« „Sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig.“Goðsagnir hómosexualismans »

10.04.06

  12:59:50, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 810 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„Einn af yður mun svíkja mig.“

Guðspjall Jesú Krists þann 11. apríl er úr Jóhannesarguðspjalli

Þegar Jesús hafði sagt þetta, varð honum mjög þungt um hjarta og hann sagði beinum orðum: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig.“ Lærisveinarnir litu hver á annan og skildu ekki, við hvern hann ætti. Sá lærisveinn Jesú, sem hann elskaði, sat næstur honum. Símon Pétur benti honum og bað hann spyrja, hver sá væri, sem Jesús talaði um. Hann laut þá að Jesú og spurði: „Herra, hver er það?“ Jesús svaraði: „Það er sá sem ég fæ bita þann, er ég dýfi nú í.“ Þá dýfði hann í bitanum, tók hann og fékk Júdasi Símonarsyni Ískaríots. Og eftir þann bita fór Satan inn í hann. Jesús segir við hann: „Það sem þú gjörir, það gjör þú skjótt!“ En enginn þeirra, sem sátu til borðs, vissi til hvers hann sagði þetta við hann. En af því að Júdas hafði pyngjuna, héldu sumir þeirra, að Jesús hefði sagt við hann: „Kauptu það, sem vér þurfum til hátíðarinnar,“ - eða að hann skyldi gefa eitthvað fátækum. Þá er hann hafði tekið við bitanum, gekk hann jafnskjótt út. Þá var nótt.
Þegar hann var farinn út, sagði Jesús: „Nú er Mannssonurinn dýrlegur orðinn, og Guð er orðinn dýrlegur í honum. Fyrst Guð er orðinn dýrlegur í honum, mun Guð og gjöra hann dýrlegan í sér, og skjótt mun hann gjöra hann dýrlegan. Börnin mín, stutta stund verð ég enn með yður. Þér munuð leita mín, og eins og ég sagði Gyðingum, segi ég yður nú: Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist. Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“
Símon Pétur segir við hann: „Herra, hvert ferðu?“ Jesús svaraði: „Þú getur ekki fylgt mér nú þangað sem ég fer, en síðar muntu fylgja mér.“Pétur segir við hann: „Herra, hví get ég ekki fylgt þér nú? Ég vil leggja líf mitt í sölurnar fyrir þig.“ Jesús svaraði: „Viltu leggja líf þitt í sölurnar fyrir mig? Sannlega, sannlega segi ég þér: Ekki mun hani gala fyrr en þú hefur afneitað mér þrisvar.‘

Hugleiðing

Í gærkveldi glumdi enn eitt „hanagalið“ á öldum ljósvakans þegar National Geograpy Channel kynnti Júdasarguðspjallið sem kom út á vegum þess þann 6. apríl s, l. Satt best að segja hafði þessi tveggja tíma dagskrá ekkert nýtt fram að færa. Augljóst er um hér um eitt þessara handriti gnóstíkera að ræða sem af og til eru að finnast á fornum öskuhaugum eða í hellum í Egyptalandi. Allt frá upphafi fordæmdu kirkjufeðurnir gnóstíkismans sem samsuðu úr fornum kenningum launhelga heiðindómsins. Eins og Bandaríkjamönnum hættir svo mikið til, lýstu sumir fræðimennirnir því yfir, að hér væri undur og stórmerki á ferðinni sem vörpuðu alveg nýju ljósi á kristindóminn. Meginniðurstaða þessar manna var þessi: Jóhannes er illmennið, en Júdas góðmennið! Í gamla daga hefðum við strákarnir kallað þetta að „gera í buxurnar!

Jóhannes segir okkur að Satan hafi farið inn í Júdas þegar hann snéri baki við Jesú til að ganga veg illskunnar. Satan getur umsnúið elsku í hatur í mennsku andvaraleysi. Hann getur umsnúið heilagleika í stærilæti, góðmennsku í mannvonsku, ástúð í andúð. Hversu oftlega sjáum við ekki dæmi um slíkt í næsta umhverfi okkar? Við verðum að halda vöku okkar gagnvart Satan svo að hann leiði okkur ekki einhvern annan veg en Guð hefur fyrirhugað okkur. Heilagur Andi mun gefa okkur náð og styrk á stund reynslunnar. Ef við horfum til Jesú munum við ganga í ljósi og sannleika elsku hans.

Tómas frá Akvínó bað: „Ó Drottinn, gefðu mér stöðugt hjarta sem engin óviðurkvæmileg hugsun getur nálgast. Gefðu mér hjarta sigurvissunnar sem engar freistingar geta lagt að velli. Gefðu mér réttlátt hjarta sem engin megnar að leiða afsíðis. Ó Drottinn, gefðu mér einnig skilning til að þekkja þig, trúfestu til að leita þín, speki til að finna þig og trú til að faðma þig að lokum, Jesús Kristur, Drottinn okkar.“

No feedback yet