« Bergmál af vindmyllubaráttu veraldarvanra blaðamanna við meinta Gyðingaandúð RómarkirkjunnarJón Arason á aftökustaðnum »

08.12.08

  00:35:52, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 1988 orð  
Flokkur: Biblíufræði

"Ég segi yður: ef þessir þegja, munu steinarnir hrópa"

Það er eins og sumir kristnir menn ímyndi sér, að það að lifa kristnu trúarlífi eigi að vera eitthvað settlegt og pent og að alls ekki megi hafa hátt! En þegar farið er í Biblíulykilinn frábæra (Hið ísl. Biblíufélag, Rvík 1984, 1692 bls.) eða orðaleit á biblian.is, þá kemur nú í ljós, að það er hið eðlilegasta mál fyrir þá, sem hafa lifandi trú, að hrópa upp, bæði í áköllum til Guðs um miskunn og hjálp (fjöldi dæma) og í vitnisburði um hans máttarverk (Lúk. 1.42) og til að kalla menn til trúar (dæmi: Jóh. 1.15: "Jóhannes vitnar um hann og hrópar: "Þetta er sá sem ég átti við þegar ég sagði: Sá, sem kemur eftir mig, hefur verið á undan mér, því að hann var fyrri en ég“").

Sjálfur Jesús hrópar, ekki aðeins við andlát sitt (Mt. 27.50), heldur og í boðun sinni þegar hann kallaði: "Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri" (Lúk. 8.8), og hann hrópar á Lazarus að koma út úr gröf sinni (Jóh. 11.43), og þessi orð hrópaði hann: "Sá, sem trúir á mig, hann trúir ekki á mig, heldur á þann sem sendi mig; og sá, sem sér mig, hann sér þann, sem sendi mig. Ég er ljós í heiminn komið, til þess að hver, sem á mig trúir, sé ekki í myrkrinu ..." o.s.frv. (Jóh. 12.44 o.áfr.).*

Hættum að vera settleg og pen og feimin við að hrópa!

----

Þetta var innlegg mitt hjá Þórarni bloggvini mínum, á þarfri vefsíðu hans. Hugleiðum aðeins frekar þessi mál. Það má heita síendurtekið þema í Gamla testamentinu, að hinir trúuðu, sem í nauðum eru staddir, hrópi til Guðs um hjálp. Allir lesendur Davíðssálma kannast við þetta (t.d. í hinum magnaða 107. sálmi). Í Sálmunum kemur orðið 'hrópa' 40 sinnum fyrir, þar af aðeins tvisvar í neikvæðri merkingu (40.16, 70.4) og tvisvar um hróp þeirra, sem enga hjálp fá vegna ranglætis síns (18.42). En samtals kemur orðið 128 sinnum fyrir í Gamla testamentinu og 45 sinnum í því Nýja (þessum stöðum til viðbótar eru margir aðrir, þar sem orðið 'kalla' er notað). Hér eru nokkrir dæmigerðir textar og ýmsir hinna þekktari:

Drottinn sagði: „Hvað hefurðu gert? Blóð Abels, bróður þíns, hrópar til mín af jörðinni. (I. Mós. 4.10)

En Egyptar léku okkur og feður okkar grátt. Þá hrópuðum við til Drottins. Hann heyrði hróp okkar, sendi engil og leiddi okkur út úr Egyptalandi. (IV. Mós. 20.15–16).

Þá hrópuðum við til Drottins, Guðs feðra okkar, og Drottinn heyrði hróp okkar og sá eymd okkar, þraut og ánauð. Og Drottinn leiddi okkur út úr Egyptalandi með sterkri hendi og útréttum armi og með mikilli skelfingu, táknum og stórmerkjum. Hann flutti okkur á þennan stað og gaf okkur þetta land, land sem flýtur í mjólk og hunangi. (V. Mós. 26.7–9)

Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins og Drottinn vakti upp hjálparmann sem hjálpaði Ísraelsmönnum, Otníel Kenasson, yngri bróður Kalebs. Andi Drottins var yfir honum og hann varð dómari í Ísrael. (Dóm. 3.9–10)

En Drottinn sagði við Ísraelsmenn: „Hafa ekki Egyptar, Amorítar, Ammónítar, Filistear, Sídoningar, Amalekítar og Midíanítar kúgað ykkur? Þá hrópuðuð þið til mín og ég frelsaði ykkur úr höndum þeirra. En þið hafið yfirgefið mig og dýrkað aðra guði. Þess vegna vil ég ekki hjálpa ykkur framar. Farið og hrópið til guða þeirra sem þið hafið valið ykkur. Hjálpi þeir ykkur þegar þið eruð í nauðum.“ Þá sögðu Ísraelsmenn við Drottin: „Við höfum syndgað. Gerðu við okkur það sem þér líkar en frelsaðu okkur í dag.“ Síðan köstuðu þeir frá sér útlendu guðunum og dýrkuðu Drottin. (Dóm. 10.11–15)

Þá er ég hrópa til Drottins, svarar hann mér frá fjallinu sínu helga. (Sálm. 3.5)

Guð minn, Guð minn! Hví hefur þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg. „Guð minn!“ hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró. (Sálm. 22.3–4; Jesús er af fræðimönnum talinn hafa farið með hann allan á krossinum.)

Til þín, Drottinn, hrópa ég, þú bjarg mitt, ver eigi hljóður gagnvart mér. Ef þú þegir við mér verð ég sem þeir er til grafar eru gengnir. Heyr þú grátbeiðni mína þegar ég hrópa til þín á hjálp, þegar ég lyfti höndum til hins allra helgasta í musteri þínu. Sviptu mér ekki burt með óguðlegum og níðingum sem tala vinsamlega við náunga sinn, en hafa illt í hyggju ... (Sálm. 28.1–3)

En ég hrópa til Guðs og Drottinn mun hjálpa mér. Morgun, kvöld og miðjan dag kveina ég og styn og hann bænheyrir mig, hann endurleysir sál mína og gefur mér frið frá þeim sem ráðast á mig, en mótstöðumenn mínir eru margir. (Sálm. 55.17–19)

Frá endimörkum jarðar hrópa ég til þín, meðan hjarta mitt örmagnast. (Sálm. 61.3)

Drottinn, Guð hjálpræðis míns, ég hrópa til þín um daga, um nætur er ég frammi fyrir þér, lát bæn mína koma fyrir þig, hneig eyra þitt að kveini mínu. (Sálm. 88.23–3)

Þeir sem fóru um hafið á skipum og ráku verslun á hinum miklu höfum sáu verk Drottins og dásemdarverk hans á djúpinu. Því að hann bauð og þá kom stormviðri sem hóf upp öldur hafsins. Þeir hófust til himins, hnigu í djúpið, og þeim féllst hugur í háskanum. Þeir skjögruðu og reikuðu eins og drukkinn maður og kunnátta þeirra kom að engu haldi. Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni og hann bjargaði þeim úr þrengingum þeirra. Hann breytti storminum í blíðan blæ og öldur hafsins lægði. Þeir glöddust þegar þær kyrrðust og hann leiddi þá til þeirrar hafnar sem þeir þráðu. Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn, vegsama hann í söfnuði þjóðarinnar og lofa hann í ráði öldunganna. (Sálm. 107.23–32)

Þegar ég hrópaði bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugrekki og jókst mér kraft. (Sálm. 138.3)

Hrópa hátt til Drottins, þú mærin, dóttir Síonar ... (Harmljóðin 2.18)

Þú nálgaðist mig þegar ég hrópaði til þín, sagðir: „Óttast ekki!“ Þú varðir, Drottinn, málstað minn, leystir líf mitt. (Hamlj. 3.57n)

Í neyð minni kallaði ég til Drottins og hann svaraði mér. Úr djúpi heljar hrópaði ég á hjálp, og þú heyrðir hróp mitt. (Jónas 2.3)

Þannig átti það að rætast sem Jesaja spámaður sagði fyrir um: Sjá þjón minn sem ég hef útvalið, minn elskaða sem ég hef velþóknun á. Ég mun láta anda minn koma yfir hann og hann mun boða þjóðunum rétt. Hvorki mun hann þrátta né hrópa og lætur ekki heyra rödd sína á strætum. Brákaðan reyr brýtur hann ekki og dapraðan hörkveik slekkur hann ekki, unz hann hefur leitt réttinn til sigurs. Á nafn hans munu þjóðirnar vona. (Mt. 12.17–21; þessi texti virðist í andstöðu við það, sem fram kom í máli mínu, jvj, nálægt upphafi þessarar greinar; en ég reyni að samræma þetta í neðanmálsgrein* hér neðar.)

Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“ (Mt. 21.9)

Æðstu prestarnir og fræðimennirnir sáu dásemdarverkin sem hann gerði og heyrðu börnin hrópa í helgidóminum: „Hósanna syni Davíðs!“ Þeir urðu gramir við og sögðu við Jesúm: „Heyrir þú hvað þau segja?“ Jesús svaraði þeim: „Já, hafið þið aldrei lesið þetta: Af munni barna og brjóstmylkinga býrð þú þér lof?“ (Mt. 21.15n)

Og um nón kallaði Jesús hárri röddu: „Elí, Elí, lama sabaktaní!“ Það þýðir: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ ... En Jesús hrópaði aftur hárri röddu og gaf upp andann. (Mt. 27.46 og 50)

Þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar og Elísabet fylltist heilögum anda og hrópaði hárri röddu: „Blessuð sért þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns. Hvaðan kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín? ... (Lúk. 1.41–43)

Nokkrir farísear í mannfjöldanum sögðu við hann: „Meistari, hasta þú á lærisveina þína.“ Hann svaraði: „Ég segi ykkur, ef þessir þegja munu steinarnir hrópa.“ (Lúk. 19.39–40)

Jesús sagði við hann: „Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir.“ Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“ (Mk. 9.23n)

Nú vissi Páll að sumir þeirra voru saddúkear en aðrir farísear og hann hrópaði upp í ráðinu: „Bræður, ég er farísei, af faríseum kominn. Ég er lögsóttur fyrir vonina um upprisu dauðra.“ (Post. 23.6)

En Jesaja hrópar yfir Ísrael: „Þótt fjöldi Ísraels barna væri sem sandur sjávarins, munu leifar einar frelsaðar verða. (Róm. 9.27)

En þar eð þér eruð börn, þá hefur Guð sent anda sonar síns í hjörtu vor, sem hrópar: Abba, faðir! Þú ert þá ekki framar þræll, heldur sonur. En ef þú ert sonur, þá ert þú líka erfingi að ráði Guðs. (Galatabr. 4.6n; hér sést, að sjálfan andann og kraftinn til að ákalla föðurelsku Guðs fá menn frá honum sjálfum.)

Hlustið á, þið auðmenn, grátið og kveinið yfir þeim bágindum sem yfir ykkur munu koma. Auður ykkar er orðinn fúinn og klæði ykkar eru orðin mölétin, gull ykkar og silfur er orðið ryðbrunnið og ryðið á því mun verða ykkur til vitnis og éta hold ykkar eins og eldur. Þið hafið safnað fjársjóðum á síðustu dögum. Launin, sem þið hafið haft af verkamönnunum sem slógu lönd ykkar, hrópa, og köll kornskurðarmannanna eru komin til eyrna Drottins hersveitanna ... (Jak. 5.1–5)

Eftir þetta sá ég annan engil stíga ofan af himni, og hafði hann mikið vald, og jörðin ljómaði af dýrð hans. Og hann hrópaði með sterkri röddu: „Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla ..." (Opinb. 18.1–2)
_________
* Þó eru þetta aðeins tveir afmarkaðir textar, þar sem Jesús er sagður hrópa til áheyrenda sinna. Af textanum í Mt. 12.17–21 ("Hvorki mun hann þrátta né hrópa og lætur ekki heyra rödd sína á strætum," sjá ofar, í réttri ritningaröð) má hins vegar marka, að hann hafi ekki farið með hrópum og háreysti um borgarstræti, heldur aðeins hrópað til þeirra, sem til hans höfðu safnazt á afviknum stöðum úti á landsbyggðinni, rétt eins og Jóhannes skírari.

No feedback yet

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution