsins þar.

24.06.11 @ 07:09
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Mig langar að bæta því við að mér finnst að kirkjustjórnin þurfi þegar í stað að gefa út yfirlýsingu um það að hún biðji fórnarlömb kynferðisofbeldisins afsökunar. Það er það eina sem farið er fram á hér og ætti að vera auðvelt mál.

Í öðru lagi ítreka ég það að undir þessum kringumstæðum er nauðsynlegt að mæta í messur og sýna með því samstöðu með kirkjusamfélaginu okkar og andstöðu gegn öllu ofbeldi og þá sérstaklega kynferðisofbeldi. Tölum saman og biðjum saman frekar en að hverfa frá og geyma þungann innra með okkur.

24.06.11 @ 08:05
Athugasemd from: Sigurður Ragnarsson
Sigurður Ragnarsson

Henrik Frehen var vígður biskup 8. desember 1968 og settur í embætti sem Reykjavíkurbiskup 22. desember sama ár. Á bls. 18 í Fréttatímanum í dag stendur: “Árið 1963 fór faðir Iðunnar á fund
með Hinriki Frehen biskupi og sagði
að séra George hefði misnotað
dóttur hans. Engin eftirmál urðu af
fundinum.” Frá hinu sama segir einnig á bls. 14-15 í blaðinu, að hún hafi fyrst greint foreldrum sínum frá þessu “sumarið eftir Landakotsskóla, rétt áður en Iðunn byrjaði í gagnfræðaskóla,” og faðir hennar síðan árangurslaust farið á fund Henriks biskups. Árið 1963 virðist því, miðað við aldur konunnar, vera rétt. En Henrik hafði aldrei starfað á Íslandi fyrir 1968. Hann dó 31. október 1986 og getur engu svarað ásökunum í grein Þóru Tómasdóttur.

24.06.11 @ 10:47
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

HJARTANS ÞÖKK, S.R.!

24.06.11 @ 11:34
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Það hlýtur að vera átt við Jóhannes Gunnarsson biskup í þessari frásögn. Hann sagði óvænt af sér biskupsdómi og gerðist prestur í sveitasókn í USA. Menn hafa velt fyrir sér af hverju.

24.06.11 @ 12:04
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sigurður Ragnarsson, þú vitnar í bls. 18 í Fréttatímanum. Þegar ég skoða Fréttatímann á netinu, því ég hef ekki prentað eintak, lítur út fyrir að þu hafir vitnað rangt í Fréttatímann. Í þeirri gerð sem ég sé, er greint frá því í sviga, að að biskupinn hafi verið Frehen, og að að það sé innskot blaðamanns).

Þar sem Fréttatíminn leyfði sér að hafa rangt eftir mér í sama blaði (það hefur verið leiðrétt á vefnum), leikur mér forvitni á að vita hvað stóð eiginlega í prentaða blaðinu.

25.06.11 @ 22:38
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þessar fréttir voru á nokkrum stöðum í Fréttatímanum (blaðinu sem dagsett er 24.-26. júní). Á bls. 2 er samantekt Þóru Tómasdóttur: ‘Einelti og andlegt ofbeldi kennaranna í Landakoti’. Nýtt innlegg þar í umræðuna er framlag Bjarndísar Tómasdóttur (sjá þar), en fréttin endar svo þannig:

“Fleiri fyrrum nemendur Landakotsskóla hafa lýst mannvonsku þeirra Margrétar Müller og séra Georges í Landakotsskóla. Þeirra á meðal eru Vésteinn Valgarðsson,* Hildur Helga Sigurðardóttir, Grímur Jón Sigurðarson og Vilhjálmur Örn Vilhjámsson. Nánari umfjöllun á 14, 16, 17, 18 og 19.”

Eins og sést hér ofar, var dr. Vilhjálmur Örn ekki sáttur við umfjöllun Fréttatímans um sig. Hann hefur skrifað um upplifun sína af skólaárum í Landakoti og verunni í Riftúni í sínu Moggabloggi, í þessum pistlum, og reyndar er þar margt fleira tekið til umræðu, sem þessu tengist:

Í nöp við kaþólska (2009).
Mjög alvarlegar ásakanir (17. júní sl.).
Á kaþólska kirkjan sök á því að menn eru í Vinstri-Grænum og Vantrú? (20. þ.m.).
Illmennska og múgæsing eru systur (22. þ.m.).
Af ýmis konar hysteríu (23. þ.m.).

* Vésteinn er nú Vantrúarmaður. (Aths. JVJ.)

26.06.11 @ 00:16
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Jón Valur, ég var nú ekki í Landakoti, það gekk athugasemd mín við ónákvæmni Fréttatímans m.a. út á.

Vésteinn Valgarðs er ekki bara hatrammur Vantrúarmaður. Hann sat svo kallaða friðarráðstefnu Muslim Brotherhood í Cairo fyrir nokkrum árum. Það gerir hann í mínun huga hættulegan, sér í lagi ef Ísland gengur í ESB.

Ég hjó eftir því í lýsingu Iðunnar Angelu Andrésdóttur, að séra George hefði verið með loðna bringu. Hann fór með okkur krökkunum í Riftúni í sund í Hveragerði. Ég man eftir honum sem vægast sagt hárlausum manni. Á einhver myndir úr sundí í Hveragerði frá Riftúnsárunum?

26.06.11 @ 09:44
Athugasemd from: Sigurður Ragnarsson
Sigurður Ragnarsson

Sæll Vilhjálmur. Tilvitnanir mínar innan gæsalappa eru bara copy-paste af netinu, og ég finn enga missmíði á þeim. En það er alveg rétt hjá þér, að Þóra blaðakona merkir sér á bls. 15 innskot um Henrik, enda legg ég Iðunni ekki þau orð í munn, og niðurlagsorð mín vísa eingöngu til Þóru. Nú er þetta vonandi alveg skýrt, þökk sé þér. Ég hlustaði sömuleiðis á Iðunni í útvarpi, og þar nafngreindi hún engan biskup.

Ragnar gerir því samt skóna, að Iðunn hljóti að eiga við Jóhannes Gunnarsson, og nefnir óvænt brotthvarf hans af biskupsstóli. Jóhannes var haustið 1966 á 70. aldursári og staðfesti, að hann hefði sótt um lausn frá biskupsstörfum. Hann áleit líklegt, að það yrði samþykkt (Mbl 7. október 1966). Hann dó 17. júní 1972, dvaldist síðustu árin í Bandaríkjunum og átti þá við mikla vanheilsu að stríða og andaðist eftir langa og erfiða sjúkdómslegu í Sioux Falls í Suður-Dakóta (Mbl og Tíminn 20. júní 1972). Þar hefur kaþólskt reglufólk lengi haldið úti ágætum sjúkrastofnunum. Jóhannes virðist hafa haft góð tengsl í Bandaríkjunum, tók biskupsvígslu þar og þáði síðar boð um að koma þangað á kirkjulegar hátíðir. Ekkert þarf að vera undarlegt við það, þótt heilsuveill maður dragi sig í hlé um sjötugt eftir 23 ár í sama starfi. Fyrst Jóhannes er ekki nafngreindur í Fréttatímanum 24. júní, finnst mér ótímabært að bendla hann við það samtal, sem Iðunn telur föður sinn [d. 1986] hafa í reiði átt við “biskup,” þegar hún var á tólfta ári, tveimur árum áður en hún fermdist í Landakoti (Mbl 24. apríl 1965).

Ragnar nefnir hér á öðrum stað afsökun frá kirkjunni. Það mætti sem bezt athuga, sem kannski er nú þegar verið að gera. Og gæti til dæmis átt við, ef ekki var alltaf nægilegt eftirlit með skólanum og Riftúni eða nógu aðgengilegt að koma kvörtunum á framfæri. Að minnsta kosti nefna ýmsir ósanngjarnan aga, sem auðveldara er að sannreyna en ásakanir um kynferðisbrot látins fólks.

Vonandi bera sem flestir gæfu til að herða upp hugann og láta strax vita um vonda framkomu gagnvart sér, svo að forða megi öðrum frá sama hlutskipti. Ég held, að innan kaþólsku kirkjunnar og alls staðar í þjóðfélaginu sé á seinni árum ríkur vilji til að rétta hlut barna.

Vingjarnleg kveðja.

26.06.11 @ 12:19
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir innlegg ykkar, Vilhjálmur og Sigurður. Þessi leiðrétting þín þurfti vitaskuld að koma fram, Vilhjálmur, og eins er gott að sjá þetta hér frá þér um bringuna á prestinum …

Takk, Sigurður, alltaf gott að fá þín innlegg. Ég er sammála ályktun þinni um Jóhannes biskup. En varðandi “afsökun” bið ég þig að lesa vel innlegg mín á þessari vefslóð og að sleppa þar ekki þessari síðustu. Þetta er afar mikilvægt mál.

Kær kveðja til beggja.

26.06.11 @ 13:27
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég þarf að leiðrétta atriði í innlegginu mínu hér að ofan frá 24.06.11 @ 09:09.

Ég sagði að faðir Róbert hafi líklega horfið frá prestsstarfi í Maríukirkju 1988. Hið rétta er að það var síðla árs 1987. Sunnudaginn 22. nóvember 1987 kvaddi hann söfnuðinn formlega í sunnudagsmessu og bað Maríu, stjörnu hafsins að varðveita hann. Hann sagði einnig að áhugi safnaðarins og umhyggja hefði verið sér mikill styrkur í starfinu.

Hin góða ósk föður Róberts var vel viðeigandi á þessum tíma innan kirkjunnar, sem einkenndist af sívaxandi áhrifum Georgs skólastjóra á kirkjustjórnina því næstu árin var Georg annað hvort næstráðandi eða hæstráðandi, og þessi góða ósk föður Róberts á ekki síður við í dag.

Þess má geta að faðir Róbert vildi láta kalla sig það, þ.e. föður Róbert, en það var líka á brattann að sækja með það hjá honum. Ég get mér þess til að ákveðinn áhrifamikill prestur og fagurkeri hvað varðar íslenskt mál, og hvers nafn hefur ekki enn verið nefnt í þessari umræðu, hafi mælt gegn því.

27.06.11 @ 11:11
Athugasemd from: Vésteinn Valgarðsson
Vésteinn Valgarðsson

Hvað með það að ég sé Vantrúarmaður? Haldið þið kannski að trúleysi hafi mótiverað mig til þess að segja frá reynslu minni?

Og Villi: Skiljanlega álítur þú mig “hættulegan” fyrir að sækja friðarráðstefnu. Friðarráðstefnur eru jú í andstöðu við zíonismann sem þú aðhyllist.

27.06.11 @ 11:54
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Svar mitt, Vésteinn, við spurningu þinni er, að sú var ekki meining orða minna. Aðrir geta svarað fyrir sig.

En er Muslim Brotherhood í alvöru rétti aðilinn til að halda friðarráðstefnu? Er þetta ekki harla róttækt og jafnvel herskátt bræðralag? (Gerum þessa hliðarþanka þó ekki að neinu meginefni hér, en þú getur þó upplýst um svarið við þeirri spurningu minni, vænti ég.)

27.06.11 @ 12:44
Athugasemd from: Hildur Helga Sigurðardóttir  
Hildur Helga Sigurðardóttir

Sýnist hin annars nauðsynlega umræða hér vera á leið út og suður.
Við sem vorum í Landakotsskóla á sínum tíma, munum hvað okkur þóttu hjúin, sem þar fengu öllu að stjórna, vera slæm, við okkur sjálf og mun verri við mörg önnur börn. Hvað verið var að gera við sum skólasystkini okkar var auðvitað nokkuð sem við höfðum engan þroska til að gera okkur grein fyrir. Það hefðu þó einhverjir fullorðnir innan skólans átt að gera. Og gerðu sennilega… Þar liggur syndin og líka sorg okkar í dag.

28.06.11 @ 03:52
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Vésteinn, eða má ég kannski kalla þig Vésa?

Múslímska bræðralagið hefur margoft lýst óskum sínum um að drepa gyðinga, hvar sem þá er að finna. Þú hefur stutt slík samtök með veru þinni á þingum þeirra um “frið". Það finnst mér því miður segja nóg um þig, hvort sem þú hefur orðið fyrir aðkasti starfsmanna í Landakoti eða ekki.

Það kemur mér einnig spánskt fyrir sjónir, að þú, sem einstaklingur sem lýsir frati á trúarbrögð, farir á ráðstefnur samtaka sem segjast starfa með blessun Allah. Ég skil ekki slíkt rugl.

28.06.11 @ 09:25
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Hildur Helga,

þeir sem voru í Landakoti eða í Riftúni og kynntust illmennskunni,(í mínu tilfelli hjá kvenpersónunni Margréti Müller), höfum örugglega nægan þroska til að skilja og gera okkur grein fyrir því sem sagt er að hafi gerst gagnvart þeim sem segjast hafa orðið fyrir kynferðislegum glæpum. Það er í einu orði hræðilegt. Ég held jafnvel að við séum betur í stakk búin til þess en siðapostular úti í þjóðfélaginu sem láta ógeðfellda fordóma sína ráða ferðinni í umfjöllun sinni á þessu máli.

Ég er hins vegar einn af þessum “vanþroskuðu” sem ekki getur skilið, að maður þurfi að trúa einhverju jarðlegu, bara ef það er sagt, þegar sannanir liggja ekki fyrir - og fara svo að dæma og fordæma fólk sem er látið, sem ekki getur sig varið, og hvers glæpir eru fyrndir samkvæmt lögum.

Eitt af fórnarlömbunum kom fram með sögu sína nærri 50 árum eftir að glæpurinn átti sér stað. Réttmæt finnst mér spurningin: Af hverju ekki fyrr?

Vitnisburð þolenda verður að rannsaka ofan í kjölinn á sama hátt og saga gerenda verður rannsökuð - Ég ætla að minnsta kosti að vona að svo verði.

28.06.11 @ 11:32
Vésteinn Valgarðsson

“Sjötta Cairo-ráðstefnan um lýðræði og frið í Mið-Austurlöndum” var ekki íslömsk ráðstefna og hún var ekki haldin af Bræðralagi múslima sem slíku, heldur í samstarfi nokkurra samtaka af ýmsu tagi. Íslamistarnir í B.m. voru vissulega ein þeirra samtaka, og í samræmi við stærð og resúrsa voru þau meira áberandi en flest hin samtökin, en pólitíska rófið sem var þarna var miklu breiðara og fjölbreyttara. Þetta var ráðstefna andófsaflanna í Mið-Austurlöndum og hvort sem mönnum líkar betur eða verr, þá eru bæði íslamistar og arabískir þjóðernissinnar meðal þeirra afla, og voru því (eðlilega) á þessari ráðstefnu. Þarf ég að taka það fram, að ég kunni best við mig í félagsskap sósíalistanna sem voru þarna? Og ætli þið undrist nokkuð þegar ég segi að ég hafi lent í heilmiklu þrefi um trúarbrögð við heilu halarófuna af pirrandi trúboðum Bræðralagsins? Ég get líka frætt ykkur um að (a) ég heyrði engan hvetja til morða á gyðingum en (b) ég sá ýmislegt áróðursefni sem var, tja, í það minnsta smekklaust og byggðist stundum á gyðinga-stereótýpum. Það mátti finna ýmislegt, mismikilvægt, að þessari ráðstefnu en hún var að mörgu leyti mjög góð. Ég skrifaði grein um upplifun mína af Bræðralagi múslima, ef þið viljið lesa hana getið þið séð hana hér: http://www.eggin.is/greinar/bralag-mma/

28.06.11 @ 15:28
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Elsku besti Vésteinn, þetta ágæta blogg Jóns Vals fjallaði um mun alvarlegra mál en þig og þína persónu, eða val þitt á ráðstefnum úti í hinum stóra heimi.

Ég skrifaði einnig um ráðstefnuna í Kaíró og kallaði þá ritgerð: Fjaðrafok friðarfuglanna - The Sixth Chairo Conference, sjá
http://postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/528277/
Þar er að finna ýmsar upplýsingar um yfirlýsingar þínar gegnum árin.

Þú settist þarna niður með Hamas og öðrum skátahreyfingum ímyndunarveiki þinnar. Friður var ekki á dagskrá og hefur aldrei verið á þessum fundum, sem ekki viðurkennir tilvist Ísraelsríkis.

Vonandi færist þessi umræða aftur að efninu, þótt ég beri einhverja ábyrgð á æsingi Vésteins.

Mig langar að vekja athygli á langloku sem ég setti á bloggið mitt snemma í morgun: http://postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/1176337/

29.06.11 @ 05:30
Vésteinn Valgarðsson

Ég man eftir þessari færslu þinni, Vilhjálmur, þú tókst bara það litla sem þú vissir um þessa ráðstefnu og fylltir inn í eyðurnar með fjörugu ímyndunaraflinu, og lítið á því að græða. Ég hef ekki tíma til að elta ólar við einhverja hugaróra í þér, heldur var ég að svara Jóni Val með síðasta svari mínu. Hann spurði í innleggi 27.06.11 @ 14:44.

29.06.11 @ 19:56
Vésteinn Valgarðsson

…eða, svo ég taki skýrar til orða: Spurning Jóns var tilefni þess að ég svaraði. Ég svaraði í leiðinni einhverju sem þú hafðir skrifað, sem mér fannst eiga heima með svarinu til Jóns.

29.06.11 @ 21:47
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution