« „Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar“Riftún í Ölfusi - kaþólsk kapella á Suðurlandi »

15.01.06

  10:52:39, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 425 orð  
Flokkur: Dulhyggja, Opinberanir, Meðugorje

„Ég er komin til að segja heiminum að Guð sé til“

Í þorpinu Meðugorje * [svo] (á ensku Medjugorje) í Bosníu-Herzegovinu áttu óvenjuleg atvik sér stað klukkan 6 að kvöldi hinn 24. júní árið 1981 í nágrenni Podbrdo hæðar. Börnin Ivanka Ivankovic, Mirjana Dragicevic, Vicka Ivankovic, Ivan Dragicevic, Ivan Ivankovic og Milka Pavlovic sem þar voru stödd greindu síðar frá því að þeim hefði birst fögur ung kona með barn í fangi. Hún mælti ekki orð en gaf til kynna með bendingum að þau ættu að koma nær. Þau voru undrandi og hrædd þó hvert um sig teldi að um Maríu mey væri að ræða. Daginn eftir mættu þau á sama stað og tíma og aftur birtist hún. Frá þessum degi hefur hún að þeirra sögn haldið áfram að birtast þeim, sumum daglega allt til þessa dags en öðrum sjaldnar.

Skiljanlega olli þessi framburður barnanna miklu róti í þorpinu. Kaþólskur biskup svæðisins neitaði að trúa þessu og taldi að um falsanir væri að ræða. Fljótlega fór fólk samt að streyma til staðarins og júgóslavnesk yfirvöld reyndu að stöðva það sem fram fór, en til þessa dags hefur ekkert náð að stöðva fólksstrauminn til Meðugorje, ekki heldur Bosníustríðið þó á stríðsárunum hafi dregið mjög úr heimsóknum þangað.

Viðhorf kaþólsku kirkjunnar til atburða af þessu tagi eru stöðluð og varfærin. Hún rannsakar það sem fram fer og þær rannsóknir munu í tilfelli Meðugorje að líkindum standa yfir þangað til síðasti sjáandinn er látinn og hægt verður að leggja heildarmat á öll gögn og vitnisburði um birtingarnar. Nokkur tilfelli af þessum toga hafa verið rannsökuð af kirkjunni. Þar má nefna vitranir Bernadette Subirous í Lourdes 1858. Í því tilfelli fannst ekkert sem gekk gegn kenningu kirkjunnar. Ef niðurstaða rannsóknar er jákvæð gefur kirkjan út yfirlýsingu að ekkert sé athugavert við boðskap sjáandans. Þrátt fyrir jákvæð viðhorf gagnvart tilteknum birtingum er samt sem áður álitið að ekkert sem fram komi af þessum toga geti breytt grundvelli trúarinnar.

Á netinu má finna greinargott yfirlit yfir sögu Meðugorje á Meðugorje vefnum: http://www.medjugorje.org. Þar er m.a. að finna ritið „Echo of Mary“ sem hefur komið út frá árinu 1985.

(* Bókstafurinn 'ð' er notaður í króatísku og borinn fram sem 'dsj')

RGB/Heimild: Medjugorje Web: http://www.medjugorje.org.

No feedback yet