« Eldur sannleikans og KjalnesingagoðinnNicholas Sarkozy forseti Frakklands! »

12.05.07

  06:51:14, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1048 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

„Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður.“

Í dag er runninn upp kjördagur. Nú gefst okkur öllum gott tækifæri til að bera krossi Krists vitni: Öllum þeim sem á annað borð telja sig kristna. Mín eigin afstaða liggur ljós fyrir, afstaða sem ég hef endurtekið hvað eftir annað hér á kirkju.net og geri enn og aftur: Sem kristinn maður get ég ekki veitt þeim stjórnmálaflokkum brautargengi sem fótumtroða kristna mannhelgi í reynd, þrátt fyrir allan fagurgala um annað. Það eru verkin sem tala á kjördag og bera sjálfum sér vitni.

Í hugleiðingunni sem fylgir með guðspjalli dagsins er gripið til orða þeirra sem Jóhannes Páll II páfi viðhafði hinn 7. maí árið 2000 á Samkirkjulegri minningarathöfn um votta trúarinnar á tuttugustu öldinni.

Þau hljóða svo:

„Sá sem elskar líf sitt, glatar því, en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs“ (Jh 12. 25). Þessi orð fela í sér sannleika sem heimur nútímans hæðist að og hafnar þar sem elskan er gerð að æðsta gildi lífsins. En vottar trúarinnar sem mæla einnig til okkar á þessu kvöldi með fordæmi sínu báru ekki sinn eigin hag fyrir brjósti, sína eigin velferð eða mátu líf sitt meira en trúfestuna við Fagnaðarerindið. Þrátt fyrir allan sinn vanmátt börðust þeir af hetjulund gegn illskunni. Í vanmætti þeirra ljómaði máttur trúar og náðar Drottins.

Sú arfleifð djarfmennsku sem þessir hugrökku vottar hafa falið okkur á hendur er arfur sem er sameign allra kirkjudeilda og kirkjulegra samfélaga. Samkirkjustefna píslarvottanna og votta trúarinnar felur í sér meiri sannfæringarkraft en allt annað og fyrir kristna menn á 21. öldinni er þetta leiðin til einingar. Þetta er arfleifð krossins sem lifuð er í ljósi Páskanna: Arfleifð sem auðgar og styrkir kristna menn þegar þeir ganga inn í nýtt þúsaldarskeið . . .

Megi minningin um þessa bræður okkar og systur standa okkur ljóslifandi fyrir sjónum á þeirri öld og þúsaldarskeiði sem er nýhafið. Já, megi hún eflast enn frekar! Megi henni verða miðlað frá einni kynslóðinni til annarrar þannig að hún megi verða að djúpstæðri kristinni endurnýjun! Varðveitum hana sem óþrjótandi fjársjóð fyrir kristindóminn á nýrri þúsöld og megi hún verða að því súrdeigi sem leiðir alla lærisveina Krists til fullrar sameiginlegrar játningar! . . . Ég bið Drottin um að ský vitnisburðarins sem umvefur okkur verði til að hjálpa okkur öllum sem trúum til að tjá elsku okkar á Kristi af ekki minna hugrekki, honum sem er lifandi í kirkjunni eins og hann var í gær og í dag og verður á morgunn og um aldir alda!“

Við skulum leggja rækt við þessa heilögu arfleifð sem er sameign allra kirkjudeilda, sameign kirkju Krists á jörðinni. Í dag úthella þúsundir kristinna píslarvotta blóði sínu í Kína, já, einmitt núna á þessari stundu þegar þessi orð eru skrifuð bera þeir krossi Krists vitni. Þetta gerðu milljónir kristinna manna undir ánauðaroki Stalíns í Sovétríkjunum sem tilheyrðu allflestir Rétttrúnaðarkirkjunni. Þetta gerður tugþúsundir píslarvotta á tímum Þriðja ríkis nasista í Þýskalandi. Hér skulu einungis nefnd örfá nöfn af fjölmörgum: Titus Brandsma, Edith Stein og Dietrich Boenhoffer. Sá síðastnefndi var lúterskur guðfræðingur sem tekinn var af lífi í aprílmánuði 1945 vegna þess að hann vildi ekki skrifa undir málamiðlun við ógnarstjórnina.

Þegar kristin mannhelgi á hlut að máli er ekki um neina málamiðlun að ræða: Ekkert annað hvort eða. Við skulum ekki saurga minningu þessara heilögu kristninnar með því að hæðast að krossi Krists á kjördag með því að setja kross okkar á kjörseðlana við þá stjórnmálaflokka sem boða dauðamenningu á borði, ef ekki í orði.

„Heródes mun leita barnsins og fyrirfara því,“ (Mt 2. 13). Í árslok ár hvert minnist kirkjan saklausu sveinbarnanna í Betlehem sem Heródes lét myrða köldu blóði á Barnadaginn og fyrir viku var beðið fyrir ófæddum börnum. Í reynd ber kirkjan umhyggju fyrir þessum börnum í sífellu og það ætti einnig sérhver kristinn einstaklingur að gera, að gráta með kveinstöfum eins og Rakel: „Rödd heyrðist í Rama, grátur og kveinstafir miklir, Rakel grætur börn sín og vill ekki huggast láta, því að þau eru ekki framar lífs“ (Mt 2. 18). Þannig gráta margir á Íslandi vegna þeirra barna sem eru ekki framar lífs vegna aðgerða misviturra landsstjórnenda.

Þau 24.000 börn sem fallið hafa í valinn fyrir ljá dauðamenningarinnar á Íslandi eru eins og John Henry Newman kardínáli (1801-1890) sagði „píslarvotta sem gátu ekki játað nafns Sonar þíns, en urðu dýrlegir sökum nafns hans.“ Og hann bætti við: „Vissulega var þessi blóðfórn (saklausu sveinbarnanna) í eðli sínu sakramenti . . . Og til forna voru slík villimannsleg morð eða pílsarvætti talinn jafngildi eins konar skírnar – blóðskírnar – sem fól í sér mátt sakramentis sem kom í stað laugar endurfæðingarinnar (skírnarinnar). Við skulum því líta á þessi sveinbörn (og jafnframt íslensku börnin saklausu) sem píslarvotta og sjá hvaða lærdóm við getum dregið af sakleysi þeirra.“ Þetta á ekki síður við um stjórnmálamenn en aðra kristna menn í landinu okkar. Þeir munu hljóta sinn dóm eins og Heródes harðstjóri og því skulum við minnast þeirra í bænum okkar svo að Drottinn auðsýni þeim miskunn. Ill eru þeirra verk, vei, skelfileg: „Þeir þyrma ekki lífsafkvæmum, og líta ekki miskunnaraugum til ungbarna“ (Jes 13. 18).

Hvað áhrærir blessuðu börnin saklausu á Íslandi, þá er það trúarskylda „samkirkjustefna píslarvottanna“ að heiðra minningu þeirra á Barnadaginn í lok árs hvers. Þau tilheyra sannarlega „píslarvottum trúarinnar á tuttugustu og tuttugustu og fyrstu öldinni.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér þennan magnaða pistil, Jón Rafn, hann var vel við hæfi vegna þessa dags og þessara tíma. Þú tengir þetta réttilega saman og ert ekki i neinum feluleik með sannleikann, eins þægilega og það kæmi sér nú fyrir suma stjórnmálamenn. Gott er líka það, sem þú segir með Newman kardínála um “blóðskírn” ofsóttra sakleysingja – ég er sjálfur kunnugur þessari túlkun eða áherzlu í kaþólskum trúararfi og afar hlynntur henni.

Kirkja okkar gerir rétt í því að boða í vaxandi mæli umhyggju fyrir hinum ófæddu, bæði með gagnrýnandi hætti eins og andófi gegn fósturdeyðingum og með jákvæðum hætti eins og bænum fyrir þeim ófæddu og foreldrum þeirra.

Já, Þjóðkirkjunni væri nær að blessa ófæddu börnin, lífs og liðin, heldur en óleyfileg kynlífssambönd, eins og nú er helzt þrýst á um af öflum utan kirkjunna––jafnvel frá ýmsum ráðvilltum prestum!

[Svar Jóns Rafns við þessu innleggi mínu hefur vegna einhverrar tæknivillu lent hér fyrir ofan! –JVJ.]

12.05.07 @ 16:05
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þakka þér fyrir nafni. Ég leit líka inn á síðuna hans Snorra í Betel snemma í morgunn þar sem fóru fram líflegar umræður um kosningarnar. Þar kom fram að auður atkvæðaseðill er sama og meðlag til Sjálfstæðisflokksins. Þar með setti ég kross minn við F til að þakka Magnúsi fyrir að fella stofnfrumufrumvarpið. Heyrt hef ég utan að mér að fleiri kristnir ætli að greiða þeim atkvæði sitt á þessum degi.

Vafalaust er það rétt að núverandi stjórnarflokkar hafa mætt þörfum afar fámenns minnihlutahóps afar vel, já afar vel: Ég á við samkynhneigðra. Þeim hefði verið nær að huga betur að þörfum hinna öldruðu sem þeir hafa fótumtroðið með ósanngjarnri skattastefnu sinni, eins og Indriði H. Þorláksson hefur réttilega bent á í Morgunblaðsgreinum sínum. Allt er þetta ein hörmungarsaga ósannsögli og falsana staðreynda. Það kemur því ekki á óvart að þeir telji einnig við hæfi að troða réttindi ófæddra barna í svaðið, varnarlausra sakleysingja sem geta ekki borið fram ásakanir á hendur þeim nema með gráti sínum og englanna frammi fyrir dómstól hins Hæsta.

12.05.07 @ 17:08