« Að þjóna er að ríkja með KristiDauðamenning eða lífsmenning? »

13.03.06

  19:35:01, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 363 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

En Gyðingar margir týndu þá því ljósi

Heilagt guðspjall Jesú Krists þann 14. mars er úr Matteusarguðspjalli 23. 1-12 

Þá talaði Jesús til mannfjöldans og lærisveina sinna: "Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear. Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða. Þeir binda þungar byrðar og leggja mönnum á herðar, en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri. Öll sín verk gjöra þeir til að sýnast fyrir mönnum, þeir breikka minnisborða sína og stækka skúfana. Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti í veislum og æðsta bekk í samkundum, heilsa sér á torgum og kallast meistarar af mönnum. En þér skuluð ekki láta kalla yður meistara, því einn er yðar Meistari og þér allir bræður. Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu, því einn er Faðir yðar, sá sem er á himnum. Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga, því einn er Leiðtogi yðar, Kristur. Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar. Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.

En Gyðingar margir týndu þá því ljósi
Heiðnar þjóðir vóru í hugarmyrkri, því að þeir sáu eigi ið sanna ljós, þá er þeir kunnu eigi Skapera sinn. En Gyðingar höfðu ljós, því að þeir trúðu rétt á Guð. En af því kallast Kristur heldur ljós heiðinna þjóða en Gyðinga, að heiðnar þjóðir lýstust í hingaðkvomu hans, en Gyðingar margir týndu þá því ljósi, er áður höfðu þeir, því að þeir vildu eigi trúa á hann. En hann kallast af því dýrð Ísraels, að hann lét úr Gyðingakyni berast og kenndi sjálfur þeim allar kenningar, meðan hann var hér í heimi.

[1]. Hómilíubók, bls. 122-123.

1 athugasemd

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

“Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar. Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.” Þessi orð eru yfirlætislaus miðað við innihald því þegar að er gáð þá kemur í ljós að þau snúa heimshyggjunni alveg á hvolf. Það virðist alger þversögn að í mesta styrk sé fallið falið og að í mestu auðmýkt sé upphefðin mest.

Vissulega sjást samt hliðstæð mynstur í náttúrunni. Alda sem rís hnígur aftur, hlutabréfavísitala sem rís í hæstu hæðir hnígur í lægstu lægðir uns hún tekur að rísa aftur. Maður sem er orðinn öruggur um allt sitt eins og ríki bóndinn með kornhlöðurnar í annarri dæmisögu safnaði auði en dauðinn hrifsaði hann svo óvænt frá vellystingum þessa heims. Einnig mætti nefna sagnaminni. Í Hringadróttinssögu lætur J.R.R. Tolkien “litla fólkið", þ.e. hobbítana vinna mestu þrekvirkin og sigrast á því sem virðist yfirgengilega sterkt.

“Dramb er falli næst” er ein hlið á þessari hugsun. Andlegur þroski í skilningi Krists er því ekki fólginn í því sem er sýnilegt og sterkt, heldur í þeirri afstöðu að þjóna öðrum, að vilja lítillækka sig fyrir aðra.

13.03.06 @ 21:47