« Ákall til Heilags Anda„Að biðja fyrir fólki (þjóðum) er að úthella blóði sínu“ fyrir „allan Adam“ »

13.04.08

  07:41:54, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 892 orð  
Flokkur: Bænalífið, Kristselskan

Ekkert starf kirkjunnar er jafn mikilvægt og Kristselskan – hl. Jóhannes af Krossi, kirkjufræðari

Í Kristselskunni tökum við undir bæn Æðsta prests okkar, Krists Drottins, á Krossinum: „Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra“ (Lk 23. 34). Við skulum heyra hvað hl. Jóhannes af Krossi hefur að segja um Kristselskuna:

Þar sem sálin hefur séð af öllu og gefist elskunni á vald, fæst andi hennar ekki við neitt annað. Hún snýr jafnvel baki við þeim verkum sem falla undir hið virka líf og því sem slíku er samfara til að uppfylla það eina sem Brúðguminn sagði að væri nauðsynlegt (Lk 10. 42). Þetta felst í árvekninni gagnvart Guði og að leggja rækt við elskuna í honum. Drottinn metur þetta og virðir svo mikið, að hann álasaði Mörtu þegar hún reyndi að draga Maríu frá honum þegar hún sat honum til fóta til að fá hana til að sinna öðrum verkum til að þjóna honum. Sjálf taldi Marta sér trú um að allt hvíldi á hennar herðum og María hefðist ekkert að vegna þess að hún dvaldi í nærveru Drottins (sjá Lk 10. 39-41). En þar sem ekkert verk er meira né háleitara en elskan, er hið gagnstæða sannleikanum samkvæmt. Drottinn heldur einnig upp vörnum fyrir brúðina í Ljóðaljóðunum og býður allri sköpun heimsins sem skírskotað er til með Jerúsalemdætrunum að hindra brúðina ekki í andlegum svefni elskunnar eða að vekja hana, svo að hún ljúki ekki upp augunum gagnvart neinu öðru fyrr en hún þrái slíkt sjálf (Ll 3, 5)

Taka ber fram að uns sálin nær þessu stigi kærleikssameiningarinnar, þá ber henni að leggja rækt við elskuna bæði í sínu virka lífi og ásæinu. En þegar hún er komin hingað í eitt skiptið fyrir öll á hún ekki að sinna öðrum verkum og ytri viðleitni sem gæti orðið til að hindra elskuríka athygli hennar á Guði, jafnvel í óverulegum mæli og þó að þessi verk feli í sér mikla þjónustu við Guð. Einungis örlítið af þessari hreinu elsku er dýrmætari fyrir Guð og sálina og blessunarríkari fyrir kirkjuna, jafnvel þó að svo gæti virst að við höfumst ekkert að, heldur en öll önnur verk samanlagt.

Vegna einbeittrar þrár sinnar til að þóknast Brúðgumanum og til að mega verða kirkjunni til blessunar, faldi María frá Magdölum sig í eyðimörkinni í 30 ár til að gefast þessari elsku sannarlega á vald, og það þrátt fyrir að hún legði rækt við góðverk með predikunum sínum og hefði haldið áfram að gera það. Hún taldi að þrátt fyrir allt myndi henni falla miklu meira í skaut með þessu lífi í kyrrðinni vegna þeirrar áþreifanlegu blessunar og ávinnings sem örlítið af þessari elsku gæti orðið fyrir kirkjuna.

Sú sál sem sem hefur þessa sönnu elsku til að bera í ákveðnum mæli væri beitt miklum órétti, rétt eins og sjálfri kirkjunni, ef við myndum knýja hana til að sinna ytri verkum eða erli, jafnvel þó að þessi verk væru afar aðkallandi og krefðust einungis lítils tíma. Þar sem Guð hefur af fyllstu áherslu sagt að ekki beri að vekja sálina af þessu svefni elskunnar (Ll 3. 5), hver dirfist þá að gera þvílíkt og annað eins, án þess að komast hjá refsingu? Þegar allt kemur til alls vorum við sköpuð til að njóta þessarar elsku.

Þeir sem eru þannig uppteknir í erli verka sinna og telja sjálfum sér trú um að þeir geti unnið heiminn með predikun sinni og ytri verkum ættu að gefa því gaum, að þeir yrðu kirkjunni meira að gagni og mun velþóknanlegri Guði, svo ekki sé minnst á það góða fordæmi sem þeir gæfu, ef þeir verðu að minnsta kosti helmingi tíma síns með Guði í bæninni, jafnvel þó að þeir hafi ekki orðið aðnjótandi jafn háleits bænastigs og þessa. Þannig kæmu þeir miklu meira til leiðar með minna erfiði með þessari viðleitni en með þúsund öðrum verkum. Þeir myndu verðskulda þennan árangur með bænum sínum og myndu styrkjast sjálfir andlega. Án bænarinnar berjast þeir áfram án þess að koma miklu í verk og stundum engu og jafnvel vinna tjón í sumum tilvikum. Guð heimilar það ekki að saltið glati styrk sínum (Mt 5. 13). Hveru mikið sem þeir virðast afkasta hið ytra, koma þeir í reynd engu til leiðar. Það er hafið upp yfir allan vafa að góðverk verða einungis unnin í krafti Guðs. (Ljóð andans 29. 1-3).

Í bréfi frá Ubeda til karmelsystur í Segovia sem Jóhannes skrifaði skömmu fyrir dauða sinn kemst hann svo að orði: „Elskaðu þá heitt sem eru þér mótdrægir og elska þig ekki vegna þess að það er með þessum hætti sem elskan glæðist í ástlausu hjarta. Guð kemur þannig fram við okkur vegna þess að hann elskar okkur svo að við getum elskað með sömu elskunni og hann ber í brjósti til okkar.“

No feedback yet