« Ertu búinn að fyrirgefa?Kraftaverk »

17.03.06

  21:03:13, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 367 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Enginn vildi réttlæti

Kennari nokkur í framhaldsskóla einum sagði nemendum sínum í upphafi skólaársins að í lok hvers mánaðar yrðu þeir að skila skrifaðri ritgerð. Ef ritgerðinni yrði ekki skilað á réttum tíma, táknaði það núll í einkunn fyrir ritgerðina. Og þetta skyldu nemendurnir; engin ritgerð þýddi núll í einkunn.

Í lok fyrsta mánaðarins vantaði fimm ritgerðir og nemendurnir báðu kennarann um meiri tíma, sem þeir og fengu. "Látið þetta ekki gerast aftur", sagði kennarinn.

Í lok annars mánaðarins höfðu tíu ritgerðir ekki skilað sér og aftur báðu nemendurnir kennarann um meiri tíma, sem hann veitti þeim. "Látið þetta ekki gerast aftur", sagði kennarinn.

Í lok þriðja mánaðarins hafði kennarinn ekki fengið fimmtán ritgerði og nemendurnir sárbændu kennarann um meiri tíma.

"Adam, hvar er ritgerðin þín?" spurði kennarinn.
Adam svaraði: "Vertu rólegur, kennari, þú færð hana í næstu viku".
"Adam, þú færð núll í einkunn", sagði kennarinn. Adam varð mjög reiður.

"Eva, hvar er ritgerðin þín?"
Eva svaraði: "Engan æsing, kennari, þú færð hana í næstu viku."
"Eva. Þú færð núll í einkunn". Eva varð líka mjög reið.

"Þetta er ekki sanngjarnt", hrópaði Adam. "Þetta er óréttlátt!"
Þá brosti kennarinn og sagði: "Allt í lagi Adam, vilt þú réttlæti?"
"Já, ég krefst réttlætis," öskraði Adam.

Kennarinn sagði þá: "Gott og vel, ef ég man rétt varst þú líka of seinn að skila þinni ritgerð í síðasta mánuði. Er það ekki rétt hjá mér?"
Hann svaraði játandi.

"Allt í lagi, ég mun líka breyta einkunn þinni frá síðasta mánuði í núll", sagði kennarinn. "Eru einhverjir fleiri hér sem vilja réttlæti"?

Enginn annar vildi réttlæti.

Kæru vinir! Guð er miskunnsamur, en ekkert okkar á rétt á þeirri miskunn. Hún er ávallt og með öllu ókeypis gjöf Guðs til okkar. Við skulum ekki ganga að því sem vísu.

No feedback yet