« Ritningarlesturinn 21. september 2006Ritningarlesturinn 20. september 2006 »

20.09.06

  09:13:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 797 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

„En spekin hefur rétt fyrir sér, það staðfesta öll börn hennar.“

Þann 18. september s. l. var systir Leonella Sgorbati, 65 ára gömul ítölsk nunna sem starfað hafði árum saman í SOS barnaþorpinu í Mogadishu í Sómalíu skotin til bana. Tveir byssumenn frömdu ódæðið og hún gerði sér ljóst að hún var að deyja og endurtók í sífellu: „Ég get ekki andað, ég get ekki andað.“ Samkvæmt því sem Upplýsingaskrifstofa kaþólsku kirkjunnar í Nairobi (CISA) greindi frá voru hennar tvö hinstu orð: Ég fyrirgef, ég fyrirgef!“

Þar með endurtók hún krossbæn Krists: „Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra“ (Lk 23. 34). Kristur sagði jafnframt í hinstu kveðjuorðum sínum: „. Ég bið ekki fyrir heiminum, heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér, því að þeir eru þínir“ (Jh 17. 9). Í reynd þýðir þetta að kristinn einstaklingur biður ekki fyrir heiminum í dag, það er að segja veraldarhyggjunni og guðsafneituninni, heldur fyrir öllum jarðarbúum, því að allt eru þetta Guðs börn, sköpun Guðs. Hann biður einnig fyrir hryðjuverkamönnum Íslam í Al Qaida í von um að náð Guðs snerti hjörtu þeirra, áður en það verður um seinan. Hann umvefur öll jarðarinnar börn í bænum sínum: Líka svörtu börnin hennar Evu.

Þetta getur enginn í eigin mætti: „Án mín getið þér alls ekkert gjört (Jh 15. 5). Og Kristur bætti við: „En hjálparinn, Andinn Heilagi, sem Faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður“ (Jh 14. 26). Það er Heilagur Andi sem kennir okkur að biðja með þessum hætti, og þegar við biðjum þannig glæðir það náðina með okkur sjálfum og þannig vöxum við í vaxtartakmarki Krist fyllingar eða samlíkjumst Kristi (sjá Ef 4. 13). Náðin glæðir skilning okkar á því að guðsímyndin er hulin í öllum mönnum og leysir okkur undan oki lyginnar, eða með orðum Jóhannesar guðspjallamanns: „Ef einhver segir: „Ég elska Guð,” og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróðir sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð. Og þetta boðorð höfum vér frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn” (1Jh 4. 20-21). „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín” (Jh 14. 15).

Í Kristsgjörningunni gefur Drottinn okkur hlutdeild í bæn sinni sem æðsti prestur hinnar himnesku tjaldbúar þar sem hann er eilífur fyrirbiðjandi okkar og þannig tökum við undir bæn hans fyrir öllum jarðarbúum. Og í Heilögum Anda hverfa öll skil rúms og tíma og hin jarðneska tjaldbúð og sú himneska verða að einni órjúfanlegri heild og þannig getum við tekið þátt í lofgjörðinni með hinum heilögu við hásæti dýrðarinnar á himnum í Heilögum Anda. Þetta er sökum þess að Heilagur Andi er allt í öllu og samtímis á jörðu sem á himni, eða með orðum bróðir Eysteins munks í Lilju: „Senn verandi úti og inni, uppi og niðri og þar í miðju.“ Og þeir sem gerðu það að vana sínum í hinni stríðandi kirkju á jörðu að biðja fyrir öllum jarðarbúum munu vissulega halda áfram að gera það á himnum. Hvað annað geta þeir gert? Í náð Heilags Anda hafa þeir lært að elska bræður sína og systur.

Æðst allra fyrirbiðjenda á himnum fyrir jarðarinnar börnum eru þau Jesú, Jósef og María, hin heilaga fjölskylda. Því biðja kaþólskir karlar og konur á sérhverjum degi:

Heilaga María, Guðsmóðir, bið þú fyrir oss syndugum mönnum, nú og á dauðastundu vorri.

Með orðinu oss er átt við öll jarðarinnar börn. Þannig uppfyllum við boðorð Krists um að elska óvini okkar. Þetta er fyrirbæn okkar fyrir öllum jarðarbúum. Við hefjum okkur þannig ekki upp yfir aðra synduga menn heldur samkennum okkur við synd heimsins og alla bersynduga menn, eða með orðum bræðra okkar og systra í Austurkirkjunni:

Drottinn Jesús Kristur, Guðsonur, miskunna okkur syndugum mönnum! Þannig staðfesta öll börn spekinnar að hún hefur rétt fyrir sér eða með orðum Páls postula: Ég gjöri ávallt í öllum bænum mínum með gleði bæn fyrir yður öllum“ (Fl 1. 4).

Þetta er sökum þess að Kristur Drottinn „vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1.Tm. 2. 4.)

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er góð og uppbyggileg hugleiðing út frá þeim alvarlega atburði sem fyrst er frá sagt og átti sér stað í Sómalíu. Og góð guðfræði, vel að merkja. Heilar þakkir, Jón.

20.09.06 @ 16:01