« Upprisubrúin Svona ljótur er ég þó ekki! »

03.04.08

  05:59:34, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 454 orð  
Flokkur: Vegurinn, sannleikurinn og lífið

Ef maðurinn gerir ekki ráð fyrir Guði, verður hann sjálfur að spurningu sem ekkert svar finnst við.

Kafli úr bókinni VEGURINN, SANNLEIKURINN OG LÍFIÐ sem er trúfræðslurit um kaþólska trú (1981).

(1. k.)

Heimspekin lýsir manninum þannig að hann sé "opinn vera", sem sé að hann fari sífellt fram úr sjálfum sér yfir í nýja framtíð. Tómas Akvínas, guðfræðingur sem upp var á miðöldum, sagði að maðurinn gæti færst hið óendanlega í fang. Útheimtir tilvera slíkrar viðleitni og þrár ekki beinlínis aðra vídd, sem nær út fyrir jarðneska tilveru okkar, "hinn helminginn", sem er lífi okkar svo nauðsynlegur að án hans yrði það einskisvert? Án hans mætti með réttu segja að lífið væri tilgangslaust. Það sem þá vantar er hið takmarkalaus, eða nánar tiltekið hinn óendanlegi. …………

……… Sá sem ekki sér annað en tilgangsleysi, hvert sem hann lítur, hlýtur loks að gefast upp, lenda í vonleysi. En sá sem fellst á röksemdir trúarinnar, ……… viðurkennir að margt fari á skakk í lífinu og hann veit, að þannig hlýtur það að vera. En hann veit líka um þann mátt sem knýr mannlega viðleitni, um mikilleikann og takmarkaleysið sem er manninum dulin hvatning til þess að berjast áfram. Að vísu leysir þessi skilningur ekki allan vanda. Þrátt fyrir hann er margt myrkri hulið og mótsagnir dyljast ekki. En við föllumst á að tilvera okkar sé dýpri rökum bundin. Við vitum að við lifum ekki til einskis.

Andstæðurnar milli endanleikans og óendanleikans, milli hins tímanlega og hins eilífa, setja sinn stimpil á líf okkar. Það vit sem að baki þeirra býr, skipar okkur að standast þessa spennu, að þola hana. Það er höfuðatriði fyrir okkur að við leitum innan takmarka okkar að hinu takmarkalausa, í okkar heimi að hinum æðri heimi, að hinu guðlega í manninum - og finnum það. Þannig finnur maðurinn í ysi og þysi heimsins fastan grundvöll til að standa á, stuðning í öllu tilgangsleysinu, nýja von í örvæntingunni. Séð frá þessu sjónarmiði verður ekkert einskisvert. Þá fyrst er hægt að taka manninn alvarlega og hann verður ekki eitthvað, sem hægt er að skilja frá heiminum, heldur tilheyrir hann honum og er honum að nýju skyldum bundinn. Og um leið skilst viðleitni mannsins til þess að ná út fyrir sjálfan sig. Trúin gerir ráð fyrir þeirri fullnægingu vitsmunanna sem nær út fyrir allt hið mannlega, endanlegri fullnægingu í samfélagi við Guð. Ef maðurinn gerir ekki ráð fyrir Guði, verður hann sjálfur að spurningu sem ekkert svar finnst við.

No feedback yet