« Nicholas Sarkozy forseti Frakklands!Eiginmaður Maríu, smiðurinn. »

03.05.07

  08:43:57, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 761 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Ég, vinur minn og bíllinn

Ég og vinur minn er um afar einhuga menn í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur. Þannig veittum við því athygli fyrir um það bil 12 árum að bíll var á bílastæðinu hjá okkur sem fór ekki í gang. Við tókum þegar að ræða það okkar á milli að óhjákvæmilegt væri að koma honum aftur í gang. Þar sem við erum afar yfirvegaðir menn tókum við þegar að velta því fyrir okkur hvernig best væri staðið að þessu (að ýta bílnum í gang aftur). Þetta höfum við gert reglulega síðan og einnig notið aðstoðar ráðhollra manna hvað áhrærir framkvæmdina vegna þess að flan er aldrei til fagnaðar.

Í sannleika sagt hefur afar einarður hópur manna og kvenna slegist í lið með okkur sem styður okkur með ráðum og dáð. Úr þessu hafa í reynd myndast stjórnmálasamtök með listabókstafnum X-BD (Byrjum að drífa í þessu). Þannig sjáum við það í hendi okkar að brátt muni líða að því að bílnum verður (ef til vill) ýtt í gang.

Við erum afar vandir að virðingu okkar og annt um álit annarra og því getur okkur virkilega sárnað þegar fólk ásakar okkur um aðgerðarleysi. Gerir fólk sér í raun og veru grein fyrir því hversu miklum tíma við höfðum varið til að leysa málið með farsælum hætti? Gerir fólk sér yfirleitt grein fyrir öllum þeim andvökunóttum sem hafa verið þessari afdrifaríku ákvörðum samfara? Nei! Ég segi það og skrifa: Nei og aftur nei!!!

Almennt séð gerir fólk sér alls ekki ljóst í hverju kjarni málsins felst: Að koma í veg fyrir að það geti nokkru sinni gerst aftur að bíll fari ekki í gang! Því þarf að ganga svo um hnútana að allir geti eignast nýja bíla sem fara alltaf í gang eins og hugur manns. Þetta er það sem við og stuðningsmenn okkar í BD samtökunum höfum gert að hugsjón okkar og lokatakmarki.

Jafn mikið og við höfum rætt málin gerum við okkur ljóst að standa verður hárrétt að því að hrinda þessari hugsjón í framkvæmd. Þannig höfðum við að sjálfsögðu byrjað á réttum enda, það er að segja að styrkja fjárhagslegt öryggi þeirra sem þegar eru þess umkomnir að kaupa sér nýjar bifreiðar þegar þeim dettur slíkt í hug. Við köllum þetta niðurstreymsfrjálshyggju. Allt skynsamt og réttsýnt fólk sér í hendi sér að þannig ber að standa að málunum. Eftir því sem hópur þeirra sem geta alltaf keypt sér bíl fer stækkandi geta fleiri og fleiri keypt sér nýja bíla sem alltaf fara í gang. Því undrar okkur stórlega að til skuli vera það fólk sem getur af hreinum óartahætti andmælt okkur og jafnvel gengið svo langt að beinlínis gagnrýna okkur á opinberum vettvangi og jafnvel í helgisóma sjálfrar þjóðarinnar: Í þinginu!!!

Hvað áhrærir bílinn sem ég vék að í upphafi, þá hefur hann eðlilega látið á sjá á þessum tólf árum (satt best að segja ryðgað niður). Því höfum við komist að þeirri sjálfsögðu niðurstöðu að það taki því vart úr þessu að reyna yfirleitt að lappa upp á hann eða ýta honum í gang aftur. Hann er orðinn að fornrgrip hvort sem er og hefur glatað notagildi sínu.

Þannig hefur þetta vandamál svo að segja gufað upp af sjálfu sér. Þrátt fyrir að biðlistarnir eftir því að láta „ýta sér af stað“ séu langir, þá gildir hið sama um þá og þetta tólf ára gamla vandamál sem ég hef verið að fjalla um: Það gufar hreint og beint upp vegna þess að allir sjá í hendi sér að gamlir bílar eiga sér ekki eilíft líf.

Þar af leiðandi er stefna okkar hjá BD samtökunum afar raunsæ: Burt með allt gamalt, úrelt og hrörnað. Horfum björtum augum til framtíðarinnar og það gerum við með farsælustum hætti með því að setja X-ið við BD samtökin í komandi kosningum. Getur nokkur skynsamur einstaklingur andmælt þessu, ef hann á annað borð er með réttu ráði?

No feedback yet