« Knútur DanakonungurSystir Briege og móður Teresa »

07.04.08

  17:36:11, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 694 orð  
Flokkur: Dýrlingarnir og hetjur

Eiríkur helgi Svíakonungur

Heimildir eru mjög fáorðar um ævi og dauða þessa unga konungs, að því frátöldu sem sagt er frá honum í ævisögu hans sem skráð var á 13. öld. Hann mun hafa setið á konungsstóli Svía um miðja 12. öld. Um hann er sagt að hann hafi verið dyggðugur, trúaður og þegnum sínum góður konungur. Hann tókst á hendur krossferð gegn Finnum, ásamt með Henriki biskupi sínum, bæði til þess að efla áhrif Svía þar í landi og útbreiða kristinn sið. Hann bar sigurorð af Finnum er hann hélt heim til Svíþjóðar. Eiríkur átti þó ekki aðeins vini, heldur einnig ………

……… volduga óvini. Svo er frá sagt að á uppstigningardag 1160 hafi Magnús Danaprins, leiðtogi samsæris gegn honum, hálshöggvið hann.

Eiríkur var faðir þjóðar sinnar eða réttar sagt þjónn allra þegna sinna. Hann var óþreytandi í viðleitni sinni til að koma á réttlæti meðal þeirra. Allir hamingjusnauðir menn nutu verndar hans, þeir gátu alltaf snúið sér til hans með kvartanir sínar og voru þá tafarlaust leystir frá kúgun þeirri sem þeir höfðu verið ofurseldir. Hann heimsótti oft sjálfur sjúka fátæklinga og dró úr þrautum þeirra með rausnarlegum ölmusugjöfum. Hann var ánægður með arf þann sem hann fékk eftir föður sinn og lét því ekki innheimta neina skatta af þegnum sínum. Hann sá um að margar kirkjur yrðu byggðar. Hann setti viturleg lög til þess að afnema misgerðir og tryggja frið í ríkinu.

Enda þótt hann væri mjög friðsamur maður að eðlisfari, lenti hann engu að síður í stríði. Finnar, sem voru heiðnir menn og hjátrúarfullir, réðust oft inn í ríki hans og rændu þar og unnu hervirki. Hann lagði því til stríðs við þá og vann á þeim fullnaðarsigur. Þegar hann leit yfir vígvöllinn, þar sem líkin lágu eins og hráviði, gat hann ekki varist tárum. Það er mjög sorglegt, sagði hann, að svona margir ógæfusamir menn skyldu deyja án þess að meðtaka náð skírnarinnar. Þegar hann hafði lagt allt Finnland undir sig, fól hann heilögum Hinrik, biskupi í Uppsölum, að boða þar trúna, og byggði þar margar kirkjur.

Guðrækni Eiríks kom ýmsum Svíum, sem héldu fast við heiðni sína, til þess að hæða hann í fyrstu og hata hann þegar frá leið. Magnús, sonur Danakonungs, sem sóttist eftir sænsku krúnunni, tók að sér forustu hinna óánægðu og gekkst fyrir samsæri um að ráða konunginn af dögum. Daginn eftir uppstigningardag braust uppreisnin út. Eiríkur var viðstaddur heilaga messu þegar menn sögðu honum að uppreisnarmenn hefðu gripið til vopna og væru á leiðinni að ráðast á hann. Hann svaraði með ótruflaðri sálarró: “Við skulum að minnsta kosti vera rólegir fram yfir fórnunina, síðari hluti hátíðarinnar verður svo haldinn annars staðar.”

Þegar messunni var lokið fól hann sig Guði á hendur, signdi sig með hinu heilaga krossmarki, og þar sem hann vildi fara sparlega með blóð hinna trúu þegna sinna, sem voru reiðubúnir til að láta líf sitt honum til varnar, reið hann einn í fararbroddi fyrir varðliði sínu. Þegar samsærismennirnir mættu honum, réðust þeir að honum morðóðir, rifu hann ofan af hestinum, misþyrmdu honum og hálshjuggu hann að síðustu af hatri sínu til kristinnar trúar.

Listaverk sýna Eirík sem ungan mann og skegglausan sem heldur á sverði og fána eða ríkisepli. Hann varð þjóðardýrlingur Svía þótt hann væri aldrei tekinn opinberlega í tölu helgra manna.

Grein þessi birtist í Kaþólska kirkjublaðinu í júlí / ágúst 2005.

No feedback yet