« Brúður Heilags Anda – eftir hl. Lous Grignion de Montfort„Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður.“ »

22.05.07

  16:14:56, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1997 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Eldur sannleikans og Kjalnesingagoðinn

Það er mikið skrafað á Íslandi í dag, svo mikið, að við getum kallað fjölmiðlamenninguna skrafskjóðumenningu. Einn ávöxtur hennar var borinn á borð fyrir landsmenn á Rúv 2 fyrir tveimur dögum í síðdegisþættinum (eftir kaffitímann). Þetta var viðtal við Jóhönnu Harðardóttir Kjalnesingagoða. Þar lofsöng hún hin heiðnu goð, einkum Þór, vegna þess að hann veitir henni svo mikinn styrk í erilsömu starfi sem blaðamaður! Hún tók fram að fyrir nokkrum árum síðan hefði hún hugað á djáknanám, reynt að lesa Biblíuna, en hún hefði verið henni sem lokuð bók. Hins vegar hefði hún fundið hinn sanna kærleika í ásatrúnni fornu, en ekki í Hvíta-Kristi. Tja, það er nú svo.

Hugleiðingin með guðspjalli dagsins í dag (22. maí 2007) er eftir Jústín píslarvott (100-160), en hann var einnig trúarheimspekingur. Hann kemst svo að orði:

Sál mín þráði að læra hvað er frumlögmál heimspekinnar og sérkennandi fyrir hana. Þekking á ólíkamlegum hlutum heillaði mig að fullu og öllu og íhugun hugheimsins veitti hugsun minni vængi. Á skömmum tíma taldi ég mig vera orðinn spakan mann og ég var jafnvel svo grunnhygginn að gera mér vonir um að sjá Guð þegar í stað vegna þess að þetta er takmark heimspeki Platóns. Í þessu hugarástandi ásetti ég mér að hverfa til afskekkts staðar þar sem ég væri viss um að geta dvalið einsamall. En þá varð öldungur einn á vegi mínum . . .

„Hvað hefur leitt þig til þessa staðar?“ spurði hann mig. „Mér fellur að reika svona um og slíkt er örvandi fyrir hina heimspekilegu hugsun . . .“ Hann spurði: „Veitir þá heimspekin hamingju?“ „Vissulega,“ svaraði ég „og það einungis heimspekin ein . . .“ „Hvað er það þá sem þú telur vera Guð?“ Það sem er ávallt í samsemd við sig sjálft og veitir öllu öðru tilvist: Þetta er Guð.“ Hvernig geta heimspekingar gert sér rétta hugmynd af Guði þegar þeir þekkja ekki Guð vegna þess að þeir hafa aldrei séð hann eða heyrt?“ „En,“ svaraði ég, „Guðdómurinn er ekki sýnilegur augum okkar eins og aðrar verur. Hann er ekki aðgengilegur vitsmununum einum, eins og Platón sagði. Ég er honum sammála . . .“
       
„Fyrir löngu síðan,“ sagði þá öldungurinn, „voru uppi menn áður en þessir svokölluðu heimspekingar komu fram á sjónarsviðið, hamingjusamir og réttlátir menn sem voru vinir Guðs. Innblásnir af Anda Guðs töluðu þeir um og spáðu framtíð sem nú hefur ræst. Þeir eru kallaðir spámenn. Þeir einir sáu sannleikann og boðuðu mannkyninu hann. Þeir sem lesa verk þeirra njóta mikils ávinnings af slíku ef þeir treysta orðum þeirra. Þeir voru trúfastir boðberar sannleikans og vegsömuðu Skapara alheimsins, Guð og Faðir, og þeir kunngerðu þann sem hann sendi, Krist, Son hans. Bið þú umfram allt annað um að hlið ljóssins ljúkist upp fyrir þér vegna þess að enginn getur séð Guð né skilið ef Guð eða Kristur hans veita honum ekki skilning . . .

Ég sá hann aldrei aftur. En skyndilega tók eldur að loga í sál minni. Ég varð gagntekinn elsku á spámönnunum, þessum mönnum sem eru vinir Krists. Þegar ég íhugaði orð gamla mannsins, þá varð mér ljóst að þetta væri hin eina áreiðanlega og heilladrjúga heimspeki. [1]

Ég hef áður vikið að því hér á Kirkjunetinu hvernig franski heimspekingurinn Blaise Pascal upplifði þennan sama eld. Árum saman hafði hann leitað Guðs með hliðsjón af frumlögmálum heimspekinnar án árangur. Og þið megið trúa mér að hann var mikill heimspekingur. Auk þess hafði hann svo meistaraleg tök á franskri tungu að hann hafði mótandi áhrif á alla þróun hennar allt fram á daginn í dag. Hann hóf franska málnotkun svo að segja í nýjar og áður óþekktar hæðir með stílbrögðum sínum. Að honum látnum fann þjónn hans snjáðan pappírsmiða sem hann hafði saumað inn í skyrtu sína og bar á sér. Í dag gengur þessi snjáði miði undir heitinu „pergament Pascals.“ Þar má lesa eftirfarandi orð:

„Ár náðarinnar 1654, mánudaginn 23. nóvember, dagur heilags Klemens páfa og píslarvotts og annarra píslarvotta, aðfangadagur heilags Chrysostomusar, píslarvotts og annarra,frá klukkan hálf ellefu um kvöldið til um hálf eitt, Eldur.“ [2]

„Frá því klukkan hálf ellefu til um hálf eitt „Eldur!“ Þetta er allt er lítur að sjálfu atvikinu, en bersýnilega nægilegt til að minna hinn innvígða á allt það sem gerðist. Það sem fylgir á eftir greinir okkur einungis frá þeirri ástríðufullu gleði og fullvissu sem þessi furðulega opinberun – þessi langvarandi og ljómandi ásýnd á veruleikanum – hafði í för með sér. Þetta er einungis safn upphrópana gegnsýrðra undrun, grófar og samhengislausar upphrópanir þegar listamaðurinn í honum bíður lægri hlut og skírskota til þeirra ógnarmiklu tilfinninga sem helltust yfir hann hver á eftir annarri eftir því sem eldur elskunnar opinberaði leyndardóma sína og glæddi gagnkvæman eld auðmýktar í sálu hans:

„Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs,
ekki heimspekinganna og fræðimannanna.
Fullvissa, fullvissa, tilfinningar, gleði, friður.“

„Ekki Guð heimspekinganna og fræðimannanna,“ hrópar þessi mikli lærdómsmaður og heimspekingur í undrun þegar hann hverfur skyndilega frá þekkingunni til elskunnar.

„Oubli du mond et de tout hormis Dieu (gleyma heiminum og öllu utan Guðs),“ segir hann aftur þegar hann sér heim sinn hreinsaðan af öllu nema þessari yfirskilvitlegu staðreynd. Síðan: „Le mond ne t’a point connu, mais je t’ai connu. Joie! joie, joie! pleurs de joie!“ (heimurinn þekkti þig ekki, en ég hef þekkt þig. Gleði, gleði, gleði! gleðitár!).

Svona er þetta eða hvað sögðu lærisveinarnir á veginum til Emmaus: „Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?“ Hér erum við komin að kjarna málsins og mig langar að benda Kjalnesingagoðanum á. Það er ekki nægilegt að lesa heil. Ritningu sem hverja aðra bók eða bloggsíðu. Heilög Ritning felur í sér mikinn kraft – kraft Guðs – en það eru ekki allir sem verða hans aðnjótandi, heldur einungis þeir sem lesa hana af fyllstu auðmýkt og biðja Guð um að ljúka henni upp fyrir sér í Anda og sannleika, eða með orðum Justíns píslarvotts og trúarheimspekings hér að ofan:

„ Bið þú umfram allt annað um að hlið ljóssins ljúkist upp fyrir þér vegna þess að enginn getur séð Guð né skilið ef Guð eða Kristur hans veita honum ekki skilning.“

Ég vil líka vekja athygli Kjalnesingagoðans á frásögninni af glímu Elía við særingarpresta Baals forðum. Elía stendur sjálfum mér nærri vegna þess að hann er stofnandi Karmelítareglunnar sem ég tilheyri og kennir sig við Karmelfjall:

Þá sagði Elía við spámenn Baals: „Veljið yður nú annað nautið og fórnið fyrst, því að þér eruð svo margir, og ákallið nafn yðar guðs, en leggið eigi eld að.“ Þá tóku þeir nautið og fórnuðu því og ákölluðu nafn Baals frá morgni og til hádegis og sögðu: „Baal, svara þú oss!“ En þar var steinhljóð og ekkert svar. Og þeir höltruðu kringum altarið, sem þeir höfðu gjört.

En er komið var hádegi, tók Elía að gjöra gys að þeim og mælti: „Kallið hárri röddu, því að hann er guð. Hann er hugsi, eða hefir brugðið sér burt, eða er farinn í ferð. Ef til vill er hann sofnaður og verður fyrst að vakna.“ En þeir kölluðu hárri röddu og ristu á sig skinnsprettur að sínum sið með sverðum og spjótum, uns þeim blæddi. En er komið var fram yfir hádegi, komust þeir í guðmóð, þar til bera átti fram matfórnina. En þar var steinhljóð og ekkert svar og engin áheyrn.

Þá sagði Elía við allan lýðinn: „Gangið hingað til mín!“ Og allur lýðurinn gekk til hans. Þá reisti hann við altari Drottins, er niður hafði verið rifið. Og Elía tók tólf steina, eftir ættkvíslatölu sona Jakobs „ þess manns er orð Drottins hafði komið til, svolátandi: ,Ísrael skalt þú heita!' – og reisti af steinunum altari í nafni Drottins og gjörði skurð umhverfis altarið, á stærð við reit, er í fara tvær seur útsæðis. Síðan lagði hann viðinn á altarið, hlutaði sundur nautið og lagði það ofan á viðinn. Því næst mælti hann: „Fyllið fjórar skjólur með vatni og hellið yfir brennifórnina og viðinn.“ Þeir gjörðu svo. Þá mælti hann: „Gjörið það aftur.“ Og þeir gjörðu það aftur. Og enn mælti hann: „Gjörið það í þriðja sinn.“ Og þeir gjörðu það í þriðja sinn. Og vatnið rann allt í kringum altarið. Jafnvel skurðinn fyllti hann vatni.

En í það mund, er matfórnina skyldi fram bera, gekk Elía spámaður fram og mælti: „Drottinn, Guð Abrahams, Ísaks og Ísraels! Lát í dag kunnugt verða, að þú ert Guð í Ísrael og ég þjónn þinn og að ég hefi gjört alla þessa hluti að þínu boði. Bænheyr mig, Drottinn! Bænheyr mig, að lýður þessi megi komast að raun um, að þú, Drottinn, ert hinn sanni Guð, og að þú snýrð aftur hjörtum þeirra.“

Þá féll eldur Drottins niður og eyddi brennifórninni, viðnum, steinunum og grassverðinum, og vatnið í skurðinum þurrkaði hann einnig upp. Og er allur lýðurinn sá það, féllu þeir fram á ásjónur sínar og sögðu: „Drottinn er hinn sanni Guð, Drottinn er hinn sanni Guð!“ (1K 18. 25-39).

Ef Jóhanna Kjalnesingagoði bregst nú þannig við að reisa hinum sanna Guði altari í hjarta sínu og kalla eld yfir það mun sami leyndardómurinn endurtaka sig í henni sjálfri og hjá þeim Elía, Jústín píslarvotti og Blaise Pascal. Það eina sem þarf til er hjartans auðmýkt lítillátrar sálar og þar er María Guðsmóðir öllum kristnum mönnum sem leiðarstjarna á lífsins vegum:

„Verði mér eftir orðum þínum“ (Lk 1. 38).

Þá mun „hlið ljóssins“ ljúkast upp fyrir henni og brenna upp skurðgoð nýheiðninnar, eða með orðum spámannsins Malakí: En hver má afbera þann dag, er hann kemur, og hver fær staðist, þegar hann birtist? Því að hann er sem eldur málmbræðslumannsins og sem lútarsalt þvottamannanna. Og hann mun sitja og bræða og hreinsa silfrið, og hann mun hreinsa levítana og gjöra þá skíra sem gull og silfur, til þess að Drottinn hafi aftur þá menn, er bera fram fórnir á þann hátt sem rétt er“ (Ml 3. 2-3).

[1]. Samræður við Tryphon, 2-4, 7-8; Patrologia Greaca 6. 478-482, 491.
[2]. „L’an de grace 1654 lundi 23 novembre, jour de Saint Clément, pape et martyr, et autres au martyrologe, veille de Saint Chrysogone, martyr et autres, depuis environ dix heures et demie du soir jusques environ minuit et demie, Feu.“

No feedback yet