« Viðhorf íslam til trúskiptingaÁ aldrei að kasta perlum fyrir svín? »

24.03.06

  21:08:12, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 624 orð  
Flokkur: Skírnin

Kenningin um Limbó kvödd

Róm, 24 jan. 2006 (Zenit.org).-
Jóhannes Páll II. páfi fór þess á leit árið 2004 að guðfræðileg staða óskírðra látinna barna yrði skýrð. Séra Cantalamessa prestur í Páfagarði skrifaði:

„Sumir hafa haft samband við mig vegna skrifa minna um að sálir óskírða barna endi ekki í Limbó heldur fari til himna. Jesús stofnaði sakramentin sem sérstaka náðarfarvegi. Venjulega eru þau nauðsynleg og fólk sem getur meðtekið þau en vill það ekki þarf að svara fyrir þessa afstöðu gagnvart Guði. En Guð takmarkaði sig ekki við þau. Jafnvel um Altarissakramentið sagði Jesús: „Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans, hafið þér ekki lífið í yður.“ (Jh. 6:35), en þetta þýðir ekki að allir þeir sem hafa aldrei meðtekið sakramentið séu glataðir.

Þráð en óframkvæmd skírn sem og hátíð hinna heilögu sakleysingja staðfesta þetta. Í Matteusarguðspjalli segir Jesús líka „Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“ (Mt. 25,40). Kenningin um Limbó hefur aldrei verið skilgreind sem kennisetning kirkjunnar. Hún var guðfræðileg tilgáta sem að mestu hvíldi á kenningu hl. Ágústínusar um erfðasyndina en var hafnað sem boðun fyrir löngu og guðfræði nútímans hafnar henni.

Við ættum að taka alvarlega allsherjarvilja Guðs um sáluhjálp. „Þetta er gott og þóknanlegt fyrir frelsara vorum Guði, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tím. 2:4) sem og það sem felst í því að „Jesús hafi dáið fyrir alla“. Eftirfarandi texti úr kaþólska trúfræðsluritinu virðist styðja þessa afstöðu:

1261. (1250, 1257) Hvað varðar börn sem deyja án þess að hafa verið skírð, getur kirkjan ekkert annað gert en falið þau miskunn Guðs á hendur eins og hún gerir í útfararathöfn sinni fyrir þau. Því að hin mikla miskunnsemi Guðs, sem vill að allir menn verði sáluhólpnir, og blíða Jesú gagnvart börnunum sem fékk hann til að segja: “Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi,” fær okkur til að vona að til sé leið til sáluhjálpar fyrir þau börn sem deyja án þess að hafa verið skírð. Þeim mun áríðandi er kall kirkjunnar að varna ekki litlum börnum að koma til Krists með því að meðtaka gjöf heilags skírnarsakramentis. [1]

Ég held ekki að sú afstaða að óskírð börn öðlist hjálpræði ýti undir fóstureyðingar. Fólk sem vanrækir kenningu kirkjunnar um fóstureyðingar hafa varla áhyggjur af öðrum kenningum þessarar sömu kirkju. Jafnvel þó það væri grundvöllur fyrir því að óttast þetta þá ætti brot gagnvart kenningunni ekki að hindra okkur í að halda henni.

Ég verð að játa að aðeins sú hugmynd að Guð byrgi auglit sitt að eilífu fyrir saklausri sál einfaldlega vegna þess að annar hefur syndgað eða vegna fósturláts, fær mig til að skjálfa og ég er viss um að myndi gera hvaða trúleysingja sem er ánægðan með að halda sig frá kristni. Ef helvíti er í eðli sínu fjarlægð frá Guði, þá er Limbó helvíti“ skrifaði séra Cantalamessa að lokum.

RGB/Heimild:
„Father Cantalamessa on Limbo and the Unbaptized.“ http://www.zenit.org/english
[1] Trúfræðslurit Kaþólsku kirkjunnar, grein 1261

11 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Merkileg og góð vefgrein, Ragnar. En lokasetning séra Cantalamessa sýnist mér veikur hlekkur í þessu. Ef hún á að standast, þarf hann líka að geta gefið sér, að limbó sé fjarlægð frá Guði. Mér hefur hingað til skilizt, að limbó sé náttúrlegur sælustaður, kannski rétt eins og jörðin fyrir syndafall mannsins. Þar fyrir er það ekki “fjarlægð frá Guði"; hann er þar allt í öllu eins og hér í þessum táradal, þrátt fyrir að einstaklingarnir í limbó sjái ekki Guð augliti til auglitis.

En mér virðist þó ágætt, að limbó-hugmyndin sé ekki orðin að kenningu kirkjunnar. Máske verður hún það, eftir að kirkjan hefur kafað betur í hug sinn og allar forsendur mála. Máske verður annað til þess, að hún taki stefnu á gagnstæða átt, t.d. út frá messudegi saklausu barnanna sem eru ótvírætt í himnaríki.

“Ég held ekki að sú afstaða að óskírð börn öðlist hjálpræði ýti undir fóstureyðingar,” segir séra Cantalamessa, og ég er sammála því. Fólk, sem þekkir kenningu kirkjunnar um fósturdeyðingu sem stóralvarlegt siðferðisbrot, sem af sjálfu verkinu útilokar gerandann frá sakramentunum, unz iðrun, lofuð yfirbót og aflausn hefur átt sér stað í skriftasakramentinu, fer ekki að fremja fósturdráp til að senda barn sitt til himnaríkis; með því móti væru þau að senda sjálf sig í verri staðinn (nema þau iðrist svo í tæka tíð). En staða barnsins, bæði í þessu tilfelli og öðrum, þar sem þessi verknaður er framinn, er auðvitað staða hins saklausa fórnarlambs. Möguleiki er því til að tala hér um skírn í blóði. Hitt er staðreynd, að þær hugmyndir heyrast, að fólk telji sitt ófædda fóstur vera “komið til Guðs,” jafnvel eftir vísvitandi fósturdeyðingu. Vera má að það gerist, sú hugsun er mér ekki ógeðfelld, enda er hjálpræðið ókeypis veitt, og það sýnir ekki hörku Guðs, heldur mildi, ef meiri hluti hinna hólpnu reynist verða börn undir skynsemisaldri og hinir ómálga, á meðan þeir fullorðnu í stórum fylkingum reynast hafa valið aðra leið, sem er ekki hans hjálpræðisleið, heldur ógöngur þeirra eigin illu eða sjálfselsku viljastefnu. – En hitt er aftur á móti slæmt, að fólk treysti á það sem öruggt, að þessi óskírðu, aborteruðu börn fari “til Guðs". Það er oftraust, a.m.k. áður en sú hugmynd er viðurkennd sem kenning kirkjunnar. Það á líka að hvetja fólk til að biðja fyrir þessum börnum, oftraust er ekki til þess fallið.

Önnur og “miklu ágætari leið” (sbr. I. Kor. 12.31) heldur en það (of)traust eitt, að óskírðu og ófæddu börnin verði hólpin, er líka fólgin í þessu: að kirkjan biðji fyrir þessum börnum. Eins og hún biður fyrir Gyðingum og heiðingjum, trúleysingjum og trúvilltum, þannig er það líka Guði þókknanlegt, að hjálpræði hans veitist ómálga börnunum að teknu tilliti til fyrirbæna bæði kirkjunnar og aðstandenda þessara barna. Sjá um þetta hugleiðingu, Sigurviss bæn fyrir ófæddum, sem ég set hér inn á þessum degi ófæddu barnanna.

Það eru góð tíðindi, sem ég hafði ekki frétt fyrr en nú, að Jóhannes Páll II. páfi hafi farið þess á leit árið 2004 að guðfræðileg (og hjálpræðisleg) staða óskírðra látinna barna yrði skýrð. Kærar þakkir fyrir þetta, Ragnar.

24.03.06 @ 23:10
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Tengil á frétt af beiðni páfa til guðfræðinganna um að skýra stöðu látinna barna er að finna hér: Children Who Die Without Baptism: A Nagging Question.

25.03.06 @ 07:00
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Sú hugsum sem liggur hinum Flekklausa getnaði að baki felur ekki í sér að hin blessaða mey hafið ekki þarfnast endurlausnar. Það var guðfræðingurinn Jóhannes Duns Scotus (1266-1308) sem benti á þá staðreynd, að hinn Flekklausi getnaður grundvallaðist á friðþægingu Krists sem byggi yfir slíkum mætti, að hún væri gagnvirk fram og til baka í tíma. Í tilviki Maríu hefði friðþæging Krists forðað henni frá því að saurgast af synd, jafnvel aðeins eitt andartak. Með þetta í huga undanskildi kirkjuþingið í Trent (1545-1563) Maríu undan afleiðingum erfðasyndarinnar sem varð að grundvelli trúarsetningarinnar um hinn Flekklausa getnað Guðsmóðurinnar.

Sérhvert ófætt barn er sannarlega flekklaus getnaður og þar með heilagt og helgað Guði. Til samræmis við úrskurð fornkirkjunnar voru engin vandkvæði á því að framkvæma skírn í eyðimörk þar sem ekkert vatn væri fyrir hendi og sem slík væri athöfnin fullkomin og endanleg. Nóg er af heilögum prestum á himnum til að skíra þessi börn.

Ég vil einungis að lokum hvetja þær mæður sem þjakaðar eru af samviskukvölum eftir fóstureyðingu að lesa pistil minn: Sjö stólpar sannleikans eftir fóstureyðingu.

Inntak kenningar Scotusar gerir því allar hugmyndir um Limbó með öllu óþarfar og þannig hafa hinir réttlátu Gamla textamentisins einnig orðið aðnjótandi friðþæginar Krists rétt eins og aðrir réttlátir meðal heiðingjanna sem lutu eðlisboði samviskunnar sem lögmáli sínu (sjá Rm 2. 14). Sagði ekki hl. Ágústínus: Margir standa utan kirkjunnar, en tilheyra henni þó“?

25.03.06 @ 08:10
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta allt er vert að hafa í huga við ígrundan þessara mála, en samt mun kirkjan ekki vísa hugmyndinni um limbó léttilega frá sér – það er svo margt annað, sem kemur inn á þessa hugsun til viðbótar. En setning þín, bróðir: “Sérhvert ófætt barn er sannarlega flekklaus getnaður,” hver er röklegur grunnur hennar? Sjálfur stórefa ég hana, í öllum tilvikum nema heilagrar Guðsmóður og Guð-mannsins Jesú.

25.03.06 @ 10:17
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Óvarlega orðað, nafni, ég átti ekki við að þessi börn séu laus undan afleiðingum erfðasyndarinnar, heldur hafa þau hvorki drýgt smásyndir, hvað þá dauðasyndir. Rétt að segja frekar saklaus getnaður, utan erfðasyndarinnar. Því hin himneska skírn þar sem þau öðlast varanlegt flekkleysi.

25.03.06 @ 11:31
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Vitaskuld er það rétt hjá þér, að þau hafa hvorki drýgt smásyndir, hvað þá dauðasyndir. Þau eru syndlaus í þeirri merkingu. En ef getnaður þeirra væri óflekkaður af erfðasyndinni, þá væri til einskis að tala um óflekkaðan getnað heilagrar Guðsmóður.

25.03.06 @ 11:37
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hér virðist faðir Cantalamessa eiga við Limbó sem eilíft ástand. Sjáið t.d. þessi orð: „að aðeins sú hugmynd að Guð byrgi auglit sitt að eilífu fyrir saklausri sál“[Leturbr. RGB], þ.e. þetta virðist svipuð hugmynd og menn gera sér um hreinsunareldinn, þ.e. að lokum losni sálirnar úr því ástandi og fái að líta auglit Guðs, m.a. en þó ekki eingöngu vegna fyrirbæna lifenda. Þar með er hann ekki að segja að ekki sé rétt og gott að biðja fyrir sálum þeirra - eins og Jón Valur kemur inn á í sinni athugasemd, þ.e. að rétt og gott sé að biðja fyrir þessum sálum.

25.03.06 @ 13:19
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

To mysterion touto mega estin, „Þetta er mikill leyndardómur. Ég á við Krist og kirkjuna“ (Ef 5. 31). En hvernig sem þessu er svo varið, mun Jesús taka þessum börnum fagnandi, rétt eins og meðan hann dvaldi meðal okkar á jörðinni. Ef til vill felst skírn þessara barna í tárum iðrandi mæðra?

25.03.06 @ 14:29
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Skv. þessari frétt [0] þá er búið að kveða upp úr með þetta. Nokkrir bloggarar blogguðu um frétt mbl.is á blog.is: [1],[2],[3],[4],[5],[6],[7],[8],[9],[10],[11],[12],[13],[14],[15],[16],[17],[18],[19],[20].

27.04.07 @ 19:14
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Það hefði mátt bæta við um velflest innlegg þessara bloggara: “… af mikilli vanþekkingu og fordómum margir hverjir"!

27.04.07 @ 23:21
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Svo virðist sem tilgátan um Limbó sé ekki með öllu úr sögunni. Systir Sara Butler sem er meðlimur í rannsóknarráði páfa segir að enn sem fyrr sé limbó tilgáta sem hægt sé að færa rök fyrir og að þrátt fyrir að kirkjan feli óskírð látin börn miskunn Guðs þá eigi hún sem fyrr að leggja áherslu á barnaskírn. „Guð er ekki bundinn af sakramentunum“ sagði hún og á sama hátt og okkur skilst að það séu færar leiðir fyrir fullorðna óskírða einstaklinga sem eru óupplýstir um boðskap guðspallanna að hljóta náð, þá skilst okkur að Guði séu kunnar leiðir opnar ungabörnum sem því miður deyja óskírð.“ Sjá hér: [1]

04.05.07 @ 19:19