« Sumarið er tími pílagrímsferðaEWTN sjónvarpsstöðin næst best á Eurobird 1 gervitunglinu »

25.04.11

  08:19:21, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 260 orð  
Flokkur: Fjölmiðlarýni, Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Kaþólskan í fjölmiðlum fyrr og nú

Í sjónvarpsfréttum RÚV að kvöldi föstudagsins langa var landsmönnum greint frá því að „kaþólska kirkjan [væri] íhaldssöm stofnun og færi sér hægt að tileinka sér nýjungar á borð við sjónvarp“. [1].

Fréttamanninum og áheyrendum hans má í þessu sambandi benda á útvarpsstöð Páfagarðs sem stofnsett var 1931 og sett upp af Guglielmo Marconi upphafsmanni útvarpsins. Ágrip af sögu stöðvarinnar er að finna hér. Sú útvarpsstöð sendir í dag út á 45 tungumálum. Útvarpsstöð Páfagarðs er því aðeins einu ári yngri en elsti hluti RÚV er.

Fréttamanni RÚV mun líklega einnig koma á óvart að fregna af starfi bandaríska kaþólska biskupsins Fulton J. Sheen sem á árunum 1930-1950 hafði umsjón með útvarpsþættinum The Catholic Hour. Síðar flutti Sheen biskup sig yfir í sjónvarpið og sá um þættina Life Is Worth Living (1951–1957) og The Fulton Sheen Program (1961–1968). Í þessu samhengi má rifja upp að RÚV - Sjónvarp hóf starfsemi sína árið 1966 eða um það leyti sem Sheen biskup var að ljúka sínum sjónvarpsferli.

Í nútímanum má einnig benda á kaþólsku sjónvarpsstöðina EWTN sem sendir út um gervinhetti til margra landa sem og útvarpsstöðina Radio Maria. Í víðu samhengi má benda á vefi sem annað hvort eru reknir beint af kaþólsku kirkjunni, sjálfstæðum stofnunum eða einstaklingum.

Vissulega má halda því fram með nokkrum þunga að lítið hafi borið á kaþólsku kirkjunni í íslensku sjónvarpi svo sem sjónvarpsfréttum. Þessi litla athygli sem kaþólska kirkjan, og ekki bara hún heldur t.d. litlu kristnu söfnuðirnir fá í RÚV á sér eflaust ýmsar skýringar en sú skýring að hún og þeir forðist fjölmiðlana sökum íhaldssemi er ekki sú sennilegasta.

[1] http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4547321/2011/04/22/7/

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Góður pistill, Ragnar, – og þar að auki tímabær áminning fyrir sjálfumglaða Rúvara. En eins og allir vita, eru þeir auðvitað sjálfkjörnir til að koma með yfirlýsingar um það, sem kallazt geti “frjálslynt” og “íhaldssamt".

Gleðilegt sumar og gleðilega upprisutíð!

26.04.11 @ 23:09
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Jón og bestu kveðjur til þín sömuleiðis.

28.04.11 @ 16:52