« Ritningarlesturinn 31. ágúst 2006Ritningarlesturinn 30. ágúst 2006 »

30.08.06

  07:47:29, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1388 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Ég sárbæni ykkur um að hafa í ykkar hópi þá sem þarfnast gæsku ykkar. Bregðist ekki í þessu!

Ég er fæddur þann 3. maí árið 1945, sama daginn og einhver mesti manníðingur mannkynssögunnar fyrir utan Stalín lét lífið í neðanjarðarbyrgi í höfuðborg þess ríkis sem hann kallaði þúsund ára ríkið eftir að hafa leitt einhverja menntuðustu þjóð heimsins á helvegu með 12 ára stjórn sinni: Adolf Hitler.

Pabbi minn var vélstjóri í íslenska farskipaflotanum og sigldi reglulega til þessa sama lands á fyrirstríðsárunum allt til aprílmánaðar árið 1940 þegar þýski nasistaherinn lagði undir sig Danmörku sem Ísland tilheyrði á þeim tíma. Einhverjar fyrstu æviminningar mínar voru þegar ég sat á hnjám hans og hann greindi okkur bræðrunum frá því hvernig nasistarnir skutu gyðingabörnin á hafnarbakkanum í Danzig þegar þau komu að sópa upp kolarykinu sem féll til jarðar úr kolakrönunum eftir útskipun dagsins.

Íslenskir sjómenn voru ekki í neinum vafa um hvaða ógnarstjórn var hér komin til valda, þeir sáu það með eigin augum. Þeir fylktu sér því saman með bandamönnum í baráttunni gegn þessum ógnaröflum í stríðinu. Blóðfórnir Íslendinga voru miklar. Rúmlega 500 sjómenn féllu í þessum hildarleik, urðu að fórnardýrum þýskra kafbáta og flugvéla á leið sinni til Englands með fisk til að brauðfæða sveltandi almenning landsins. Pabbi minn dó ungur maður, 54 ára gamall, árið 1954. Líkamsþrekið var þorrið og hjartað ónýtt því að það tók á að standa vaktina niður í vélarúmi í árásum kafbáta Þriðja ríkisins á skipalestir bandamanna. Þetta var reglan en ekki undantekningin. Af þeim 30 vélstjórum sem útskrifuðust í árgang 1929 var aðeins einn á lífi árið 1955. Hann var strætisvagnabílstjóri sem misst hafði tærnar eftir að hafa velkst um á fleka á Norðuratlantshafinu í sjö daga ásamt skipsfélögum sínum eftir að skip þeirra var skotið niður af þýskum kafbát á leið þeirra til Ameríku. Skipið var es Hekla og þar létu fjórtán menn lífið.

Pabbi varð aðnjótandi náðar Guðs í þessu tilviki ásamt sex öðrum skipsfélögum sínum, en hann sigldi einmitt á þessu sama skipi. Engill birtist þremur eiginkonum þessara manna – þar á meðal mömmu – og sagði: „Segið þeim að taka sér frí í þessari ferð! Þetta var einmitt það sem þeir gerðu. Hvað varðar hjartveiki pabba þá var hún alþekkt afleiðing styrjaldarinnar. Upp úr árinu 1952 létust tugþúsundir hermanna bandamanna alls óvænt og án allrar sýnilegrar ástæðu. Þýskur hjartasérfræðingur varpaði ljósi á þetta í Stalíngrad þegar hann var beðinn um að rannsaka óvæntan dauða fjölda þýskra hermanna. Þeir urðu bráðkvaddir þar sem þeir stóðu! Hann rakti ástæðuna til þess að öll fita hyrfi úr hjartavöðvunum undir langvarandi álagi – þetta var áður en orðið stress var uppgötvað – sem leiddi til skyndilömunar á hjartastarfseminni. Foringinn mikli hafði leitt þessa menn á þessar helslóðir í trylltu æði sínu eftir heimsyfirráðum. Þjóðverjar gáfu þessum sjúkdómi nafnið „Weisser tod“ (hvítidauði).

Hið tryllta æði „foringjans mikla“ beindist ekki einungis að landvinningum, heldur birtist það ekki síður með ofsafengnum hætti í taumlausri græðgi eftir tæknilegum framförum á sviði læknavísindanna. Þar var öllum siðrænum gildum rutt úr vegi og mannfyrirlitningin ein látin ráða ferðinni. Gerðar voru tilraunir á lifandi fólki sem réttlættar voru með framförum á sviði læknisfræðinnar. Tugum þúsunda var fólki fórnað á altari „framfaranna“ og færustu læknar fylgdust síðan með dauðastríði þess og skráðu allt nákvæmlega niður af mikilli samviskusemi. Einn af risum upplýsingatækni 21. aldarinnar – IBM – sá svo um að halda þessum upplýsingum til haga í aðgengilegu formi, að sjálfsögðu gegn dágóðri greiðslu af gulli því sem nasistar höfðu rænt í hernumdum löndum af fórnardýrum sínum.

Milljónir hermanna bandamanna fórnuðu lífi sínu til að berjast gegn þeirri hugmyndafræði sem hér bjó að baki: DAUÐAMENNINGUNNI! Við héldum að hún hefði verið kveðin í kútinn í eitt skiptið fyrir öll þegar Þriðja ríkið voru brunarústir einar. Hvílíkur barnaskapur! Hún hefur aldrei blómstrað með jafn áþreifanlegum hætti eins og á okkar tímum. Ung kona sem er ráðherra í stjórn framsóknar dauðamenningarinnar á Íslandi í dag kom fram í sjónvarpinu í fyrrakvöld og dró upp fagra mynd af þeirri glæstu framtíð sem biði okkar með því að lögleiða stofnfrumurannsóknir úr deyddum frumfóstrum á Íslandi vegna þess að með þessum hætti væri unnt að lækna margvíslega kvilla sem hrjá fólk.

En hér skulum við nema staðar eitt andartak. Sama röksemdafærslan býr hér að baki og hjá nasistunum: FRAMFARIRNAR. Öllum siðrænum gildum skal rutt úr vegi til að ná þessu takmarki. Boðorð Guðs: Þú skalt ekki mann deyða, er harla léttvægt í þessari framsókn dauðamenningarinnar. En það grátlegasta við þetta mál allt saman er að unnt er að framkvæma þessar sömu stofnfrumurannsóknir á frumum fullvaxta fólks sem gefur slíkar frumur í stofnfrumubanka. Slíkur banki er þegar starfræktur á Íslandi og ég hvet sem flesta Íslendinga sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru til að veita Stofnfrumubankanum framlag sitt því að slíkar rannsóknir eru afar gagnlegar með hliðsjón af framförum innan læknavísindanna.

Ráðherrann ungi sem reyndar kemur úr sama fæðingarbæ og ég lýsti því með fögrum orðum, hversu björt sú framtíð væri sem biði Íslendinga með því að iðka slíkar rannsóknir: Sannkallað Eldórado heilbrigðis. Nú erum við komin að kjarna málsins: Mannhatrinu og mannfyrirlitningunni, þeirri sömu og þreifst meðal þýskra nasista forðum þar sem öll Mannhelgi var afnumin með opinberum lagaboðum og fótum troðin.

Ég sný mér nú til kristins fólks í landinu. Þetta er einn af lokaáföngunum í afkristnun íslensku þjóðarinnar. Ekkert er eftir annað en líknarmorðin á öldruðu fólki, Þá er landið okkar orðið að fórnardýri nýheiðninnar að fullu og öllu. Við sitjum uppi með ríkisskirkju sem er grútmáttlaus í baráttunni við þessi ógnaröfl. Það gera kristnir menn í Kína einnig. Þar hafa stjórnvöld komið upp falskirkju á vegum ríkisvaldsins sem gerir kristindóminn að hreinum afkáraskap, en hinn raunverulegi kristindómur er ofsóttur og leiðtogar hans og fylgjendur ofsóttir og hnepptir í fangelsi. Bregðumst við eins og þessir bræður okkar og systur í Kína og föstum og biðjum: Biðjum fyrir landinu okkar. Látum það ekki verða nýheiðninni að bráð í framsókn guðsafneitunarinnar.

Heiðrum minningu hinna föllnu í heimstríðinu mikla með því að verjast af jafn mikilli einurð gegn ógnaröflunum. Áköllum Drottin okkar um hjálp og hann mun ekki bregðast okkur. Látið þessi skrif berast meðal kristinna safnaða í landinu. Biðjum, vökum. Minnumst orða Barnabusar úr frumkirkjunni: „Ég sárbæni ykkur um að hafa í ykkar hópi þá sem þarfnast gæsku ykkar. Bregðist ekki í þessu!“ Hverjir þarfnast meiri gæsku af okkar hálfu en varnarlaus frumfóstur í móðurlífi – okkar minnstu og varnalausustu bræður og systur? Frumvarp ríksstjórnar framsóknarflokka guðsafneitunarinnar er ávöxtur þess sæðis sem sáð var með stóraukningu fósturdeyðinga á Íslandi á vordögum 1975 þegar DAUÐAMENNINGIN hóf innreið sína af fullum þunga inn í íslenskt þjóðlíf, dauðamenning sem þegar hefur fórnað 24.000 börnum á altari Mólokks, DAUÐAMENNING sem hófst til vegs og virðingar einungis 30 árum eftir að herir Þriðja ríkisins voru knúðir til að leggja niður vopn sín.

10 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hjartans þakkir, Jón, fyrir þessa mögnuðu grein þína. Tengingin við föður þinn og stríðið magna áhrifin af henni, gæða hana áþreifanleika persónulegrar upplifunar. Þrátt fyrir tiltölulega ungan aldur þinn (finnst mér, sem er fjórum árum og einu sumri yngri!) setur þessi nána, óafmáanlega reynsla þín lesandann í beint samband við ógnarstjórn og viðbjóð nazismans, sem er undarlega skammt frá okkur í árum talið, og þetta er bakgrunnur þeirrar siðvitundar þinnar og mannúðarhyggju sem talar svo sterkum rómi í þessari grein og mörgum öðrum gegn nýjum landvinningum og árásaráætlunum dauðamenningarinnar á Íslandi. Heill sé þér að brýna kristna menn til dáða: til varnar fyrir lífsgildin og lögmál Guðs kærleika.

30.08.06 @ 09:02
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Af gefnu tilefni tek ég fram að þeir einstaklingar sem eru helsjúkir af hatri á kristindóminum verða að úthella úr skálum reiði sinnar á einhverjum öðrum vettvangi en þessum. Kirkju.net er kristin vefsíða og þeir hinir sömu hafa hægan aðgang að hundruðum bloggsíðna á netinu þar sem þeir geta bölsótast að vild í skjóli nafnleyndar. Hér er slíkt ekki liðið, hvorki guðlast eða blótsyrði.

30.08.06 @ 09:43
Athugasemd from: Aðalbjörn Leifsson
Aðalbjörn Leifsson

Takk fyrir þessa grein hún er góð! Hvað áhrærir hina ungu konu og flokksmenn hennar þá skulum við ekki dæma þau of hart þau hafa réttarstöðu sturlaðs fólks þau vita ekki betur, ég get ekki ímyndað mér að þau séu þess meðvitandi um það sem þau tala um. þið bræður bentu mér á Lífsvernd og þar sá ég svo óhugnanlegar myndir af útrýmingu barna að ég ákvað að gerast félagi og stuðningsmaður strax. Bendið ráðherrum og þingmönnum á þessa vefsíðu svo þau sannfærist. Tómas efaðist líka. Guð blessi ykkur.

30.08.06 @ 18:28
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

„Varist að forsmá nokkurn þessara smælingja. Ég segi yður, að englar þeirra á himnum sjá jafnan auglit míns himneska Föður“ (Mt 18. 10). Í gríska textanum (koina) er gripið til sagnorðsins katafroneo sem þýðir bókstaflega að fyrirlita eitthvað heilshugar. Er unnt að sýna smælingjunun og lifandi sköpun Guðs meiri fyrirlitningu en að deyða hana?

Keisarar. konungar jafnt og jarðneskir ráðamenn munu krafðir skila gjörða sinna í fyllingu tímans frammi fyrir dómstóli hins Hæsta.

30.08.06 @ 19:06
Athugasemd from: Janus Hafsteinn Engilbertsson
Janus Hafsteinn Engilbertsson

Jón Rafn, þetta eru góð og þörf orð, og alltof lítið af svona hugleiðingum. Það er nóg af hatrinu og dómhörku í þessum fallna heimi, enda er það markmið höfðingja þessa heims, eins og Hitlers, að magna upp og viðhalda hatri og ringulreið. Það eru því mikil forréttindi að þekkja Drottinn Jesús og eiga trú á hann. Hann sem er vegurinn, sannleikurinn og lífið, og er uppspretta kærleikans. Enda sagði hann við lærisveina sína: “Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.” (Jóh 13,34-35) Já, svo var kærleikur hans mikill að hann hvatti okkur til að elska óvin okkar og biðja fyrir þeim sem ofsækja okkur. (Matt 5,44) Þetta er að vísu erfitt, en ég þrái að líkjast honum.

Hafðu líka þökk fyrir allt þitt góða efni, sem alltaf er í anda frelsarans.

Þinn bróðir í Kristi,
Janus Hafsteinn.

30.08.06 @ 20:01
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þakka þér þín orð, bróðir. Hvað varðar hið síðasta hafa hinir heilögu sífellt verið áminntir um þetta: Án mín megnið þér einskis.“ Án Drottins erum við öll einskis nýt, en með honum og í honum og fyrir hann megnum við allt.

Sama gegnir um skilningin á hinu Heilaga Orði, Ritningunni. Ef við krjúpum frammi fyrir honum í auðmýkt og játum syndir okkar og biðjum hann að koma í hjörtu okkar lýkur hann Ritningunum upp, rétt eins og hann lauk þeim upp fyrir postulunum forðum á veginum til Emmaus svo að þeir skildu Ritningarnar (Lk 24. 45).

Að sjálfsögðu gildir þetta einnig um jarðneska ráðherra og valdamenn. Hvað varðar ótta litlu hjarðarinnar gagnvart heiminum er hann í reynd ástæðulaus vegna þess að sjálfur sagði Drottinn að við ættum ekki að óttast þá sem deyða líkamann, heldur þann sem deyðir sálirnar. Það er skelfilegur dauði sem varir að eilífu í eldinum. Iðrumst því áður en nóttin skellur á þegar engin getur unnið.

30.08.06 @ 20:31
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Fyrir tæpum tuttugu árum þá heyrði ég þig tala á Patrisíafundi í Stigahlíð. Þá sagðirðu eitthvað á þá leið að Guð hlyti að líta á fóstureyðingarnar sem mannfórnir. Þessi fáu orð eru það sem stendur upp úr í minningunni frá þessum fundum því ég mér hefur svo oft verið hugsað til þeirra. Þau opnuðu mér nýja sýn á málefnið og hafa reglulega komið upp í minningunni síðan þá. Ég gladdist því mjög þegar ég frétti að þú ætlaðir að skrifa á kirkju.net og áður en þú skrifaðir þinn fyrsta staf þar var ég þess fullviss um að þú hefðir miklu að miðla og mörgu að segja frá. Og það er alltaf að koma betur og betur í ljós.

Þessi grein er einhver sú magnaðasta ádeilugrein sem ég hef nokkurn tímann séð. Hætt er við að nú verði mörgum andstæðingum trúarinnar hér á landi innanbrjósts sem faríseunum forðum sem vildu að lærisveinarnir þegðu. Sjá Lk. 19,39-40: „Nokkrir farísear í mannfjöldanum sögðu við hann: “Meistari, hasta þú á lærisveina þína.” Hann svaraði: “Ég segi yður, ef þeir þegja, munu steinarnir hrópa.” “

30.08.06 @ 21:04
Athugasemd from: Janus Hafsteinn Engilbertsson
Janus Hafsteinn Engilbertsson

Fullkomlega sammála þér , bróðir sæll. Læt því fylgja inn í nóttina orð Páls postula: “Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú. Já, allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.”

Þetta þurfum við að muna, og svona þurfum við að biðja. Já, Drottinn. Fyll oss af bænarneyð. Þú sem sagðir: “Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni. Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt.”

Góða nótt, Jón minn.
Þinn í Kristi,
Janus Hafsteinn.

30.08.06 @ 21:26
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þakka þér hlýleg orð Ragnar. Til forna báru heiðnar þjóðir fram mannfórnir. Þannig grófu Fönikíumenn ungabörn lifandi í krukkum við hof sín. Drottinn hataði þetta og fól Ísrael landið á hendur til hreinsunar. Hvað bjó þessum fórnum að baki? Yifirleitt voru þær tengdar frjósemisdýrkun, að með þeim væri unnt að hafa áhrif á vilja goðanna, eða réttara sagt, menn leituðust við að þvinga sínum eiginn vilja fram í von um meiri ágóða.

Í guðfræðinni er slíkt flokkað undir fjölkynngi og galdra. Þetta er inntak allra þeirra dulspekihreyfinga sem blómstra enn í dag: Að styrkja vilja mannsins með kynlegum vígsluathöfnum ættuðum úr launhelgum heiðindómsins. A. E. Waite, sem varið hefur allri starfsorku sinni til rannsókna á slíkum hliðargreinum mannshugans, hefur tilgreint helstu farvegi þessarar fornu þekkingar eins og hún er talin hafa borist til Vesturlanda sem galdra, gullgerðarlist og stjörnuspeki og með þeim dulspekifélögum sem renna saman í frímúrarastefnunni og loks í „furðulegum spjöldum með hieroglýfum sem þekkt eru sem Tarotspil.“ Í annan flokk setur hann „töfrabrögð og önnur látalæti fjölkynnginnar.“ [1]

Þetta tel ég einnig setja mark sitt á veraldarhyggjuna (secularism). Vilji mannsins „sest í musteri Guðs og gjörir sjálfan sig að Guði“ (2Þ 2. 4). Hann hafnar vilja Guðs með öllu og þar með boðorðum hans um að deyða ekki menn og mannfórnir hafa aldrei verið trylltari en í dag. Á s.l. tveimur áratugum hefur einum milljarði ungbarna verið fórnað á altari Mólokks veraldarhyggjunnar. Við sjáum annað dæmi um þetta í Opinberunarbók Jóhannesar með tölunni 666, (tala Þrenningarinnar er 3, mannsins 6 í Ritningunum) tákntölu mannsins. Þannig gerir veraldarhyggjan sig að þríelfdri afskræmingu Alhelgrar Þrenningar. Þeir kalla þetta framfarir í nafni vísindanna. Hvílík öfugmæli!

Þessar mannfórnir eru Guði jafn mikil viðurstyggð í dag eins og á tímum hins Gamla sáttmála. Þannig afmáði hann ríki nasista og kommúnista af yfirborði jarðar. Nú stendur Evrópa sem gengið hefur lengst fram í guðsafneitun frammi fyrir þremur valkostum: Að falla undir áhrifasvæði íslam með taumlausum fósturdeyðingum sínum, eða þá að umbreytast annað hvort í eyðimörk eða íshellu. Vísindamenn sjá ekki fyrir enn hver áhrif breytinga á hafstraumum verða, en annar hvor þessara tveggja slæmu kosta blasir við sjónum.

En ef hún gerir iðrun og ákallar nafn Drottins um miskunn gæti allt breyst. En ég sé engin merki um slíkt í tákni tímanna, heldur hið gagnstæða. Sic gloria mundi! Eða með orðum gömlu guðfræðinnar: „Heimur mannsins er markaður syndum hans.“

[1]. The Holy Kabbalah,“ bls. 518-19.

31.08.06 @ 07:00
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Til að útskýra mál mitt örlítið nánar má rekja hedonisma (nautnahyggju) veraldarhyggjunnar til taumlausrar græðgi og stærilætis sem hvoru tveggja eru tvær af höfuðsyndunum sjö sem eru dauðasyndir.

Í Spekiriti Salómons lesum við að góður læknir er gjöf frá Guði, en sama græðgin og stærilætið birtist í heilbigðismálum sem í öðrum efnum: Að hrifsa til sín sem mest með sem skjótustum hætti á kostnað annarra (smælingjanna, hinna ófæddu barna).

Hvað varðar stofnfrumurannsóknirnar hef ég þegar bent á að ná má sama árangri með stofnfrumubönkum úr fullorðnu fólki. Biskuparáð Evrópubandalagsins hvatti þannig Evrópuráðið til að stórauka fjárframlög til stofnfrumurannsókna í júní s. l.

Í náttúrlegum lögmálum sínum kennir Guð okkur einfaldlega að með því að stinga fingrinum í brennandi eld brennum við okkur. Ef við látum heillast af eigin ímynd í endurspeglun vatnsins og fleygjum okkur út í það til að hrifsa hana, bleytum við okkur eða einfaldlega drekkjum ef við kunnum ekki að synda. Hér vísa ég til narkotisma veraldarhyggjunnar.

Hún er þjökuð af hjáhyggju vísindahyggju, en afneitar sjálfum vísindunum, vísindahyggju sem er skurðgoð hennar. Hún telur sig vera raunsæja en er svo óraunsæ að likja má henni við mann sem sagar trjágrein þá sem hann situr á af bol trésins. Slíkur maður er dæmdur til þungrar byltu, ef ekki beinbrota.

Síðan getur hann í magnvana reiði sinni steytt hnefanum að Guði og kennt honum um ófarirnar. En tákn tímanna blasa við sjónum allra sem vilja ráða í þau og þetta var það sem Drottinn bað okkur um að gera.

Hún lofsyngur frelsi í kynlífinu og tekur það svo út á eigin líkama með klamedíu sem þróast getur í krabbamein eða í það sem er sýnu verra: Eyðni. Eitt skurðgoða veraldarhyggju hedonistanna heittir smokkagoðið. Það er á gátlista hjá Sameinuðu þjóðunum vegna þess að það bregst í 10% tilvika! Alls ekki nógu gott gegn skæðum smitsjúkdómi. Heiðnir forfeður okkar hefðu hafnað slíku goði af hyggjuviti sínu. Í Úganda þar sem hefur náðst athyglisverður árangur í baráttunni við eyðni á s. l. tíu árum grundvallast þessi árangur á ábyrgu kynlífi, tryggð eiginmanna við hjónabandsheiti sitt og eiginkonur. Í vísindahyggju sinni og afneitun á bláköldum tölfræðilegum niðurstöðum raunvísindanna ærist veraldarhyggjan eins og þegar rauðum dúk er veifað fyrir framan nasirnar á mannýgum tudda.

Þannig má líkja henni við óðan tudda sem hleypur á steinvegg í heiftaræði. En það sem er öllu alvarlegra er að hún er sárþjökuð af andlegri eyðni sem er skæður sjúkdómur og bráðdrepandi.

Hann drepur ekki líkamann heldur sálina. Hér er ekki um líkamsdauða að ræða heldur eilífan dauða þar sem einstaklingum er gert að lifa að eilífu á heldur óþokkalegum stað sviptur lífi Guðs, því lífi sem hann hafnaði á jörðu með því að snúa baki við þeirri náð sem Drottinn gefur öllum hlutdeild í sem snúa sér til hans í iðrandi syndajátningu og í ákalli um miskunn.

Árinni kennir illur ræðari.

31.08.06 @ 10:11