« Ég, vinur minn og bíllinnVefrit Karmels í nýjum búningi »

01.05.07

  09:11:11, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 598 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Eiginmaður Maríu, smiðurinn.

Leó páfi XIII komst svo að orði: „Jósef sem átti ættir sínar að rekja til konunga, varð eitt með henni sem er heilögust allra kvenna í hjónabandinu. En þessi útvaldi faðir Guðsonarins varði öllu sínu lífi til að vinna og með iðjusemi sinni og hæfileikum aflaði hann viðurværis fyrir fjölskyldu sína.“ [1] „Starf handverksmannsins er fjarri því að vera lítilsiglt heldur andhverfa þessa þegar það helst i hendur við dyggðirnar og þá verður það göfgandi.“ [2] Jesús, Guðsonurinn, og sjálfur Guð vildi að litið yrði á sig og hugsað um sig sem handverksmann og gekk enn lengra: „Hann vék sér ekki undan því að stunda handverksiðju mestan hluta lífs síns.“ [3] Sögðu þeir ekki, samferðamenn hans hér á jörðinni: „Er þetta ekki smiðurinn, sonur Maríu?“ (Mk 6. 3). Og enn og aftur spurðu þeir: „Hvaðan kemur honum þá öll þessi speki? „Hver er sú speki, sem honum er gefin, og þau kraftaverk, sem gjörast fyrir hendur hans?“ (Mk 6. 2).

Sjálfir eigum við Íslendingar málshátt sem hljóðar svo: Vinnan göfgar manninn! Hvað er það sem býr því að baki að vinnan verður göfgandi og að beinni leið til sameiningar við Guð? Karmelítabróðirinn Lárus (Nicolas Herman 1614-1691) lifði sífellt í nærveru Guðs og kennir okkur að glæða hana í elskunni. Hann sagði: „Þeir semja sér reglur og styðjast við tæki til að minnast þessarar elsku og það virðist fela í sér heilmikið umstang að öðlast meðvitund um nærveru Guðs. Er ekki árangursríkara og auðveldara að við framkvæmum öll okkar verk vegna elsku til hans?“ Öll dagleg störf urðu bróðir Lárusi þannig að vegi til Guðs. „Það sem ræður úrslitum er ekki sjálf athöfnin heldur það sem býr henni að baki. Það er svo lítið sem við getum gert fyrir Guð.“

Þannig hefur smiðurinn Jesús starfað við hlið Jósefs þegar þeir voru að smíða stóla og borð, búsáhöld og kirnur fyrir nágranna sína í Nasaret forðum. Hann fór ástúðlegum höndum um viðinn þegar hann heflaði hann til vegna þess að hann vissi að hann var að vinna til samræmis við vilja Föður síns á himnum. Sumir gera sér afar háleitar hugmyndir um Guð og telja sér trú um að þeir geti alls ekki verið að þjóna honum þegar þeir eru að dæla bensíni á bílinn sinn eða mála gluggann, setja niður kartöflur eða stinga þvottinum í vélina. Þetta er mikill misskilningurinn. Sjálfur er Guð sífellt að starfi í sköpunarverki sínu og einn þáttur þessa leyndardóms er þegar við samlíkjumst honum í elsku starfsins. Heilagur Benedikt frá Núrsíu sagði: Laborare est orare (vinnan er bæn). Og heilög Teresa frá Avíla sagði við dætur sínar: „Guð er svo sannarlega líka innan um pottana og pönnurnar!“ Þegar húsmóðirin býr til góðan mat tekur hún þátt í eilífri sköpun Guðs.

Gleðilegan 1. maí! (Minnist þess að heilagur Jósef er verndari allra verkamanna og kvenna).

[1]. Rerum Novarum, 1891.
[2]. Leó páfi XIII, Quamquam pluries, 1889.
[3]. San Giuseppe nel mistero di Dio, Piemme 1992.
 

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Fallegur og góður pistill hjá þér, nafni. Og gott upphafið frá þeim ágæta páfa Leó XIII.

01.05.07 @ 18:49