« „Brann ekki hjartað í okkur?“„Chairete – Heilar þið!“ »

17.04.06

  13:04:12, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 793 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„Ég hef séð Drottin.“

Guðspjall Jesú Krists þann 18. apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 20. 11-18

11 En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina 12 og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta. 13 Þeir segja við hana: „Kona, hví grætur þú?“ Hún svaraði: „Þeir hafa tekið brott Drottin minn, og ég veit ekki, hvar þeir hafa lagt hann.“ 14 Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki, að það var Jesús. 15 Jesús segir við hana: „Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?“ Hún hélt, að hann væri grasgarðsvörðurinn, og sagði við hann: „Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann.“ 16 Jesús segir við hana: „María!“ Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: „Rabbúní!“ (Rabbúní þýðir meistari.) 17 Jesús segir við hana: „Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: ,Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar.'“ 18 María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: „Ég hef séð Drottin.“ Og hún flutti þeim það, sem hann hafði sagt henni.

Hugleiðing
Hvað er það sem kemur í veg fyrir að við sjáum Jesú? Hvert er það bjarg sem kemur í veg fyrir að við getum gengið út úr grafhýsi okkar eiginn takmarkanleika? Hverjar eru þær líkblæjur sem umvefja okkur, þrátt fyrir að við teljum sjálf að við séum á lífi? Fjölmargt af þessu er „made in me“ framleiðsla. Rétt eins og mikil iðnríki flytja framleiðslu sína út til annarra landa þurfum við að losna við þessa framleiðslu okkar sem byrgir okkur alla sín. En meinið er að okkur er þetta um megn í eigin mætti. Páskarnir eru ekki einungis tími gleði, heldur marka þeir einnig NÝTT UPPHAF í okkar eigin lífi vegna þess að þetta grafhýsi okkar og líkblæjur hefta vöxt kærleikans. Við skulum því biðja Drottin um það á þessum Páskum að velta bjarginu frá þessu grafhýsi sem sviptir okkur frelsinu og svipta af okkur þessum líkblæjum mennsk ófullkomleika.

Hversu auðveldlega missum við ekki sjónar af Drottni þegar við einblínum til okkar sjálfra og mennskra aðstæðna okkar. Í fyrstu þekkti María ekki Jesú vegna þess að öll athygli hennar beindist að gröfinni og hún var umvafin líkblæjum eigin sorgar. Þessu var á öfugan veg farið með Pétur á vatninu sem tók að sökkva um leið og hann beindi athygli sinni frá Jesú til öldurótsins. En þegar Jesú kallaði hana með nafni þekkti hún hann samstundis. Hann þekkir okkur öll persónulega með nafni. Það er ekki nægilegt að vita eitthvað um Krist ef við þekkjum hann ekki persónulega. Orð Maríu: „Ég hef séð Drottin“ eru kjarni kristindómsins. Hl. Silúan frá Aþosfjalli sagði:

Við getum lært eins mikið og okkur þóknast, en þrátt fyrir það munum við ekki læra að þekkja Drottin fyrr en okkur lærist að lifa til samræmis við BOÐORÐ hans vegna þess að Drottinn verður ekki þekktur með lærdómi, heldur í Heilögum Anda. Margir heimspekingar og fræðimenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að Guð sé til, en þeim hefur ekki auðnast að læra að þekkja Guð. Að trúa á Guð er eitt, að þekkja hann annað.

Hér erum við komin að kjarna málsins: BOÐORÐUM Guðs. Þeir sem hlíta ekki BOÐORÐUM Guðs munu aldrei læra að þekkja hann. Guð „upplýsir sálarsjón okkar“ og því bað hl. Páll: „Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, Föður dýrðarinnar, að gefa yður anda speki og opinberunar, svo að þér fáið þekkt hann“ (Ef 3. 17, 18). Þessi andi speki og opinberunar er sá andi sem hvíldi yfir Guðsyninum sem var HLÝÐINN allt til dauða á krossi. Grafhýsið og líkblæjurnar eru því ANDI ÓHLÝÐNINNAR GAGNVART BOÐORÐUM DROTTINS. Við göngum ekki út úr grafhýsi mennsks takmarkanleika okkar nema EFTIR VEGI HLÝÐNINNAR!

No feedback yet