« Fögur messaRitningarlesturinn 17. ágúst 2006 »

17.08.06

  07:26:12, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1790 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

„Ég nenni ekki, ég vil ekki, ég hef ekki tíma núna!“

Í gær skrifaði maður hér í athugasemdadálkinn (ath. 10) við greinina „Við viljum meira nammi . . . við viljum meira nammi!“ Hann spurði fyrst um fyrirbænir heilagra og hvers vegna hin stríðandi kirkjan ákallaði þá um hjálp. Síðan klykkti hann út með því að segja að sjálfur tryði hann því að það væri blóð Krists eitt sem hreinsaði menn af syndum. Þetta er alveg hárrétt hjá honum og þessu hefur kirkjan trúað frá upphafi, boðað og játað. Þetta er sá sannleikur sem Jesús boðar í sjötta kafla Jóhannesarguðspjalls:

Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og DREKKIÐ BLÓÐ hans, hafið þér ekki lífið í yður (Jh 6. 53).

Þegar Jóhannes víkur enn frekar að þessum leyndardómi Orðs eilífs lífs segir hann: „Margir af lærisveinum hans er á hlýddu, sögðu: ‚Þung er þessi ræða. Hver getur hlustað á hana? ’“ Og nokkru síðar segir hann: Upp úr þessu hurfu margir af lærisveinum hans frá og voru ekki framar með honum“ (Jh 6. 68). HANN KALLAÐI ÞÁ EKKI TIL BAKA!

Svo er enn í dag. Í hvert sinn sem kaþólskir ræða leyndardóm Evkaristíunnar við mótmælendur eru viðbrögðin ávallt hin sömu: Ég nenni ekki, ég vil ekki, ég hef ekki tíma núna!“ Þetta á ekki síður við um þjónandi menn innan mótmælendakirkjunnar en leikmenn.

Evkaristían er sá æðsti kærleiksvottur sem Guð auðsýnir mannkyninu, fylling kærleika hans og „Guð er kærleikur“ (1 Jh 4. 16). Blóð Drottins og hold eru því lifandi ummerki í kirkjunni um þessa elsku Guðs. Blóðið er elska Guðs undir mynd efnanna. Jesús er nærverandi í efnum Evkaristíunnar, ekki með táknrænum hætti, heldur áþreifanlegum. Þetta hefur kirkjan játað og boðað í tvö þúsund ár. Hinir heilögu kirkjunnar þreytast aldrei á að áminna hina trúuðu kirkjunnar á þennan SANNLEIKA sem þeir hafa upplifað með raunverulegum hætti sem elsku Guðs: Hreinsandi elsku náðarinnar. Þannig líkir heil. Teresa frá Avíla elsku Drottins í Evkaristíunni við eld þegar hún víkur að meðtöku hinna helgu efna:

Jafnskjótt og við undirbúum okkur til að taka á móti honum lætur hann aldrei undir höfuð leggjast að gefa okkur gjafir sínar og það með ýmsum hætti sem við fáum ekki skilið. Þetta er líkt því að nálgast eld. Hann getur verið mikill, en meðan þið nálgist hann ekki og felið hendur í skauti getið þið ekki vermt þær mikið, þrátt fyrir að þið njótið meiri yls heldur en þegar þið eruð einhvers staðar þar sem engan eld er að finna. En það gegnir allt öðru máli þegar við leitumst við að nálgast hann. Ef sálin er vel undirbúin (ég á við að hún vilji njóta ylsins) og ef hún dvelur þarna um hríð, mun hún njóta þessa sama yls tímunum saman (Vegurinn til fullkomleikans 35, 1).

Og hinn mikli boðberi hreinsandi máttar BLÓÐS JESÚ, heil, Katrín frá Síena, nefnir þennan leyndardóm „stöðuga skírn blóðsins.“ Í trúarlífi sínu beindi hún allri sinni árvekni að ósegjanlegum sannleika og miskunn Þríeins Guðs sem stendur okkur afar nærri og að blíðu Jesú sem með BLÓÐI sínu býr yfir mætti til að ummynda hið mennska líf og svala brýnustu og mest aðkallandi þörfum þess.

BLÓÐ JESÚ býr því yfir ummyndandi krafti til hreinsunar. En hvers vegna þörfnumst við hreinsunar þegar við meðtökum hreinsandi ummyndun blóðsins að fullu og öllu í skírninni? Það er sökum þess að við glötum öll skírnarnáðinni afar fljótt og öðlumst hans ekki að nýju fyrr en við snúum okkur til Jesú af iðrandi hjarta og játum syndir okkar og ófullkomleika af fyllstu auðmýkt.

Það er þetta sem felst í lífi helgunarinnar. Þessa helgun nefnir kirkjan KRISTSGJÖRNINGUNA (Christification) eða með orðum Páls postula „vaxtartakmark Krists fyllingarinnar“ (Ef 4. 13). Í Kristsgjörningunni umbreytist kristin sál í lítinn krist í samlíkingu sinni við höfund trúarinnar. Heil, Katrín frá Síena nefndi þennan leyndardóm „eldlega miskunn Heilags Anda.“ Þar sem slíkar sálir eru smurðar með miskunn Krists samlíkjast hjörtu þeirra í stigvaxandi mæli hinu Alhelga Hjarta Jesú og Kýprían frá Karþagó (d. um 226) hikaði ekki við að kalla slíkar sálir litla krista, fremur en heil. Katrín: „Ó uppspretta allrar miskunnar! Gefðu okkur slíka krista sem munu lifa í sívökulli árvekni og úthella tárum og bænum svo að heimurinn frelsist.“ Í samlíkingu sinni við Krist ganga slíkar sálir inn í fyrirbænaþjónustu Krists sem er eilífur fyrirbiðjandi okkar á himnum. Þessar sálir halda því áfram í hinni sigrandi kirkju himnanna ásamt Kristi vegna þess að þær voru frelsaðar undan ofurvaldi dauðans og hafa því öðlast enn fyllra líf en hið jarðneska: HIÐ EILÍFA LÍF.

Hinir heilögu greina frá HREINSUN BLÓÐSINS sem hreinsunareldi og Jóhannes af Krossi gengur svo langt að hann segir bókstaflega:

Munurinn felst einungis í því að í hreinsunareldinum er það eldurinn sem hreinsar, en hér á jörðu er það elskan ein sem hreinsar og upplýsir. Það er um þessa elsku sem Davíð bað þegar hann sagði: Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð (51. 12). Hreinleiki hjartans er ekkert annað en elska Guðs og náð. Þess vegna kallar Frelsarinn hina hjartahreinu sæla (Mt 5. 8), en það þýðir að þeir séu fullir elsku vegna þess að hinir sælu gefast einungis elskunni á vald (Hin myrka nótt sálarinnar 12, 1).

Og á öðrum stað: „Þar sem elskan hefur leitt þær til fullkominnar hreinsunar, neyðast þær ekki til að dvelja í hreinsunareldinum“ (Hin myrka nótt, 20, 6). Jóhannes Páll páfi II, en doktorsvörn hans fjallaði einmitt um Hina myrku nótt sálar Jóhannesar af Krossi komst einhvern tíma svo að orði, að Jóhannes hefði aukið skilning hans mjög á trúarkenningunni um hreinsunareldinn.

Hvað segir heil. Ritning: „Sjá, ég sendi sendiboða minn, og hann mun greiða veginn fyrir mér. Og bráðlega mun hann koma til musteris síns, sá Drottinn er þér leitið, og engill sáttmálans, sá er þér þráið. Sjá, hann kemur - segir Drottinn allsherjar. En hver má afbera þann dag, er hann kemur, og hver fær staðist, þegar hann birtist? Því að hann er sem eldur málmbræðslumannsins og sem lútarsalt þvottamannanna. Og hann mun sitja og bræða og hreinsa silfrið, og hann mun hreinsa levítana og gjöra þá skíra sem gull og silfur, til þess að Drottinn hafi aftur þá menn, er bera fram fórnir á þann hátt sem rétt er, og þá munu fórnir Júdamanna og Jerúsalembúa geðjast Drottni eins og forðum daga og eins og á löngu liðnum árum.“ (Ml 3. 2-4). Og heil. Páll:

Því að samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi, Guðs hús. Eftir þeirri náð, sem Guð hefur veitt mér, hef ég eins og vitur húsameistari lagt grundvöll, er annar byggir ofan á. En sérhver athugi, hvernig hann byggir. Annan grundvöll getur enginn lagt en þann, sem lagður er, sem er Jesús Kristur. En ef einhver byggir ofan á grundvöllinn gull, silfur, dýra steina, tré, hey eða hálm, þá mun verk hvers um sig verða augljóst. Dagurinn mun leiða það í ljós, af því að hann opinberast með eldi og eldurinn mun prófa hvílíkt verk hvers og eins er. Ef nú verk einhvers fær staðist, það er hann byggði ofan á, mun hann taka laun. Ef verk einhvers brennur upp, mun hann bíða tjón. Sjálfur mun hann frelsaður verða, en þó eins og úr eldi. Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður? Ef nokkur eyðir musteri Guðs, mun Guð eyða honum, því að musteri Guðs er heilagt, og þér eruð það musteri. Enginn dragi sjálfan sig á tálar. Ef nokkur þykist vitur yðar á meðal í þessum heimi, verði hann fyrst heimskur til þess að hann verði vitur. Því að speki þessa heims er heimska hjá Guði ( 1Kor 3. 9-19).

En hvað er ég svo sem að eyða tímanum í þessi skrif? Mótmælendur nenna ekki, vilja ekki, og hafa ekki tíma núna! Þeir hafa líka lagt annan grundvöll. Þeir segjast byggja trú sína á heil. Ritningum en hafna því svo sem hentar þeim ekki eða lesa blindandi, meðal annars orðin: „Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni,“ og við lásum í ritningarlestri dagsins í gær (16. ágúst). Þeir vita allt betur en heil. kirkja og leggja ekki þær byrðar á áhangendur sína að játa syndir sínar í skriftum og virða boðorð Guðs. Þeir neita ekki neinum um að meðtaka það sem þeir nefna „oblátu“ vegna þess að þeir eru frjálslyndir og víðsýnir menn. Þeir krefjast ekki réttlátar breytni til samræmis við BOÐORÐ DROTTINS! Þeir virða ekki orð Páls Postula: „Ef nokkur eyðir musteri Guðs, mun Guð eyða honum, því að musteri Guðs er heilagt, og þér eruð það musteri.“ Þeir þegja því um fósturdeyðingar og stofnfrumurannsóknir á deyddum ungabörnum! Og einn þjóna Þjóðkirkjunnar boðaði í útvarpsmessunni s. l. sunnudag að þeir tveir milljarðar kristinna manna í heiminum sem virða Boðorð Drottins væru ofsatrúarmenn (kaþólskir, orþodoxar og hvítasunnumenn).

En ég skrifa þetta einfaldlega vegna þess að einkunnarorð okkar „Jónanna“ hér á kirkjunetinu eru þessi: „Drottinn vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“ (1.Tím. 2. 4.) [mín] og Jóns Vals: „Að standa ekki gegn villu er að samþykkja hana – að verja ekki sannleikann er að brjóta hann á bak aftur.“ – Heil. Felix páfi þriðji. Svo mörg eru þau nú þessi orð.

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér morgunlesturinn, bróðir Jón.

17.08.06 @ 07:53