« Ritningarlesturinn 18. september 2006 | Ritningarlesturinn 17. september 2006 » |
Ég heyrði sögu nýlega um þrjá menn sem sátu saman á garðbekk. Maðurinn í miðjunni steinsvaf meðan hinir tveir sitt hvoru megin við hann létu eins og þeir væru á laxveiðum. Af mikilli einbeitingu hófu þeir ímyndaðar veiðistangirnar á loft, köstuðu og sveifluðu stöngunum fram og aftur. Lögreglumaður átti leið hjá, nam staðar, og hristi manninn í miðjunni til þar til hann vaknaði og spurði: „Eru þessi fífl vinir þínir? Komdu þeim í burtu.“ „Það skal ég gera strax“ svaraði maðurinn og tók að róa eins og óður maður.
* * *
Í guðspjalli dagsins (Mk 8. 27-35) segir Jesús okkur að hver sem vilji slást í för með honum verði að afneita sjálfum sér og taka upp sinn eiginn kross. Við verðum að vera eins konar bjánar til að slást í för með Jesú vegna þess að það felur í sér að hafna sínu eigin lífi. Það kemur því ekki á óvart að Jesús er hvorki vinamargur og fylgjendur hans fáir. Eru þessir svokölluðu vinir hans sannir og einarðir fylgjendur? Ekki margir. Ert þú einn þeirra?
* * *
Af og til heyrum við sögur af fólki, einkum börnum og fátæku fólki, sem leggur á sig talsverða fyrirhöfn til að skila peningum sem það hefur fundið. Að sjálfsögðu berast okkur einnig fréttir af gjafmildum milljónamæringum sem gefa hinum snauðu auðæfi sín. En þetta gerist ekki oft. Það sem er hryggilegt eru fréttir af ríku fólki sem er eigingjarnt, skrökvar, prettar og drepur til að komast yfir það sem er ekki þess eigin eign. Það sem er hryggilegt er að þannig geta sumir sankað að sér illa fengnum auði og komast upp með það. Allt er þetta gert að eigin sögn vegna almannaheilla og af föðurlandsást . . . og sumir ganga svo langt að segja að þeir geri þetta í Jesúnafni!
* * *
Sumt fólk trúir því í raun og veru að það geti haft okkur öll að fíflum. Ég á við að það telur sér trú um að það geti platað alla með prettum sínum, lygum og þjófnaði og geti haldið slíku áfram. En sú stund kemur (Algóði Guð, núna strax) að hinir sönnu vinir og fylgjendur Krists muni ríkja í landinu okkar.
* * *
Allir sem vilja verða að fylgjendum Krists verða að hafna „ég í fyrsta sæti“ afstöðunni. Við sjáum þessa afstöðu ríkjandi í umferðinni, í biðröðum og jafnvel við sjálfa berginguna. Upp í huga mér kemur saga af manni sem sá mannmergð sem safnast hafði saman um fórnardýr umferðarslyss. Hann ruddi sér leið í gegnum mannþröngina og hrópaði: „Víkið úr vegi, ég er ættingi hins slasaða!“ Þegar hann hafði þannig ruðst áfram af einskærri frekju sá hann dautt svín liggja á malbikinu sem bíll hafði ekið yfir.
* * *
Hinir sönnu fylgjendur Krists verða að hafna þessari „ég í fyrsta sæti“ afstöðu. Sumt fólk hagar sér eins og það sé einstakt i sinni röð og eigi enga sér líka. Mér kemur í huga saga af hvítri konu í Suðurafríku meðan kynþáttastefnan var enn í fullu gildi. Hún vildi ekki sitja við hliðina á blökkumanni í flugvélinni. Flugfreyjan sagði þá að eitt sæti væri laust á fyrsta farrými. Þegar konan stóð upp með þjósti til að skipta um sæti sagði flugfreyjan: „Þú getur haldið sætinu þínu, það er hann sem fer á fyrsta farrýmið.“
* * *
Við verðum að losa okkur við þessa „ég í fyrsta sæti“ afstöðu ef við viljum verða að fylgjendum Krists. Sumt fólk heldur og trúir því í raun og veru og hagar sér eins og allt snúist um það sjálft, að það beri af öllum öðrum í einu og öllu og sé í raun og veru þungamiðja heimsins. Þetta minnir mig á sögu af þekktum stjórnmálamanni sem heimsótti elliheimili. Hann veitti því athygli að ellihrumur maður klappaði ekki fyrir honum eins og allir aðrir. Hann snéri sér því að honum með þjósti og spurði gamla manninn frekjulega: „Veistu ekki hver ég er?“ Gamli maðurinn starði á hann og sagði síðan: „Nei, en kannske veit hjúkrunarkonan það. Það er hún sem sér um nafnalistann hérna.“
* * *
Sannur fylgjandi Krists verður að segja skilið við „ég í fyrsta sæti“ afstöðuna og tileinka sér þá afstöðu að „hinn“ skipi fyrsta sætið. Ávallt frá mér til hans. Þessi umskipti, þetta brotthvarf frá sjálfum sér og að snúa sér að hinum er það sem Jesús fer fram á af okkar hálfu, ef við viljum fylgja honum á veginum til lífsins. Þegar við afneitum sjálfum okkur gerum við Guði kleift að stjórna ferðinni og hann beinir okkur ávallt til hins . . .
Stund með Drottni:
Drottinn, breyttu „ég í fyrsta sæti, ávallt ég“ í afstöðu hins: „Þú í fyrsta sæti, ávallt þú.“ Amen.
Það skyldi ekki vera að þetta eigi eitthvað skylt við sumt annað eins og fósturdeyðingar. „Ég í fyrsta sæti,“ hann/hún í annað sætið (barnið).
Sumir trúa því einnig hér á landi að þeir geti platað og skrökvað endalaust vegna þess að þeir séu „svo klárir.“
Hvað um eftirlaunafrumvarp sem tryggir þingmönnum „ofurréttindi“ fram yfir aðra lífeyrisþega landsins? Hvað um jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar? Eru sumir „jafnari“ en aðrir? Ég spurði sí svona, en vafalaust er þetta allt „misskilningur“ eins og einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar hefur til siðs að svara.