« Og Guð þarfnast líka okkar!Breskum stúlkum allt niður í tólf ára aldur afhent neyðargetnaðarvarnapillan »

12.04.06

  13:25:13, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 629 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

En annar ávítaði hann þegar

Guðspjall Jesú Krists þann 13. apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 13. 1-15

Hátíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi, að stund hans var kominn og að hann færi burt úr þessum heimi til Föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá, uns yfir lauk. Kvöldmáltíð stóð yfir. Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi Símonarsyni Ískaríots að svíkja Jesú. Jesús vissi, að Faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara til Guðs. Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum, sem hann hafði um sig. Hann kemur þá að Símoni Pétri, sem segir við hann: „Herra, ætlar þú að þvo mér um fæturna?“ Jesús svaraði: „Nú skilur þú ekki, hvað ég er að gjöra, en seinna muntu skilja það.“ Pétur segir við hann: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Jesús svaraði: „Ef ég þvæ þér ekki, áttu enga samleið með mér.“ Símon Pétur segir við hann: „Herra, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið.“ Jesús segir við hann: „Sá sem laugast hefur, þarf ekki að þvost nema um fætur. Hann er allur hreinn. Og þér eruð hreinir, þó ekki allir.“ Hann vissi, hver mundi svíkja hann, og því sagði hann: „Þér eruð ekki allir hreinir.“ Þegar hann hafði þvegið fætur þeirra, tekið yfirhöfn sína og setst aftur niður, sagði hann við þá: „Skiljið þér, hvað ég hef gjört við yður? Þér kallið mig meistara og herra, og þér mælið rétt, því það er ég. Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. Ég hef gefið yður eftirdæmi, að þér breytið eins og ég breytti við yður.

Hugleiðing
Þegar Ágústínus kirkjufaðir hugleiddi þennan ritningartexta komst hann svo að orði: „Að svo miklu leyti sem píslarvottarnir úthella blóði sínu fyrir bræður sína, þá framreiða þeir „sömu máltíðina“ eins og þá sem þeir meðtóku við borð Drottins.“ Leggjum eyru við boðskap feðra íslensku kirkjunnar: „Kristur lét sér sóma að deyja meðal vondra manna og þeim dauðu, sem títt var að bana vændismönnum [illmennum], að hann sýndi sig til þess hafa komið í heim að samtengja góða menn og illa þeirri samtenging, er illir menn mætti batna af samvistum góðra og hverfa frá illsku, en þeim yrði að áfellisdómi, er eigi vildi batna. Þau dæmi sýna þjófar þeir, er krossfestir vóru með Kristi, því að annar þeirra hæddi að Drottni, en annar ávítaði hann þegar og mælti: „Eigi hræðist þú Guð, og erum vér nú allir í einni fordæmingu, og höfum við það, er við erum verðir, en sjá gerði ekki illt.“ Síðan mælti hann við Jesúm: „Minnst þú mín, Drottinn, þá er þú kemur í ríki þitt.“ Síð kom illvirki sá til trúu, en mikil var trúa hans, því að hann játti þeim, er postularnir flæðu [flýðu] og þorðu eigi berlega að játa honum. [1]

[1]. Hómilíubók, bls. 97.

No feedback yet